15.12.1954
Neðri deild: 31. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það skal ekki verða langt, því að ég skal ekki blanda mér neitt verulega í umræðuetni þeirra hæstv. forsrh. og hv. 11. landsk. um það, hvor þeirra hafi meiri þekkingu á togaraútgerðarmálum. Ég veit, að þeir eru báðir mjög fjölfróðir um þau efni, og skal mér ekkert í það blanda. En hitt vil ég fullyrða og benda á, að okkur nefndarmönnum öllum úr milliþn. ber saman um það, að meðtöldum hv. 3. þm. Reykv., sem var formaður n. og hér talaði áðan, að það framlag til aðstoðar útgerðinni, sem hér er rætt um, muni engan veginn nægja. Það má svo aftur að einhverju leyti sjálfsagt deila um það, hvað mikið vanti á og hvernig ætti að taka það, ef út í það yrði farið. Eins og hæstv. forsrh. minntist hér á áðan, þá er ekki gott að leggja nýja skatta á þjóðina til þess að ná þessu upp.

En ég vil benda á eitt atriði í þessu sambandi, sem er mjög athyglisvert. Það vill þannig til á síðustu vertíð, að mótorbátarnir fiskuðu verulega miklu meira en þeir gerðu á undanförnum vertíðum. Við það vex sú aðstoð, sem þeir fá. Samkvæmt þeim athugunum, sem við gerðum í vor í mþn. um togarana, leit út fyrir, að bátagjaldeyririnn mundi hækka á þessu ári, 1954, úr um 75 millj. upp í 100 millj, kr., miðað við þær upplýsingar, sem við höfðum þá, en að vísu voru ekki endanlegar tölur. En þetta kemur allhlálega út, þegar þegjandi og hljóðalaust er hækkaður um 25 millj. styrkurinn til mótorbátanna, vegna þess eins, að afli þeirra hefur vaxið, en samtímis má ekki hugsa sér að bæta svipaðri upphæð við togarana, samtímis því sem þeirra afli hefur minnkað. Á þessu tvennu tel ég vera höfuðmun, hvort það sé ástæða til að láta styrkinn til útgerðarinnar, hvort sem það eru nú bátar eða togarar, vaxa þegar aflinn vex og afkoman batnar, eða láta hann vaxa þegar aflinn verður lélegri og afkoman þar með náttúrlega lélegri. En ég hef nú ekki heyrt það nefnt, að það hafi valdið neinum sérstökum örðugleikum eða umþenkingum hjá hæstv. ríkisstj. að hækka bátagjaldeyrisálagið á þjóðina um þessar 25 millj., sem talið er líklegt að það muni vaxa um á þessu ári, vegna þess að mótorbátarnir bættu við sig allverulegum afla á vertíðinni.

Þetta er annað atriðið, sem ég vildi leyfa mér að benda á. En hitt atriðið er út af því, að mér hefur verið mjög hugleikið í þessu sambandi að bæta afkomu nýjustu togaranna í samanburði við þá eldri, sem er, eins og ljóslega hefur komið fram hér í umræðunum, lakari vegna hins hærra kaupverðs. Mér hefur verið tjáð, að hæstv. ríkisstj. hafi haldið eftir styrknum til þessara skipa, 2000 kr. á dag á skip, á nýju skipin. Ef það er gert til þess að mæta ófullnægðum skuldbindingum við ríkissjóðinn, þá vil ég vænta þess, að þessu verði nú hætt, þegar komin er fram till., að því er virðist með samþykki hæstv. ríkisstj., um .að fresta þessum greiðslum svipað og stofnlánum, eða það hefur mér skilizt, og ætti þá ekki að vera ástæða til að halda þessum 2000 kr. eftir nú, þegar greiðslufrestur verður veittur á lánunum um tvö ár. Það, sem mig þess vegna langar til að spyrjast fyrir um, er þetta: Verður haldið áfram að halda eftir þessum 2000 kr., sem nýjustu togararnir eiga að fá, eða verður þeim greidd þessi upphæð eins og öðrum?