15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Fyrir rúmlega ári urðu hér á Alþ. allmiklar umr. um rekstrarafkomu togaraflotans. Það kom hér glöggt fram þá, að margir alþm. gerðu sér ljóst, að þannig væri komið með rekstur togaranna, að það yrði ekki haldið þar áfram við óbreyttar aðstæður, og allt benti orðið til þess, að samdráttur yrði í rekstri skipanna vegna mikils taprekstrar og jafnvel leiddi þá bráðlega til beinnar stöðvunar.

Ríkisstj. var bent á þetta af mönnum hér úr mörgum flokkum. En þrátt fyrir aðvaranir frá hálfu togaraeigenda og margra alþm. fór það nú svo, að ríkisstj. ýtti málinu fram af sér og aðhafðist ekkert, en togararnir héldu að vísu flestir áfram rekstri, en héldu hins vegar áfram að tapa. Í þinglokin á síðasta þingi, eða í byrjuðum aprílmánuði, var þessum málum þó komið svo langt, að ríkisstj. sá, að það var ekki hægt að ætla sér að skjóta sér með öllu undan þessum vanda, og þá flutti hún hér till. á Alþ. um það, að skipuð yrði mþn. til þess að rannsaka rekstur og afkomu togaraútgerðarinnar.

Þegar þetta var gert, þá var líka svo komið, að nokkur skip höfðu beinlínis hætt rekstri og lágu hér óstarfrækt í Reykjavíkurhöfn. Mikið hafði þá borið á því, að skipverjar gengju í land af skipunum, vegna þess að það var alveg vitað mál, að það þurfti að bæta launakjör togaramanna, en hins vegar hafði dregizt að verða við óskum þeirra, vegna þess að allir vissu, að afkoma togaraútgerðarinnar var ekki þannig, að hún gæti beinlínis risið undir verulega bættum kjörum.

Mþn. í togaramálum starfaði svo s.l. sumar og skilaði allýtarlegri grg. um þetta mál til ríkisstj. Till. sendi hún ekki, eins og hér hefur verið upplýst áður í umr. á Alþ. Till. sendi n. ekki beinlínis frá sér, og hefur ríkisstj. sjálf skýrt frá því, hvernig það vildi til, þótt hins vegar jafnframt hafi verið upplýst og nú skriflega frá nefndarmönnum, að n. hafði þó komið sér saman um allmargar till til úrbóta í málefnum togaranna, en var hins vegar ekki fullkomlega sammála um allar þær till., sem þar höfðu legið fyrir.

Niðurstöður togaranefndarinnar voru í sem stytztu máli þessar:

Hún bendir á, að samkvæmt rekstrarreikningum yfir 30 togara fyrir árið 1953 var meðalrekstrartap það ár á togara rúmlega 400 þús. kr. án allra afskrifta. N. bendir einnig á, að eftir því, sem hún bezt gat rannsakað þessi mál, þá bendir allt til þess, að rekstrartapið hafi þó árið 1953 raunverulega verið heldur meira en 400 þús., eins og reikningar skipanna bentu þó til, og stafar það fyrst og fremst af því, að þó nokkrar tekjur koma inn á reikningum margra skipanna árið 1953, tekjur, sem stafa frá rekstri ársins 1952, en árið 1952 varð alveg óvenjuhátt verð á saltfiski, og allmiklar uppbætur á þeirri vöru komu svo til reiknings aftur árið 1953, sem raunverulega gerðu reikninga skipanna það ár betri en rekstrarafkoma ársins sjálf sagði til um.

N. lauk grg. sinni til ríkisstj. með orðum á þá leið, að það yrði ekki komizt hjá því að bæta hag togaranna sem næmi a.m.k. 400 þús. kr., sem væri sannanlegt tap á meðalskipi, og auk þess um 250 þús. kr. vegna nokkurra afskrifta, þó minni en almennt eru reiknaðar af þessum skipum. Einnig taldi hún, að alveg óhjákvæmilegt væri að reikna með því, að launahækkanir til skipverja yrðu á hvern togara a.m.k. 300 þús. kr. eða að samtals yrði að hækka tekjur hvers togara um 950 þús. kr.

