15.12.1954
Efri deild: 33. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 4. þm. Reykv. spurði, hvort ríkisstj. hefði um það vitneskju, að þær uppbætur, sem þetta frv. flytur útgerðinni, nægðu til þess að tryggja áframhaldandi rekstur útgerðarinnar, því að til þess þyrfti tvennt: í fyrsta lagi vilja útgerðarmanna og í öðru lagi getu þeirra, þ.e.a.s. möguleikana til lánsfjáröflunar í þessu skyni.

Ég get ekkert um þetta sagt, ekkert fremur en ég gæti svarað þessari spurningu, þó að við samþykktum þúsund króna hækkun á dagbæturnar. Reyndin verður að skera úr um það. Ég veit, að þegar ríkisstj. tók þessar ákvarðanir í ágústmánuði, þá mæltust þær vel fyrir hjá útgerðarmönnum. Ég veit einnig, að margir útgerðarmenn hafa sagt mér nú, að þetta nægi ekki, en ég hef fært rök fyrir því í minni fyrri ræðu, hvers vegna ég treysti mér ekki til að bera fram frekari till. á þessu stigi málsins í þessum efnum.

Ég vil aðeins segja hv. 4. þm. Reykv. frá því, að í Nd. kom fram sú skoðun, að jafnvel skorti 800 þús. kr. árlega handa hverjum togara í viðbót við þau fríðindi, sem frv. færir útgerðinni, til þess að tryggður væri hallalaus rekstur á meðaltogara. Sá maður, sem því hélt fram, flutti þó ekki till. um nema hækkun um 1000 kr. á uppbótunum daglega, sem ekki eru þó nema 300 þús. kr. af þeim 800 þús., sem hann taldi nauðsynlegar, til þess að útgerðin gæti heitið tryggð.

Ég endurtek þess vegna, að ég get ekki svarað því, hvort útgerðarmenn vilja gera út upp á þessi kjör, ekki heldur, hvort bankarnir vilja lána öllum útgerðarmönnum áframhaldandi, frekar en ég gæti svarað þessari spurningu, þó að bæturnar væru hækkaðar um 1000 kr. á dag. Reyndin sker úr um það. En ég endurtek það, sem ég áðan sagði, að ég geri ekki útgerðarmönnum neinar getsakir um það, að þeir reyni ekki til hins ýtrasta að standa undir skyldu sinni gegn þjóðfélaginu um að hindra stöðvun þessara tækja, meðan auðið er. Ég geri ekki heldur bönkunum getsakir um það, að þeir skilji ekki þessa sína skyldu eins og aðrir. Það gefur svo auga leið um það, að ef útgerðin á áfram að búa við hallarekstur, þá stýrir það ekki lukku og kallar þá á einhverjar aðrar ráðstafanir í þessum efnum. Það er svo um þennan atvinnurekstur eins og allan annan, að hann þolir hallarekstur um skeið, en ekki til frambúðar. En það er náttúrlega ekki hyggilegt af okkur, sem eigum að heita umboðsmenn almennings í landinu, að vera að hampa því úr hófi, að við séum reiðubúnir að leggja nýja skatta á þjóðina til þess að rétta ný fríðindi að útgerðinni, fyrr en við sjálfir höfum fengið sannfæringu um það, að útgerðin komist ekki af án þessa. Það er svo um útgerðarmenn eins og aðra, að ef þeir halda, að þeir með kröfuhörkunni geti fengið sitt fram, þá stendur ekki á henni. En við skulum ekki eiga neitt frumkvæði að því. Það voru mætir útgerðarmenn, sem gerðu þessar till. til stjórnarinnar, eins og ég áðan gat um, hv. 3. þm. Reykv. (I3Ó), hv. 5. landsk. (EmJ) og hv. 11. landsk. (LJós), og þó að eitthvað hafi syrt í álinn síðan, þá megum við ekki láta stjórnast af stundarfyrirbrigðum, sem þá eins geta breytzt til hins betra eins og til hins verra. Nefni ég þar eitt lítið dæmi, að ríkisstj. studdi leit eins togara að nýjum fiskimiðum á s.l. ári. Það kom aldrei til, að þetta kostaði ríkissjóð eyri, vegna þess að lánið lagði okkur það til, að þessi leitartogari lenti strax í góðum afla. Þessi leit varð þess valdandi, að útgerðin fékk milljónir — ef ekki milljónatugi — í aukinn arð vegna þessara tilrauna. Nú hefur ríkisstj. ákveðið og beðið um samþykki Alþ. til þess að nokkru leyti og mun sækja um víðtækara samþykki, áður en lýkur, að verja álitlegri fúlgu til þess að halda áfram slíkri leit í ríkara mæli. Og þó að ég þori ekki að vera svo bjartsýnn að segja, að þetta geti leitt til stórvægilegra breytinga til hagsbóta útveginum, þá er þó þetta eitt af því, sem getur gert það. Aukin aflabrögð, jafnvel bætt verðlag, betra tíðarfar en við höfum átt við að búa í haust og ýmislegt annað fleira getur bætt úr. En okkur ber að sjálfsögðu, sem hér erum, að fara varlega í það að gerast um of talhlýðnir við kröfuhörkuna, hvaðan sem hún kemur, þegar talhlýðnin kostar nýjar byrðar á herðar almenningi í landinu, sem þó að eigin dómi og jafnvel okkar ber þungar klyfjar nú þegar.

