15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Lúðvík Jósefsson:

Ég verð nú fyrst að segja það, að ég verð alltaf fyrir allmiklum vonbrigðum og allmjög hissa, þegar ég heyri hæstv. forsrh. tala um þessi mál. Hann tekur það að vísu jafnan fram, að það væni sig enginn hér um það, að hann vilji ekki togaraútgerðinni allt hið bezta, og það þurfi enginn að efast um það, að hann dragi yfirleitt fram öll hennar rök í málinu og vilji, að hennar hagur verði sem beztur, enda gætu menn nú haldið það, með þá sögu, sem hann á að baki í þeim málum. En ég fullyrði það, eftir að hafa hlustað á hann ræða um þessi mál nú nokkrum sinnum, að hann þarf alveg tilfinnanlega að kynna sér þessi mál, og hann þarf að ganga í skóla til einhverra manna, sem hafa komið nærri þessum málum nú um hríð og öðlazt þar mikla þekkingu fram yfir það, sem hann hefur nú í dag um afkomu togaranna. (Forsrh.: Ég efast nú um, að hv. þm. þekki þetta betur en ég.) Það er alveg greinilegt mál. Og það er nú alveg glöggt, sem ég skal nú víkja svolítið frekar að, að hæstv. forsrh. veður hér verulega í villu og svima um það, hvernig ástandið er raunverulega. (Gripið fram í.) Ég skal nú koma svolítið nánar að því.

Meginuppistaðan í ræðu hæstv. forsrh. var það, að hann vildi leggja út af því, að ég og tveir aðrir þm. hefðum gefið ríkisstj. skýrslu í ágústmánuði, sem ríkisstj. hefði yfirleitt orðið við að öllu leyti, en svo kæmu útgerðarmenn síðar með aðra skýrslu og byggðu kröfur sínar á því. Hvernig víkur nú þessu við? Auðvitað var hæstv. forsrh. ekki hér við fyrri hluta þessarar umr. Hann var ekki hér við, þegar ég flutti mína ræðu, að ég hygg. Það kom a.m.k. ekki fram í hans ræðu, að hann hefði tekið neitt eftir þeim málflutningi, sem ég hafði hér. Ég byggði öll mín rök og byggi enn á þeirri skýrslu, sem milliþn. í togaramálum sendi frá sér. Ég sem forsvarsmaður togaranna að sumu leyti byggi allar mínar óskir og kröfur á niðurstöðum þeirrar nefndar, en engum síðari skýrslum frá togaraeigendum. Ég veit ósköp vel, að það eru ýmsir togaraeigendur, sem álíta, að hin raunverulega afkoma togaranna hafi verið öllu lakari en niðurstaða mþn. í togaramálum sagði til um. Ég hins vegar held mér algerlega við hana, og ég skal koma nánar að því, hverjar niðurstöður n. voru, en svo virðist vera sem hæstv. forsrh. hafi alls ekki gert sér það fyllilega ljóst. Hann túlkar málið þannig nú, að m.a. vegna þess, að það hafi verið ótíð í haust, séu menn nú með einhverjar aukakröfur í þessum efnum. Þetta er mesti misskilningur. Mþn. í togaramálum sagði, að reikningar togaranna fyrir árið 1953 hefðu sýnt það frá 31 skipi af 43 samtals í landinu, að það hefði verið beint rekstrartap 407 þús. kr. að meðaltall á skipi án allra afskrifta. Hins vegar benti n. á, að samkv. nánari athugun, sem hún hafi gert, hafi raunveruleg afkoma ársins 1953 verið lakari en þessi reikningsniðurstaða fyrirtækjanna sýnir, og hún skýrir það líka, af því að hún athugaði þetta vel, að inn á reikninga skipanna fyrir árið 1953 komu óeðlilega miklar tekjur af verðuppbót á saltfiski, sérstaklega frá árinu 1952. Nú vildi ég gjarnan fallast á það út af fyrir sig, af því að ég hef aldrei haft trú á því, að Alþingi færi svo nákvæmlega í þessi mál í sambandi við stuðning við togarana, að þessum mismun yrði sleppt og gert ráð fyrir því, að rekstrarhallinn að meðaltali hafi verið þessar 407 þús., þó að togaraeigendur segi með réttu, og ég veit það vel og öll mþn. viðurkennir það líka í grg. sinni, að árið 1953 skoðað eitt út af fyrir sig hafi af þessum ástæðum raunverulega sýnt lakari afkomu en reikningarnir fyrir það ár sýna.

