25.10.1954
Neðri deild: 8. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

11. mál, tollskrá o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er einkenni á þeim frv., sem nú hafa verið til umræðu af þessu tagi, að hæstv. ríkisstj. virðist ekki hugsa sér að neinu leyti að létta neitt á almenningi hvað snertir tollana og söluskattinn. Söluskatturinn var hér nýlega og fór til n. í þessari hv. d., og nú kemur það gamla lagafrumvarp, sem framlengir hækkunina á verðtollinum, sem nú er orðin ein stærsta tekjulind ríkissjóðs. Ég álít, að það væri bráðnauðsynlegt, að hv. fjhn. athugaði gaumgæfilega, hvort ekki væri auðið að fá samkomulag um lækkun á þessum verðtolli, ekki sízt ef það ætlaði að sýna sig, að ekki tækist að fá fram þær till., sem þegar hefur verið drepið á og oft hafa verið bornar hér fram um lækkun á söluskattinum. Ég held það væri ákaflega nauðsynlegt, að hv. fjhn. taki þessi mál nú til rækilegrar athugunar, því að það er auðséð á þeim frv., sem hér liggja fyrir, að ríkisstj. mun ekki sjálf gera neitt í því að reyna að lækka tollabyrðina á almenningi. Ég ætla svo að svo stöddu ekki að eyða fleiri orðum að þessu, en vafalaust verður rætt betur um þetta eins og önnur tekjuöflunarfrumvörp hæstv. ríkisstjórnar við 2. umr.