Undir þessa niðurstöðu skrifa allir nm. úr fjórum stjórnmálaflokkum. Það mátti því vera fyllilega ljóst eftir þessa athugun, sem þarna hafði farið fram, að það var engin uppgerð, sem fram hafði komið hjá togaraeigendum, að svo var nú komið, að það var orðinn verulegur halli á rekstri skipanna og að þessu gat ekki haldið áfram á annan veg en þann, að skipin smám saman stöðvuðust öll. En auk þessa, sem fram kom í niðurstöðu n., var svo það, sem nú liggur fyrir, að hún hafði orðið sammála um 8 till., sem hún taldi að allar horfðu til þess að lagfæra nokkuð rekstur togaraútgerðarinnar. Nú hefur hér verið gerð nokkur grein fyrir þessum till., og ég skal ekki fara að telja þær upp sérstaklega. En ég fullyrði það, að ef þessar till., sem n. bendir á, næðu fram að ganga, og áreiðanlega er auðvelt að láta þær ná fram að ganga, ef ríkisstj. vill gefa þeim lagagildi eða ýta þeim fram á annan hátt, þá mundi það skipta allverulegu máli um rekstrarafkomu skipanna. En ríkisstj. hefur ekki enn þá treyst sér til þess að koma þessum till. í framkvæmd, engri þeirra. Hún hefur athugað þær, hún hefur skilað þeim aftur til togaraeigenda sjálfra og óskað eftir því, að þeir reyndu sjálfir að koma fram lækkun t.d. á olíuverði, lækkun á vöxtum, lækkun á frögtum og lækkun á vátryggingu o.fl., og taldi eðlilegast, að togaraeigendur sjálfir leituðu eftir samningum við þessa aðila um það, að þeir féllust góðfúslega á að lækka verð á þessari þjónustu fyrir útgerðina.

Niðurstaðan hefur auðvitað orðið sú, að hver þessara aðila um sig hefur neitað. Olíufélögin hafa svarað ósköp einfaldlega: Við getum ekki lækkað olíuna, og við getum ekki orðið við ykkar óskum. — Vátryggingafélögin segja einnig: Við getum ekki lækkað okkar iðgjöld. — Þeir, sem hafa flutt afurðir sjávarútvegsins á erlendan markað, skipafélögin, Eimskip og Sambandsskipin og aðrir slíkir, — þessir aðilar hafa svarað á sömu lund: Við megum ekki hafa knappari rekstur en við höfum. Við getum engu skilað til baka.

En ríkisstj. hefur hins vegar vikið sér alveg undan því að nota það vald, sem hún hefur í þessum efnum. Hún hefur auðvitað lagalega heimild til þess að fyrirskipa verðlækkun á olíu, ef hún telur, að það væri hægt að koma slíkri verðlækkun við, og hún hefur líka aðstöðu til þess á tiltölulega auðveldan hátt að knýja skipafélögin, sem annast vöruflutninga til landsins og frá landinu, til þess að lækka nokkuð sínar háu fragtir. En þessar till. frá mþn. hafa enn ekki borið neinn árangur.