Mþn. bætir því að vísu við, að henni þætti ekki óeðlilegt að reikna með 250 þús. kr. í afskriftir. Hæstv. forsrh. virðist nú vilja líta alveg fram hjá þeirri upphæð, eða að mestu. Það er þó að verulegu leyti rangt, vegna þess að útgjöldum togara er þannig háttað, að þar koma til útgjöld í sambandi við fyrningu, eðlileg útgjöld, sem eru geysilega há á vissra ára fresti, þegar klössun fer fram, og þeirri upphæð verður einhvers staðar að dreifa niður. Árið 1953 gat ekki sýnt þetta nema að sáralitlu leyti. Það hafa kannske verið eitt eða tvö skip, sem hafa lent í klössun þá. Og af þeirri ástæðu var vitanlega eðlilegt og nauðsynlegt að taka tillit til þessarar tiltölulega mjög lágu afskriftarupphæðar, 250 þús., sem nefndin taldi rétt að taka tillit til.

En nefndin gerði ekki aðeins ráð fyrir útgjöldum upp á 650 þús., sem tekjur vantaði fyrir, heldur benti nefndin einnig á, að það verði að gera ráð fyrir því, að útgjaldahækkun verði hjá skipunum, sem nemi a.m.k. 300 þús. kr. (Gripið fram í.) Ja, ég get auðvitað beðið — það skiptir mig ekki miklu máli. Ef forsrh. þarf að víkja sér frá, þá get ég vel beðið hérna. (Gripið fram í: Á ég ekki að lána þér tímarit til að lesa?) Ég get líka staðið bara og þagað, það skiptir mig engu máli. Ég held ég doki aðeins við, af því að ég vildi beina máli mínu til hæstv. forsrh.

Ég gat þess, að n. hefði bent á það, að óhjákvæmilega yrði að gera ráð fyrir því, að útgjöld skipanna mundu vaxa a.m.k. um 300 þús. kr. vegna nýrra samninga, sem þá stóðu fram undan fyrir skipshafnir, og þannig fékk n. út, að það yrði að hækka tekjur hvers skips um 950 þús. Nú vildi hæstv. forsrh. taka þessa tölu, 950 þús., draga að vísu frá henni afskriftina, sem ég hef vikið að áður, og fá þannig út um 700 þús. kr. og segja: Við höfum raunverulega látið togarana hafa þetta, og þetta er því óþarfa rex, sem þeir eru að koma með núna og hlýtur að stafa af því, að það hefur verið ótíð í haust eða þá að útgerðarmenn eru að hlaupa frá því, sem aðrir útgerðarmenn í n. höfðu áður lagt til. — Þetta var meginefni máls hæstv. forsrh. En þar hleypur hann fram hjá þeirri staðreynd, að auðvitað gat mþn. ekki gert annað á sínum tíma en að áætla það, hver útgjöldin mundu verða af nýjum kjarasamningum. Hún hagaði því orðum sínum þannig, að hún reiknaði með

því, að útgjöldin yrðu varla undir 300 þús. Nú liggja hins vegar fyrir upplýsingar um það, að þessir kjarasamningar hafi þýtt útgjöld um ekki 300 þús., heldur, eins og hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) sagði hér að hann hefði eftir fróðum útgerðarmönnum, að þetta mundi nema 450–500 þús. Ég hygg, að heildarútgjaldahækkunin í þessu efni sé ekki fjarri því að vera 500 þús. Ég veit, að margir útgerðarmenn halda því fram, að þetta sé meira, en það fer nokkuð eftir því, á hvaða úthald skipunum er haldið, á hvaða rekstur skipunum er beitt, en ég hygg, að það sé nokkuð nærri lagi að áætla, að þetta sé 500 þús. Þó að við tækjum nú aðeins 450 þús., sem er ábyggilega lægsta tala, sem menn halda fram um þetta etni, þá hækkar talan 950 þús., sem n. gaf frá sér, um 150 þús. og er þá komin upp í 1100 þús., þótt við tökum þá lægstu. En til viðbótar við þetta var svo mþn. sammála um það, að togararnir þyrftu að fá fram ýmsar till., sem hér hefur borið á góma og nefndin mat um 300 þús. kr., eða að heildarupphæðin gæti þá numið á þennan hátt 1400 þús. kr. Þetta er allt miðað við þau rök, sem mþn. lagði fram á sínum tíma, og þær beinu staðreyndir, sem liggja fyrir síðan og ekkert koma við ótíð eða mismunandi áliti útgerðarmanna.

