17.02.1955
Sameinað þing: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (2914)

144. mál, stækkun á Vestmannaeyjaflugvelli

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 339 að bera fram till. til þál. um stækkun á Vestmannaeyjaflugvelli. Í grg. eru taldar upp að vísu ástæður, en þó miklu frekar í ályktun bæjarráðs Vestmannaeyja og í bréfi Flugfélags Íslands og flugmanna Flugfélagsins, sem hvort tveggja er prentað með þessu þskj. Gerði ég það til þess, að þeir, sem um þetta mál kynnu að fjalla hér á þingi, hefðu fyrst og fremst í ályktun bæjarráðs Vestmannaeyja rödd fólksins sjálfs um þörfina á umbótum og í öðru lagi í bréfum Flugfélagsins og áliti flugmannanna ummæli hinna færustu manna á þessu sviði um þörfina á því að stækka Vestmannaeyjaflugvöll. Þegar ég segi stækka, á það alveg eins við þá till., sem Flugfélagið virðist helzt halla sér að, sem sé að breikka flugvöllinn til beggja enda, eins og hitt, að lögð verði þverbraut, en það er sem kunnugt er ein stefnubraut á flugvellinum. Flugvöllurinn liggur frá austri til vesturs, og þegar aðrar áttir eru en sem standa beint eða nálægt því beint á annan hvorn enda hans, þá eru erfiðleikar um flug, og gætir þess þó einkum í norðanátt og sunnanátt. Nú er það svo, að í norðanátt er að öðru leyti oftast nær bezta flugveður vegna birtu; getur verið bjart og gott að öllu öðru leyti en því, að vindstaðan á flugvöllinn gerir flugtak eða lendingu erfiða og í mörgum tilfellum hættulega.

Vestmannaeyjaflugvöllur er einn með þeim fyrstu, sem byggðir voru hér utan Reykjavíkur, hefur verið ákaflega mikið notaður og er meira og meira notaður með hverju ári sem liður, og yfir höfuð þarf samgönguþörf Vestmannaeyja að miklu leyti að verða fullnægt með flugvélunum, bæði á fólki og jafnvel á vörum. Það ástand, sem ríkir, er því ekki orðið fullnægjandi, þótt ýmislegt hafi verið gert á undanförnum árum til þess að lagfæra og bæta lendinguna. En það hefur ekki strandað á vilja flugráðs eða þeirra, sem hafa með þessar framkvæmdir að gera, heldur á hinu, að of litlu fé hefur verið varið til þess að endurbæta og byggja flugvelli á hverju ári á fjárlögunum, eins og ég hef oftlega við umræður fjárlaga bent á. Flugráð hefur úr of litlum efnum að spila til þess að geta gert fullnægju bæði til þarfa fólks og flugöryggis í samgöngumálunum í lofti. Það er því nauðsynlegt, sérstaklega hvað þá miklu fólksflutninga áhrærir, sem fara loftleiðina að og frá Vestmannaeyjum, að gert sé duglegra og stærra átak en hingað til hefur átt sér stað, síðan flugvöllurinn var byggður. Fer ég því fram á það með þessari þáltill., að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta hraða svo sem unnt er framkvæmdum til stækkunar á Vestmannaeyjaflugvelli og að til þeirra framkvæmda sérstaklega verði ekki ætlað minna en ein millj. kr. á næstu fjárlögum. Sú upphæð er vitanlega ekki nóg til þess að gera fullnaðarúrbætur, en hún mundi á hinn bóginn geta hrundið í framkvæmd mörgum þeim umbótum, sem nú eru aðkallandi, en verða að bíða vegna féleysis.

Ég ætla, að ég þurfi ekki að setja á langt mál um þessa nauðsyn, vegna þess að till. er svo vel rökstudd af öðrum aðilum en mér og hins vegar er hv. þingheimi mjög kunnugt um samgönguástandið við Vestmannaeyjar og þá miklu þörf, sem á því er, að flugsamgöngur þangað séu í sem beztu lagi. Ég vil mælast til þess, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr.