15.12.1954
Efri deild: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virðist þetta frv. gefa nokkuð glögga mynd af því ástandi, sem nú er í atvinnumálum þjóðarinnar að dómi hæstv. ríkisstj. sjálfrar. Það verður að segja það eins og er, að þessum atvinnuveg virðist stofnað í fullkomið öngþveiti, þegar það er viðurkennt af ríkisstj. sjálfri, að gera þurfi ráðstafanir til þess að greiða dagpeninga til hvers togara, 2000–3000 kr. á dag.

Ef leitað er að orsökunum til þessa ástands, virðist mér, að það þurfi ekki langt að leita. Auk þeirrar stórfelldu hækkunar á öllum tilkostnaði, sem hefur orðið á rekstri þessara skipa við gengislækkunina sjálfa, hefur hlotið að leiða enn stórfellda kostnaðaraukningu af bátagjaldeyrinum, þeirri óbeinu gengislækkun, sem þar er framkvæmd og á engan hátt greiðir fyrir togurunum, en þunginn af honum lendir á þeirri starfsemi eins og allri annarri starfsemi í landinu. Ástandið er nú þannig, að mér skilst, að afli togaranna er greiddur með hér um bil þriðjungi lægra verði en afli vélbátanna, en tilkostnaður þeirra hefur að sjálfsögðu, eins og ég áðan sagði, aukizt, auk þess sem gengislækkunin olli, einnig vegna bátagjaldeyrisálagsins. Það er því mjög auðskilið mál hverjum, sem vill á það lita réttum augum, að horfurnar fyrir rekstur togaranna með 80–90 aura verði á kg af fiski hljóti að vera fullkomlega vonlausar, ef vélbátaflotinn þarf að fá upp undir 1.30 fyrir hvert kg af fiski, eða nærri 50% hærra en togararnir fá. Þetta er staðreynd, sem verður að horfast í augu við og gera sér ljósa, þegar rætt er um þessi mál.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um það, að það væri hið mesta áfall fyrir atvinnulíf þjóðarinnar, ef þessi stóri floti okkar, togaraflotinn, stöðvaði rekstur sinn. Einmitt þess vegna vildi ég leyfa mér strax nú við 1. umr. að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort hann telur tryggt með þeim aðgerðum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að togararnir geti haldið áfram rekstri. Til þess þarf tvennt: í fyrsta lagi vilja útgerðarmanna eða þeirra, sem skipunum ráða, og í öðru lagi að tryggja þeim rekstrarfé, svo að þeir geti haldið áfram, ef þeir vilja. Og mér þætti mjög æskilegt, ef hæstv. ráðh. undir meðferð málsins vildi upplýsa þetta tvennt: í fyrsta lagi, hvort útgerðarmenn vilja ráðast í það að gera út með þeim stuðningi, sem hér er veitt fyrirheit um, og í öðru lagi, hvort bankarnir þá tryggi þeim nauðsynlegt rekstrarfé í þessu sambandi, því að ef það er ekki fyrir hendi, þá nægir ekki vilji útgerðarinnar og þá eru þessar ráðstafanir, sem hér er um að ræða, gagnslausar með öllu. Þing kemur ekki saman fyrr en í febrúar aftur, er mér sagt, en með réttum hætti ættu togararnir að halda áfram óslitnum veiðum nú strax upp úr áramótunum.

Það verður að segja það eins og er, að það er fullkomið neyðarúrræði að ákveða framlag úr ríkissjóði og leggja á sérstaka skatta til þess að greiða beinan styrk á hvern úthaldsdag til togaranna, jafnvel þótt miðað sé við hvern úthaldsdag, sem ég út af fyrir sig tel heppilegt fyrirkomulag, fyrst styrkurinn er greiddur, til þess að halda sem lengst út. Ég er sammála hæstv. ráðh. um það. En það, sem mig í raun og veru furðar á í þessu sambandi, er, að mér virðist, að ekkert af þeim ábendingum, sem mþn., sem rannsakaði hag togaranna, tók til athugunar og benti ríkisstj. á, skuli hafa verið athugað eða ráðstafanir gerðar í sambandi við það á þeim langa tíma, sem liðinn er frá því er öngþveitið í togaramálunum hófst.