Ein var sú till., sem mþn. ræddi allmikið, og það var till. þess efnis, hvernig væri tiltækilegt að afla tekna í því skyni að verðhækka fisk togaranna eða bæta þeim upp á annan hátt, hækka tekjur þeirra, þannig að lagður yrði á skattur í einu eða öðru formi í þessu skyni, án þess að ríkissjóður þyrfti sjálfur þar að leggja fram fé. Í því efni var rætt allmikið um það í n. að leyfa innflutning á bifreiðum, sem þá virtist nú liggja orðið fyrir að mundi verða gripið til, en nota hins vegar hina miklu eftirsókn eftir bifreiðum til þess að leggja þar á allverulegan bifreiðaskatt, en láta hins vegar togaraútgerðina njóta góðs af þessum nýja skatti. Hins vegar varð n. aldrei alveg endanlega sammála um það, hvernig skyldi koma fyrir þessari tekjuöflun, og ríkisstj. tók málið af mþn., áður en hún hafði gert þetta mál upp endanlega. Þetta einstaka atriði leysti svo ríkisstj. á þann hátt, sem nú er kunnugt, að hún ákvað að innheimta af allverulegum bifreiðainnflutningi 100% gjald af fob-verði bifreiða og mynda þannig sérstakan stuðningssjóð fyrir togaraútgerðina og greiða frá ágústbyrjun til ársloka hverju skipi 2 þús. kr. rekstrarstyrk á dag fyrir hvern sannaðan úthaldsdag skips.

Eftir því sem áætlað var um bifreiðainnflutning eða leyfisveitingar, þá var talið, að þessi skattur mundi gefa í tekjur í kringum 18 millj. kr. af þeim bifreiðaúthlutunum, sem fram fóru nú á þessu hausti. Hins vegar var nokkurn veginn sýnilegt mál, að styrkur til togaraútgerðarinnar samkvæmt þessari leið mundi ekki geta orðið fram að áramótum hærri upphæð en 10–11 millj. kr. Það var því nokkurn veginn gefið mál, að um áramót mundi verða eftir í þessum sjóði nokkur fúlga, sem þá væri óráðstafað, því að þessi bráðabirgðaráðstöfun ríkisstj. átti ekki að ná nema fram að áramótum.

Í ágústbyrjun í sumar, þegar togaraeigendur höfðu gert samninga við sjómannafélögin um ný kjör á togurunum fyrir háseta og sú deila, sem þar hafði staðið um hríð, var að fullu leyst og þegar ríkisstj. gaf út sín brbl., sem hér liggja nú fyrir til staðfestingar, um þennan stuðning við togaraútgerðina, þá hófu flest skipin rekstur að nýju, eftir að hafa þá legið, sum rúmlega 5 mánuði, en flest þeirra um 2–3 mánaða tíma, og því er ekki að neita, að togaraútgerðarmenn gerðu sér þá vonir um það, að þegar Alþ. kæmi saman, yrðu þessi mál öll tekin til nýrrar athugunar, þar sem sýnilegt var, að ríkisstj. leysti málið aðeins til bráðabirgða rétt fram að áramótum, og þá yrði nú væntanlega þetta mál leyst fyrir togaraútgerðina þannig, að segja mætti, að það væri einhver rekstrargrundvöllur fyrir togaraútgerð á Íslandi. En það hefur gengið seint með afgreiðslu þessa máls, eins og alþm. vita, og nú hefur þessu máli ekki þokað lengra áleiðis en svo, að ætlunin er að framlengja þá bráðabirgðaráðstöfun, sem ríkisstj. leysti málið með í ágústbyrjun s.l. sumar, að framlengja ákvæðin um bifreiðaskattinn og ákvæðin um það að greiða hverju skipi 2 þús. kr. rekstrarstyrk á dag út næsta ár, og einnig er nú bætt við að veita formlegan frest á afborgunum skipanna til stofnlánadeildar sjávarútvegsins.

Á það hefur verið bent, að þessi 2 þús. kr. rekstrarstyrkur á dag geri lítið betur en að vega upp á móti þeim launahækkunum, sem um var samið á s.l. sumri til togaraháseta, og má því segja, að rekstrarafkoma skipanna sé álíka illa stödd eftir þessar bætur eins og mþn. í togaramálum hafði lýst að rekstur skipanna væri raunverulega, miðað við afkomuna 1953. En auk þess er svo rétt að benda á það, að reynslan af árinu í ár, 1954, sýnir það alveg ótvirætt, að afkoma skipanna nú á þessu ári er lakari en hún var árið 1953, sem mþn. lagði til grundvallar sinni athugun.

