08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

1. mál, fjárlög 1955

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umr., hefur fjvn. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu fjárlfrv. Meiri hl., þ.e. stuðningsmenn ríkisstj., leggur til, að frv. verði afgreitt í öllum meginatriðum á þeim grundvelli, sem ríkisstj. hefur lagt til í upphafi í frv. En við tveir í minni hl., hv. 3. landsk. (HV) og ég, lýsum hins vegar yfir, að við erum andvígir þeirri meginstefnu, sem fjárlfrv. er grundvallað á.

Hv. 3. landsk. hefur nú gert hér allýtarlega grein fyrir afstöðu okkar og ýmsum þeim till., sem við flytjum, og af þeirri ástæðu get ég stytt mál mitt, en mun þó víkja hér að nokkrum aðalatriðum, bæði viðvíkjandi till. og viðvíkjandi sjónarmiði míns flokks til frv. í heild.

Við sósíalistar höfum marglýst því yfir, að við teljum, að fjármálastefna þessarar ríkisstj. og þeirrar ríkisstj., sem hér fór með völd næst á undan þessari, sú fjármálastefna, sem markast í fyrirliggjandi fjárlfrv., sé í aðalatriðum röng og óheillavænleg fyrir atvinnuvegi landsmanna og afkomu alþýðu manna. Við teljum, að það þurfi aðskipta um stefnu í öllum meginatriðum í fjármálum. Sú fjármálastefna, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur lagt sérstakt kapp á, hefur einkennzt fyrst og fremst af því að hækka jafnt og þétt frá ári til árs álögur á landsmenn, hækka tekjur ríkissjóðs. Hún hefur að verulegu leyti verið fólgin í því að trúa á það, að þá fyrst væri fjármálum landsmanna vel borgið, ef ríkissjóður hefði nokkurn tekjuafgang.

Því er að vísu haldið fram hér, að ríkisstj. hafi ekki hækkað álögur á landsmenn, vegna þess að að verulegu leyti séu sömu skattstigar í gildi og hafi verið í gildi í mörg ár. En það er auðvitað auðvelt verk að leika sér að tölum aftur og fram, m.a. þegar gerð er grundvallarbreyting á gildi talna eins og í sambandi við gengisbreytingar. Eigi að siður verður ekki um það deilt, að t.d. fyrsta árið eftir að gengisbreytingin var samþykkt, árið 1950, voru heildartekjur ríkissjóðs rétt í kringum 300 millj. kr., en nú á þessu ári, sem er að ljúka, eru þessar sömu tekjur orðnar 550 millj. kr. Það gefur því alveg auga leið, að álögurnar á landsmenn hafa hækkað sem þessu nemur, jafnvel þó að ýmsir skattstigar hafi verið óbreyttir frá því, sem áður var.

Við sósíalistar höfum lagt áherzlu á, að það eitt, að ríkissjóður sýni sæmilega góða afkomu, segi tiltölulega lítið um það, hversu réttmæt fjármálapólitíkin er, hitt skipti miklu meira máli, að rannsaka, hvernig atvinnulífi landsmanna hefur vegnað undir þessari fjármálastjórn. Búa atvinnuvegirnir við eðlileg kjör, geta þeir starfað óhindrað, og aukast af þeim ástæðum þjóðartekjurnar á raunhæfan hátt?

Staðreyndirnar hafa leitt í ljós, að flestar aðalgreinar atvinnulífsins eru þannig á vegi staddar, að það verður að grípa til örþrifaráða til þess að forðast þar beina stöðvun. Og fjöldamörg dæmi liggja fyrir til sönnunar því, að þau atvinnutæki, sem landsmenn hafa aflað sér, eru ekki notuð til fulls vegna þess, hve atvinnulifið er aðþrengt fjárhagslega.

