15.12.1954
Efri deild: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um ræðu þá, sem hv. 1. þm. Eyf. (BSt) flutti hér áðan. Hugleiðingar hans um ástandið í atvinnumálum þjóðarinnar voru að ýmsu leyti mjög skemmtilegar og athyglisverðar. Hann tók undir það, að óhjákvæmilegt væri að gera einhverjar róttækar ráðstafanir til þess að skipa málum sjávarútvegsins með betri og öruggari hætti en verið hefði að undanförnu.

Hv. þm. kastaði fram þeirri spurningu, hverjum bæri að ráða fram úr þessum vanda. Hann minntist á það, að menn gerðu kröfu til ríkisstj. í þessum efnum, en hv. þm. vildi beina þessari kröfu meira til alls almennings. Hv. þm. gat þess og, að það væri ekkert vit í því að vera stöðugt að þjóðnýta töpin á sjávarútveginum og það væri lítið vit í því, eins og hann orðaði það, að hann ræki einhvern atvinnurekstur og tapaði á honum og fengi styrk hjá mér til þess, ég ræki annan, tapaði á honum líka og fengi styrk hjá honum til þess. Allt er þetta að sjálfsögðu alveg rétt. En hvað er hv. þm. að gera hér í kvöld? Hvernig er frv., sem hann er að leggja til að samþykkt verði? (BSt: Bráðabirgðaráðstöfun.) Þessi hv. þm. er einmitt að leggja til með samþykkt þessa frv., að gert verði það, sem hann segir að geti ekki gengið til frambúðar.

Ég ætla ekki heldur að fara að deila við þennan hv. þm. um gengislækkunina og áhrif hennar. Það yrði allt of langt mál, enda ætti að vera óþarfi fyrir okkur stjórnarandstæðinga að vera að deila við stuðningsmenn ríkisstj. um gagnsemi gengislækkunarinnar og áhrif hennar. Við getum látið þá algerlega um að spjalla við reynsluna í þeim efnum. Hún talar sínu skýra máli, og niðurstöður hennar verða ekki vefengdar. Það er staðreynd, að skömmu eftir að gengi íslenzkrar krónu var lækkað, var óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bjarga bátaútveginum m.a. undan gengislækkuninni. Í dag er nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til að bjarga togaraútveginum, og gengislækkunin á sinn þátt í því. Um þessa hluti þurfum við stjórnarandstæðingar ekki að vera að rífast við hæstv. ríkisstj. eða hennar stuðningsmenn, við getum látið þá algerlega um að spjalla um þetta í ró og næði við reynsluna. Hún segir þar allt, sem segja þarf.

Það kom mjög greinilega fram í ræðu hæstv. forsrh., að hann getur ekkert um það sagt, hvort samþykkt þessa frv. nægi til þess, að togurunum verði haldið úti eftir áramótin. Þetta er óneitanlega mikill galli á þessu máli. Þessu frv. er ætlað og það er flutt í þeim tilgangi að tryggja það, að togararnir geti haldið áfram eftir áramótin. Þessu frv. er ætlað að leysa vandamál togaraútgerðarinnar, en að sögn hæstv. forsrh. er það flutt með því fororði, að hann segist ekki hafa hugmynd um, hvort hann geti náð þeim tilgangi, sem hann ætlar sér með frv. Um það hyggst hann láta skeika að sköpuðu. Þetta verður því alvarlegra, þar sem vitað er, að mþn. sú, sem hafði þetta mál til athugunar, lagði til, að gerðar yrðu ýmsar ráðstafanir, sem nauðsynlegar væru til þess að leysa vanda togaraútgerðarinnar. Það frv., sem hér liggur fyrir, felur alls ekki í sér nema nokkurn hluta af þessum úrræðum. Hin eru alls ekki með.

Eftir álitsgerð mþn. liggur því nærri að óttast, að þetta frv. feli ekki í sér fullnægjandi lausn á málinu, og það því fremur, þar sem vitað er, að togaraútgerðarmenn halda því fram sjálfir, að þetta sé ekki fullnægjandi, þó að ég skuli viðurkenna, að á þeim ummælum vil ég miklu minna mark taka en þeim, sem frá mþn. koma í þessu máli, því að hún átti þó að vera hlutlaus aðili til að athuga málið.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir það, hversu hlýlega hann tók undir þá till., sem ég ber hér fram við 8. gr. frv. Það er till. um, að innflutningur á bifreiðum skuli gefinn frjáls, að svo miklu leyti sem um er að ræða bifreiðar, sem togaragjaldið skuli á lagt. Hæstv. ráðh. tók mjög vel undir þessa till. og kvað sig vera efnislega fylgjandi henni. Hins vegar verð ég að harma það, að áhugi hans fyrir till. skyldi ekki ná það langt, að hann gæti mælt með því, að hún yrði samþ. Hann bar því við, að hér í þinginu væri önnur till., sem væri efnislega eins, og hún væri borin fram sem sjálfstæð till. Hann óskaði frekar eftir, að sú till. væri samþ., en ekki væri farið að rugla það mál, sem hér liggur fyrir, með því að samþ. mína till. nú.

