08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 238 ber með sér, hefur n. ekki orðið sammála um afgreiðslu fjárlfrv. Sjö nm. standa að áliti meiri hl. n., en tveir nm. skila séráliti. Þótt fjvn. skili þannig áliti í tvennu lagi, stendur n. óklofin að meginhluta brtt. sinna, svo sem þskj. 236 ber með sér. Er það fyrst og fremst áætlunin um tekjur ríkissjóðs á næsta fjárhagsári, sem ágreiningi hefur valdið í n., og síðast á fundi n. lýsti hv. 11. landsk. nokkrum útgjaldatillögum, sem hann kvaðst áforma að bera fram umfram það, sem n. hafði orðið sammála um að mæla með. Ég sé, að brtt. þær, sem hv. minni hl. n. ber fram, eru allmiklu víðtækari en þær till. voru, sem hv. 11. landsk. þá boðaði.

Auðvitað sýndist einstökum nm. sitt hvað um þær 82 brtt., sem n. ber fram sameiginlega, en allir nm. gerðu sér ljósa nauðsyn þess, að komizt yrði að sameiginlegri niðurstöðu um sem flest atriði, og var samvinna í n. hin bezta.

Fyrir fjvn. hafa nú legið óskir um hærri framlög úr ríkissjóði til margvíslegra þarfa en nokkru sinni fyrr. Hefði n. vissulega kosið að geta verið stórtækari í till. sínum um fjárveitingar til ýmiss konar þjóðnýtra framkvæmda og félagsmálastarfsemi, en á þessu sviði sem öðrum er óumflýjanlegt að sníða sér stakk eftir vexti, ef ekki á illa að fara. Auðvitað verður þó alltaf mikið álitamál, þegar þarfirnar eru miklar, hvað taka skuli og hverju hafna.

Í nál. meiri hl. fjvn. er gerð grein fyrir því, hvernig n. hefur hagað athugun á fjárlfrv., og þar eru einnig skýrðar í stuttu máli hinar einstöku brtt. n. Ég mun því í þessari framsöguræðu minni fyrst og fremst gera grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem ráðið hafa afstöðu n. Mun ég fyrst lýsa þeim ramma, sem meiri hl. n. setti sér varðandi ákvörðun tekna og útgjalda, síðan ræða horfur varðandi tekjuöflun á næsta fjárhagsári og loks íhuga nokkuð það ástand og framtíðarhorfur, sem þing og þjóð verða að horfast í augu við.

Þegar framkvæmd var hin sérfræðilega athugun á efnahagsmálum þjóðarinnar árið 1949, sem varð grundvöllur að þeim ráðstöfunum í efnahags- og fjármálum, sem gerðar voru árið 1950, var lögð rík áherzla á það, að óhjákvæmilegt skilyrði heilbrigðrar fjármálaþróunar í þjóðfélaginu væri hallalaus ríkisbúskapur. Þessa staðreynd hefur ríkisstj. og þingmeirihluti síðan staðfest í verki. Hafa fjárlög jafnan verið afgreidd greiðsluhallalaus og tekjur ríkissjóðs öll þessi ár orðið það miklar, að stundum hefur orðið verulegur greiðsluafgangur, sem hægt hefur verið að verja til ýmissa mikilvægra framkvæmda í landinu. Núverandi ríkisstj. fylgir þessari sömu fjármálastefnu, og meiri hl. fjvn. teldi það mikið óheillaspor, ef frá þessari stefnu væri horfið.

Meiri hl. fjvn. myndaði starfsramma sinn með samræmingu tveggja sjónarmiða: annars vegar að verja sem mestu fé til margvíslegra framkvæmda og framfara í þjóðfélaginu í andlegum og veraldlegum efnum, en hins vegar að stilla till. sínum um fjárveitingar það í hóf, að afkomu ríkissjóðs væri ekki stefnt í bráða hættu. Ef ríkissjóði verður gert um megn að standa undir fjárveitingum, þá getur orðið lítið úr framkvæmdum, þótt í bili geti verið hægt að slá um sig með tillögum um milljónatugaframlög til ýmissa þarfra hluta. Því miður sá minni hl. n. sér ekki fært að taka þessa afstöðu til afgreiðslu fjárlfrv., og því skildu leiðir. Meiri hl. n. mun hins vegar ekki hvika frá þeirri. stefnu, sem mörkuð hefur verið, og væntir þess, að mikill meiri hl. hv. þm. sé honum sammála um það, að sú stefna ein sé þingínu sæmandi og þjóðinni til farsældar.

Svo sem ég áðan gat um, hefur nú verið geysileg ásókn um fjárveitingar úr ríkissjóði til hinna margvíslegustu og óskyldustu þarfa og jafnframt beðið um miklum mun hærri upphæðir en áður hefur verið. Viðtöl við marga þessa umsækjendur, bæði opinbera aðila og aðra, hafa leitt það í ljós, að bak við fjárbeiðnirnar feist sú hugsun, að afkoma ríkissjóðs sé nú svo góð, að óhætt sé að vera óspar á fjárkröfur. Það eru að vísu góðar horfur á því, að afkoma ríkissjóðs í ár verði mjög hagstæð, þótt ekki verði hún í neinu samræmi við þær draumsýnir, er ýmsir virðast sjá, og má helzt álykta sem svo eftir viðhorfi ýmissa manna til fjárgetu ríkissjóðs, að fjármálaráðherrann hafi fundið einhvern töfrakassa, sem sífellt sé hægt að ausa úr, en helzt þurfi aldrei að láta í. Kæmi sér óneitanlega vel að eiga slíkan grip, en því miður mun raunin vera önnur.

Uppbygging atvinnulífs og menningarlífs á Íslandi hófst miklu seinna en hjá flestum eða öllum öðrum menningarþjóðum. Hin óleystu verkefni eru því óteljandi og þarfirnar því miklar um fé til framkvæmda á mörgum sviðum. Fjvn. hefði óneitanlega kosið að geta mælt með ríflegri fjárveitingum til ýmissa framkvæmda, en með hliðsjón af gjaldgetunni hefur meiri hl. n. á þessu stigi málsins ekki talið sér fært að leggja til að hækka gjaldabálk frv. meir en um rúmar 14 millj. kr., en öll kurl eru ekki enn til grafar komin, eins og ég mun síðar víkja að.

