14.12.1954
Efri deild: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2294)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja, að ég varð dálítið undrandi yfir þeirri till., sem kom fram hér frá hv. þm. S-Þ. Það var rætt um þetta mál hér við 2. umr. og þá ljóslega bent á að það er einmitt vegna þess, að í lögunum um stofnun heimilis fyrir vandræðabörn stendur þetta ákvæði, að þau komi ekki til framkvæmda, fyrr en veitt er fé til þess í fjárlögum, að þetta frv., sem ég hef borið fram, er fram borið. Og það kom alveg skýrt fram bæði í minni ræðu og hjá hæstv. menntmrh., að þetta er til þess, að framkvæmdir séu hafnar nú þegar þrátt fyrir þau lagafyrirmæli, sem fyrir eru frá 1947. Þau lagafyrirmæli hafa nú staðið í sjö ár, án þess að nokkuð hafi verið gert í þessu máli. Og það er sýnilegt, að ef þessi till. verður samþ., þá er málið í nákvæmlega sama horfi og það hefur verið áður allt þetta tímabil. Það er raunverulega miklu eðlilegra að fella frv. en að samþykkja þessa till., sem hér er borin fram, því að það er sýnilegt, að ef hún er samþykkt, þá hefur alveg verið ónauðsynlegt að bera málið fram yfirleitt.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að mér bæri skylda til þess sem gömlum formanni fjvn. að hugsa nokkuð um fjárhagshlið þessa máls, og það hef ég gert. Ég bar fram alveg ákveðnar till. um, að það væri hægt að koma þessari stofnun á án þess að íþyngja ríkissjóði um byggingarkostnað, en það vildi ekki hv. menntmn. fallast á. Og hv. Alþ. hefur haft þar sömu skoðun og hv. menntmn., að leyfa ekki að taka skóla, sem þegar er til, til þess að starfrækja fyrir þetta heimili. Með því móti mátti spara þau útgjöld, sem þarf til þess að byggja slíkt hæli. Ég benti einnig á, að það hefði mátt í sambandi við þetta starfrækja aðra stofnun, sem átti að vera til hagsbóta og hefði orðið til hagsbóta bæði fyrir þjóðfélagið og ekki hvað sízt fyrir þær tvær sýslur, sem standa að þeim skóla, sem hér um ræðir, skólanum í Hrútafirði. Það var ekki heldur fallizt á þá till. mína. Hins vegar hefur hv. menntmn. fallizt á nauðsynina á, að þetta mál komist þegar í framkvæmd, og er einróma sammála um, að málið skuli ná fram að ganga hér frá þessari hv. d. samkv. frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 259. Ég vil því vænta þess, að hv. menntmn. öll sameiginlega greiði atkv. gegn þessari tillögu.

Ég ætla ekki að fara að lýsa því hér, hve mikil þörf er á þessum framkvæmdum. En ef hv. flm. tillögunnar væri jafnkunnugur því máli og jafnsannfærður um það og ég er, þá hefði hann áreiðanlega ekki borið fram þessa till. hér. Þessi till. er ekkert annað en banaráð við málið sjálft. Hann hefur ekki reynt að skilja, að hér væri um hugsjónamál að ræða, og hann hefur ekki heldur reynt að skilja það, að hér er um hreint fjárhagsmál fyrir þjóðina að ræða, því að það er sannarlega ekki sama, hvort um 90–100 stúlkur, sem nú eru á glapstigum, haldi áfram á þeirri braut og verði fyrr eða síðar byrði á þjóðfélaginu ásamt afkomendum þeirra, eða þeim yrði bjargað eins og þarf að gera nú þegar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar, en vil aðeins endurtaka það og benda á, að samþykkt á þessari till. er sama sem að fella frv. Ég vil því vænta þess, að till. verði felld.