Ég vil benda hæstv. forsrh. á, að það er þó nokkuð langt síðan þáltill. kom fram hér í þinginu. Það er þó nokkuð langt um liðið. Það dróst dálítið, að hún yrði tekin á dagskrá í Sþ., þó kannske ekki verulega. Hitt er staðreynd, að umr. um till. í Sþ. stóðu mjög lengi og nokkuð óvenjulega lengi. Till. hefur nú legið í n. um skeið, og þó að okkur sé í dag sagt, að henni sé vel tekið, þá getur enginn fullyrt um á þessari stundu, nema sú till. kunni að eiga eftir að daga uppi í n. eða vera svo misþyrmt í þinginu, að hún komist ekki í gegn. Svo mikið er víst, að þessi till verður ekki samþ. áður en þing fer heim nú í jólaleyfi, og er þá gefið, að hún getur ekki komið til framkvæmda í byrjun næsta árs. Hitt er víst, að ef þessi till. verður afgreidd nú hér í kvöld og samþ. sem brtt. við þessi lög, þá er hún orðin að lögum fyrir áramót væntanlega og kemur þá strax til framkvæmda. Öruggasta leiðin til þess að koma fram þessari till., sem hæstv. forsrh. hefur nú lýst fylgi sínu við, er því að samþ. hana nú þegar, en vera ekki að hætta á að bíða eftir, hvernig kunni að fara um þáltill. einhvern tíma í framtíðinni. Ég held því, að hæstv. forsrh. væri miklu öruggari um skjótan og góðan framgang þess máls, sem við báðir fylgjum, ef hann vildi nú ljá minni till. sitt lið hér í kvöld og hans flokkur.

Þá ræddi hæstv. forsrh. nokkuð um dýrtíðarsjóðsgjaldið samkvæmt lögum nr. 112 frá 1950, sem ég hef lagt til að verði látið renna í þennan tryggingasjóð togaranna.

Hæstv. forsrh. andmælti þessari till. og ekki hvað sízt á grundvelli þess, að þetta mundi rugla afgreiðslu fjárlaga, í fjárlögunum væri gert ráð fyrir, að þetta gjald rynni í ríkissjóð, og ef nú væri farið að kippa því í burtu, þá mundi þetta rugla niðurstöður fjárlaga.

Við þessu er fyrst því að svara, að fjárlög hafa alls ekki verið afgreidd enn. 3. umr. fjárl. er ekki byrjuð, og ef samþ. yrði hér í nótt, að þetta gjald skyldi renna í togarasjóðinn, þá er að sjálfsögðu nægur tími enn til þess að bera fram nauðsynlegar breytingar í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, svo að það þarf ekki neinu þar í að rugla.

Hér við bætist svo annað. Það er vitað, að á seinni hluta ársins 1954 hefur orðið talsvert mikil aukning á innflutningi bifreiða vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar voru í sambandi við togarana, og það er ætlað, að á árinu 1955 verði enn mikil aukning á þessum innflutningi. Þessi aukni innflutningur hlýtur að leiða til þess, að dýrtíðarsjóðsgjaldið samkvæmt lögum nr. 112 1950 aukist mjög verulega frá því, sem var áður en þessi skipan var upp tekin. Hæstv. forsrh. getur ef til vill upplýst hér, hversu mikil aukning er áætluð á tekjum ríkissjóðs 1955 vegna þeirrar aukningar, sem verður á bifreiðainnflutningi í sambandi við þennan togarasjóð. Mér er ekki kunnugt um, að í tekjuáætlun fjárlaganna sé reiknað með neinni aukningu á tekjum frá því, sem áður var, og þó að þetta sé tekið og lagt í þennan togaragjaldeyrissjóð, þá mundi það í engu eða sáralitlu rugla þeim tölum, sem fyrirliggja í sambandi við fjárlögin. Ég skal taka fram, að ég hef ekki athugað þetta alveg niður í kjölinn, en ég hygg, að þetta muni fara nokkuð nærri, og hæstv. forsrh. getur þá upplýst þetta, ef rangt er með farið.

Þá talaði hæstv. forsrh. um það, að harkalega væri að farið, ef nú ætti skyndilega að fara að ákveða með lögum, að flutningsgjöld íslenzkra skipa á framleiðsluvörum sjávarútvegsins skyldu lækka um 20%. Hæstv. forsrh. hélt því fram, að til þess að hægt væri að taka í lög slík ákvæði sem þetta, þá þyrfti að rannsaka rækilega og fá upplýst, hvort þetta væri raunverulega hægt vegna afkomu skipafélaganna. Og hæstv. forsrh. sagði eitthvað á þá leið, að ef hæstv. Alþ. flasaði að því að gera svona ráðstafanir að óathuguðu máli, þá gæti það naumast haldið virðingu sinni á eftir.