Af þessum 14 millj. kr. eru rúmar 4 millj. hækkun á fjárveitingu til ýmissa svokallaðra verklegra framkvæmda. Má að vísu segja, að mikið álitamál sé, hversu miklum framkvæmdum ríkið eigi að halda uppi, þegar mikil atvinna er í landinu og á ýmsum stöðum jafnvel skortur vinnuafls. Því er til að svara í þessu sambandi. að meginhluti hinna verklegu framkvæmda, sem einkum eru samgöngubætur, er unninn víðs vegar úti um byggðir landsins og á allmörgum þessara staða um töluverða atvinnuörðugleika að ræða. Einnig verður þess að gæta, að atvinnuvegir þjóðarinnar eru mjög háðir samgöngum, og því er hér um að ræða óhjákvæmilega undirstöðu atvinnulífsins. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir sömu fjárveitingu í þessu skyni og í fjárl. þessa árs, en fjvn. taldi óhjákvæmilegt að hækka sex liði, sem hér verða greindir.

Nefndin leggur til að hækka fjárveitingu til hafnargerða og lendingarbóta um 807 þús. kr. Ern mjög miklar framkvæmdir fyrirhugaðar í hafnargerðum á næsta ári, enda er þörfin viða mjög brýn og ekki hægt nema að litlu leyti að koma til móts við hana með þeim fjárveitingum, sem gert er ráð fyrir. Er áætlað, að hluti ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum árið 1955 muni verða yfir 17 millj. kr., og er ljóst, að 6.6 millj. kr. fjárveiting hrekkur skammt til að mæta þeim kostnaði. Er þess um leið að geta, að vangreiddur hluti ríkissjóðs af unnum hafnarframkvæmdum mun nú vera um 5.6 millj. kr. Sakir standa aftur á móti viða þannig, að óumflýjanlegt er að gera stór átök í hafnarmálum, en mjög erfitt um lánsútveganir. Sýnist því mjög mikil nauðsyn, að ríkisstj. íhugi, hvort ekki séu einhverjar leiðir tiltækilegar til meiri fjáröflunar í þessu skyni.

Lagt er til að hækka fjárveitingu til vega um 620 þús. kr. Fer því þó fjarri, að hægt sé að mæta þeim óskum, sem uppi eru um framkvæmdir í vegagerð. Ýmsir telja ósamræmis gæta í fjárveitingum til vegagerða í hinum ýmsu héruðum og telja nauðsynlegt að breyta þeim hlutföllum, sem nú eru. Þetta kann vel að vera rétt, en torvelt mun reynast að fá samkomulag um þá breytingu, nema því aðeins að hafa fyrir sér ýtarlegar skýrslur um ástand í vegamálum í öllum héruðum landsins. Nefndin hefði gjarnan viljað framkvæma þessa athugun nú, því að henni er vel ljóst, að hæpið er að halda sömu hlutföllum um fjárveitingar frá ári til árs, en vegna veikinda vegamálastjóra hefur ekki verið auðið að kanna málið svo, að n. treysti sér til þess að breyta að nokkru ráði þeim grundvelli, sem er í fjárl. þessa árs. Nefndin telur hins vegar sjálfsagt að taka þetta mál til rækilegrar athugunar við afgreiðslu næstu fjárlaga.

Á síðasta þingi var samþykkt sérstök fjárveiting til endurbyggingar gamalla vega, að upphæð 1/2 millj. kr. Margir þeir vegir, sem fyrst voru lagðir, eru orðnir algerlega ófullnægjandi, og ber brýna nauðsyn til þess að endurbyggja þá, en ekki hefur verið talið fært að nota nýbyggingarfé í þessu skyni. Þörfin er hér mikil, og leggur n. til, að þessi fjárveiting verði hækkuð um 300 þús. kr.

Fjallvegafé var hækkað nokkuð á siðasta þingi, einkum með hliðsjón af tveim fjallvegum, sem nú er unnið að, Vestfjarðavegi og Múlavegi, sem hvorugur er enn kominn í þjóðvegatölu. Mikil nauðsyn er talin á auknu fé til fjallvega, og leggur n. til, að fjárveitingin verði hækkuð um 250 þús. kr.

Margar ár eru enn óbrúaðar, og eru þær víða mikill farartálmi. Er því nauðsynlegt að hraða brúargerðum svo sem kostur er, og leggur n. til, að áætluð fjárveiting til brúargerða verði hækkuð um 600 þús. kr. Brúasjóði er ætlað að standa straum af kostnaði við byggingu stórbrúa. Þar eru svo mörg verketni, að ógerlegt er að leysa þau á víðunandi hátt nema með auknu fé í brúasjóð. Sérstakt viðfangsefni á þessu sviði er endurbygging nokkurra stórbrúa, sem nú eru orðnar svo úr sér gengnar, að þær eru orðnar hættulegar umferðar. Eru þetta dýrar framkvæmdir. en svo mikilvægar fyrir samgönguöryggi í landinu, að n. hefur ekki talið sér fært annað en að leggja til, að 1.5 millj. kr. verði á næsta ári varið til endurbyggingar stórbrúa, og er þá hugmyndin sú, að sömu fjárhæð verði varið í þessu skyni á árinu 1956.

Ekki verður um samgöngubætur rætt án þess að minnast flugmálanna, því að flugið er að verða æ stærri þáttur í samgöngum, bæði innanlands og við útlönd. Virðast góðar horfur á því, að Íslendingar geti átt mikla framtíðarmöguleika á þessu sviði, en vitanlega verða þau tækifæri ekki notuð án mikilla fjárframlaga til ýmiss konar stofnkostnaðar. Ekkert má til spara að gera flugsamgöngur sem öruggastar, og gerð flugvalla og ýmissa mannvirkja á þeim til afnota við flugið kostar geysimikið fé. Aðalflugvelli sína tvo hafa Íslendingar eignazt með óvenjulegum hætti. Áætlar flugmálastjóri, að Reykjavíkurflugvöllur mundi nú kosta um 1000 millj. kr. Verður af þessu ljóst, að flugvellirnir eru engin smámannvirki. Mikla nauðsyn ber til að hraða flugvallargerðum á ýmsum stöðum á landinu, og einnig þarf að leggja í dýrar framkvæmdir á Reykjavíkurflugveill til þess að skapa þar viðunandi aðstöðu og halda við flugbrautum. Ekki hefur þó verið talið fært að hækka beina fjárveitingu frá því, sem er í fjárlfrv. Tekjur af flugvöllunum hafa síðustu árin farið alllangt fram úr áætlun, og hefur flugmálastjórninni verið heimilað að nota þessar umframtekjur til framkvæmda. Þessi heimild hefur verið takmörkuð við 2.5 millj. kr., en fjvn. leggur til, að takmarkið verði hækkað í 3.5 millj., ef svo kynni að fara, að flugvellirnir gæfu meiri tekjur en gert er ráð fyrir.