Hæstv. ráðh. sagði að vísu, að af því, sem n. hefði nú bent á, hefði nokkuð áunnizt í einu atriði, því atriðinu að fá nokkra hækkun á afurðaverðinu. Hvað það er mikið, gat hann ekki um, og mér er það ekki kunnugt, en ég hygg þó, að það láti nærri, að verðmunur á bátafiski og togarafiski sé sá, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar. Um lækkun á tilkostnaði virðast hins vegar ekki hafa verið gerðar neinar athuganir, eða ekki kom það fram í ræðu hæstv. ráðh.

Ég vil leyfa mér að minna á, að í upphafi þessa þings bar hv. 5. landsk. (EmJ) fram í Nd. till. til þál. um aðstoð við togaraútgerðina. Þar var gert ráð fyrir því, að ríkisstj. yrði falið að hrinda í framkvæmd eftirfarandi atriðum til viðreisnar togaraútgerðinni:

Í fyrsta lagi, að stofnlán togaranna verði lengd um 2 ár og niður falli afborganir, annaðhvort fyrir árin 1953 og 1954 eða 1954 og 1955. Þetta atriði hefur verið tekið upp í frv.

Í öðru lagi, að hlutazt verði til um útvegun bráðabirgðalána handa þeim útgerðarfélögum, sem þess þurfa til þess að halda uppi venjulegum rekstri. Þetta snertir þá fyrirspurn, sem ég beindi til hæstv. ráðh. í upphafi ræðu minnar. Er það tryggt, að rekstrarlán fáist fyrir þá togara, sem menn vilja gera út, án tillits til þess, hvernig efnahagur þeirra að öðru leyti er?

Í þriðja lagi, og það tel ég veigamest, að togaraútgerðinni verði tryggð stofnlán til þess að koma á fót fiskverkunarstöðvum eða eignast

þær, sem þegar eru fyrir hendi, svo að togaraútgerðarfélögin hafi sjálf aðstöðu til að vinna úr afla sínum án kostnaðar til milliliða. Ég tel, án þess að ég sé málinu jafnkunnugur og hæstv. ráðh. óefað er, að ekki sé nokkur minnsti vafi á því, að afkoma útgerðarfélaganna yrði stórum betri, ef þau hefðu aðstöðu til þess að fullvinna afla sinn og kæmust hjá því að láta þá milliliði, sem nú hafa það starf með höndum, taka skatt af vörunni, sem fer um þeirra hendur. Ég hygg líka, ef það er athugað, að það muni sýna sig, að einmitt þau útgerðarfélögin, sem hafa bezta aðstöðu til fullrar vinnslu á sínum afurðum, hafi að jafnaði skilað beztri afkomu.

Loks er svo um flutningsgjöld og um verð á olíu, sem eru stórkostlega þýðingarmikil atriði. Ég vildi mega vænta þess, þótt ekki liggi fyrir um það grg. frá hæstv. ríkisstj., að hún hefði athugað þessa möguleika til viðbótar því beina framlagi, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði til togaraútgerðarinnar, því að vissulega eru þetta miklu eðlilegri leiðir að fara í þessu efni, ef eitthvað er hægt að vinna á á þeim sviðum, heldur en að greiða beinan styrk úr ríkissjóði. Sérstaklega vildi ég beina því til hæstv. ríkisstj., ef hún vildi upplýsa það, hvort hún hefur í hyggju eða hefur undirbúið ráðstafanir til þess að gera togaraeigendunum fært að vinna sjálfir úr afla sínum.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja umr. á þessu stigi málsins, en tel mikilsvert, að upplýsingar um þetta komi fram, hvort þess er að vænta, að einmitt á þessum sviðum megi vinna eitthvað upp í það, sem til vantar eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, að þau beinu fjárframlög úr ríkissjóði, sem ætlazt er til að séu veitt úr honum, nægi til þess að skapa togurunum rekstrargrundvöll.

Ég skal svo láta þetta nægja í bili og mun þá síðar taka til máls, ef tilefni gefst til.