En hvað hefur svo ríkisstj. gert? Jú, hún hefur samþykkt þennan 2000 kr. styrk, sem getur numið yfir árið í kringum 600 þús. Hæstv. forsrh. vildi nú halda hér fram, að þetta mundi nema nokkru hærri upphæð, en það skiptir engu máli, það munar svo tiltölulega litlu. Hann vildi leggja til grundvallar 315 úthaldsdaga. Nefndin fór hæst í sínum áætlunum upp í 306 útbaldsdaga. Hins vegar sýndi reynslan það, að meðal-úthaldstíminn á skipunum var ekki nema rúmlega 260 dagar. (Grípið fram í: Hvaða ósköp hefur n. verið fáfróð.) Nei, n. var ekkert fáfróð. Ég var t.d. á þeirri skoðun, að þó að meðalúthaldstími hafi verið 1953 aðeins 260 úthaldsdagar, þá sé það óeðlilegur úthaldstími, sem kemur að nokkru leyti fram af því, að togararnir bjuggu við svo lök kjör, að þeir lágu óeðlilegan tíma af árinu. Og ég fyrir mitt leyti tel það ekki eðlilegt, að togararnir geti ekki haft að meðaltali hartnær 300 úthaldsdögum. En allt sem er teygt sig upp fyrir 300 úthaldsdaga, þá er engin von til þess, að meðal-úthaldstími togaranna verði lengri. Ég álít því, að 2000 kr. styrkurinn geti aldrei numið meiru en 600 þús. kr., og þá vantar eftir þessu reikningsdæmi um 800 þús. kr. á hvert skip. Að vísu eru þá taldar með fyrningarafskriftir, 250 þús. Þótt fyrningarafskriftum sé nú alveg sleppt, þá sér hæstv. forsrh. það, að mikill halli er á hverju skipi þrátt fyrir þetta. Við það bætist svo það, sem ég sagði áðan og hefur hvergi verið reiknað inn í þessar tölur, að raunveruleg afkoma ársins 1953 var lakari en n. færði upp tölur um, og enn fremur hitt, sem líka hefur verið bent hér á, að heildarafkoman árið 1954, yfirstandandi ár, er enn þá lakari en árið 1953, sem nefndin lagði til grundvallar, svo að tapið er alveg óumdeilanlega mikið, en ekki eins og mér skildist á hæstv. forsrh. að hann héldi fram, að tapið væri raunverulega vegið upp með þeim stuðningi, sem ríkið hefur þegar samþykkt; það er mesti misskilningur. Og það var það, sem ég meinti, þegar ég sagði, að ég áliti eftir því, hvernig hæstv. forsrh. flytti sitt mál í þessu efni, að hann þyrfti að kynna sér þessi mál miklu nánar og betur en hann hefur gert, þegar svona geysilega miklu skakkar frá réttu í sambandi víð hans fullyrðingar.

Þá vil ég líka minna hæstv. forsrh. á það, að það er síður en svo, að ríkisstj. hafi látið togarana fá 600 þús. kr. á ári í styrk enn þá. þessi styrkur, sem hér var um að ræða, var aðeins frá 1. ágúst til ársloka og gat ekki numið meiru að meðaltali á skip en í kringum 300 þús. kr. Árið 1954 leið þannig, að styrkurinn frá ríkinu var aðeins 300 þús. kr. á skip, svo að afkoman nú í dag er ekki betri. Hins vegar er það, að nú stendur til að framlengja þetta allt næsta ár, og þá yrði það vitanlega skárra árið 1955 heldur en árið 1954 hefur gefið, því að stuðningurinn á árinu 1954 náði aðeins 300 þús. kr. á skip, en ef þetta verður samþ., sem hér liggur fyrir, þá mundi þó stuðningurinn næsta ár ná 600 þús.

Ég vil því undirstrika það, að það, sem við í mþn. sögðum í ágústmánuði, stendur að fullu og öllu enn þá. Við víkjum ekki frá því á neinn hátt, og ég fyrir mitt leyti byggi engar till. frá minni hálfu á neinum breytingum frá því, öðrum en þeim, sem eru beinar staðreyndir, eins og það, að þeir kjarasamningar, sem gerðir voru síðar, sýna nokkru hærri útgjaldalið hjá skipunum en n. vildi láta koma fram í sínu áliti eða áætlaði áður en samningarnir voru gerðir.