Þar sem byggingar eru nú mjög miklar í landinn, er sjálfsagt, að ríkið gæti hófs í þeim framkvæmdum til þess að draga ekki nauðsynlegt vinnuafl og efni frá byggingarframkvæmdum einstaklinga. Ýmsar ástæður valda þó því, að ekki er auðið að fresta öllum slíkum framkvæmdum, og leggur fjvn. til nokkra viðbót fjárveitinga til framkvæmda, sem taldar eru vera mjög brýnar. Stærst þessara framkvæmda er bygging hinnar sjálfvirku stöðvar bæjarsímans í Reykjavík. Er í fjárlfrv. lagt til að veita 1.7 millj. kr. til byggingar þessarar, en n. telur ekki annað fært en að hækka þessa fjárveitingu í 2.7 millj. kr. með hliðsjón af því, að hér er um framkvæmd að ræða, sem skapar landssímanum möguleika til mjög mikillar tekjuöflunar, og er gert ráð fyrir, að hús þetta geti borgað sig á mjög skömmum tíma. Er því hér í senn um hagkvæma og nauðsynlega framkvæmd að ræða.

Lagt er til að hækka fjárveitingu til viðbótarhúsnæðis ríkisspítalanna um 600 þús. kr. Þola sumar þessara bygginga enga bið, og telur því n. ekki verða komizt hjá þessari hækkun.

Lagt er til að veita 250 þús. kr. til byggingar peningshúsa að Litla-Hrauni. Er talið nauðsynlegt að reka þar nokkurn búskap til þess að láta þá, sem þar dvelja, — starfa að nytsömum viðfangsefnum. Peningshús þessi munu þegar hafa verið reist, en fjárveitingu vantar.

Þá er talið nauðsynlegt að hækka framlag til jarðræktartilrauna um 100 þús. kr. vegna viðbótarbygginga á tilraunastöðvunum.

Hafa þá verið taldir upp helztu liðirnir í till. n., sem varða fjárfestingu ríkisins.

Ríkisstj. hefur skotið undir úrskurð fjvn. beiðnum nokkurra ríkisstofnana um fjölgun starfsmanna. Það verður þó að teljast óeðlilegt að ætla fjvn. að dæma um það, hvort einstökum ríkisstofnunum sé þörf á auknu starfsliði, því að n. hefur enga aðstöðu til þess að kynna sér nægilega starfshætti ríkisstofnana þann stutta tíma, sem henni er ætlaður til athugunar á fjárlfrv. Verður að ætlast til þess, að þau ráðuneyti, sem stofnanirnar lúta undir, fylgist það ve] með rekstri stofnananna, að þau geti tekið ákvörðun um, hvort þörf sé nýrra starfsmanna eða ekki.

Nefndin hefur í þetta sinn tekið launagreiðslur til nokkurra starfsmanna inn í till. sínar, en þar er svo að segja eingöngu um að ræða starfsmenn, sem starfandi eru í viðkomandi stofnun og hafa sumir starfað um langt skeið. Fjmrn. hefur hins vegar ekki viljað viðurkenna þessa menn á launaskrá, en þeim hafa engu að siður verið greidd laun, og telur n. enga ástæðu til annars en viðurkenna nú þá staðreynd, að þessir starfsmenn eru starfandi við stofnanirnar og beri því að taka laun þeirra í launaáætlun, úr því að ekki hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að þeir hættu störfum. Hefur n. um alla þessa menn haft samráð við viðkomandi ráðuneyti og fjmrn. og ekki heldur tekið í till. sínar aðra starfsmenn en þá, sem henni hefur sýnzt eftir viðtölum við forstöðumenn viðkomandi stofnana að óumflýjanlegt væri að þar störfuðu áfram. Ég tel ekki ástæðu til að telja upp, hvaða stofnanir er hér um að ræða, en vísa til nál. um það efni.

Mikið er nú á dögum rætt um Ísland sem ferðamannaland, og eru uppi ýmsar hugmyndir um leiðir til þess að fá útlendinga til að heimsækja landið. Bæði af þessum sökum og einnig vegna annarra nauðsynlegra samskipta Íslendinga við aðrar þjóðir er mikilvægt að halda uppi góðri og skynsamlegri landkynningu. Fátt er heppilegra til landkynningar en vel gerðar kvikmyndir. Áhugamenn hafa þegar unnið gott starf á þessu sviði, og einnig hafa sendiráð Íslands erlendis lagt mikla áherzlu á það að fá góðar kvikmyndir til afnota. Leggur n. til, að varið verði nokkru fé í þessu skyni.

Það mun sameiginlegt álit allra landsmanna, að nauðsynlegt sé að halda uppi sem styrkastri landhelgisgæzlu, þótt menn að öðru leyti greini á um það, hvort Íslendingar eigi að hafa hliðstætt öryggislið í landi. Stækkun landhelginnar og mótmæli ýmissa þjóða gegn þeirri stækkun hafa aukið mjög nauðsynina á því að efla landhelgisgæzluna sem mest. Flugvélar hafa nú í ríkara mæli verið teknar í þjónustu landhelgisgæzlunnar, og telur forstjóri hennar, að fluggæzlan hafi gefið mjög góða raun, og telur nauðsynlegt að auka hana. Hefur n. fallizt á þetta sjónarmið og leggur til, að framlög til landhelgisgæzlu verði hækkuð um 350 þús. kr.

Vegna aukinnar starfsemi og tilkostnaðar hjá Búnaðarfélagi Íslands og Fiskifélagi Íslands telur n. óumflýjanlegt að hækka nokkuð fjárframlög til þessara mikilvægu stofnana. Er lagt til að hækka fjárveitingu til Búnaðarfélagsins um 210 þús. kr. og Fiskifélagsins um 140 þús. kr., og skortir þó allmjög á, að orðið sé við óskum þessara stofnana.

