15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Lúðvík Jósefsson:

Það var aðeins örstutt athugasemd. Ég hef ekki miklu við að bæta í tilefni af ræðu hæstv. forsrh., vildi aðeins segja það, að það gleður mig að heyra frá honum, að það standi til að eyða fé á næsta ári, allt að 700 þús. kr., í sambandi við leit að nýjum fiskimiðum. Ég er sannfærður um, að það getur lagað mikið fyrir togurunum, og sú fjárveiting mun vissulega margfalt borga sig.

Um þau atriði, þar sem hann gerði athugasemdir við mína ræðu, þá sé ég nú ekki ástæðu til að fara í neinar endurtekningar.

Ég fann það, að hann hafði að einhverju leyti misskilið minn útreikning. Það kann að vera, að ég hafi ekki haldið sem skýrast á því, en þó held ég, að það hafi verið alveg fyllilega ljóst, að mþn. í togaramálum hafði gert ráð fyrir því, að meðaltogari þyrfti að fá bættar tekjur, sem samsvara 950 þús. kr., og ég held, að það hafi líka verið skýrt, af því að þar vitnaði ég til álits hv. 3. þm. Reykv. (BÓ), að hann hélt því fram í sinni ræðu eins og ég, að kauphækkanir hefðu orðið a.m.k. 150 þús. kr. meiri en n. gerði ráð fyrir í sinni áætlun, og þannig erum við komnir í 1100 þús. alveg óumdeilanlega. Auk þess var svo það, sem ég minntist á og kemur mjög greinilega fram í nál. mþn., að hún segir, að raunveruleg afkoma árið 1953 er a.m.k. 100 þús. kr. lakari en þessar 400 þús. á reikningunum sýna. Þetta stendur greinilega í nál. frá mþn. í togaramálum, og þannig erum við alveg óumdeilanlega komnir í 1200 þús. kr. Auk þess eru svo þær fríðindatill., sem n. lagði fram og mat ekki sérstaklega til fjár, en ég vildi telja um 200 þús. kr., og eru þá komnar þessar 1400 þús. Það er alveg rétt, að það er vitanlega hægt að deila um það, hvort þetta er heldur ofáætlað hjá mér eða vanáætlað. Það getur ekki skipt neinu verulegu máli, hvort hefði komið út úr mínu dæmi, að það vantaði enn 700 þús. eða 800 þús. En það sýnir aðeins það, sem ég vildi að kæmi fram í þessu, að það er fjarri því, að þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur enn gert, fullnægi þeim óskum, sem mþn. taldi að þyrfti að verða við í þessum efnum.

Ég vildi aðeins segja það í sambandi við athugasemdir hæstv. forsrh., að það er ekki rétt túlkað af honum að halda því fram, að mþn. í togaramálum og ég þar með talinn — við höfum ekki ætlazt til þess, að launabætur til skipverja yrðu meira en 300 þús. Við höfðum auðvitað enga aðstöðu til þess á þessum tíma að segja til um það með neinni nákvæmni, hvað þessi útgjöld yrðu mikil. Það var bent á það réttilega í n., að það væri ekki réttmætt, að þessi nefnd færi t.d. að slá því fram, að það væri líklegt, að launabæturnar yrðu 500 þús., því að þá yrði beinlínis því haldið fram í væntanlegum samningum, að opinber nefnd væri búin að áætla þetta 500 þús. Hins vegar komst n. svo að orði, því að það var alveg augljóst mál, að minni kjarabætur var ekki um að ræða, að það yrði ekki um lægri upphæð að ræða en 300 þús.

Ég vil ekkert segja um það fyrir mitt leyti, að í þeim samningum, sem fram fóru á milli Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda og sjómannafélaganna og ég áætla að hafi leitt til 450 þús. kr. útgjaldahækkunar, hafi togaraeigendur gengið lengra en þeir hefðu getað. Og ég álit, að mín umsögn í nál. hjá mþn. sé ekki á nokkurn hátt í mótsögn við þessa niðurstöðu. En það er staðreynd, að við tókum ekki inn í okkar heildartölu, inn í þessi 950 þús., nema 300 þús. vegna þessa, en hins vegar er það jafnframt staðreynd, að þessi tala hefur orðið í framkvæmd 450 þús., og af því ber að hækka töluna 950 þús. sem því nemur.