Þá minntist hæstv. forsrh. á það, að togararnir hefðu fengið nokkra hækkun á karfaverði, og vildi telja, að það gæti munað í kringum 100 þús. kr. á skip. Það er rétt, að það varð í ágústbyrjun, eftir að hinir nýju samningar voru gerðir við Rússland, 5 aura hækkun á karfanum frá því, sem hafði verið um hríð. En það er líka fjarri því, að hægt sé að halda því fram, að þetta séu 100 þús. kr. að meðalta]i á skip. Samkvæmt skýrslunni frá mþn., sem er byggð á skýrslum frá Fiskifélagi Íslands, var árið 1953 þannig, að meðaltalsafli af karfa á togara á allan togaraflotann var 898 tonn yfir allt árið, og það gerir með 5 aura hækkun á kg 44900 kr. Nú var það svo, að árið 1953 var veitt geysilega mikið magn af karfa, af því að það voru hagstæðir samningar þá fyrir um afskipun á karfa, og engar líkur til þess, að við förum langt yfir það mark, nema einhverjar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar. Hitt er alveg rétt, að það verður alltaf svo, að einstök skip fái í þessu efni allmiklu meira magn og mundu ábyggilega komast í 100 þús. kr. uppbót vegna þessa liðs, en önnur skip fá enga hækkun vegna þessa, t.d. skip, sem stunda saltfisksveiðar allan tímann eða sigla á erlendan markað. Þar kemur þessi hækkun ekki til greina. Ég veit um ýmis skip, sem ekki hafa notið neinnar hækkunar í tekjum af þessum ástæðum vegna þessarar hækkunar, sem varð á karfaverði hjá frystihúsunum nú í ágústmánuði s.l., — skip sem ekki hafa haft fyllilega aðstöðu til þess eða ekki hafa talið sér það hagkvæmt af öðrum ástæðum að fiska karfa fyrir frystihúsin. Þessi liður var því líka áberandi of hátt reiknaður hjá hæstv. forsrh. í sambandi við þær tekjur, sem skipin hefðu fengið.

Svo kemur þetta, sem heyrzt hefur áður frá hæstv. ríkisstj., að útgerðarmönnum hafi verið ætlað að útvega sjálfir ýmis fríðindi sér til handa og að það sé óeðlilegt að flytja till. um það, t.d. eins og að ákveða nokkra lækkun á olíuverði, lækkun á vöxtum og lækkun á frögtum o.fl., og að ríkisstj. hafi haft ástæðu til að skjóta sér undan þessu og segja við útgerðarmenn: Þið eigið að fá þennan afslátt sjálfir, þetta er ykkar mál, og við reiknum bara með því, að þið fáið þetta, við tökum þetta þannig, að þið hafið fengið þessar 300 þús., sem þarna var bent á, og það er þá ykkur að kenna, ef það ekki fæst. — Þetta er vitanlega ákaflega villandi málflutningur. Það er alveg gefið mál, að togaraeigendur hafa litið vald yfir olíufélögunum hér um að knýja þau til þess að lækka alíuverðið. Þeir hafa sáralítið vald til þess. Hins vegar vita það allir, að ríkisstj. hefur bæði lagalegt vald og vald á annan hátt til þess að koma þessu í gegn. Ríkisstj. þarf t.d. ekkert annað að gera en ákveða það, að togaraolían skuli falla undir verðlagsákvæðin, en núna er frjáls verðlagning á togaraolíunni, hún fellur ekki undir hámarksverðsákvæði eins og aðrar ollur. Ef ríkisstj. ákveður þetta, þá getur hún um leið ákveðið olíuverðið. Hún hefur skotið sér undan þessu, ekki óskað eftir því að gera þetta. Ríkisstj. getur líka látið fara fram virkilega athugun á því, framkvæmda af mönnum, sem hún trúir fyrir því, hvort olíufélögin geta ekki mætt þarna nokkurri verðlækkun. Ég fyrir mitt leyti hef oft lýst því hér, að ég álít, að þau geti það vel, og ég álít meðal annars, að sá. afsláttur, sem þau hafa fært mönnum til reiknings á nokkuð sérstæðan hátt með því að vilja endurgreiða það í skuldabréfum til margra ára, hafi sannað, að þau geta t.d. samkvæmt sínu eigin bókhaldi fært verðið niður um 30 kr. á tonn, og það er vel hægt að skipa þeim að gera það, — það er einfalt mál, — það hafa þau viðurkennt að þau geti.

