08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

1. mál, fjárlög 1955

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins tvær brtt., sem ég hef leyft mér að flytja og ég vil leyfa mér að gera grein fyrir í örstuttu máli.

Hin fyrri þeirra er á þskj. 250, við 13. gr. C, að þar komi nýr liður: Til ferjubryggju í Skálavík í Mjóafirði, 20 þús. kr. Svo er mál með vexti, að á undanförnum árum hafa verið byggðar nokkrar smábryggjur á bændabýlum við Ísafjarðardjúp til þess að greiða fyrir afgreiðslu flóabáts þess, sem heldur uppi samgöngum um héraðið. En eins og kunnugt er, eru engir akvegir frá sveitahreppum héraðsins til aðalmarkaðsstaðar þess, Ísafjarðarkaupstaðar. Áð þessum smábryggjum, sem nefndar hafa verið ferjubryggjur, hefur orðið stórkostlegt hagræði. Bændur, sem eiga jarðir, er liggja að þeim stöðum, sem bryggjurnar eru á, sækja til þessara staða, og öll afgreiðsla flóabátsins og útskipun bænda á afurðum þeirra verður miklum mun léttari og auðveldari við það, að þessar litlu lendingarbætur hafa verið gerðar á stöðunum.

Skálavík er einn þeirra staða við Ísafjarðardjúp, sem mjög mikið hagræði væri að ferjubryggju á. Unnið er að vegagerð um þessa sveit, og má gera ráð fyrir því, að eftir eitt eða tvö ár verði bændabýlin þar komin í vegasamband. Að því væri þá ákaflega mikið hagræði, að þeir bæir, sem að þessum viðkomustað djúpbátsins eða flóabátsins liggja, gætu flutt afurðir sínar þar um borð í bátinn um smábryggju. Ég geri ráð fyrir, að það muni verða einir þrír eða fjórir bæir, sem gagn geta haft af þessum lendingarbótum. Hv. fjvn. og hv. Alþ. hefur á undanförnum árum haft glöggan skilning á nauðsyn þessara framkvæmda, og veit ég, að svo muni enn vera. Það mun hafa verið fyrir tveim árum, sem veittar voru 20 þús. kr. til ferjubryggju í Skálavík. En við rannsókn, sem fram hefur farið á kostnaði við framkvæmdir, hefur komið í ljós, að ekki muni vera unnt að byggja slíkt mannvirki fyrir nema allmiklu hærri upphæð, enda þótt bóndinn á jörðinni og e.t.v. aðliggjandi jarðir muni taka nokkurn þátt í kostnaðinum. Ég hef því leyft mér að fara fram á, að veittar yrðu 20 þús. kr. til viðbótar til þessa mannvirkis. Ég sé nú, að hv. fjvn. hefur ekki tekið afstöðu í till. sínum til þessarar óskar minnar og fleiri óska, sem fram munu hafa komið um styrk til slíkra mannvirkja, og mun hafa geymt sér það til 3. umr. Er ég þess vegna reiðubúinn til þess að taka þessa brtt. aftur til 3. umr., þannig að hv. n. gefist tækifæri til þess að fjalla um hana og taka afstöðu til hennar, eins og annarra skyldra óska, sem fram kunna að hafa komið til hennar.

Önnur brtt., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Dal. og hv. þm. Snæf., mun ekki hafa borizt hv. þm. enn þá. Ég leyfi mér þó, með leyfi hæstv. forseta, að mæla fyrir henni örfáum orðum, en hún er um það, að ríkisstj. verði heimilað að verja fé til þess að tryggja það, að notendur talstöðva á afskekktum stöðum verði ekki verr settir en það fólk í sveitum landsins, sem hefur afnot af notendasíma.

Ég vil upplýsa það, að hér á landi eru nú samtals 26 talstöðvar á afskekktum stöðum, flestar í eyjum og útnesjum, og fáeinar inn til dala. Það fólk, sem þessi tæki hefur, er verst sett allra manna á landi hér um samgöngur, og það hefur verið látið fá þessi taltæki vegna þess, að það hefur verið talið ódýrara fyrir landssímann heldur en að leggja þangað símalínur á landi eða um sjó. En þetta afskekktasta fólk í landinu verður að greiða allmiklu hærra endurgjald fyrir notkun þessara tækja heldur en aðrir landsmenn. Það borgar að vísu svipað afnotagjald og þeir, sem hafa notendasíma í sveitum landsins, en það verður að greiða sjálft alldýran rekstur á þessum tækjum. Ég hygg, að ég fari með rétt mál, er ég segi, að það muni ekki vera undir 1000–1500 kr. rekstrarkostnaður á hverri talstöð, sem sett hefur verið upp á þessum afskekktu stöðum, a.m.k. er hann sá og stundum meiri á þeim stöðum, þar sem ég þekki bezt til.

Okkur flm. þessarar till. finnst eðlilegt, að ríkissjóður hlaupi hér nokkuð undir bagga. Það er ekki eðlilegt, að það fólk, sem nýtur verstra samgangna og er afskekktast allra manna í landinu, þurfi að greiða mjög miklu hærri rekstrarkostnað taltækja sinna heldur en það fólk, sem býr í þéttbýlinu, oftast við miklu betri samgöngur og alla aðstöðu í lífsbarátta sinni.

Ég býst við, að hv. þm. muni spyrja, hversu mikilli fjárupphæð þátttaka ríkisins í þessum kostnaði mundi nema, ef ríkissjóður greiddi allan þennan aukakostnað, þannig að talstöðvanotendur yrðu jafnsettir notendasímanotendum. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá póst- og símamálastjóra um fjölda stöðvanna, þá geri ég ráð fyrir, að útgjöld ríkissjóðs af þessu mundu ekki verða meiri en í hæsta lagi 25–30 þús. kr. Þess er og að geta, að 6 af þessum 26 stöðvum eru reknar af ríkinu eða stofnunum þess, þ.e.a.s. af vitamálastjórninni á nokkrum vitum á annesjum landsins, vestanlands og norðan.

Ég ætla, að ég þurfi ekki að hafa öllu fleiri orð um þessa brtt. Mér virðist, að hér sé um fullkomið sanngirnismál að ræða, að koma nokkuð til móts við það fólk, sem erfiðasta aðstöðu hefur um afnot talsímatækja í landinu, og ég held, að það væri einnig í samræmi við það, sem mjög er umrætt hér á hv. Alþ. nú og hefur verið undanfarið, að stuðla þurfi að svokölluðu jafnvægi í byggð landsins. Ég held, að það verði að gera sérstakar ráðstafanir til þess að styðja það fólk, sem við versta aðstöðu býr og byggir enn þá svokallaða útkjálka lands okkar. — Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess, ef hv. fjvn. vildi athuga þessa till. nánar fyrir 3. umr., að taka hana aftur við þessa umr.