Það er því skoðun mín, að þessi bráðabirgðalausn, sem hér er gert ráð fyrir að framlengja nú að nýju, leysi þann mikla vanda, sem hér er við að stríða, ekki á neinn hátt. Hún vitanlega dregur nokkuð úr hinu mikla tapi, sem á skipunum er, en þessi úrlausn tryggir það á engan hátt, að skipunum verði haldið út allt næsta ár.

Ég veit, að það er álit togaraeigenda, að það geti ekki farið öðruvísi en svo, að ef ekki eigi annað til að koma heldur en þessar ráðstafanir, þá muni skipin á næsta ári eins og þessu ári, sem nú stendur enn yfir, byrja strax á vetrarvertíðinni að tinast úr leik og leggjast. og síðan leggjast þau öll, þegar kemur fram á sumarið. Ég hélt satt að segja, að hæstv. ríkisstj. og Alþ. væri búið að fá nóg af því að sjá fram á það, hvernig gengur með þennan þýðingarmikla þátt í atvinnulífi landsmanna, til þess að ekki væri óskað eftir því, að til nýrrar rekstrarstöðvunar hlyti að draga.

Ég hef því tekið þá afstöðu í sjútvn., sem hefur haft þetta mál til athugunar, að ég að vísu lýsi mig samþykkan till. n. um framlengingu á því, sem verið hefur í þessum efnum, og þeirri litlu viðbót, sem þar kemur fram. Ég tel, að eins og sakir standa sé réttmætt að skattleggja bifreiðainnflutninginn og verja þeim skatti, sem þannig fæst, til þess að halda togaraútgerðinni í gangi, fyrst ekki getur orðið samkomulag um neinar aðrar leiðir til úrlausnar þessu vandamáli, en hins vegar tel ég rétt að leggja hér fram till., sem ná mun lengra að því marki að leysa þetta vandamál. Ég hef því flutt hér nokkrar brtt. á þskj. 280.

Fyrsta brtt. mín felur það í sér, að auk þessa Bifreiðagjalds, sem nú hefur verið lagt í sérstakan sjóð til þess að styðja togaraútgerðina, skuli einnig renna í þann sjóð dýrtíðarsjóðsgjald, sem innheimt er af bifreiðum samkvæmt l. nr. 112 frá árinu 1950. En eins og hv. alþm. er kunnugt, þá er innheimt enn þá svonefnt dýrtíðarsjóðsgjald af bifreiðum, sem nemur 35% af fob-verði bifreiða. Þetta gjald var á sínum tíma lagt á til þess að standa undir greiðslum ríkissjóðs vegna sjávarútvegsins, en ríkissjóður hefur haldið þessu gjaldi enn, þó að hins vegar greiðslur úr ríkissjóði til stuðnings útgerðinni séu horfnar. Ríkissjóður hefur að vísu á nokkrum undanförnum árum sáralitlar tekjur haft af þessu gjaldi, vegna þess að um lítinn bifreiðainnflutning hefur verið að ræða. En nú, þegar sú leið er valin til þess að styðja togaraútgerðina að leyfa allverulegan innflutning á bifreiðum, þá fær ríkissjóður, með því að þetta ákvæði er enn í gildi, á þennan hátt verulega auknar tekjur. Það virðist ekki vera nein ástæða til þess, eins og fjárhag ríkisins er komið, þó að sú leið sé nú valin til þess að styðja togaraútgerðina að skattleggja innflutning á bifreiðum, þá hagnist ríkissjóður á gömlum lagaákvæðum stórlega við það, að þessi leið er valin. Það virðist því vera fyllilega eðlilegt, að ríkissjóður gefi eftir þetta gjald og láti það renna í þennan sjóð, sem á að ganga til styrktar togurunum, og að um leið verði ákveðið, að styrkurinn til togaranna verði hækkaður.