það, sem mestu skakkar í sambandi við það, sem ég hélt fram og hæstv. forsrh. nú segir, er í sambandi við áætlaðar tekjur af bilainnflutningi. Hann heldur því fram samkv. upplýsingum frá einhverri n., að það sé ekki hægt að áætla, að tekjurnar af bilaskattinum verði nema 29.5 millj. kr. fyrir bæði árin 1954 og 1955. Ég hef séð útreikning frá þessum sömu aðilum, þar sem þeir gerðu ráð fyrir því, að úthlutun bílanna í haust mundi gefa í kringum 18.1 millj., en af þeirri upphæð kæmu ekki inn fyrir áramót nema 15 millj. kr. Hitt er svo alveg augljóst mál, að það renna allir blint í sjóinn um það, hvað má áætla mikinn bílainnflutning á næsta ári. Sumir segja: Það er óvarlegt að áætla nema 500 bíla og skatt af því. — Aðrir segja: Það er óhætt að áætla 1500 bíla. — Ég fyrir mitt leyti hef viljað halda mér við það að áætla, að bílainnflutningur á næsta ári eða ný leyfi veitt á næsta ári mundu jafngilda a.m.k. þeim leyfisveitingum, sem fram fóru núna á þessu hausti, og að kaupmarkaðurinn hér þoli það. Það er vitanlega hægt að deila um það, hvort þetta er ofmetið eða ekki. Ef þessi áætlun mín væri rétt, þá mundi þetta gefa aðrar 18 millj. í tekjur, þegar allt kemur til alls.

Ég er sannfærður um, að hæstv. forsrh. viðurkennir, að það getur enginn sagt með neinni vissu, hvað muni koma inn af þessum skatti. Ég álít, að þessi áætlun, sem hér liggur fyrir, að þetta verði 29.5 millj., sé allt of lág. En það getur líka verið, að mér missýnist í því.

Eins er það með útgjöldin. Ég er alveg sannfærður um það fyrir mitt leyti, að útgjaldahliðin í þessu efni, sem hæstv. forsrh. minntist á, er teygð alveg til hins ýtrasta. Það er gert ráð fyrir því, eftir því sem hann las nú upp, að útgjöldin með 2000 kr. dagstyrk verði á næsta ári 27 millj. kr. Svona getur styrkurinn ekki orðið mikill, nema lagt sé til grundvallar, að hvert eitt og einasta skip í flotanum af 43 hafi a.m.k. 315 úthaldsdaga. En reynslan er nú sú, að það fer alltaf svo, að allmörg skip heltast úr lestinni um nokkra mánuði á hverju ári, og það eina, sem væri eðlilegt í þessu efni, er að miða við reynslu um úthaldsdaga að verulegu leyti, og þá hygg ég, að mín tala væri miklu eðlilegri, að reikna þarna með, að útgjöldin yrðu ekki 27 millj., heldur um 23-24 millj. í hæsta lagi.

