23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í D-deild Alþingistíðinda. (3049)

212. mál, áburðarverksmiðjan

Fyrirspyrjandi (Bergur Sigurbjörnsson):

Herra forseti. Ég hef borið hér fram á þskj. 164 nokkrar fyrirspurnir um áburðarverksmiðjuna. Það þarf að sjálfsögðu engan að undra, þó að menn spyrji nokkuð um þetta fyrirtæki. Áburðarverksmiðjan er, svo sem kunnugt er, stærsta iðnfyrirtæki, sem stofnað hefur verið hér á landi. Ríkið og þar með almenningur hefur mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við rekstur þessa fyrirtækis, þar sem ríkið er stærsti hluthafi í verksmiðjunni. En þar að auki hefur almenningur á margan hátt mjög mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við þetta fyrirtæki, og er því eðlilegt, að menn óski þess að fá sem gleggstar upplýsingar um starf og rekstur fyrirtækisins.

Eins og fram hefur komið hér í umr., er önnur fyrirspurn borin fram af hv. 2. þm. Reykv. um þetta sama mál, og það er rétt, sem hæstv. landbrh. tók fram, að þessar fsp. grípa nokkuð hvor inn í aðra, og get ég að sjálfsögðu fallizt á það, að svo miklu leyti sem mínum fsp. hefur þegar verið svarað af hæstv. landbrh., þá sé það svar ekki endurtekið. Skilst mér, að þetta eigi fyrst og fremst við um nr. 1 og 2 af mínum spurningum.

Hinum spurningum mínum er náttúrlega enn ósvarað og var ekki svarað með svörum við spurningum hv. 2. þm. Reykv., en þriðja spurningin er um það, hvort markaður hafi fengizt fyrir áburðinn erlendis. Það var rætt um það, þegar áburðarverksmiðjan var stofnuð, að hún mundi framleiða meira af þeirri áburðartegund, sem hún framleiðir, heldur en íslenzkur landbúnaður þyrfti að nota, og því er þessi spurning fram borin. Það er óskað eftir upplýsingum um það, hvort tekizt hafi að afla markaða erlendis fyrir það áburðarmagn, sem íslenzkir bændur hefðu ekki þörf fyrir.

Þá er spurt í fjórða lagi, hvort víða sé framleiddur sams konar áburður með tilliti til kornastærðar og hér er gert. Það þarf ekki mikið að ræða um þessa spurningu. Það kom fram í blöðum á s.l. sumri, að bændur teldu áburðinn of fínan, og það er óskað eftir, að það sé upplýst, hvort jafnfínn áburður sé framleiddur víða annars staðar.

Þá er spurt um það, hvort allar vélar áburðarverksmiðjunnar séu framleiddar af þekktum fyrirtækjum, sem langa reynslu hafi í framleiðslu slíkra véla. Má setja þessa spurningu í samband við fjórðu spurningu.

Þá er spurt um galla, hvort þeir hafi komið fram á tækjum eða vélum verksmiðjunnar, hverjir þeir séu og hvað mundi kosta að endurnýja vélarnar eða skipta um, ef slíkir gallar hefðu komið fram.

Loks er spurt um, hve mikið fé bandarískum aðilum hafi verið greitt fyrir teikningar, aðstoð og eftirlit með byggingu verksmiðjunnar, og er það í sambandi við það atriði, ef einhverjir gallar skyldu hafa komið í ljós á vélum í sambandi við uppsetningu eða byggingu verksmiðjunnar, hvort það gjald, sem greitt hafi verið erlendum aðilum, væri svo mikið, að ástæða væri til að ætla að fá einhverjar skaðabætur frá þeim fyrir.