11.11.1954
Efri deild: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það var nú ekki mikið, sem ég vildi segja. Ég tel þetta frv., sem nú hefur verið rætt, ekki vera veigamikið eða mikla þörf á því. Ef ráðherra hefur áhuga á málinu, þá getur hann hæglega fengið fé til þess og hrundið því áfram án þessa frv. eftir gildandi lögum. En það, sem ég vildi benda á, var sérstaklega tvennt: Annars vegar það, að ég tel, að þegar ræðir um svona vistheimill, þá sé þungamiðja í því að geta útvegað þeim stúlkum, sem á því dvelja, nægilegt starf. Frsm. málsins og flytjandi hér taldi, að það væri ekki til á Hallormsstað. Ja, hvar er það þá til, þar sem 60, 70 og upp í 80 menn vinna allt vorið, sumarið og haustið að því að gróðursetja plöntur og planta þeim og senda þær út, alveg tilvalin stúlkna- og krakkavinna? Vilji maður á hinn bóginn koma þeim inn í starf, sem hafi á þær verulega bætandi áhrif, þá er ekkert betra en barnauppeldi, og það á að vera í kaupstað eða í jaðri á kaupstað, t. d. í húsinu, sem ríkið á og stendur tómt á Akureyri, og taka þang.að smábörn, ala upp móðurástina hjá stúlkunum með barnauppeldinu og hafa þær þar, þessar vandræðastúlkur. Með því fá þær allra fyrst og allra bezt leiðréttingu á hugsun sinni með starfi. Þá þýðir ekki að senda þær langt upp í sveit, þar sem engir krakkar eru, til þess að hafa slíkt, heldur þurfa þær að vera í jaðri á kaupstað, einmitt eins og húsið, sem stendur tómt á Akureyri og er verið að vandræðast yfir bæði í fyrra og núna, húsmæðraskólinn þar. Þessu vildi ég beina til n. Það er höfuðskilyrði, að þessar stúlkur hafi nóg að starfa. Það getur vel verið, að það megi hafa þær í gróðurhúsum, — ég skal ekki segja um það, en þá þarf mikið stofnfé, því að það kostar ekki lítið að koma þeim upp. En það er tilvalin vinna fyrir stúlkur á Hallormsstað, og það er tilvalin vinna í sambandi við smábarnauppeldisstofnun á Akureyri, og á báðum stöðunum eru hús hálftóm.