N. telur augljósa nauðsyn þess að halda í horfinu varðandi jarðræktarframkvæmdir, og er þá fyrsta skilyrðið, að nægilegur vélakostur sé fyrir hendi. Teknar hafa nú verið í notkun afkastameiri vélar en áður, en vélar þessar eru um leið bæði stærri og dýrari. Telur n. óumflýjanlegt að hækka framlög ríkissjóðs til kaupa á jarðræktarvélum um 250 þús. kr. á næsta ári.

Búnaðarsamband Suðurlands hefur komið upp myndarlegu kynbótabúi, og nautgriparæktarsambandið í Eyjafirði er einnig að koma slíku búi á fót. Er hér um mjög mikilvæga starfsemi að ræða fyrir nautgriparækt landsmanna. Sunnlendingar munu hafa fengið yfir hálfa milljón til síns bús í ríkisstyrk, en Eyfirðingar munu hafa fengið 100 þús. kr. á þessu ári. Bæði samböndin leita nú eftir viðbótarfjárveitingu, og leggur n. til, að samböndunum verði veittar samtals 300 þús. kr., en ætlar ráðherra að skipta fénu á milli þeirra, eftir því sem hann telur sanngjarnast.

Ríkið afhenti Búnaðarfélagi Íslands fyrir nokkrum árum lóð til eignar undir húsbyggingu þá, sem félagið hefur fyrirhugað að reisa hér í Reykjavik fyrir starfsemi sína. Áður en hafizt yrði handa um húsbyggingu á lóð þessari þurfti ríkið nauðsynlega á henni að halda undir byggingu rannsóknarstofu í þágu sjávarútvegsins. Varð þá að samkomulagi, að Búnaðarfélagið seldi ríkinu lóðina við matsverði, og reyndist matsverðið 1 millj. 50 þús. kr. Er nú lagt til, að andvirði lóðarinnar verði greitt á 3 árum og fari fyrsta greiðsla fram á næsta ári.

Það var von manna, að með fjárskiptunum tækist að útrýma þurramæðinni, þessum mikla vágesti, sem um margra ára skeið hefur herjað á sauðfé landsmanna. Hefur ríkissjóður haft mikil útgjöld vegna sauðfjársjúkdómavarna, en þessi útgjöld hafa tvö síðustu árin farið mjög lækkandi, og stóðu vonir til, að þau hyrfu að mestu leyti á næsta ári. Nú hafa hins vegar þau illu tíðindi gerzt, að þurramæði hefur orðið vart á tveimur stöðum á landinu, í Dalasýslu og Skagafirði, og telja raunar fróðir menn, að þess hafi ekki verið að vænta, að tækist að útrýma veikinni að fullu í fyrstu umferð. Þegar hefur verið hafizt handa um að stöðva útbreiðslu veikinnar, en þær ráðstafanir munu kosta allmikið fé, og er talið óumflýjanlegt að hækka framlög til sauðfjárveikivarna um 1 millj. og 40 þús. kr.

Sandgræðslan hefur mörgum mikilvægum verkefnum að sinna, og kemur nú þar til viðbótar, að við þurrkun í Landeyjum hefur sandfok aukizt þar svo mikið, að ekki má draga að gera nauðsynlegar varnarráðstafanir. Sandgræðslunni er um megn að kosta allar þessar framkvæmdir, sem nú er unnið að, með hinni áætluðu fjárveitingu, og er því lagt til, að fjárveiting til sandgræðslustöðva hækki um 150 þús. kr.

Í fjárlfrv. er lagt til að veita 1 millj. og 500 þús. kr. til þess að gera tilraunir með nýjar síldveiðiaðferðir. Orðalag liðarins er að vísu nokkuð villandi, því að meginhluti fjárveitingarinnar er kostnaður vegna varðskipsins Ægis í sambandi við síldar- og fiskirannsóknir, en skipið starfar nú að verulegu leyti að þeim rannsóknum, síðan asdie-tækið var í það sett. Nú stendur til að gera tilraunir með nýja tegund síldarvörpu, sem á að geta sparað mjög mannahald og kostnað við síldveiðarnar, ef vel tekst til. Verður að telja sjálfsagt að gera þessa tilraun, en hún kostar töluvert fé, og er því óumflýjanlegt að hækka fjárveitingu á þessum lið um 350 þús. kr.

Mjög hefur verið leitað á um hækkun styrkveitinga til skálda, rithöfunda og listamanna, og hefur n. eftir atvikum þótt sanngjarnt að koma nokkuð móts við þær óskir. Er lagt til, að heildarfjárveiting til skálda, rithöfunda og listamanna svo og fræðimanna hækki um samtals 200 þús. kr. Er þá að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að heiðurslaun Gunnars Gunnarssonar skálds hækki hlutfallslega.

Svo sem till. n. bera með sér, er lagt til að hækka nokkuð fjárveitingar til ýmiss konar menningarstarfsemi, sem fé hefur verið veitt til á 15. gr. fjárl. Hirði ég ekki að rekja þær till. í einstökum liðum, því að í flestum tilfellum er hér um smáar fjárveitingar að ræða. Stærsti liðurinn er fjárveiting vegna væntanlegrar þátttöku íslenzkra myndlistarmanna í listsýningu í Rómaborg. Gefst íslenzkum myndlistarmönnum þar tækifæri til þess að kynna umheiminum list sína, og þykir því sanngjarnt að styrkja þetta fyrirtæki. Eftir atvikum þykir þó rétt, að styrkveitingin sé bundin því skilyrði, að menntamálaráðuneytið samþykki undirbúning og tilhögun á þátttöku í sýningunni.

N. telur nauðsynlegt að hraða eftir föngum undirbúningi að útgáfu hinnar íslenzku orðabókar og leggur því til, að fjárveiting til hennar verði hækkuð um 25 þús. kr.

Svo sem kunnugt er, voru stúdentagarðarnir á sínum tíma að verulegu leyti reistir fyrir samskotafé, og hafa því þessar veglegu byggingar ekki orðið ríkissjóði kostnaðarsamar. Enn hvíla þó stofnskuldir á stúdentagörðunum, sem nema rúmum 900 þús. kr. Er þetta þungur baggi og hindrar, að auðið sé að veita stúdentum eins hagstæð kjör á stúdentagörðunum og æskilegt hefði verið. Nú stendur enn fremur fyrir dyrum mjög kostnaðarsöm viðgerð á nýja stúdentagarðinum. Hefur verið leitað eftir nokkurri aðstoð ríkissjóðs til þess að grynna á þessum skuldum, og er lagt til að veita stjórn stúdentagarðanna 100 þús. kr. styrk til greiðslu stofnskuldar.