En ég reisti nú ekki mína till. hærra en svo að fara svolítið upp yfir þetta, sem þau hafa á óbeinan hátt viðurkennt sjálf, og fer fram á, að það verði ákveðið, að þau lækki olíuna um 50 kr. í eitt ár. Ég er alveg sannfærður um það, að ríkisstj. á mjög auðvelt með að koma þessu í kring, jafnvel án þess að lögbinda það, en þar að auki hefur hún lagaheimild til þess að fyrirskipa það.

Eins er um hina liðina, að það er vitanlega tómt mál að tala um að segja við togaraeigendur: Farið þið til Eimskipafélagsins og farið þið til Sambands ísl. samvinnufélaga, sem eiga þau skip öll, sem annast flutninga til landsins og frá landinu, og fáið þið þessi félög til þess að lækka taxtana. — Út úr því hefur ekkert komið og kemur aldrei neitt. En ég er líka alveg sannfærður um það, af því að ég veit um það í öðrum tilfellum, að ríkisstj. hefur notað sitt óbeina og beina vald yfir þessum aðilum til þess að fá þá til þess að lækka taxta sína stundum, — ríkisstj. hefur gert það, hefur haft áhrif á það. Þetta gæti hún eins gert í þessum tilfellum, því að það er alveg óumdeilanlegt mál, að þessir aðilar hafa hagnazt vel á undanförnum árum, bæði sýna þeir það á reikningum sínum, og Sambandið hefur byggt upp stóran skipaflota á nokkrum árum án þess að kalla ettir fjárframlögum frá meðlimum sínum. Þetta gera þeir aðeins vegna þess, að reksturinn er hagstæður.

Það er því í mesta máta rangt, eins og ég hef sagt, að taka allar þessar till. mþn., sem voru metnar á um 300 þús. kr., og víkja þeim til hliðar og segja: Þetta útvega útgerðarmenn sér sjálfir. — Það er algerlega rangt, ríkisstj. getur útvegað það, og það er það, sem var mín meining og margra fleiri í mþn., að fyrir milligöngu ríkisstj. yrði þetta að fást fram, og við álítum, að þetta væri hægt. Og það vil ég minna hæstv. forsrh. á, sem hefur lýst hér tiltölulega góðu áliti sínu á mþn., sem ég álít líka að hafi yfirleitt unnið heldur vel, að mþn. var öllsömun sammála um það, upp á hvern einn og einasta mann, að það væri tiltækilegt að koma þessum viðbótarákvæðum í gegn, það væri engin goðgá að skipa olíufélögunum að lækka verðið um 30 kr. á tonn. Þau gætu það. Öll nefndin stóð að þeim till. að fá þetta í gegn, en ríkisstj. hefur hins vegar kveinkað sér undan því að þurfa að knýja þetta í gegn og vísað þessu til útgerðarinnar.

Þá kom hæstv. forsrh. að því, að það væri rangt hjá mér að halda, að það munaði nokkuð um að taka í þennan stuðningssjóð togaranna dýrtíðarsjóðsgjaldið af bifreiðum, sem nemur 35% af fob-verði bifreiða. Og hann sagði, að þegar þetta gjald væri gefið eftir af bifreiðum, sem gengju til atvinnubílstjóra, þá gæti þetta ekki numið nema í kringum 2 millj. á ári. Nú vil ég aðeins benda hæstv. forsrh. á það, hver sem hefur upplýst þetta, að aukagjaldið af bifreiðum, sem lagt er á vegna togaranna, er 100% af fob-verði þeirra. Og við höfum verið upplýstir um það, að það muni af 1200 bifreiðum nema í kringum 18 millj. kr., og af því er áætlað að komi inn fyrir áramót um 15 millj. kr., en í kringum 3 millj. verði enn úti um áramót, vegna þess að bifreiðarnar séu ekki komnar. Nú sé ég það í hendi minni, að þegar lagt er á 35% gjald á sama stofn, á fob-verðið, þá er það ákaflega nærri því að vera um þriðjungur af þessu gjaldi. Og það er mesti misskilningur að halda því fram, að þetta muni ekki gefa nema 2 millj. kr., þó að bifreiðar til atvinnubílstjóra séu undanþegnar þessu gjaldi. Það er algerlega rangt með málið farið, og ég held að það sé rétt að láta reikna það upp á nýtt aftur.

