08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

1. mál, fjárlög 1955

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég flyt hér fáeinar brtt. á þskj. 250, en áður en ég kem að þeim sérstaklega, get ég ekki látið hjá liða að víkja aðeins örfáum orðum að þeim umr., sem hér hafa farið fram, um stefnu þá í fjármálum, sem birtist í fjárlfrv. og athugasemdum hv. fjvn. við það.

Þeir fulltúar ríkisstjórnarinnar, sem hér hafa einkum haldið uppi málsvörnum fyrir stefnu ríkisstj., þeir hæstv. fjmrh. og hv. frsm. meiri hl. fjvn., hafa mjög látið í það skína, að þær brtt., sem við stjórnarandstæðingar höfum flutt hér, séu óábyrgar og mundu leiða til hruns í þjóðfélaginu, ef samþykktar yrðu. Þeir hafa farið um þetta mismunandi hörðum orðum, og skal ekki því leynt, að hv. frsm. nefndarinnar, 2. þm. Eyf., hefur þar farið í með meiri kurteisi og reynt að leiða rök að sínu máli, enda þótt ég geti ekki tekið alla þá hluti, sem hann telur rök, alvarlega.

Hæstv. fjmrh. reyndi eins og fyrri daginn að útmála það, hver blessun þjóðinni sé búin með hans fjármálastefnu, og nefndi það til, að undir hans forsjá á fjármálunum hefðu skattar verið lækkaðir. Það skal viðurkennt, að í hans fjármálaráðherratíð hafa verið afnumdir tveir skattar: fasteignaskatturinn, — þ.e.a.s., hann hefur ekki verið afnuminn, en hann hefur verið veittur öðrum aðila en ríkissjóði, — sá skattur nam á síðustu fjárlögum 700 þús. kr.; og á þessu þingi hefur verið afnuminn veitingaskattur, sem nemur 21/2 millj. kr. eftir fjárl. fyrir yfirstandandi ár. Samtals hafa þá verið afnumdir af tekjum ríkissjóðs skattar, sem nema 3.2 millj. kr. Þar á móti hefur með lögum á sama tíma verið hækkaður sá skattur, sem heitir aukatekjur ríkissjóðs, þannig að sá skattur var fyrir hækkunina áætlaður 41/2 millj., en nú 8.6 millj. Á þessum eina lið hefur verið hækkuð skattgreiðslan um 4.1 millj., og sannast það á því, að þegar teknir eru þeir tollar eða skattar. sem afnumdir hafa verið, og hitt, sem hækkað hefur verið, þá hefur meira verið hækkað en lækkað, og þó á ég eftir að koma að tekjuskattinum.

Það virðist vera feikilegt stolt ríkisstj. að hafa breytt útreikningsstiga tekjuskatts. Þar fullyrðir fjmrh. að um sé að ræða nálægt 28% skattalækkun. Það er rétt, að það hefur verið gerð nokkur breyting á útreikningi þessa skatts. En það, sem talar skýrustu máli um, hvað skeð hefur, hvers konar skattalækkun það hefur veríð, sam þar hefur verið framkvæmd, er það, að í fjárlögum ársins 1954 var tekjuskatturinn áætlaður 561/2 millj., en í ár, þ.e.a.s. í fjárlögum fyrir 1955, er hann áætlaður 62.8 millj., — og guð hjálpi svo þeim, sem ríkisstjórnin er að lækka skatta á, því þegar ríkisstj. lækkar skattana, þá sleppa menn undan því að greiða aðeins 561/2 millj., en verða þess í stað að greiða 62.8 millj. Svo getur fjmrh. gamnað sér við það að kalla sig ábyrgan stjórnmálamann og kalla þetta lækkun. Ég geri það ekki.

Fjárlögin fyrir s.l. ár gerðu ráð fyrir, að ríkistekjurnar mundu nema rúmlega 443 millj. kr. Nú er talið nokkurn veginn fullvíst, að þær muni í raunveruleikanum nema 550 millj. á þessu árí. Við þurfum þess vegna ekki að muna lengra aftur í tímann heldur en til þess, þegar fjárl. voru afgreidd hér á síðasta þingi. Þá lásu þessir sömu fulltrúar ríkisstj., hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Eyf., feikilega húslestra hér yfir alþm. um það, að yfirleitt allar hækkunartill. væru hreint gáleysi, þær væru óábyrgar, það væri óvarlegt að samþykkja þær, og ég man ekki hvað og hvað fleira þeir töldu þeim til gáleysis, sem fluttu slíkar till. Reynslan sýndi þó, að stjórnarandstaðan flutti alls ekki meiri till. til hækkunar á fjárl. yfirstandandi árs heldur en svo, að þær mundu hafa staðizt með þeim tekjum. sem raunverulega hafa orðið. Og þetta fer nú að verða nokkuð einhliða húslestur þeirra góðu fulltrúa ríkisstj. Nú hefja þeir upp sama sönginn, og alveg sérstaklega var hv. 2. þm. Eyf. hneykslaður á því, að í þeim till., sem minni hl. fjvn., þ.e.a.s. stjórnarandstöðufulltrúarnir, hefur gert hér, telst honum til að muni vera um 23 millj. kr. tekjuhalli. Upp í þetta er að vísu viðurkennt að ríkisstj. mundi hafa ráð á einhverjum hluta af bílaskatti, en hversu miklu hann mundi nema. er ekki vitað, og ég heyrði það a.m.k., að hv. 2. þm. Eyf. taldi ólíklegt, að bílaskatturinn mundi nema allri þeirri upphæð.