Ljóst er nú orðið, að rekstrarhalli almannatrygginganna verður meiri en svo, að það viðbótarframlag ríkissjóðs til trygginganna nægi, sem áætlað er í fjárlfrv. Er því talið óumflýjanlegt annað en leggja til, að viðbótarframlag þetta hækki um 1 millj. kr., til þess að almannatryggingunum verði fært að standa undir skuldbindingum sínum. Er hér eingöngu um bráðabirgðaráðstöfun að ræða í trausti þess, að betri skipan verði komið á þessi mál í sambandi við þá heildarendurskoðun tryggingalöggjafarinnar, sem nú stendur yfir.

Um það hefur verið samið, að Íslendingar tækju að mestu eða öllu leyti að sér ýmsar framkvæmdir á vegum varnarliðsins, sem áður hafa verið unnar af erlendum verktökum. Hefur í þessu sambandi verið stofnað sameignarfélagið Íslenzkir aðalverktakar, og hefur ríkisstjórnin ákveðið, að ríkissjóður verði að 1/4 hluta aðili að þessu félagi. Þótt menn kunni að greina á um það, hvort rétt sé, að ríkið sé sjálft beinn þátttakandi í þessum framkvæmdum, þá þýðir ekki annað en leggja fram það fé, sem leiðir af þessari ákvörðun. Er gert ráð fyrir, að stofnframlag ríkissjóðs í sameignarfélaginu verði ein millj. kr., en þar að auki þarf ríkissjóður að ábyrgjast vegna félagsins allt að 1.5 millj. kr. lán vegna þátttöku ríkissjóðs í félaginu. Um þetta mál hefur ekki náðst samkomulag í fjvn., en meiri hl. n. leggur til, að staðið verði við þær skuldbindingar, sem ríkisstj. hefur tekið á ríkissjóð með ákvörðuninni um þátttöku í þessu félagi.

Ég hef þá gert grein fyrir meginatriðunum í brtt. fjvn. við gjaldabálk fjárlfrv. Verði allar till. n. á þskj. 236 og 237 samþykktar, mun það leiða til um 14 millj. kr. hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs á næsta fjárhagsári.

Áður en ég sný mér að tekjuáætluninni, tel ég rétt að minnast á atriði, sem er að verða vaxandi vandamál, en það er greiðsla á því framlagi, sem ríkissjóði er í ýmsum lögum ætlað að greiða sem styrk til sveitarfélaga vegna ýmiss konar framkvæmda þeirra. Er hér fyrst og fremst um að ræða skólabyggingar, hafnargerðir og sjúkrahúsabyggingar. Þótt vafasamt sé, hvort sveitarfélögin eigi lögvarinn kröfurétt á ríkissjóð um greiðslu þessa fjárhluta, þá er ekki að efa, að Alþ. hefur á sinum tíma ætlazt til, að ríkissjóður greiddi þennan hluta af kostnaðinum, og sveitarfélögin vitanlega á það treyst. Verður því ekki hjá því komizt, að ríkið greiði þessar fjárhæðir, sem á eru fallnar, og eigi að hafa aðra tilhögun á þeim málum í framtíðinni, verður að breyta þeim lögum, sem við eiga. Nú standa svo sakir, að ógreiddur hluti ríkissjóðs vegna skólabygginga mun vera um 16.5 millj. kr., vegna hafnargerða og lendingarhóta um 5.6 millj. og vegna sjúkrahúsa um 2 millj. Þótt ríkissjóður hafi frá ári til árs haldið í horfi um framlög til þessara framkvæmda, hefur framkvæmdahraði landsmanna í þessum efnum verið miklu meiri en svo, að fjárveitingar hafi nægt upp í ríkishlutann.

Þótt nokkur hækkun sé gerð á fjárveitingu til þessara þarfa nú, er hætt við, að lítið grynni á hinum ógreidda hluta ríkissjóðs, því að svo miklar framkvæmdir munu vera fyrirhugaðar á næsta ári í þessum greinum. Er því nauðsynlegt, að ríkisstj. taki þetta vandamál til sérstakrar athugunar.

Tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar í fjárl. þessa árs 443.5 millj. kr. Þegar endanlega var gengið frá tekjuáætlun þessari, sýndust horfur á, að tekjur ríkissjóðs árið 1953 mundu verða eða geta orðið um 480 millj. kr., en reyndin varð sú, að tekjurnar urðu 510 millj. kr. Árið 1953 fékk ríkissjóður 24 millj. kr. tolltekjur af efni og vélum til virkjananna og áburðarverksmiðju, og var sýnt, að hliðstæðar innflutningstekjur yrðu ekki til á þessu ári. Miðað við allar aðstæður taldi því meiri hl. fjvn. ekki mega ganga lengra í útgjaldatill., og var sú afstaða raunsæ miðað við ástand og horfur.

Reyndin hefur orðið sú, að tekjur ríkissjóðs ætla að verða í ár meiri en nokkrum kom til hugar. 1. des. í ár voru tekjur ríkissjóðs orðnar 456 millj., en voru á sama tíma í fyrra 423 millj. Í desembermánuði í fyrra urðu tekjur ríkissjóðs 87 millj., og miðað við tekjuhækkunina 11 mánuði ársins má gera ráð fyrir, að tekjurnar í desember nú geti orðið um 95 millj. Er því sennilegt, að tekjur ríkissjóðs í ár geti orðið 550 millj., eða um 40 millj. kr. hærri en þær urðu á árinu 1953. Orsök þessara miklu tekna ríkissjóðs er fyrst og fremst hinn geysimikli innflutningur. Má gera ráð fyrir, að innflutningurinn í ár muni nema um 1200 millj. kr. Bendir þetta til mikillar kaupgetu í landinu, og er innflutningurinn miklum mun meiri en svarar tekjum þjóðarinnar á útfluttum framleiðsluvörum sínum. Byggist þessi mikli innflutningur og þar af leiðandi hinar miklu tekjur ríkissjóðs algerlega á því, að um gjaldeyristekjur hefur verið að ræða eftir öðrum leiðum, og það, sem gerir þennan mikla innflutning mögulegan, eru fyrst og fremst gjaldeyristekjur þær, sem þjóðin fær frá varnarliðinu. Tekjur áfengisverzlunarinnar og tóbaksverzlunarinnar sýnast ætla að fara nokkuð fram úr áætlun, en aðrar tekjur ríkissjóðs eru svipaðar og í fyrra og innheimtur tekju- og eignarskattur þó raunar töluvert lægri en um sama leyti í fyrra. Aftur á móti hefur söluskattur hækkað, en hann fylgir nokkuð sömu lögmálum og innflutningstollarnir.

