15.12.1954
Efri deild: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. sjútvn. tók alveg réttilega fram, að n. hefur í því hléi, sem gefið hefur verið nú á milli funda, tekið þetta frv. til athugunar. Tími sá, sem n. hefur haft til umráða, hefur verið svo naumur og takmarkaður, að engin sérstök athugun hefur getað farið fram á frv. á þeim tíma. Hins vegar má taka það fram, að þetta frv. hefur legið fyrir hv. Nd. nú um nokkurn tíma og orðið dálítill dráttur á afgreiðslu þess þar. Frv. er því ekki ókunnugt hv. dm., þó að ég hins vegar verði að harma, að það skyldi ekki koma fyrr í þessa hv.d., til þess að tækifæri gæfist til að athuga frv. betur en raun er nú á orðin.

Í frv. eru ýmis atriði, sem mjög hefði verið æskilegt að tækifæri hefði gefizt til að kynna sér betur í n. en hægt var á þessum stutta tíma. Auk þess hefði verið mjög æskilegt, að þessi hv. n. hefði getað fengið tækifæri til þess að hafa tal af forsvarsmönnum togaraútvegsins til þess að heyra, hvað þeir hefðu um þetta mál að segja og hvort þeir teldu, að þau bjargráð, sem boðið er upp á í frv., væru fullnægjandi til þess, að þeir gætu haldið áfram rekstri sínum. En um þetta er ekki að sakast. Frv. kom ekki hér í þessa hv. d. fyrr en í dag, og hæstv. ríkisstj. leggur á það megináherzlu, að frv. verði afgr. nú út úr d. á þessari nóttu, enda þótt ekki sé kostur á að athuga það eins og æskilegt hefði verið.

Þegar hæstv. fyrrv. ríkisstj. var mynduð á öndverðu árinu 1950, var eitt hennar meginviðfangsefni að reyna að ráða fram úr þeim erfiðleikum, sem bátaútvegurinn átti þá við að búa. Talið var, að þá væri mikill rekstrarhalli á bátaútveginum og að mjög ískyggilegt útlit væri fram undan.

ríkisstj., sem mynduð var á öndverðu ári 1950, taldi ekki fært að halda áfram á þeirri braut, sem við höfðum verið á, og taldi nauðsynlegt að gera sérstakar, róttækar ráðstafanir til að ráða fram úr vandræðum bátaútvegsins.

Það bjargráð, sem sú hæstv. ríkisstj. greip til og var enda mynduð til að grípa til, var að lækka gengi íslenzkrar krónu. Á það var þá bent af andstæðingum ríkisstj., að gengislækkunin væri ekki aðeins vafasöm lausn fyrir bátaútveginn, heldur tvímælalaust sú dýrasta og þungbærasta lausn, sem hægt væri að fá á þeim vanda fyrir allan almenning í landinu. Var þá á það bent, að með gengislækkuninni væri fleiri hundruð millj. kr. bagga velt yfir á allan almenning í landinu, án þess að það væri á nokkurn hátt tryggt, að gengislækkunin yrði til þess að bjarga bátaútveginum úr hans erfiðleikum, nema siður væri, og má fullyrða, að í hópi þeirra, sem töldu þessa úrlausn mjög vafasama og lítt viðunandi, voru margir smáútvegsmenn, og það einmitt menn, sem átti að vera að bjarga með þessari ráðstöfun.

Ríkisstj. vildi þá ekki hlusta á þessar raddir og hélt fast við ákvörðun sína um að lækka gengi íslenzkrar krónu, enda var hún beinlínis mynduð til þess að hrinda því máli í framkvæmd.

Í dag þarf ekki um það að deila, hverjir hafa haft á réttu að standa í þessu máli. Reynslan er búin að tala. Hún talaði svo skýrt, að ekki verður um villzt.

Sjávarútvegurinn hafði ekki lengi búið við hið lækkaða gengi, þegar ríkisstj. sá sig neydda til að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að bjarga bátaútveginum á ný og þá m.a. undan þeim bagga, sem gengislækkunin hafði velt á herðar bátaútvegsins.

Það var ekki ýkja mörgum missirum eftir gengislækkunina, að hæstv. ríkisstj. sá sig knúða til að taka upp hinn svokallaða bátagjaldeyri til þess að reyna að bjarga bátaútveginum enn á ný. Eins og mönnum er kunnugt, er þessi bátagjaldeyrir í því fólginn, að smáútvegurinn fékk til eigin ráðstöfunar víssan hluta af andvirði útflutningsvöru sinnar. Þennan gjaldeyri mátti bátaútvegurinn síðan selja með vissu, takmörkuðu álagi. Við þetta bjargráð hefur bátaútvegurinn átt að búa síðan nokkrum missirum eftir að fyrrverandi, hæstv. ríkisstj. var stofnuð.

