15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hlutverk togaranefndarinnar var fyrst og fremst það að kynna sér rekstur togaraútgerðarinnar og gefa um það greinilega skýrslu, hvernig hag hennar væri komið nú, eftir þeim gögnum, er nefndin gæti í hendur fengið í þeim efnum. Svo var hitt hlutverk hennar, ef hún teldi sér það fært, að leggja fram till. til úrbóta, til þess að rétta við reksturinn, sem þá stóð svo höllum fæti, að við lá, að togaraútgerðin yrði að hætta rekstrinum; enda stöðvuðust margir togarar um skeið meðan málið var í rannsókn. Það álit, sem n. hefur látið frá sér, er nú orðið opinbert plagg, og allir eiga aðgang að því, sem vilja kynna sér málið. Hinn liðurinn í hlutverki hennar, að skila till., er hins vegar ekki opinbert plagg. En eins og komið hefur fram, bæði í ræðu og riti, ræddi n. talsvert mikið um till. til úrbóta og gat komið sér saman um nokkrar tillögur í þeim efnum, en ekki varð samkomulag um allar tillögur, sem fram komu. Þessar till. hafa ekki verið gerðar opinberar, en hins vegar hafa þær verið sendar ríkisstj., henni til athugunar og leiðbeiningar, ef hún kysi að fara eftir þeim.

Eins og fram kemur í skýrslunni, taldi n., að árlegt meðaltap togaranna mundi vera um 950 þús. kr. Ég hygg, að eftir því sem um er að gera, muni sú niðurstaða n. um afkomu togaranna vera eins rétt og yfirleitt er hægt að búast við af slíkri rannsókn eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja. Það ár, sem var lagt til grundvallar, eins og kunnugt er, var árið 1953. Ég efast ekki um, að niðurstaðan sé í aðalatriðum rétt. Menn verða að gera sér það ljóst, að sú tala, sem hér er átt við, er meðaltala. Töpin hjá sumum skipum eru langt fyrir ofan meðaltölu og hjá öðrum langt fyrir neðan, eins og gengur. En það er ekki hægt að bera fram álit á öðrum grundvelli í slíkum málum sem þessu.

Meðalrekstrartap, eins og hv. 11. landsk. (LJós) gat um í sinni ræðu, taldi n. að mundi vera 400 þús. kr. á ári. Við það vildi hún svo bæta fyrningu, 250 þús. kr., vegna þess að hún taldi, að ef skip gætu ekki reiknað sér fyrningu í rekstri sínum, þá væri ekki um heilbrigðan rekstur að ræða. Hér var þó ekki um að ræða nema 250 þús. kr. fyrningu á skip á ári,. sem verður að teljast lág fjárhæð, a.m.k. af nýjustu togurunum.

Til viðbótar þessu taldi svo n., að ekki yrði hjá því komizt að hækka laun skipverja, enda var ástandið þá orðið svo á togurunum, að ekki var hægt að koma skipunum út nema með harmkvælum, ef svo mætti segja, og einstök skip urðu að liggja í landi vikum saman vegna þess, að háseta skorti á skipin.

Það eru þá þessir þrír meginliðir, sem renna undir tapið, sem n. áætlaði, 950 þús. kr., þ.e. meðalrekstrartap 400 þús. kr., fyrning 250 þús. kr. og kauphækkun skipverja 300 þús. kr.

Nú hefur það farið svo, eins og kunnugt er, eftir þá athugun, sem ríkisstj. hefur gert á þessu máli, að hún hefur ákveðið að tryggja skipunum 2000 kr. rekstrarstyrk á dag þá daga, sem skipunum er haldið úti. Ef ég man rétt, þá reiknaði n. með því, að fjöldi úthaldsdaga á skipunum væri 310 dagar. Með því að reikna skipunum 2000 kr. á dag í styrk, þá er þar tryggt af ríkisstj. rúmlega 600 þús. kr. á skip, ef talið er, að skipunum sé haldið úti um 300 daga, eins og gera má ráð fyrir að sé, ef sæmileg aflaskilyrði eru og ekkert sérstakt, sem truflar reksturinn.