Það er auðvelt að benda á, að það væri hægt aðeins með samþykkt einnar nýrrar till. hér á Alþ. að auka tekjur ríkissjóðs enn um 1 eða 2 eða 3 hundruð millj. króna, og fjármálaráðherra gæti svo komið fram á eftir og státað af því, að hagur ríkissjóðs væri góður. En afleiðing þessa gæti hins vegar orðið sú, að verulegur hluti af aðalatvinnuvegum landsmanna hefði stöðvazt. Þó að þetta hafi nú ekki gengið svo langt, að fjmrh. geti með þeirri stefnu, sem hér hefur verið haldið, komið hér fram á Alþ. og státað af 1, 2 eða 3 hundruð millj. króna afgangi, og afleiðingin sé ekki heldur orðin sú, að meginhluti af atvinnutækjum landsmanna sé stöðvaður, þá hefur óneitanlega stefnt mjög í þessa átt. Hæstv. fjmrh. og ríkisstj. sem heild státa af þessari góðu afkomu ríkissjóðs, en vilja minna tala um hina raunverulegu afkomu atvinnuveganna.

Við sósíalistar höfum einnig lýst því yfir, að við erum í meginatriðum andvígir þeim tekjuöflunarleiðum, sem nú eru farnar til að afla ríkissjóði tekna. Eins og kunnugt er, þá er uppistaðan í tekjum ríkissjóðs tollar á neyzluvarning, söluskattur, sem verkar nákvæmlega eins og þungbærustu tollar, og síðan hagnaður af áfengissölu og tóbakssölu. Aftur á móti fer sá hluti af tekjum ríkissjóðs minnkandi árlega, sem tekinn er á raunverulegan hátt af þeim, sem breiðust hafa bökin í þjóðfélaginu.

En nú er það svo, að við afgreiðslu fjárl. verður ekki gengið til atkvæða um það, hvernig tekjuöflunin skuli fram fara, — það er ákveðið með öðrum lögum, — en hins vegar er þó ljóst, að áætlanir þær, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert um væntanlegar tekjur samkvæmt þessum leiðum, eru rangar. Hv. 3. landsk. hefur nú gert allýtarlega grein fyrir skoðunum okkar í minni hlutanum í þeim efnum, og þarf ég því ekki að eyða löngu máli að því. En aðalatriðin eru þessi: Tekjurnar samkvæmt fyrirliggjandi tekjuöflunarleiðum munu á þessu ári reynast í kringum 550 millj. kr. eða fara 108 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga. Það er engin ástæða til þess að áætla ekki á næsta ári jafnmiklar tekjur til handa ríkissjóði samkvæmt þessum sömu lögum eins og tekjurnar verða á þessu ári, og við það höfum við í minni hlutanum miðað okkar tillögur.

Ég endurtek það, að þó að við stöndum að till., sem miða að hækkun á verðtolli og söluskatti, þá er það aðeins til þess að leiðrétta fyrirliggjandi áætlanir, en eigi að síður erum við mótfallnir þeirri leið, sem meiri hluti Alþ. hefur ákveðið í sambandi við þessa tekjuöflunarleið.

Það er skoðun okkar í minni hlutanum, að ekki sé verjandi, eins og nú er háttað afkomu ríkissjóðs, að afgreiða svo fjárlög fyrir næsta ár, að ekki séu gerðar ráðstafanir til frambúðarlausnar á atvinnumálum þeirra landshluta, þar sem nú er verst ástatt í atvinnumálum. Það verður þó að teljast hin minnsta skylda ríkisins, þegar þannig hefur verið haldið á málunum eins og ég hef nokkuð minnzt hér á, að afkoma ríkissjóðs er orðin mjög góð, að ríkissjóður sýni þá skilning á því að mæta aðkallandi vanda í sambandi við atvinnumál þeirra, sem eiga erfiðast í þeim efnum, en það er löngu viðurkennt mál hér á Alþ., að víðs vegar úti á landi stappar nærri hreinum vandræðum í atvinnumálum.

Það fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, gerir ekki ráð fyrir neinum úrbótum í þessum efnum. Það eina, sem í því er að finna, er það, að gert er ráð fyrir að verja 5 millj. kr. til atvinnubóta úti á landi, þar sem atvinnuleysi er orðið viðvarandi, en það er samsvarandi fjárveiting og veitt hefur verið í þessu skyni nokkur undanfarin ár. En um úrbætur, sem mættu verða til frambúðar í þessum efnum, er ekki að ræða.