Þegar gengislækkunin var upp tekin í öndverðu árið 1950, var hún ekki hugsuð sem neitt sérstakt bjargráð fyrir togaraútveginn. Það var ekki talið, að afkoma togaranna væri þá slík, að nauðsyn væri á þeirri ráðstöfun, sem þá var gripið til. Hins vegar sótti fljótt í það horfið með togarana, að talið var, að ekki væri hægt að halda rekstri þeirra áfram, án þess að einhverjar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar af hálfu ríkisvaldsins. Því var það, að snemma á þessu ári var sett sérstök n. til þess að rannsaka og kynna sér, hvernig hagur og afkoma togaraútvegsins væri og hvaða ráðstafanir væri nauðsynlegt að gera til þess að reyna að létta undir með togaraútveginum og afkomu hans. Þessi n. kynnti sér rækilega afkomu togaranna og miðaði þá sérstaklega við afkomuna 1953 og afkomuna 1954, að svo miklu leyti sem um hana var vitað, á meðan n. var að störfum.

Niðurstöður þessarar n. voru þær, að meðalrekstrarhalli á togara hefði reynzt um 400 þús. kr. árið 1953. Við þessa niðurstöðu gerði þó n. þá athugasemd, að í henni væri ekki reiknað með raunverulegum fyrningarafskriftum, sem n. taldi hæfilegar 250–350 þús. kr. á ári.

Það var líka fyrirsjáanlegt, meðan n. var að störfum, að mjög fljótlega og á þessu ári mundi óhjákvæmilega þurfa að koma til nokkurrar launahækkunar hjá togarasjómönnum, ef hægt ætti að vera að fá þá út á skipin. Reiknaði n. með því, að launahækkun togarasjómanna, sem óhjákvæmileg væri, til þess að hægt væri að fá sjómennina á togarana áfram og halda rekstri þeirra áfram, mundi nema ekki minnu en 300 þús. kr. á ári.

Samkvæmt þessu virtist því meðalrekstrarhalli togara, miðað við 1953 og með hliðsjón af þeim kaupbreytingum, sem fram undan voru, vera eitthvað um 950 þús. kr. á ári. Þetta er að sjálfsögðu meðaltal. Sumir togarar skila verri afkomu, miklu verri, en aðrir betri, og er talið, að til séu í flotanum togarar, sem aldrei hafi sýnt neinn rekstrarhalla og þurfi því ekki neinnar hjálpar við.

Þegar vitað var um þessar niðurstöður, taldi ríkisstj. nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að rekstur togaranna stöðvaðist ekki alveg, og verður ekki dregið í efa, að rekstur togaranna mundi hafa stöðvazt á síðastliðnu sumri, ef ekki hefðu verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess, að hægt væri að halda þeim úti.

Úrræði hæstv. ríkisstj. voru þau að tryggja hverjum togara 2000 kr. í styrk fyrir hvern dag, sem hann var gerður út frá 1. ágúst s.l., auk þess sem ríkisstj. gerði sérstakar ráðstafanir til þess, að útgerðarmenu fengju greiðslufrest á stofnlánum sínum. Tekna til þess að mæta þeim styrk, sem togararnir urðu þarna að fá, aflaði ríkisstj. sér með því að leggja sérstakt innflutningsgjald á bifreiðar, og er upplýst, að þetta innflutningsgjald hefur numið á árinu 1954 um 12 millj. kr.

Nú er fullyrt af togaraútvegsmönnum, að afkoma togaranna sé slík, að það sé ekki fullnægjandi, að þeir haldi þeim styrk, sem þeir hafa haft hingað til, heldur þurfi einnig meira til að koma. Er því haldið fram, að rekstrarhalli togaranna sé að meðaltali um eða yfir 3 þús. kr. á dag. Hefur verið frá því skýrt, að togaraútvegsmenn hafi óskað eftir því við ríkisstj., að hún gerði ráðstafanir til þess að tryggja þeim bætur úr ríkissjóði til að mæta þessum rekstrarhalla og gerði auk þess ráðstafanir til þess að lækka útgerðarkostnaðinn á vissum, tilteknum liðum.