Ríkisstj. hefur þá lagt fram um 600 þús. kr. af þeim 950 þús. kr., sem n. áætlaði að væri meðalrekstrartap á skipunum. Nú má deila um það, og ég hef orðið var við, að sumir halda því fram, að ekki sé ástæða til þess, að ríkið eða það opinbera sé að greiða skipunum fyrningu, því að það sé í sjálfu sér tölulegt tap, sem þar komi fram. Að vísu verð ég að segja, að ég get fyrir mitt leyti ekki samþykkt það, að hér sé algerlega um tölulegt tap að ræða, vegna þess að á ákveðnum fresti verða þessi skip að fara til viðgerðar. Þegar þau fara til meginviðgerðar, í klössun, kostar það stórfé. Ef skipin hafa ekki til þess fé fyrir hendi, verða þau að taka það að láni hjá lánardrottnum sínum. Að öðrum kosti verður ekki skipið dæmt sjófært. En ef nú fallizt er á þá staðhæfingu þrátt fyrir þetta, að líta mætti á þetta sem tölulegt tap, þá skortir þó enn 100 þús. kr. á það, að náð sé þeirri tölu, sem n. taldi að væri meðaltap.

En þetta mál, eins og nú er komið, er þó ekki alveg eins einfalt og það lítur út fyrir með þessum tölum, sem ég nú nefndi, að á skorti 100 þús. kr. að viðbættu fyrningargjaldinu. Ef svo væri, mætti ætla, að ekki væri frágangssök fyrir togaraflotann að halda áfram rekstri og treysta þá guði og lukkunni, að tíðarfarið væri sæmilegt og afli góður. En það eru tvö meginatriði, sem enn koma til greina, atriði, sem hafa komið fram að verulegu leyti síðan n. samdi áætlun sína. Í fyrsta lagi er það, að við hásetana var samið á hærri grundvelli en n. gerði ráð fyrir. N. gerði ráð fyrir því, að ekki mundi þurfa að fara lengra í kjarabótum til háseta eða skipsmanna en næmi 300 þús. kr. á skip. Það hefur ekki verið gert upp nákvæmlega, hvað sú hækkun er mikil, sem um var samið, en ég hef heyrt mjög glögga útgerðarmenn fullyrða, að hún sé ekki undir 450 þús. kr. á skip. Sumir vilja halda fram, að hún muni geta unnið um 500 þús. kr. á skip, þessi kauphækkun, sem samþ. var eftir að n. gaf út sitt álit. Ef þetta er rétt, þá munar þarna 150200 þús. kr. frá þeirri áætlun, sem n. gerði á sínum tíma.

Annað meginatriði, sem þarna kemur til greina, er það, sem að vísu verður ekki mælt með tölum, en ég hygg að ekki verði á móti mælt, að árið 1954 hefur verið miklu óhagstæðara fyrir togaraútgerðina heldur en það ár, sem n. lagði til grundvallar, 1953. — Það er kannske aðallega tvennt, sem þar kemur til greina, fyrir utan það óhagræði, sem stafaði af manneklu í byrjun ársins, en það eru lélegri aflabrögð að verulegu leyti og stirðari veðrátta, sérstaklega síðari hluta árs. Allir útgerðarmenn, sem ég hef talað við — þó að rétt sé að taka það með nokkurri varúð, því að hér eru þeirra eigin hagsmunir, sem koma til greina, — telja óhikað, að afkoman sé mjög miklu verri á þessu ári en hún var 1953. Ef þetta er rétt, þá er að vísu skiljanlegt, að útgerðarmenn beri síg nokkuð illa nú, eins og sakir standa. Þó er ekki ástæða til þess að leggja mælikvarðann á það, hvernig útgerðin gengur hálft eða jafnvel heilt ár, því að vel getur brugðið til hins betra á skömmum tíma. En ég get skilið, að togaraútgerðarmenn beri sig illa, þegar ofan á raunir þeirra árið 1953 bætist svo mjög miklu hærra kaup á skipunum á þessu ári og lélegri afli. Hins vegar verð ég að viðurkenna, að það er erfitt fyrir ríkisstj. við þetta að eiga, — eða hvaða yfirvald sem væri, er ætti að bæta úr þeim erfiðleikum, sem hér er við að stríða. Það er erfitt fyrir hana að gera ráðstafanir, sem yrðu að breytast með stuttu millibili. Enginn er kominn til að segja, að það ástand, sem verið hefur á þessu ári, verði einnig á því næsta. Það getur vel verið, að afkoman verði miklu betri á næsta ári, og þess vegna er erfitt að gera ráðstafanir sitt á hvað, eftir því sem vindurinn blæs. Hins vegar sýnir þetta, hversu mikið vandamál þetta er í eðli sínu, og það sýnir einnig, hvað útgerðin stendur nú orðið höllum fæti eftir langvarandi rekstrartap. Hún getur ekki lengur tekið á móti neinum áföllum. En ef sníða ætti mælikvarðann eftir þeirri stundarafkomu, sem nú er, þá mundi ríkisstj. verða að láta aðra rannsókn fara fram til þess að gera sér grein fyrir, hvernig afkoman hefur verið á þessu ári, sem svo mjög er kvartað undan. En slík rannsókn verður ekki gerð fyrir jól, það er öllum ljóst. Hins vegar verður ekki hjá því komizt, til þess að sú aðstoð geti verið í gildi, sem ríkisstj. með brbl. hefur veitt togaraútgerðinni, að samþykkja þessi brbl. fyrir nýár. Ég veit, að öllum hv. þm. er það ljóst. Hins vegar get ég ekki séð, að það útiloki, að aðrar ráðstafanir verði gerðar eftir nýárið, ef sýnilegt er, að ekki verði hjá því komizt.