Ágreiningurinn um tekjuáætlunina stafar af því, að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í n. vilja miða tekjuáætlunina við þróunina í fyrra og í ár og álykta sem svo, að sams konar þróun til tekjuhækkunar hljóti að verða á næsta ári. Vissulega geta þeir á það bent, að tekjur ríkissjóðs í ár hafi orðið miklum mun meiri en meiri hl. fjvn. vildi álíta við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1954. Engu að síður munu þó flestir gera sér ljóst, að ekki er auðið að afgreiða fjárl. fyrir næsta ár með svo einfaldri staðhæfingu, heldur verði að íhuga með rökréttri hugsun aðstæðurnar eins og þær eru nú og raunverulegar horfur um tekjuöflun á næsta ári, því að öllum má ljóst vera, að ekki eru neinar líkur til, að tekjur ríkissjóðs haldi áfram að hækka í sömu hlutföllum og verið hefur í ár og síðustu ár.

Tekjur ársins 1953 reyndust 30–10 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir, þegar fjárl. voru afgreidd, en þá lágu ekki heldur fyrir upplýsingar um tekjur ríkissjóðs nema 10 fyrstu mánuði ársins. Nú liggja fyrir upplýsingar um tekjur 11 mánuði þessa árs og gert ráð fyrir hliðstæðri tekjuhækkun í desembermánuði og verið hefur aðra mánuði ársins. Er þó mikill vafi á, að tekjuhækkunin verði hliðstæð í desember, því að tekjur októbermánaðar reyndust töluvert lægri en í fyrra í sama mánuði og tekjur nóvembermánaðar gera ekki meira en að samsvara tekjum nóvembermánaðar 1953. Er því ljóst, að nokkur samdráttur er í innflutningi síðasta hluta ársins, og sýnast því engar horfur á því, að tekjur ársins geti orðið meiri en 550 millj. kr. Er því ljóst, að ekki getur í ár orðið um að ræða þá miklu tekjuhækkun frá áætlun eins og varð á árinu 1953.

Naumast mun nokkur maður í alvöru þora að afgreiða fjárlög nú í trausti þess, að tekjur ársins 1955 reynist mun hærri en tekjurnar í ár. Hinn geysimikli innflutningur s.l. 2 ár hefur mettað svo vöruhungrið, að kaupsýslumenn telja nú á ýmsum sviðum eftirspurnina hafa minnkað verulega, og augljóst er, að sala er minnkandi á ýmsum vörutegundum. Er þetta eðlileg þróun, en hlýtur að leiða til minni innflutnings. Munu nú vera í landinu mjög miklar vörubirgðir, og hinn minnkandi innflutningur síðustu mánuði ársins bendir ótvírætt til þess, að innflytjendur séu farnir að draga nokkuð úr innkaupum sínum.

Árið í ár hefur verið mikið framleiðsluár og mjög vel gengið með sölu á íslenzkum afurðum, þannig að vörubirgðir munu nú vera mjög litlar í landinu. Virðast ekki miklar líkur til þess, að um verulega aukningu útflutningsverðmæta verði að ræða á næsta ári, og líkur til, að framkvæmdir á vegum varnarliðsins verði minni á næsta ári, ef miðað er við það, sem nú er vitað.

Með hliðsjón af þessu er því vægast sagt óvarlegt að gera ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs á árinu 1955 verði hærri en í ár, og má raunar teljast gott, ef þær verða jafnháar.

Meiri hl. fjvn. leggur til, að tekjuáætlunin verði hækkuð um 19 millj. kr., og eru þá tekjur ríkissjóðs áætlaðar samtals tæpar 514 millj. kr. á árinu 1955. Miðað við að afgreiða fjárlög þannig, að ekki verði um greiðsluhalla að ræða hjá ríkissjóði, telur meiri hl. n. mjög óvarlegt að áætla tekjurnar meiri.

Hv. stjórnarandstæðingar munu vafalaust á það benda, að þessi áætlun sé um 36 millj. kr. lægri en tekjur ríkissjóðs verða í ár. Þetta er rétt, en því er til að svara, að alltaf hefur verið um að ræða miklar greiðslur umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Má auðvitað segja, að óeðlilegt sé að greiða fé umfram fjárlagaheimild, en augunum verður ekki lokað fyrir því, að þetta hefur ætíð verið gert, og í mörgum tilfellum er um greiðslur að ræða, sem ekki var hægt að sjá fyrir, þegar fjárl. voru samþykkt, en óumflýjanlegt af þjóðfélagslegri nauðsyn að inna af hendi og allir síðar sammála um. Má t.d. á það benda, að ef tekjur ríkissjóðs hefðu ekki orðið miklum mun meiri en öll rök sýndust benda til við afgreiðslu fjárl. í fyrra, þá hefði orðið greiðsluhalli hjá ríkissjóði á þessu ári. 36 millj. kr. eru aðeins rúm 7% af heildartekjuáætluninni nú, og sýnist ekki vanþörf á þeirri fjárhæð til að standa straum af óumflýjanlegum greiðslum á næsta ári, sem umfram verða fjárl.

Því til sönnunar, að hér sé ekki um of háa áætlun að ræða varðandi umframgreiðslur, vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að undanfarin ár hafa umframgreiðslur ríkissjóðs orðið sem hér segir:

Árið 1953 .......... 86.2 millj. kr.

— 1952 .......... 41.2 — —

— 1951 .......... 89.7 — —

— 1950 .......... 16.8 — —

— 1949 .......... 53.9 — —

— 1948 .......... 56.4 — —

— 1947 ..........100 — —

Ef litið er á umframgreiðslur á rekstrarreikningi út af fyrir sig, þá hafa þær aðeins einu sinni farið niður fyrir 7.6%, miðað við tímabilið allt frá 1924 til 1953, og langoftast verið miklu hærri.