Ég skal ekkert um það fullyrða hér, hvort þessar staðhæfingar togaraútvegsmanna séu réttar eða ekki. Hitt er staðreynd, að það eru togaraútvegsmennirnir sjálfir, sem bezt mega um þetta vita, og ég hefði talið, að nauðsynlegt væri, að þessar fullyrðingar þeirra og niðurstöður yrðu rannsakaðar gaumgæfilega, til þess að menn gætu myndað sér örugga skoðun um það, hvort hér væri farið með rétt mál eða ekki. En eins og ég gat um í upphafi máls míns, þá hefur sjútvn. hér í þessari hv. d., sem haft hefur þetta mál til meðferðar, fengið svo nauman og takmarkaðan tíma til starfa, að engin tök hafa verið á því fyrir nm. að geta kynnt sér þessar fullyrðingar eða staðhæfingar á nokkurn hátt.

En hvað sem þessum staðhæfingum líður, þá má öllum vera það ljóst, að hér stefnir í hreinan voða og vandræði eru fram undan, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir, — ekki aðeins ráðstafanir til þess að leysa þann vanda, sem stefnir að í augnablikinu, heldur einnig þann vanda, sem augljóst er að hlýtur að vera fram undan. Það getur að sjálfsögðu ekki gengið til frambúðar, að nauðsynlegt sé að gera stöðugar ráðstafanir til þess, að hægt sé að halda gangandi aðalundirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, eitt árið með því að lækka gengi krónunnar stórlega og annað árið með því að greiða hverri grein sjávarútvegsins á fætur annarri uppbætur á framleiðsluvöru hennar, — uppbætur, sem fara vaxandi frá ári til árs. Það má hverjum hugsandi manni vera ljóst, að ef ekki eru gerðar sérstakar, róttækar ráðstafanir til að kippa þessum hlutum í lag, þá er hér stefnt í vísan voða, sem getur ekki endað í öðru en mjög alvarlegu hruni hjá þessum atvinnuvegi.

Frv. það, sem hæstv. ríkisstj. ber nú fram til lausnar á vandamálum togaraútvegsins, er engin framtíðarlausn á þessu máli. Hér er aðeins um bráðabirgðaúrræði að ræða til þess að reyna að koma í veg fyrir það, að togararnir stöðvist nú um þessi áramót. Og það er meira að segja dregið stórlega í efa, að þær ráðstafanir, sem lagt er til í frv. að gerðar séu, muni vera fullnægjandi til þess, að hægt verði að halda togarafotanum úti eftir áramót.

Hæstv. ríkisstj. hefur verið um það spurð, hvort hún geti treyst því, ef þetta frv. verði samþ., að þá muni togararnir halda áfram veiðum eftir áramótin. Og þó að ég hlustaði ekki á allar þær ræður, sem fluttar voru hér við 1. umr. málsins, þá skildist mér á hæstv. forsrh., að um þetta atriði gæti hann ekkert fullyrt og það lægi engin yfirlýsing fyrir af hans hálfu hjá þinginu um það, að þau úrræði, sem hér eru á ferðinni, væru fullnægjandi til þess, að togararnir stöðvuðust ekki um áramótin.

Þó að ég játi, eins og ég sagði áðan, að ekki hafi unnizt tími til að rannsaka þetta mál eins og skyldi, þá finnst mér fyrir mitt leyti ekki rétt, að frv. sé afgreitt á annan veg en þann, að nokkurn veginn megi á það treysta, að rekstur togaranna stöðvist ekki um áramótin, svo framarlega sem kostur er á að afgreiða slíkt frv., án þess að til vandræða sé stofnað á öðrum sviðum. Ég hef þess vegna leyft mér að bera hér fram nokkrar brtt. við frv., sem allar miða að því að reyna að freista að tryggja það, að togararnir þurfi ekki að stöðvast um áramótin og að sú hætta sé ekki yfirvofandi fyrir þá, sem hæstv. forsrh. vildi ekki aftaka um áðan, að kynni að verða til staðar.

Það hefur því miður ekki unnizt tími til að prenta þær brtt., sem ég ber hér fram. Ég hef hins vegar fengið þær vélritaðar, og ég hef afhent hæstv. forseta þessar brtt.

Grundvallaratriðið í till. er það, að ég legg til, að styrkurinn, sem hverjum togara er ætlaður, sé færður úr 2 þús. kr. á dag upp í 3 þús. kr. á dag til þess að mæta þeim kröfum, sem mér hefur verið tjáð að fyrir liggi. Hér er um sams konar till. að ræða eins og borin var fram í hv. Nd. á þskj. 280 og er þar undir 1. tölul. b.