Þá var það þessi aukatekjulind, sem ég hafði minnzt á, sem sagt, að dýrtíðarsjóðsgjaldið, 35% gjaldið, rynni í sjóðinn til viðbótar og þannig mætti hækka nokkuð fjárveitingarnar til skipanna. Mér er sagt það að vísu, og ég hef orðið þess var í einstaka tilfellum, að ríkisstj. hefði verið að gefa eftir þennan skatt, og mér er nú spurn: Hvaðan kemur sú heimild? Ég hef ekki rekið mig á það, að það sé nokkur heimild til í lögum um að vera að gefa einstökum mönnum þetta eftir. Mér er sagt t.d., að einn nokkuð stór bilakóngur hér í bænum hafi fengið núna á þessu hausti 1/4 millj. kr. eftirgefinn í sambandi við þennan skatt. Mér þykir það heldur lagleg eftirgjöf. En þessi skattur er af fólksbilum yfirleitt 8–10 þús. kr., þegar hann er greiddur. En ef ríkisstj. gefur mörgum aðilum þennan skatt eftir og gefur t.d. þetta eftir af öllum sendiferðabílum, en fjöldi fólksbila er nú orðið fluttur inn undir heitinu sendiferðabíll, þó að það sé auðvitað glögglega fólksbíll, þá getur þessi skattur auðvitað molnað niður í það að verða sáralítill. En ég held, að það sé engin ástæða til þess. Og alveg eins og ég fyrir mitt leyti gat samþykkt að leggja allháan innflutningsskatt á bila til stuðnings togaraútgerðinni, þegar þannig standa sakir, eins er ég á því, að eftirgjöf á þessum skatti verði að fara varlega fram og sé engin ástæða til þess að skera hann svona hrottalega niður eins og þessi áætlun bendir til.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að draga aftur mínar till. í tilefni af því, sem hér hefur komið fram í þessum umræðum. Hæstv. forsrh. sagði, að hann vildi ekki gefa hér nein fyrirheit um það, að þetta mál yrði tekið fyrir til frekari afgreiðslu síðar, og vildi, að mér fannst, enn gera ráð fyrir því, að sérstök höpp gætu komið fyrir, t.d. í sambandi við aukinn afla og fleira, þannig að það væri enn ekki vonlaust um það, að togararnir gætu komizt af með þennan stuðning. En þó að tekið sé tillit til alls hins bezta, sem leyfilegt er að áætla í þessum efnum, þá er ég alveg sannfærður um það, að enn vantar mikið á, að það megi búast við því, að togararnir geti sloppið. Þess vegna tel ég, að það þurfi að auka við stuðninginn eins og mínar till. benda til. Mér þykir það miður, að ríkisstj. vill ekki lofa því á þessu stigi málsins, að þetta verði tekið til frekari athugunar eftir þinghléið. Ég hafði satt að segja nokkra ástæðu til að halda, að það væri ætlunin, mér hafði heyrzt það meira að segja á ýmsum, sem með þetta mál hafa að gera, og ég er ákaflega hræddur um, að yfirlýsingar um hið gagnstæða, að engin fyrirheit verði gefin um það, muni beinlínis ýta á, að togaraflotinn stöðvist, eins og togaraeigendur hafa nú gert samþykktir um. En því verður ekki neitað, að togaraeigendur eru orðnir nokkuð langþreyttir í þessu, því að þeir eru almennt sagt heldur illa haldnir.

Ég get svo að lokum ekki varizt að minnast á það, að í einu tilfelli hefur ríkisstj. sjálf gripið beint inn í rekstur togara nú að undanförnu. Hún setti einn bæjarfélagi þau skilyrði, að bærinn hætti að annast um rekstur sinna skipa og setti valinkunna menn, að sínum dómi eflaust, stjórn síldarverksmiðja ríkisins, til þess að reka þessi skip. Reikningar þeirra liggja alveg greinilega fyrir. Og þar með hefur ríkisstj. fengið trúverðuga menn til þess að sýna sína reikninga og hvernig þessi beini ríkisrekstur á togurunum hefur síðan komið út. Það er ekkert launungarmál, að rekstrartap á fyrstu 9 mánuðunum, sem þessi nýja stjórn gerði út þau tvö skip, var hartnær 2 millj. kr. án allra afskrifta.

Ég er líka alveg sannfærður um það, að þegar ríkisstj. lætur nú til leiðast á eðlilegan hátt og lofsverðan hátt vil ég segja — að aðstoða ýmis byggðarlög úti á landi til þess að fá togara til atvinnuaukningar þar, í fátæk byggðarlög, sem búa ekki yfir neinni sérstakri reynslu með rekstur þessara skipa, þá mun það sannarlega koma í ljós, að ríkisstj. kemst ekki undan því að færa þeim á eftir í rekstrarstuðning stórar fjárfúlgur. Enn fremur mun það koma í ljós, að verði þau frv. samþykkt, sem hér liggja nú fyrir frá stuðningsmönnum ríkisstj. um að hefja beina ríkisútgerð á togurum til atvinnujöfnunar, þá hygg ég, að ríkisstj. fari að sannfærast um það betur og betur að fenginni reynslu, að kvartanir frá hálfu útgerðarmanna eru sannarlega ekki að ástæðulausu í þessu efni og að það þarf að taka þessi mál til frekari úrlausnar heldur en gert hefur verið.