17.02.1955
Sameinað þing: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (2915)

144. mál, stækkun á Vestmannaeyjaflugvelli

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa yfir fylgi mínu við þessa till., sem hér er til umr., og vona, að hún geti náð samþykki.

Hins vegar ber ég í brjósti nokkurn ótta um það, að á hana gæti verið litið á þann hátt, að ekki beri að leggja til flugvallargerðar í Vestmannaeyjum á þessu ári neitt af þeim 3½ millj. kr., sem heimilað er á fjárlögum þessa árs, auk þess rekstrarágóða, sem kann að verða af rekstri flugvallanna, að varið sé til flugvallagerðar. Ég hefði þess vegna óskað eftir því, að tillgr. yrði orðuð þannig, að ekki gæti valdið neinum misskilningi um það, að það væri ekki með þeirri till., sem hér liggur fyrir, verið að samþykkja eitt eða neitt um það, að Vestmannaeyjar skyldu bíða eða verða af þeirri fjárveitingu, sem nú er heimiluð á fjárlögum. Ég ætla þess vegna að leyfa mér hér, með leyfi hæstv. forseta, að leggja fram skriflega brtt. við þá till., sem hér liggur fyrir, og er till. þannig:

Tillgr. orðist svo: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta hraða svo sem unnt er framkvæmdum til stækkunar á Vestmannaeyjaflugvelli og verja til þess ekki minna en einni millj. kr. af fé því, sem á þessu ári er heimilað til flugvallagerðar samkv. 22. gr. fjárlaga, svo og að ætla til þeirra framkvæmda sérstaklega a. m. k. eina millj. kr. í fjárlögum fyrir árið 1956.“