Til þess að mæta þeirri hækkun, sem af þessum styrk til togaranna mundi leiða, leyfi ég mér að leggja til, að ákveðið sé í frv., að í þennan uppbótarsjóð til togaranna skuli renna dýrtíðarsjóðsgjald af bifreiðum skv. l. nr. 112 frá 1950, og er hér um sömu till. að ræða og borin var fram á þskj. 280 í hv. Nd., 1. lið a.

Þá legg ég einnig til, að tekin séu upp í frv. ákvæði um að lækka verð á brennsluolíu, vexti af afurðalánum sjávarútvegsins og flutningsgjöld íslenzkra skipa á framleiðsluvörum sjávarútvegsins. Er hér um sömu till. að ræða og var flutt í Nd. á þskj. 208 undir 2. tölulið.

Enn fremur hef ég leyft mér að bera fram á ný till samhljóða þeirri, sem borin var fram í Nd. og er á þskj. 293, um það, að á eftir 5. gr. komi ný grein þess efnis, að ríkisstj. sé heimilt að lækka söluverð nýjustu togaranna með hliðsjón af því, að ekki hefur tekizt að nota fiskimjölsverksmiðjur þeirra.

Þá ber ég loks fram nýja brtt. um það, að 8. gr. frv. verði orðuð um. Umorðunin á greininni er að nokkru leyti orðalagsbreyting, en þó er lagt til, að aftan við hana bætist ný mgr., sem er efnisbreyting á hinni upphaflegu 8. gr. Ég legg til, að 8. gr. verði orðuð svo:

Ríkisstj. setur reglur um framkvæmd laga þessara. Skal í þeim reglum ákveðið, hverrar tegundar bifreiðar skuli gjaldskyldar. Ákveða má mismunandi gjald af leyfum fyrir ýmsum tegundum bifreiða innan þeirra marka, er greinir í 1. gr., og einnig, að bifreiðar til ákveðinna nota séu gjaldfrjálsar.“ — Að þessu marki er aðeins um orðalagsbreytingu á gr. að ræða. En svo kemur til viðbótar efnisbreytingin, sem er á þá leið: „Innflutningur skal vera frjáls á þeim bifreiðum, sem innflutningsgjald ber að greiða af samkvæmt lögum þessum.“

Þessa efnisbreytingu ber ég fram með hliðsjón af því, að það segir sig sjálft, að í því er lítil trygging fyrir ríkissjóðinn og fyrir togaraútveginn, ef aðeins er ákveðið, að innflutningsgjald skuli greitt af bifreiðum, en ekki jafnframt tryggt, að bifreiðarnar verði fluttar inn. Þessi efnisbreyting, sem ég ber því fram við 8. gr., er til þess að tryggja það, að inn fáist fluttar bifreiðar til að mæta þeim gjöldum, sem togarasjóðurinn þarf að inna af hendi. Þetta er sú hugsun, sem fyrst og fremst liggur til grundvallar þessari brtt. Þessu til viðbótar kemur svo það, að megn óánægja hefur ríkt í landinu með úthlutun bifreiða. Menn hafa talið, að þar væri ýmsum ívilnað, sumir settir útundan, sem skyldu fá leyfi, en aðrir fengið leyfi, sem síður skyldi. Um þetta getur náttúrlega alltaf verið ágreiningur fram og aftur og erfitt að gera svo að öllum líki og oft erfitt að meta, hverjum á að veita leyfi og hverjum á að neita. En það fyrirkomulag, sem við höfum átt við að búa í þessum efnum, hefur leitt til mikillar óánægju, og uppi eru háværar kröfur um það, að innflutningur bifreiða verði gefinn frjáls. Þessar kröfur hafa átt miklum skilningi að fagna hér á hv. Alþingi, og er ekki annað vitað en að meiri hl. sé til staðar fyrir því í þinginu, að þessi innflutningur verði gefinn frjáls, a.m.k. að svo miklu leyti sem um tollskyldar bifreiðar er að ræða vegna togaragjaldeyrisins. Má því hér vinna tvennt í einu: tryggja það, að bifreiðar verði inn fluttar, til þess að fé sé til staðar í þessum togarasjóði, og koma í veg fyrir þá óánægju, sem uppi hefur verið út af bifreiðaúthlutuninni að undanförnu. — Ætla ég að vænta, að þessar till. mínar eigi skilningi að fagna hér í d. og nái a.m.k. að einhverju leyti fram að ganga.