13.10.1954
Neðri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. forsrh. fyrir það, hversu hreinskilinn hann var í svari við svolítilli fyrirspurn frá mér varðandi störf n. í togaramálinu. Hann viðurkenndi fullkomlega, að hann hefði sett bremsu á nefndina, hann hefði verið eins og góður bílstjóri, þegar hann sér einhverja hættu fram undan, þá stígur hann fast á og bremsar.

Það væri náttúrlega fróðlegt að vita það, hver ástæða var til þess, að hæstv. forsrh. taldi ástæðu til að stíga svona fast á bremsuna. Skyldi það geta átt sér stað, að honum hafi þótt óþægilegt að fá einhverjar sameiginlegar tillögur frá nefndinni? Hann lét í það skína, að það hefði ekki komið sér sérstaklega vel að fá tillögur, sem hann taldi sig ekki geta fallizt á. Í sambandi við þessa lofsverðu hreinskilni hæstv. ráðh. vil ég leyfa mér að spyrja að því, til hvers hann var þá eiginlega að leggja hér fram þáltill. í þinglok í fyrra um skipun nefndar til þess að rannsaka þessi mál. Hæstv. ráðh. bar fram nú í seinni ræðu sinni þakkir til n. fyrir unnin störf. Ég skal á engan hátt draga í efa, að hún hafi unnið vel að þessum málum, en einhvern veginn fannst mér, að þakkirnar væru alveg sérstaklega fyrir það, að hún hefði látið bremsa sig svona rækilega af.

Ég vil að lokum aðeins fara fram á það, og tel það fullkomið réttlætismál, að Alþ. fái skýrslu um störf togaranefndarinnar, þeirrar nefndar, sem það kaus til þess að rannsaka þetta mál. Tel ég eðlilegt, að lögð verði fram á Alþ. í einhverju formi skýrsla um störf n., og þá einkum hvaða tillögur hefðu komið fram í n. og að hvaða leyti hefði orðið samkomulag um þær tillögur. Þetta tel ég að Alþ. eigi heimtingu á að fá vitneskju um, þar sem það hlýtur að hafa verið ætlun þingsins með skipun n. að ræða og athuga þær till., sem hún hefði fram að færa, eða byggja á þeim athugunum, sem hún gerði. Annars verða vafalaust oft umræður um þetta mál hér á Alþ. í vetur, og verður þá tilefni til þess að ræða það frekar almennt.