19.04.1955
Efri deild: 71. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2006)

96. mál, sandgræðsla og hefting sandfoks

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var flutt nokkuð snemma á þessu þingi í hv. Nd. og kom til deildarinnar hér fyrir alllöngu. Frv. sjálft gerir ráð fyrir þeirri breytingu á sandgræðslulögunum, að hægt sé að taka og afhenda sandgræðslunni til ræktunar 1and, þó að það sé ekki uppblástursland og þó að það stafi ekki hætta af því á eyðingu annars lands.

Sandgræðslan er, eins og menn vita, stofnuð til þess fyrst og fremst að reyna að hefta sandfok og eyðingu lands þar með og græða upp það, sem er að fara í auðn fyrir fok. Hún hefur alltaf átt við þröngan kost að búa fjárhagslega, enda þótt mjög hafi verið rýmkað um það hin seinni ár, og þess vegna liggja enn óhreyfð sandsvæði, sem eru að blása upp víðs vegar á landinu. Sum þeirra eru meira að segja svo stórfelld, að þau taka marga hektara lands á hverju ári, eins og t. d. á milli Hólsfjalla og Öxarfjarðar. Þess vegna sáum við ekki í nefndinni ástæðu til þess að láta sandgræðsluna fara að verja af þessu fé, sem hún nú hefur, fjármunum til þess að fara að græða upp sand og mela, sem engum stafar hætta af. Meðan hún hefur ekki þau fjárráð, að hún geti til fullnustu sinnt þeim verkefnum, sem henni er ætlað og við koma foksöndunum, þá vildum við ekki láta með lagabreytingu fara að gefa í skyn, að við ætluðum að fara að taka af því fé, sem hún hefði, til þess að græða upp sanda, sem að vísu er þörf á að græða upp, en ekki er á sama hátt þörf á að græða upp eins og sandfokssvæðin.

Við viðurkennum það allir í nefndinni, og okkur er það alveg ljóst, að á næstu árum verðum við að leggja áherzlu á það, þegar búpeningi fjölgar í landinu, sérstaklega sauðfé, að fá grætt upp mikið af svona löndum víðs vegar um landið. En eins og nú hagar til, eru þessi gróðurlausu lönd, sandar og lítið grýttir melar, miklu léttari í ræktun en votlendi, sem verið er að rækta víða um landið, og þess vegna er engin ástæða til þess frá því sjónarmiði séð að gefa þeim mönnum, ,sem þau lönd eiga, kost á því, að sandgræðslan rækti þau upp, þeir þurfi ekki að borga nema 1/3 af kostnaði við það og geti svo aftur tekið þau til sín sem sína eign og í sína notkun eftir 1–2 ár. Líka af þeirri ástæðu sáum við ekki neina þörf á því að samþ. frv. Ef sú skoðun verður hér ríkjandi í þinginu, að það eigi að leggja meiri áherzlu á að græða upp land víðs vegar um landið, þar sem er gróðurlaust, fyrir beitirækt, sem getur komið til með að þurfa, þegar búfénu fjölgar frá því, sem nú er, þá þarf um leið að koma ný fjárveiting frá Alþ., en meðan hún liggur ekki fyrir og ekki neinn skilningur sjáanlegur í þá átt, að þess þyrfti, þá höfum við lagt til, að frv. væri afgr. með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á þskj. 597 og — með leyfi forseta — hljóðar þannig:

„Þar sem sýnilegt er, að sandgræðslan getur sakir fjárskorts ekki annazt til fulls þau verkefni, sem hún þegar hefur, er ljóst að samþykkt þessa frv. mundi ekki ná tilgangi sínum um ræktun lands, og tekur því deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ef það sýnir sig svo á væntanlegu þingi í haust. að Alþ. hafi þau fjárráð, að hægt verði að láta sandgræðsluna hafa einhverja sérstaka fjárveitingu, 300 þús. til 400 þús. kr. eða eitthvað, til þess að fara að eiga við þetta nýja verkefni, og ef Alþ. þá finnur, að það er rétt, að ríkisvaldið kosti það að 2/3 og eigandi bara að 1/3, sem ekki er gert við neina aðra jarðabót í landinu og ekki nándar nærri því eins, þá er náttúrlega sjálfsagt að taka málið upp aftur og þá ef til vill samþykkja það. En ég efa, að Alþ, finni ástæðu til þess.