Við í minni hlutanum höfum því lagt hér fram till., sem mættu verða fyrsta skref í þá átt, að hér yrði virkilega hafizt handa með nokkra frambúðarlausn í þessum málum. Við leggjum hér til, að ríkissjóður taki að láni eða leggi fram, eftir því sem geta hans er til, 50 millj. kr. og framláni þessa upphæð til þeirra bæjar- og sveitarfélaga úti á landi, sem mest eru þurfandi í þessum efnum og þurfa að rétta við sitt atvinnulíf. Ég hygg, að varla verði um það deilt, að ríkissjóður getur vel látið þetta fé af hendi. Hvort tveggja er, að hann getur tekið nokkurn hluta af þeim mikla tekjuafgangi, sem hann kemur til með að eiga nú í árslokin, og varið honum í þessu skyni, og eins mun honum ekki heldur verða skotaskuld úr að taka nokkuð eða jafnvel allt þetta fé, 50 millj. kr., að láni og framlána það þessum byggðarlögum. Spurningin er aðeins sú: Er vilji hér á hv. Alþ. í þessa átt? Vill hæstv. ríkisstj., að ráðið verði á varanlegan hátt fram úr þessum vandamálum þeirra staða, sem hér hafa orðið harðast úti?

Við höfum einnig lagt fram till. um það, að 20 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs á þessu ári verði varið til þess að efla fiskveiðasjóð. Um þetta hefur lítillega verið rætt hér á Alþ., og raddir hafa jafnvel komið fram um það frá hæstv. ríkisstj., en engar till. hafa komið fram um þetta efni enn. Það má hins vegar telja fullvíst, að hreinn tekjuafgangur ríkissjóðs á þessu ári muni verða um 60–70 millj. kr. Það virðist því ekki nema sanngjarnt, að af þessari fjárfúlgu verði varið um 20 millj. kr. til þess að efla fiskveiðasjóð, en meginhlutinn af því fjármagni, sem þangað gengur, er aftur lánaður til þess að kaupa inn nýja fiskibáta til landsins og efla fiskiðnað landsmanna og skilar sér því fljótlega í stórauknum þjóðartekjum.

Þá leggjum við einnig fram till. nm það, að varið verði beint úr ríkissjóði 10 millj. kr. til þess að styðja ýmsa til fiskiskipakaupa. Það hefur sýnt sig, að þeir staðir eru allmargir, sem eru þannig settir fjárhagslega nú, að þó að þar sé fyrir að finna duglega fiskimenn, sem gjarnan vilja eignast fiskibáta, þá þurfa þeir að leggja fram til þess að eignast meðalfiskibát a.m.k. 250–300 þús. kr. á hvern bát, en það er hærri fjárhæð en svo, að menn alls staðar á landinu hafi þetta fé handbært til þess að leggja fram í þessu skyni. Við álítum því, að það væri réttmætt að leggja af þessum miklu tekjum ríkissjóðs fram 10 millj. kr., sem yrði varið gagngert í því skyni að efla þá til þess að eignast fiskiskip, sem hafa ekki nægilegt fjármagn fram að leggja að sínum hluta á móti þeim lánum, sem annars munu verða veitt, t.d. frá fiskveiðasjóði.

