14.12.1954
Efri deild: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2297)

14. mál, vistheimili fyrir stúlkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að benda hv. flm. brtt. og hv. Alþ. og hv. d. á, að þau rök, sem hv. flm. ber fram hér, eru fullkomlega röng. Þetta er í fullkomnu samræmi við afgreiðslu fjárl., þó að frv. sé samþ. eins og það er. Í 24. gr. fjárl. er skýrt tekið fram, að það er heimild til þess að ætla fé til þess að greiða allan þann kostnað, sem fylgir samþykktum laga og þál. á yfirstandandi þingi. En hvers vegna hefur þetta mál orðið út undan frekar en svo margt annað? Það er af því, að hv. þm. lítur svo á, að þetta mál eigi ekki að ná fram að ganga yfirleitt; það sé ekki þörf fyrir málið, það sé ekki fjárhagsmál fyrir þjóðina, það sé ekkert hugsjónamál, því að hann veit það sem enn starfandi í fjvn., að í 24. gr. er ákvæði um, að á hana skuli settur allur sá kostnaður, sem fylgir samþykktum Alþ. á yfirstandandi ári. Þetta hefur jafnan ekki verið nein smáupphæð, oft og tíðum skipt milljónum. Þetta veit hv. þm., svo að það er í fullu samræmi við ákvæði fjárl. að afgreiða málið.

Hitt hefur bókstaflega enga þýðingu, að samþykkja frv. með þessari breytingu, því að þá er það komið í nákvæmlega sama horf sem sjálf lögin frá 1947 eru, — engin önnur breyting en það, að hér er gefin heimild til þess að taka einhverjar eignir til þessarar starfsemi, án þess þó að látið sé nokkurt fé til þess. Ég vil hins vegar benda hv. þm. á, að honum hefði verið miklu nær að taka upp baráttu í fjvn. til þess að setja inn ákveðna upphæð til þess, að hægt væri að gera þetta, svo að Alþ. vissi þá, hvað væri verið að fara í þessu máli. Það hefur hann ekki gert, af því að hann hefur verið andvígur þessu máli frá upphafi. Það er höfuðatriðið, og þá væri það miklu hreinlegra fyrir hann að segja eins og er: Ég er á móti því, að það sé byggt stúlknaheimili í landinu — því að það er það, sem hann er að vinna að. Það hefði verið miklu drengilegra og miklu manndómslegra fyrir hann að koma þannig fram í málinu. Ég treysti því hins vegar, að það verði ekki margir hér í þessari hv. d., sem eru á þeirri sömu skoðun og hann. Það er alveg sýnilegt, að ef till. er samþ. hér, eins og hún liggur fyrir, þá hefur þetta frv. enga þýðingu. Þá gilda lögin eins og þau eru: dauður bókstafur, eins og hefur verið í 7 ár, og þá verður enn horft um skeið á þessi vandræði án þess að hreyfa hönd eða fót. Ég vænti, að Alþ. gangi ekki svo frá þessu máli á þessu þingi.