Í till minni geri ég ráð fyrir, að dýrtíðarsjóðsgjald, sem innheimt er árið 1954, þ.e. á yfirstandandi ári, á næsta ári, 1955, og þar næsta, 1956, renni allt í þennan sjóð. Ég hef miðað þetta við þessi þrjú ár vegna þess, að dýrtíðarsjóðsgjaldstekjur falla nær eingöngu til á þessu ári, 1954, í lok ársins, af þeim bifreiðainnflutningi, sem þá var samþykktur, eftir að var ákveðið að gripa til þessarar leiðar í sambandi við lausn á togaramálunum.

Þær dýrtíðarsjóðstekjur, sem yrðu á næsta ári, 1955, yrðu líka allar vegna bifreiðainnflutnings, sem beinlínis hefur orðið til vegna þessara ákvæða. En ég tel rétt að hafa árið 1956 einnig með, af því að dýrtíðarsjóðsgjaldið er alltaf innheimt nokkru seinna en leyfin eru gefin út, og ég býst við því, að leyfi til innflutnings á bifreiðum verði veitt fram eftir næsta ári, en þær bifreiðar koma ekki allar til landsins fyrr en á árinu 1956, og tel því rétt að ákveða það líka, að þetta dýrtíðarsjóðsgjald renni allt í þennan styrktarsjóð togaranna. Ég áætla, að dýrtíðarsjóðsgjaldið af þeirri bílaúthlutun, sem ákveðin var nú á þessu hausti og ráðgert er að leyfa aftur á næsta ári, — en það er a.m.k. jafnmikill innflutningur á bifreiðum og nú var samþykktur í haust, — muni nema allt að 12 millj. kr. af þessum innflutningi.

Í beinu framhaldi af þessu legg ég svo til, að í staðinn fyrir þau ákvæði í frv., sem nú liggur hér fyrir, þar sem ákveðið er að greiða hverjum togara 2 þús. kr. rekstrarstyrk á dag, þá verði ákveðið að greiða hverju skipi 3 þús. kr. rekstrarstyrk á dag, og það er því að mínum dómi fyllilega öruggt, að hægt á að vera að greiða hverju skipi úr sjóðnum þessa upphæð, án þess að til þess komi, að ríkissjóður þurfi að leggja nokkurn hlut fram í þessu efni til stuðnings togurunum. En það er rétt, að ríkissjóður missir auðvitað þann möguleika, sem hann hefur nú til þess að afla sér þessarar nýju tekjulindar, sem l. heimila honum enn.

Ég vil benda á það, að þó að þessi till. mín yrði samþykkt, þá mundi tekjuhækkun togaranna samt sem áður ekki ná því marki, sem mþn. í togaramálum taldi óhjákvæmilegt að ná, ef ætti að tryggja sæmilega afkomu skipanna.

Þá hef ég á þessu sama þskj. lagt til, að lögbundin yrði nokkur lækkun á olíuverði til togaranna, og ég miða till. mína við það, að fyrirskipuð yrði lækkun um 50 kr. á tonn af þeirri olíutegund, sem togararnir aðallega nota. Mþn. í togaramálum hafði fallizt á fyrir sitt leyti að leggja til, að olíuverðið yrði lækkað um 30 kr. á tonn, en 30 kr. á tonn var einmitt sá afsláttur, sem sum olíufélögin veittu togurunum á s.l. ári. Eitt olíufélagið veitti 30 kr. afslátt, en aðeins í því formi, að það greiddi þennan afslátt í skuldabréfum, sem eru til langs tíma og koma því skipunum ekki til góða núna í yfirstandandi rekstrarörðugleikum þeirra. Hin tvö olíufélögin greiddu hins vegar til baka 20 kr. á hvert tonn, en þessi niðurstaða olíufélaganna sannaði það alveg ótvírætt, að þau gátu veitt nokkurn afslátt af því verði, sem þau hafa skráð á olíum. Ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um það, eftir að hafa athugað allvel reikninga þá, sem olíufélögin hafa lagt fyrir, og það, sem hægt hefur verið að afla sér annars staðar frá um möguleika til þess að lækka olíuverðið, að það mundi veitast olíufélögunum létt að standa undir þessari lækkun, þó að ákveðin væri 50 kr. lækkun á hvert tonn af togaraolíum, en slík lækkun mundi þýða minnkuð rekstrarútgjöld hjá hverjum togara um 100 þús. kr. á ári.