Ég vildi mæla með því, að till. sjútvn. verði samþ. eins og þær liggja fyrir og að ekki verði aðrar brtt. samþykktar að svo stöddu. Ég sé, að hún hefur tekið eina till. milliþn. inn í sitt álit, og er það vel farið. Og ég er henni sammála um það, að mjög er vafasamt, að hún hefði getað tekið aðrar till. n. inn í lagafrv. Þess vegna segi ég einnig, að ég tel ekki, að þær till., sem hv. 11. landsk. ber fram á þskj. 280, geti komizt inn í þetta frv. Þær eru ekki þannig vaxnar, að það sé hægt að knýja þær fram með lagasetningu. Með því að samþykkja, að aðstoðin hækki um 1000 kr. á dag, þarf ríkisstj. að sjálfsögðu að sjá sér fyrir tekjum á móti.

Það hefur oft verið deilt um verð á olíunni og haldið fram, að olíufélögin geti lækkað verðið á olíunni frá því, sem nú er. Það er kunnugt, að þau hafa árið sem leið greitt í uppbætur 20-30 kr. á tonn til viðskiptamanna sinna, og við það miðaði nefndin, þegar hún áætlaði, að 30 kr. lækkun á olíutonninu gæti orðið að raunveruleika. Það getur að vísu orðið enn, og eftir því sem mér skilst, eru líkindi til þess, að olíufélögin muni gefa afslátt af olíunni um áramótin, eins og gert var á síðasta ári.

Um vexti af afurðalánum sjávarútvegsins, að þeir skuli ekki vera hærri en 21/2%, þá verð ég að segja það sem mína skoðun, að ég álít ekki, að þingið eigi nokkurn tíma að taka fram fyrir hendurnar á þjóðbankanum um það, hvaða vextir eigi að vera gildandi almennt í landinu, og ekki um vexti framleiðslunnar heldur. Hins vegar eru ýmsir möguleikar á því að koma slíkum málum fram með vingjarnlegum samningum milli stjórnarvaldanna og þjóðbankans.

Sama er að segja um flutningsgjöld á íslenzkum skipum. Mér finnst, að það væri of langt gengið, ef ætti að fara að setja það í lög, að þau skyldu lækka um ákveðinn hundraðshluta.

Ég er þeirrar skoðunar, að sá styrkur, sem togararnir fá nú, sé ekki nægilegur og að skipunum verði ekki haldið úti með 2000 kr. styrk á úthaldsdag. Ég er þeirrar skoðunar, að það verði ekki hjá því komizt þegar eftir nýárið að gera einhverjar raunhæfar ráðstafanir. Ég kalla það að vísu raunhæfar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, þó að þær séu að vissu leyti bráðabirgðaráðstafanir, en ég tel, að ekki verði komizt hjá því eftir nýárið að gera frekari ráðstafanir gagnvart togaraútgerðinni, svo að hún geti fengið nokkurn veginn öruggan starfsgrundvöll, ef við getum kallað nokkurn grundvöll öruggan í þessu landi fyrir atvinnugreinarnar eins og nú horfir við. En ég vænti þess, að ríkisstj. taki þetta mál til athugunar, eins og ég veit að hún mun gera. Þetta er mál, sem snertir alla þjóðina. Við eigum erfitt með að lifa í þessu landi, ef stórvirkustu atvinnutæki okkar geta ekki starfað, vegna þess að þau hafa ekki starfsgrundvöll til þess að standa á.