En hitt aftur minntist hæstv. forsrh. svo ekkert á, hvort það væri ekki eðlilegt mál, að þetta dýrtíðarsjóðsgjald rynni einnig í þennan styrktarsjóð togaranna, þegar það er athugað, eins og ég minntist hér á, vegna hvers þetta gjald var lagt á á sínum tíma. Þetta var lagt á til þess að standa undir greiðslum úr ríkissjóði með útfluttum afurðum sjávarútvegsins.

Á sínum tíma var þetta lagt á þannig En þetta ákvæði stendur enn eftir í lögum. Á undanförnum árum, líklega tveimur eða þremur, hefur þetta gjald ekki gefið ríkissjóði neinar teljandi tekjur, vegna þess að bifreiðainnflutningurinn hefur nálega enginn verið eða sáralítill á gjaldeyrisleyfum. En nú, þegar þessi leið er valin til þess að leysa vandamál togaranna, að flytja inn mikið af bílum, þá vitanlega vaxa tekjur ríkissjóðs samkv. þessu lagaákvæði allverulega.

Það kom greinilega fram í mþn. í togaramálum, sem starfaði í sumar, að það virtist enginn ágreiningur vera í n. um það, að sjálfsagt væri, að dýrtíðarsjóðsgjaldið af bifreiðum rynni í þennan sjóð, sem hún þá talaði um á sínum tíma, ásamt nýjum bifreiðaskatti, sem á yrði lagður. En eins og ríkisstj. hefur framkvæmt þetta mál, þá hefur það tekið þá sköpun á sig, að ríkissjóður á að græða á því verulega frá því, sem verið hefur, að þessi leið er valin. Því er það, sem ég legg til, að það verði ákveðið, að þessi gjaldahluti renni í þennan sjóð til stuðnings við togaraútgerðina, en dagstyrkurinn verði jafnframt hækkaður, eftir því sem talið er að hækka megi hann, miðað við væntanlegar tekjur af þessu. Ég held, að mín áætlun í þessu sé varleg. Ég get vel gert grein fyrir því, hvernig mér telst til, að þetta komi út. Og við höfum verið upplýstir um það, að heildartekjurnar af þessum nýja bifreiðaskatti mundu verða vegna úthlutunarinnar, sem fram hefur farið núna fyrir áramótin, í kringum 18 millj. kr., kæmi að vísu ekki inn fyrir áramót nema 15 millj., en 3 millj. kæmu síðar. Heildarútgjöldin geta alls ekki orðið yfir 12 millj. kr. fram að áramótum. Þetta vorum við líka upplýstir um, enda auðreiknað. (Gripið fram í.) Ja, skrifstofustjórinn í atvmrn. kom á fund í sjútvn., og hann sýndi okkur bréf um, að þetta mundi nema um 18 millj. kr. — ég held 18.1 millj. kr. — en hins vegar væri gert ráð fyrir því, að ekki nema um 15 millj. gætu verið komnar inn af þessu um áramót, en 3.1 millj. kæmi eftir. (Gripið fram í.) Já, ég á eftir að koma að því. Þess vegna segi ég, að það verði væntanlega eftir í þessum sjóði um áramót, eða vegna úthlutunarinnar, sem fram fór nú í haust, um 6 millj. króna.

Nú hef ég viljað reikna með því, að innflutningur á bifreiðum yrði á næsta ári a.m.k. jafnmikill og hann hefur verið leyfður núna á þessu hausti, og þótti mér þá varlegt að reikna með því, að 100% skatturinn mundi gefa vegna úthlutunar á næsta ári aðrar 18 millj. kr., og þá eigum við til, með því, sem geymt var, þessum 6 milljónum, 24 millj. kr. En svo reiknaði ég hins vegar með því, að ef dýrtíðarsjóðsgjaldið yrði tekið vegna allra leyfanna, sem veitt eru á þessu ári, og vegna allra leyfa, sem veitt verða á næsta ári, þá mundi dýrtíðarsjóðsgjaldið nema um 12 millj. kr. samtals, eða að heildartekjur sjóðsins yrðu þá um 36 millj. kr., en það ætla ég að sé nægilegt til þess að borga hverju skipi 3000 kr. á dag í rekstrarstyrk. Verði það sannað, að áætlun mín í þessu efni sé of há, þá skal ég gjarnan fallast á það að lækka dagstyrkinn sem því nemur, því að ég hef ekki reiknað með því, að ríkissjóður þyrfti að greiða neitt af sínum föstu tekjum í þetta.