Þá legg ég einnig til, að ákveðið verði, að vextir af afurðalánum sjávarútvegsins verði lækkaðir í 21/2%. Þessir vextir eru nú 5 og 51/2%. Ég hef áður fært rök fyrir þessu hér á Alþ. og skal nú ekki endurtaka það nema að litlu leyti; en þó benda á þá staðreynd, að annar þeirra banka, sem nú eiga aðallega viðskipti við sjávarútveginn, tekur að vísu að forminu til af sínum viðskiptamönnum 5% vexti af þeim afurðalánum, sem hann veitir þeim, og 51/2% þegar um framlengingu er að ræða, en þessi banki — þetta er Útvegsbankinn — endurselur þessa afurðavíxla samstundis til Landsbankans og verður að greiða honum 41/2% í vexti af þessum víxlum. Útvegsbankinn fær því fyrir að veita afurðalánin, fyrir alla sína vinnu í sambandi við að veita þau,innheimta þau og bera ábyrgð á þeim, 1/2% í sinn hlut. Hann stendur undir þessu með miklum sóma og hefur ekkert kveinkað sér undan því, en hins vegar hagnast seðlabankinn alveg stórkostlega á þessari starfsemi og hrúgar nú upp gróða árlega vegna þessara háu vaxta, sem hann heldur á afurðalánunum. Það virðist engin ástæða vera til þess að leyfa þetta lengur, og það er alveg vitað mál, að ef þarna yrði slakað til á þessum vaxtagjöldum, þá væri hægt að hækka fiskverð allt í landinu, bæði til báta og til togara, að verulegum mun frá því, sem nú er, því að vextirnir af þessum geysilega háu afurðalánum eru tilfinnanlegir.

Þá legg ég einnig til í till. mínum á þskj. 280, að ákveðið verði að lækka farmgjöld íslenzkra skipa á framleiðsluvörum sjávarútvegsins um 20% frá því, sem þau voru árið 1954. Ég veit, að það er öllum alþm. vel ljóst, að skipafélögin, Eimskipafélagið og Sambandsskipin, en það eru þau, sem skipta hér langmestu máli, hafa búið við verulega hagstæða afkomu á undanförnum árum. Það er ekki að efast um það, að Sambandið, sem hefur nú drifið upp mjög myndarlegan skipastól á tiltölulega stuttum tíma án þess að þurfa að kalla eftir verulegum fjármunum frá meðlimum sínum, hefur ekki getað gert þetta nema af því, að þeir hafa haft góðan rekstur, og þeir hafa ekki þénað á öðru en því að flytja vörur til landsins og að flytja afurðir landsmanna á erlendan markað. Eimskipafélagið hefur líka sýnt, að það hefur grætt verulega mikið. Ég tel því, að þegar svo stendur á um afkomu sjávarútvegsins eins og kunnugt er, að framleiðslutækin eru almennt rekin með tapi, þá sé full ástæða til þess að skylda þessa aðila a.m.k. í eitt ár til reynslu til þess að lækka nokkuð sín háu farmgjöld og skapa á þann hátt möguleika til þess, að hægt væri að hækka fiskverðið.

Mér er það ljóst, að þó að þessar till. mínar yrðu allar samþykktar, þá er það enn ekki tryggt, að rekstur togaranna sé orðinn hallalaus, en það mun þó láta nokkuð nærri því, að það megi búast við, að meðalskipið sé búið að ná jöfnuði í sínum rekstri, og ég held, að væru þó stigin þessi skref í þessa átt, þá mætti fyllilega búast við því á eftir, að vandamál togaraútgerðarinnar yrðu tekin þeim tökum, að búast mætti við því, að þau væru leyst til nokkurrar frambúðar.