Leggja verður auðvitað jafnan ríka áherzlu á það að halda útgjöldum ríkissjóðs innan ramma fjárl., en svo sem ég áðan gat um, koma ætíð til ýmis ófyrirsjáanleg atvik, auk þess sem ríkissjóði er gert að inna af hendi greiðslur ýmiss konar, annaðhvort með beinum lagafyrirmælum eða heimildarlögum. Miðað við reynsluna telur því meiri hl. fjvn. allar horfur á því, að útgjaldaáætlunin sé nú svo há, að gæta verði mikillar varúðar með umframgreiðslur á næsta ári, ef ekki eigi að verða greiðsluhalli hjá ríkissjóði.

Í fjárlfrv. er lagt til að leggja 10 millj. kr. í framkvæmdasjóð ríkisins í því skyni að nota þetta fé síðar til nauðsynlegra bygginga á vegum ríkisins. Því er mjög miður farið, að ríkið skuli ekki geta tileinkað sér þá búskaparhætti að leggja fyrir fé í góðum árum til þess að eiga nokkra varasjóði, þegar harðnar í ári. Ætti raunar að leggja verulegan hluta greiðsluafgangs ríkissjóðs á hverjum tíma í slíkan varasjóð. En því er ekki að heilsa, að þá aðferð sé hægt að hafa. Það hefur komið sér vel eftir á, þegar greiðsluafgangur hefur orðið hjá ríkissjóði, og mun svo einnig verða á þessu ári, og hefur með þessu fé tekizt að leysa ýmsar mjög mikilvægar þarfir. Er því siður en svo, að fénu hafi verið illa varið, og næsta kynlegt, þegar það er notað til árása á ríkisstjórnina, að greiðsluafgangur sé hjá ríkissjóði. Með framlaginu til framkvæmdasjóðs var nú ætlunin að reyna að mynda dálítinn varasjóð, og var það vissulega spor í rétta átt. Hins vegar er sýnilegt, að útgjaldaþörfin leyfir ekki þessa hagsýni nema að litlu leyti, og hefur meiri hl. fjvn. neyðzt til að leggja til að skerða þetta fyrirhugaða framlag um helming.

Samkvæmt till. meiri hl. fjvn. verður hagnaður á rekstraryfirliti rúmar 70.5 millj. kr., og hagstæður greiðslujöfnuður verður rúmar 10.7 millj., en var í frv. aðeins 956 þús. kr.

Sumir kunna að álíta sem svo, að óhætt sé við þessa umr.samþ. ýmsar þær óskir um fjárveitingar, sem fram eru bornar, bæði af minni hl. fjvn. og einstökum hv. þm., en meiri hl. n. varar mjög eindregið við því. Í nál. er tekið fram, að allmörg mál, sem til útgjalda horfa, séu enn óafgreidd hjá n. Er þar m.a. um að ræða till. um hækkun á framlagi til skólabygginga og sjúkrahúsabygginga, hækkun á framlagi til iðnlánasjóðs og íþróttasjóðs. Ekki hafa enn verið afgreidd framlög til ferjuhafna, og allmörg erindi varðandi tónlistarstarfsemi og söngmennt ýmiss konar bíða enn afgreiðslu, auk ýmissa annarra erinda, sem borizt hafa nú síðustu daga og óhjákvæmilegt kann að verða að sinna að einhverju leyti. Þá er þess enn fremur að gæta, að allar till. um eftirlaun á 18. gr. fjárl. bíða 3. umr. að venju. Samvinnunefnd samgöngumála mun skila áliti um fjárveitingar til flóabáta, og munu till. n. ekki liggja fyrir fyrr en við 3. umr. frv., en sýnt er, að þar verður um töluverða hækkun að ræða.

Stærsti útgjaldaliðurinn, sem enn hefur ekki verið tekinn inn í fjárlfrv., mun verða launauppbætur til opinberra starfsmanna. Sérstök n. vinnur nú að heildarendurskoðun launalaga, en álit hennar og till. munu naumast koma fyrir þetta þing. Er því gert ráð fyrir einhverjum bráðabirgðaráðstöfunum á næsta ári, því að opinberir starfsmenn telja sig mjög vanhaldna miðað við þær kjarabætur, sem allar aðrar stéttir þjóðfélagsins hafa fengið síðan launalög voru sett. Eru allar horfur á, að hér verði um töluverða fjárhæð að ræða. Er því augljóst, að greiðsluafgangur sá, sem nú er á fjárlfrv., mun ekki gera betur en jafna metin við 3. umr. frv.

Loks ber að hafa það í huga við tekjuáætlunina, að endurskoðun skattalaga er enn ekki lokið, og getur vel svo farið, að þær niðurstöður leiði til enn frekari rýrnunar á tekju- og eignarskatti.

Verði allar brtt. fjvn. við gjaldabálk frv. samþ., hækka áætluð ríkísútgjöld í frv. um 56 millj. kr., miðað við fjári. þessa árs. Raunveruleg hækkun er þó ekki nema um 49 millj., því að nú verða tekin inn í fjárlfrv. í millj. kr. útgjöld, sem eru á 22. gr. í fjárl. þessa árs. Hér er samt um mjög mikla hækkun að ræða, þannig að líklegt er, að mönnum finnist við nánari athugun fremur, að ríkisstj. og meiri hi. fjvn. séu of rausnarleg í framlögum úr ríkissjóði, en hið gagnstæða, svo sem hv. minni hl. fjvn. vill vera láta.

Helztu hækkanir frá gildandi fjárl. eru þessar, þegar til greina eru teknar till. nefndarinnar: Almannatryggingar 4 millj., kennslumál 3.5 millj., sjávarútvegsmál 2.7 millj., kirkjumál 3 millj., vegir og brýr 3.2 millj., hafnir 0.8 millj., eignahreyfingar 17.8 millj., dýrtíðarráðstafanir 3.2 millj. og heilbrigðismál 1 millj.