Ég held því, að það standi að öllu leyti, það sem ég hef sagt um þetta mál og það sem mþn. í togaramálum hefur sagt um það, að þörfin er alveg greinilega fyrir hendi að ganga mun lengra en ríkisstj. hefur gengið. En hitt tel ég mestu fjarstæðu, þegar það jafnvei gægist fram hjá jafnreyndum manni í þessum málum og hæstv. forsrh. er, að hann lauk máli sínu á þá lund, að það gæti jafnvei farið svo, bara með betra tíðarfari og einhverjum auknum afla, að togararnir þyrftu ekki á frekari stuðningi að halda. Ég held, að þetta segi enginn maður, sem hefur rannsakað þessi mál niður í kjölinn, að það séu nokkrar líkur til þess, að það sé hægt að hætta á það einu sinni enn, og ef það yrði gert, þá mundi svo fara sem ég sagði hér í minni fyrri ræðu, að togararnir hlytu að leggjast upp, eins og fór s.l. ár, og rekstur þeirra yrði á allan hátt miklu minni en æskilegt væri fyrir þjóðarheildina.

Ég skal svo ekki hafa þetta lengra, en vildi annars að lokum segja það, sem ég sagði líka hér í minni fyrri ræðu, — en ég hygg, að hæstv. forsrh. hafi ekki heyrt það, — að ef það er meining hæstv. ríkisstj., að sú lausn, sem hér verði gerð nú á þessu mikla vandamáli, sé aðeins bráðabirgðalausn, og hún er ákveðin í því að taka þetta mál fyrir að nýju strax eftir þinghlé, af því að henni sé það ljóst, að það þurfi að gera eitthvað frekar í þessum málum, þá get ég vel fallizt á það fyrir mitt leyti að draga til baka mínar till. og láta þær koma til athugunar í þeirri athugun, sem þá yrði gerð. En sé það hins vegar meiningin, að ríkisstj. geri sér verulegar vonir um það eða búist við því, að afgreiðsla málsins í því formi, sem hún nú styður, sé endanleg afgreiðsla í málinu, þá vitanlega held ég mér við mínar till., sem ég álít að þurfi allar að samþykkjast, ef það eigi að vera von um að tryggja rekstur togaranna á mæsta ári.

Eitt atriði var það, sem kom hér fram fyrr í umr., m.a. frá hv. 5. landsk. þm.; það var ákvæði í sambandi við nýjustu togarana, þessi tíu nýjustu skip, sem búa við nokkra sérstöðu. Mþn. í togaramálum lagði til, að ríkisstj. léti athuga sérstaklega, hvernig ætti að fara með hinn háa stofnkostnað þeirra skipa. Ég er fyllilega samþykkur þeirri till., sem hv. 5. landsk. hefur lýst hér varðandi þetta mál, en ég vildi um leið mega skjóta því m.a. til hæstv. forsrh. og ríkisstj. í heild, að nýjustu skipin, sem óneitanlega búa þarna við dálítið sérstaka aðstöðu, hafa auk þess þurft að búa við þau vandkvæði nú að undanförnu, að þau hafa ekki einu sinni fengið ríkisstyrkinn greiddan nema að litlu leyti. Þessum ríkisstyrk, 2000 króna dagstyrk, hefur verið haldið eftir hjá þeim. Fjármál þessara skipa hafa ekki verið að öllu leyti í lagi við ríkissjóð, og ríkissjóður hefur ákveðið það, að þau skyldu ekki fá þennan styrk nema að litlu leyti greiddan. Þau eru því enn þá af þeirri ástæðu núna verr sett en nokkur önnur skip í togaraflotanum, og það minnsta, sem þyrfti að gera í þessu efni, er þó að kippa til bráðabirgða þessu í lag og láta þau fá þennan styrk að fullu greiddan, og vildi ég nú mælast til þess, að það yrði athugað, þó að um bráðabirgðalausn á málinu yrði nú að ræða.