Í þessu efni þykir mér rétt að benda á það, að togaraeigendur hafa nýlega gert samþykkt um að stöðva allan togaraflotann um næstu áramót, ef þeir hafi ekki fyrir þann tíma fengið samkomulag við stjórnarvöld landsins um viðhlítandi rekstrargrundvöll fyrir skipin. Till. um þetta efni hefur verið borin undir allar togaraútgerðir í landinu, og þær hafa staðfest þetta. Það er þó alveg vitað mál, að það grípur enginn til þess að þurfa að stöðva rekstur skipanna nema alveg til neyddur, því að það er miklum vandkvæðum bundið að ráðast í slíkt. Hitt er líka alveg augljóst mál, að ríkisheildin þolir það ekki nema tiltölulega stuttan tíma, að togarafloti landsmanna leggist allur.

Framleiðsla togaranna hefur á undanförnum árum numið álíka hárri gjaldeyrisupphæð fyrir þjóðarheildina eins og framleiðsla alls bátaflotans. Það er því alveg augljóst mál, að verulega stöðvun í rekstri togaranna geta landsmenn ekki þolað.

Ég óttast það að nokkru, að ýmsir hv. alþm. haldi enn, að margir togaraeigendur beri sig um of illa í þessu efni og vilji nú ganga eftir því við ríkisvaldið, að það styrki togarareksturinn eins og ríkið verði að styrkja ýmsan annan rekstur í landinu, og þeir haldi, að það sé hægt að komast af, eins og oft er sagt, með minni fjárhæðir en eigendur skipanna sjálfir leggja til. En það er alveg óhjákvæmilegt eins og nú er komið, að þeir alþm., sem efast í þessu efni, leggi það þá á sig að kynna sér þessi mál. Hér á Alþ. hefur verið kosin 7 manna n. úr öllum flokkum til þess að rannsaka málin. Athugun n. liggur fyrir, og afkoma togaranna hefur sannarlega sagt til sín hverjum sjáandi manni í landinu. Það er þó síður en svo, eins og ég ætla að flestir hafi þegar áttað sig á, að togaraútgerðin sé í sjálfu sér nokkur vandræðarekstur fyrir þjóðarbúið. Ástæðan til þess, að togararnir búa við þetta knappan rekstur, er sú, að togararnir fá fyrir sinn fisk 85 aura fyrir kg af þorskinum t.d., þegar bátaútvegurinn fær kr. 1.35—1.40 fyrir hvert kg, þó að hvert kg af togarafiski sé selt á sömu markaði og fyrir sama verð og í sömu umbúðum og eins unnið á allan hátt og fiskur bátanna. Það er enginn greinarmunur gerður á þessum fiski á hinum erlenda markaði. Hvor tveggja aflinn er þar seldur á sama verði. En bátaflotinn hefur hins vegar verð, sem samsvarar kr. 1.35–1.40 fyrir hvert kg, en togararnir aðeins 85 aura fyrir kg. Þessi gífurlegi mismunur hlýtur að koma fram í því, að togararnir ná ekki saman endum með rekstrargjöld og tekjur.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín öllu lengri. Ég hef lýst því, að ég er að vísu fylgjandi þeim brtt., sem sjútvn. sem heild leggur til að gerðar verði á frv. Þær eru vissulega til bóta, en þær eru ófullnægjandi, eins og ég hef lýst. Ef það væri áð vísu meining hæstv. ríkisstj. í þessu máli að gera nú fyrir þinghléið aðeins bráðabirgðalausn á málinu, en hins vegar væri það alveg skýlaus yfirlýsing hennar, að hún ætli sér að taka þetta mál til fyllri lausnar strax að þinghléinu loknu, þá vitanlega kemur til mála að láta biða að bera upp sínar viðaukatill., en hugsi ríkisstj. sér, að málið sé leyst með þessari leið, sem hér liggur fyrir, frá hennar hálfu, þá er það mikill misskilningur, það getur ekki leyst þann vanda, sem þjóðarheildin stendur frammi fyrir í sambandi við rekstur togaraflotans.