Ég vil benda hæstv. forsrh. á, að hér er ekki um neitt nýtt mál að ræða. Þetta er mál, sem búið er að vera á dagskrá lengi, í mörg ár. Það mun sjálfsagt vera þaulrætt við skipafélögin um að fá þessa lækkun fram með frjálsum samningum. Það hefur ekki tekizt. Togaranefndin, sem athugaði þetta mál, var m.a. með þetta í sínum till., og ég vildi mega ganga út frá því, að n. hefði ekki farið inn á þessa braut, ef hún hefði ekki vitað, hvað hún var að segja. Svo mikið er víst, að það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að flutningsgjald hjá þeim íslenzkum skipum, sem við þurfum að skipta við, er til muna hærra en hjá erlendum skipum, sem á svipuðum leiðum sigla. Við eigum við hlutfallslega verulega hærra flutningsgjald að búa heldur en tíðkast með öðrum þjóðum, og það er áreiðanlegt, að þarna hlýtur eitthvað að vera bogið.

Ég hef enga trú á því, þó að haldið verði áfram að ræða við skipafélögin um afslátt nú um skeið vegna sjávarútvegsins, að þær umr. beri frekar árangur nú en á undanförnum árum, og ég vil þess vegna fyrir mitt leyti eindregið taka undir þá hugmynd, sem fram kom í togaranefndinni, að þetta hljóti og verði að ákveða með lögum.

Þá andmælti hæstv. forsrh. einnig þeirri till., sem hér liggur fyrir um lækkun á vöxtum vegna lána til sjávarútvegsins. Hann andmælti þessu m.a. á grundvelli þess, að hann efaðist um, að togaraútvegurinn ætti þarna við verri lánakjör að búa en bátaútvegurinn.

Ég skal ekki um þetta deila. Ég þekki þetta ekki svo vel, en hitt veit ég, að aðrar atvinnugreinar þjóðarinnar eiga við betri lánakjör að búa en togaraútvegurinn og af til vill bátaútvegurinn líka.

Hæstv. forsrh. veit það ákaflega vel, að það er í ýmsum lögum í sambandi við aðra atvinnuvegi þjóðarinnar ákveðið, að lán til þeirra skuli ekki vera með hærri vöxtum en 21/2%, og í sumum tilfellum er um lægri vexti að ræða. Ég vil því spyrja: Hvernig stendur á því, fyrst togaraútvegurinn er svo illa kominn, að það er nauðsynlegt að grípa til alvarlegrar ráðstöfunar, til þess að hann stöðvist ekki, að hann á ekki að búa við sömu lánakjör og ýmsar aðrar atvinnugreinar þjóðarinnar?

Þá minntist hæstv. forsrh. einnig á það atriði í till., að verð á olíu verði lækkað um sem svarar 50 kr. á hvert tonn frá því verði, sem gilti 1. des. 1954.

Hæstv. forsrh. taldi, að það væri alveg ósannað, að olíufélögin þyldu þetta. Þetta eru ummæli, sem hafa heyrzt oft og mörgum sinnum, enda þótt það sé alþekkt staðreynd, ekki aðeins hér, heldur og um heim allan, að olíufélögin eru einhver stærstu gróðafyrirtæki, sem til eru í veröldinni, og hafa safnað að sér meiri gróða og meiri auð en flest önnur verzlunarfyrirtæki, sem við þekkjum. Þessi olíufélög, sem hér starfa á Íslandi, eru ekkert annað en angi af hinum stóru olíufélögum, sem hafa breitt sig út um allan heim, þannig að ég fyrir mitt leyti hef enga tilhneigingu til þess að taka það neitt alvarlega, þó að ég heyri hér um það són, að afkoma þessara fyrirtækja sé þannig, að þau þoli ekki, að olíuverðið til togaranna sé lækkað nokkuð. Og ég vil í sambandi við það eins og í sambandi við hinar aðrar till., sem hér eru á ferðinni, minna á, að þessi till. er eins og þær ættuð og upprunnin í þeirri nefnd, sem hafði þessi mál til athugunar, — nefnd, sem athugaði, hvað hún var að gera, og vissi, á hvaða leiðir hún var að benda.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þessar till. En ég vil enn sem fyrr benda á það, að mér finnst harla mikil og mjög alvarleg veila í þessu máli, þar sem hæstv. forsrh. getur ekki sagt þinginu neitt um það, hvort hægt sé að gera sér vonir um, að þetta frv., þó að samþ. verði, nái að leysa það mál, sem því er ætlað að leysa. Ég tel, að af hálfu hæstv. ríkisstj. hafi málið ekki verið undirbúið sem skyldi, fyrst ekki var gengið úr skugga um slíkt og hægt að segja Alþ. eitthvað meira um þær niðurstöður en hæstv. forsrh. hefur getað lagt hér fyrir.