Hv. þm. fann nokkuð að því, óbeint ef ekki beint, að ríkisstj. hefði ekki verið nægilega skelegg um að hrinda í framkvæmd tillögum, sem n. hafði bent á og sumpart eru teknar upp í sérstakrí tillögu frá hv. 5. landsk. (EmJ), til niðurfærslu á kostnaði við útgerðina. Ég gat um það áðan, að veigamesti liðurinn þeirra úrbóta, sem útgerðin átti að fá eftir öðrum leiðum en beinu framlagi af almannafé, var hækkun á fiskverði, og sú hækkun hefur náð fram að ganga. Ég vil ekki staðhæfa um of, hverju hún nemur, en þó sögðu umboðsmenn útgerðarmanna mér, að fyrir suma togarana gæti sú hækkun á fiskverði, sem orðið hefur, numið tæpum 150 þús. á ári, þegar miðað er við heilt ár.

Annar liður, sem þarna er um að ræða, er olían, sem ég gat um í minni frumræðu, og sú lækkun er þegar komin í framkvæmd.

Aðrir liðir, eins og lækkun á vátryggingargjaldi, eru náttúrlega ekki þess eðlis, að stjórnin geti ráðið um það; því verða útgerðarmenn sjálfir að beita sér fyrir, eins og þeim ber almennt talað að beita sér sjálfum fyrir þessum lækkunum, sem um er að ræða. Ríkisstj. hefur hins vegar boðið útgerðinni sína aðstoð eftir föngum í þeim etnum og falið skrifstofustjóra í atvmrn., Gunnlaugi Briem, að ræða um það bæði við útgerðarmenn og við þá menn aðra, sem þarna eiga hlut að máli og kröfur eru gerðar til í þessum efnum.

Ég held, að það hafi ekki verið annað, sem hv. þm. spurði um, heldur en þetta, að því viðbættu, að hann gat um, hverra hagsmuna útgerðin ætti að gæta í því að fá aukna aðstöðu til þess sjálf að eiga sínar vinnslustöðvar. Stjórnin skilur vel það sjónarmið, og ýmsir togaraeigenda hafa þegar leitað til Framkvæmdabankans um lántökur til þess einmitt að eignast frystihús og aðrar vinnslustöðvar. Framkvæmdabankinn mun gera það, sem hann getur, til að verða við þeim beiðnum. Ríkisstj. hefur hins vegar ekki aðrar leiðir í þeim efnum heldur en að leita til innlendra banka eða að beita sér fyrir erlendum lántökum í þessu skyni. En það er nú svo um okkur Íslendinga, að við þykjum nokkuð greiðgengir í augum erlendra lánveitenda, og við þykjum fara fram á lán til margra framkvæmda í senn. Og þó að þær framkvæmdir séu ekki dæmdar út af fyrir sig óskynsamlegar, þá þykir öðrum, sem féð eiga að lána, sem við verðum að gæta nokkurs hófs í því, hvað mikið við færumst í fang í einu. En við förum ekki dult með það í stjórninni frekar en aðrir hv. þm. gera, að hér er náttúrlega mikil þörf á erlendu fé í margvíslegum tilgangi. Við þurfum meira fé í landbúnaðinn, við þurfum meira fé í hafnir, við þurfum meira fé í skipabyggingar, við þurfum meira fé í vinnslustöðvar, og við þurfum meira fé í margt annað, auk sementsverksmiðjunnar, sem við höfum nú verið lengi að basla við. En það er nokkuð sitt hvað, að við Íslendingar skiljum okkar þarfir, teljum óhætt að lána okkur og þeim peningum vel borgið, sem í framleiðslustarfsemi fara hjá okkur, og svo hitt, hvaða augum aðrir menn líta á okkar athafnir á þessu sviði, bæði um það, að við séum ekki nægilega varfærnir um að tryggja hallalausan rekstur okkar framleiðslustarfsemi, og auk þess of stórhuga.