Þótt fjárhagur ríkissjóðs standi nú í blóma, er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að engin von er til þess, að ríkissjóður fái lengi staðið undir slíkum útgjaldahækkunum frá ári til árs sem verið hafa nú um langt skeið. Hinn ríkjandi hugsunarháttur er þó þannig, að mjög erfitt er að sporna við fótum. Flestir vilja láta leiðast af þeirri draumsýn, að sífellt hljóti að stefna hratt upp á við með tekjur ríkissjóðs og því sé sjálfsagt fyrir alla þjóðfélagsborgara, sem í einhverjar kröggur komast, að gera kröfu um aðstoð frá ríkinu. Háværastar eru þó kröfurnar frá þeim, sem mest tala um skattaáþján og telja allt að því glæpsamlegt af ríkisvaldinu að ætlast til þess að fá tekjur til þess að standa undir hinum háu útgjöldum. Öllum hugsandi mönnum hlýtur að vera ljóst, hversu rangsnúinn slíkur hugsunarháttur er.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, mun ég ekki nú ræða einstakar brtt. hv. minni hl. fjvn., sem liggja fyrir í sameiginlegu áliti frá þeim hv. tveim þm., heldur bíða þess, að talað verði fyrir till. Allar eru till. þessar um aukin útgjöld, sem nema mörgum milljónatugum, og hvergi bent á eina einustu tillögu til sparnaðar á útgjöldum ríkisins, nema þá helzt það að leggja niður varnarmáladeildina við utanríkisráðuneytið.

Í nál. sínu lætur minni hl. n. kveða við hinn sama són og áður, að útgjaldahækkun ríkissjóðs sé fyrst og fremst að kenna hinu svokallaða „embættismannabákni“. Engin till. er þó fram borin til þess að minnka þetta bákn, og ekki kæmi mér á óvart, að þessir hv. þm. teldu sig mikla stuðningsmenn launahækkana til opinberra starfsmanna, þegar þær koma til meðferðar.

Minni hl. segir, að fjármálastefna núverandi

hæstv. ríkisstj. sé hin mesta glæfrastefna, og sé aðaleinkenni stefnunnar að hækka álögur á landsmenn og auka þannig tekjur ríkissjóðs. Hér er um hina mestu staðleysu að ræða, svo sem allir vita. Tollar og skattar til ríkissjóðs hafa verið óbreyttir í mörg ár, og á síðasta þingi voru beinir skattar meira að segja lækkaðir um 20–29%. Hinar síhækkandi tekjur ríkissjóðs stafa því alls ekki af því, að álögur hafi verið þyngdar á landsmönnum, heldur koma þær af aukinni peningaveltu og auknum innflutningi. Að ríkisstj. hafi einkum lagt sig fram um að íþyngja atvinnuvegum landsmanna, er slagorð, sem ekki á við nein rök að styðjast og ósæmilegt er að byggja málflutning á í nál. á Alþ.

Sú staðreynd blasir við, að hv. minnihlutamenn og skoðanabræður þeirra hafa ekki sýnt nokkra viðleitni í þá átt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, heldur finna þeir ríkisstj. og meiri hl. fjvn. það helzt til foráttu, svo sem till. þeirra benda til, að vilja ekki ganga nógu langt til fjárveitinga úr ríkissjóði. Jafnframt hneykslast þessir hv. þm. yfir því, að stjórnarflokkarnir skuli ekki afnema stóran hluta þeirra tekjustofna, sem eiga að standa undir þessum miklu útgjöldum ríkisins. Sjá allir heilvita menn, hversu óraunhæf og hættuleg slík fjármálastefna er.

Svo sem hæstv. fjmrh. skýrði frá í framsöguræðu sinni við 1. umr. fjárl., skipaði ríkisstj. á s.l. sumri 6 manna n. til þess að athuga, hvort og þá hvernig koma mætti við sparnaði í rekstri ríkisins. Jafnframt var n. falið að gera till. um, hversu setja mætti hemil á hin sívaxandi útgjöld ríkissjóðs vegna ábyrgðarskuldbindinga. Hér er um mjög stórt viðfangsefni að ræða, sem engin von er til að hægt sé að gera viðhlítandi skil á skömmum tíma, enda mun n. ekki enn hafa skilað till sínum, og hefur því ekki verið auðið að hafa þær til leiðbeiningar við afgreiðslu fjárl. í þetta sinn. En fjvn. er þeirrar skoðunar, að erfitt kunni að reynast að ná saman endum við samningu næstu fjárl. og sé því mikilvægt að íhuga vandlega allar hugsanlegar leiðir til sparnaðar.

Sannleikurinn er þó sá, að það er hægara að tala um sparnað en að framkvæma hann, og erfitt mun verða að koma við nokkrum þeim sparnaði, sem verulegu máli skiptir, nema með því að skerða ýmsa þá þjónustu, sem almenningur telur mikilvægt að ríkið haldi uppi. Það getur auðvitað hljómað vel í eyrum að tala um „embættismannabákn“, sem allt sé að sliga, en jafnvel þeim, sem oftast taka sér það orð í munn, hefur til þessa reynzt ofvaxið að benda á sparnaðarúrræði á því sviði.

Meiri hl, fjvn. mælir með því, að fjárlfrv. verði samþykkt með þeim brtt., sem n. ber fram á þskj. 236 og 237. Það er von meiri hl. n., að allur þorri hv. þm. vilji styðja þá fjármálastefnu að íþyngja ekki atvinnuvegum þjóðarinnar og þjóðfélagsborgurunum með of þungum álögum, en halda þó uppi sem fjölþættustum stuðningi við atvinnulif í landinu, tryggja sem bezt félagslegt öryggi þjóðarinnar, efla sem mest margvíslega menningarstarfsemi í landinu, en gæta þess þó jafnan að standa báðum fótum á jörðu, binda næstu kynslóðum ekki stærri skuldabagga en svo, að þær fái undir þeim risið, og gæta þess þá um leið jafnan að haga ríkisbúskapnum og fjármálastefnu ríkisins þannig, að sæmi stjórnarfarslega þroskaðri þjóð. Í samræmi við þessa meginstefnu hefur fjvn. teygt sig svo langt sem verða má með fjárframlög til hinna margþættustu þjóðnytjamála, en um leið lagt áherzlu á að halda sér innan þeirra takmarka, að afkoma ríkissjóðs verði greiðsluhallalaus á næsta fjárhagsári. Þessa stefnu telur hún í beztu samræmi við hagsmuni þjóðarinnar.