Þá höfum við einnig lagt fram till um það að hækka framlag til atvinnubóta úr 5 millj. kr. í 10 millj. kr. Ég skal að vísu taka það fram, að ég álít, að ráðstöfun á undanförnum árum á þessu atvinnubótafé hafi verið verulega áfátt og það þurfi sem fyrst að reyna að breyta til um útdeilingaraðferð á þessu fé. Þegar svo er komið, að hægt er að tilgreina ýmis bláfátæk byggðarlög úti á landi, sem sótt hafa um atvinnubótafé og þar sem verulegt atvinnuleysi er oft og tíðum, en fá ekkert fé úr þessum sjóði ár eftir ár, en hins vegar eru verulega stór og fjársterk fyrirtæki og ýmsir einstaklingar, þ. á m. ýmsir alþm., farin að fá árlega atvinnubótafé, þá álít ég, að það sé komið inn á svo hættulega braut, að það verði að vara við henni. Það er sannleikur, sem rétt er að staldra við, að þetta fé hefur ekki einvörðungu verið veitt hreppsfélögum og bæjarfélögum, heldur er það svo, að það eru ýmis fjársterk fyrirtæki og fjársterkir einstaklingar, sem er orðið veitt þetta fé og það án allra skilyrða. Það fé, sem hefur átt að renna í sumum tilfellum til fátækra staða úti á landi, hefur runnið til einstaklinga að nafninu til í þessum byggðarlögum, en viðkomandi atvinnutæki, sem þannig hafa átt að fást í plássið, hafa verið horfin þaðan strax næsta ár á eftir. Vægast sagt verðum við líka að telja, að hið mesta handahóf hafi ríkt um ráðstöfun á þessu fé. Hinu er svo ekki að neita, að í mörgum tilfellum hefur þetta fé komið sér vel. Það er hægt að nefna mörg dæmi um það, að byggðarlög hafa fengið þarna nokkra fjárhagslega aðstoð og fleytt sér verulega áfram vegna þessa fjárstuðnings. Ég tel því ekki óeðlilegt, að það sé lagt fram nokkru meira fé í þessu skyni heldur en gert hefur veríð sem bráðabirgðalausn, á meðan verið er að vinna að því að byggja upp atvinnulíf þessara staða á þann hátt, sem til frambúðar má vera. Hins vegar er alveg augljóst mál, að það er fráleit stefna að ætla að halda áfram árum saman að láta viss byggðarlög eða einstaklinga fá 1, 2 og 3 hundruð þús. kr. í fjárstyrk úr ríkissjóði, og alltaf situr við hið sama um atvinnumöguleika viðkomandi staða. Það ber að taka atvinnumál slíkra staða til gaumgæfilegrar athugunar og reyna að leysa þau til framhúðar.

Í raforkumálum höfum við einnig flutt hér till. um allverulegar hækkanir. Ég verð að segja, að mér finnst, að þær fjárveitingar, sem er að finna í fjárlfrv. til nýrra raforkuframkvæmda, séu harla litlar með tilliti til þeirra stóru framkvæmda, sem fyrirhugaðar eru í raforkumálum landsmanna. Mér sýnist því, að þó að teknar séu upp í þetta fjárlfrv. fjárveitingar, sem nema samtals í kringum 22 millj. kr., eins og við í minni hlutanum ráðgerum, til raforkuframkvæmda, þá geti það varla minna verið.

Þá höfum við einnig lagt fram till. um, að varið yrði 1 millj. kr. til verðlækkunar á rafmagni frá dieselrafstöðvum. Ég minni á í þessu sambandi, að hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, þegar hún tók við völdum, að hún héti því að lækka rafmagnsverðið bjá þeim landsmönnum, sem nú búa við dýrasta raforku. Það var þá skilið svo, að þar sem dieselrafstöðvarnar enn eru og hljóta að verða um sinn, yrði gripið til þess að verðlækka nokkuð rafmagnið á þeim stöðum. Þrátt fyrir þessi loforð ríkisstj. hefur ekkert orðið úr framkvæmdum. Áfram hefur verið haldið á þeirri óheillavænlegu braut, að ríkissjóður hefur greitt fyrir þau bæjarfélög og sveitarfélög, sem eiga þessar rafveitur, vexti og afborganir, og lánum þeirra hefur sem sagt veríð haldið í óreiðu í stað þess að greiða hreinlega með nokkurri fjárveitingu á ári hverju niður það óhæfilega háa rafmagnsverð, sem er á þessum stöðum, en gera siðan aftur kröfu til þessara staða, að þeir haldi sínum lánum í eðlilegu horfi. Ég tel, að þetta loforð ríkisstj. hafi hreinlega verið svikið. Ég hef áður flutt till. hér í þessa átt, og hún hefur ekki náð fram að ganga. Nú vil ég freista þess enn einu sinni, að ríkisstj. standi frammi fyrir þessari till. og rifji þá upp loforð sín í þessu efni.

Ég skal nú ekki ræða þetta mál frekar að sinni, hef nú minnzt á þær till., sem mestu máli skipta og við í minni hlutanum flytjum, en undirstrika það, að veigamesta atriðið í augum okkar sósíalista í sambandi við afgreiðslu þessa fjárlfrv. er það, að sú stefna, sem frv. byggir á, er í aðalatriðum röng og hættuleg atvinnulífi landsmanna.