En athugum nú aðeins, hverjar eru svo till. þær, sem stjórnarandstaðan í fjvn. hefur gert? Jú, þær eru um það, að atvinnulíf Íslendinga verði byggt upp og þeim Íslendingum, sem nú búa við erfið atvinnuskilyrði, verði gert lífið mögulegra heldur en það nú er. Þær eru um það, að byggð verði mannsæmandi hús yfir það fólk, sem nú býr í heilsuspillandi íbúðum. Þannig væri hægt að telja áfram, enda hafa fulltrúar ríkisstj. ekki mótmælt því, að hér sé um gagnlega hluti og nauðsynlega að ræða. Það er þess vegna um það að ræða að leiðrétta það allra sárasta, sem Íslendingar hafa dregizt aftur úr mannsæmandi lífskjörum undir yfirstjórn þessara virðulegu fjármálaspekinga. Það getur vel rétt verið, að til þess að kippa því í lag, koma því í sæmilega viðhlítandi lag á einu ári, mundi þurfa að afgreiða fjárl., þar sem útgjöldin verði kannske fullt eins mikil og tekjurnar. En þar er því enn til að svara, að frá því ári, sem nú stendur yfir, er verulegum hluta ríkisteknanna óráðstafað, og það væri engan veginn fjarstætt að hugsa sér það, að jafnvel þessi 23 millj. kr. halli, sem gæti komið til mála með að verða á fjárl., yrði réttur af með hluta af þeim tugum millj., sem ríkissjóður á nú óeyddar, vegna þess að hann hefur pínt hærri fjárhæðir út úr þegnum sínum heldur en nauðsynlegt var til rekstrar ríkisins á yfirstandandi ári.

Hæstv. fjmrh. var enn þá að segja okkur söguna af því, að þessar tekjur ríkissjóðs umfram það, sem fjárl. gerðu ráð fyrir, stafi af alveg einstöku góðæri. Það er dálítið einkennilegur maður fjmrh. okkar, og hann virðist ekki vita ákaflega mikið um það, hvað gerist hjá þeirri þjóð, sem hann geymir kassann fyrir. Honum til minnisauka vildi ég þá gjarnan rifja það upp, að á þessu alveg einstaka góðæri, sem hann kallar, hefur það skeð, að vetrarvertíð var harðsóttari vegna illvíðra á beztu miðum Íslendinga heldur en venja er. Afli sá, sem á land kom, var að vísu allmikill, en alls ekki svipað því eins mikill og maður gæti búizt við að íslenzki fiskiskipaflotinn skilaði í meðalári.

Þá vildi ég minna hæstv. ráðh. á það, að vegna hans eindæma slæmu fjármálastjórnar lá togarafloti landsmanna bundinn við landfestar í 2–4 mánuði ársins. Þar hefur íslenzka þjóðin misst af verulegum hluta þeirra verðmæta, sem maður gæti reiknað með að í meðalári féllu henni í skaut.

Ég vil enn fremur minna hæstv. ráðh. á það, að síldarafli hefur ákaflega sjaldan verið eins fádæma lélegur og á s.l. ári. Einnig síldveiðimöguleikar íslenzku þjóðarinnar gáfu þjóðinni næstum því eins litlar tekjur og maður getur reiknað með sem lágmarki.

Og þá er ég kominn að því atriðinu, sem hæstv. fjmrh. vill stundum láta skína í að hann sé sérstaklega vel að sér í, en það eru landbúnaðarmál íslenzku þjóðarinnar. En þar vil ég minna hæstv. ráðh. á það, að stór svæði landsins voru á yfirstandandi ári ákaflega afurðalítil, vegna þess að nýlega hafa farið fram fjárskipti á stórum svæðum og bústofn landsmanna er því með þeim hætti á stórum svæðum, að hann gefur alls ekki nema tiltölulega lítinn afrakstur.

Þegar ég hef nú rifjað upp þessi 4 atriði og svo það til viðbótar, að hæstv. fjmrh. kallar, að einstakt góðæri hafi gengið yfir íslenzku þjóðina á árinu 1954, þá vil ég spyrja: Við hverju býst þessi ráðh. á næsta ári? Býst hann við því, að það muni veiðast minni síld en í sumar? Býst hann við því, að landbúnaðarafurðir verði minni en þær voru í ár? Býst hann við því, að tekjur af þorskfiskveiðunum verði minni en þær voru í fyrravetur? Býst hann við því. að rekstrarstöðvun togara verði lengri í ár en í fyrra?

Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. geri Alþ. grein fyrir þeim veraldarósköpum, sem hann virðist reikna með að muni ske á því herrans ári 1955. Ég er alls ekki að halda því fram, að það sé ekki möguleiki til þess, að illa kunni að takast til hjá íslenzku þjóðinni á n.k. ári. Ég veit það t.d., að hún býr enn við þá sömu fjármálaóstjórn sem kyrrsetti togaraflotann í 2–4 mán. s.l. ár, og það er nú töluvert útlit á því, að hæstv. ríkisstj. takist að hafa stöðvun þeirrar framleiðslu ekki skemmri á árinu 1955 heldur en á yfirstandandi ári.

Er það þá meiningin, að íslenzka þjóðin búi við svo skyni skroppna fjármálastjórn sem ræðuhöld fjármálaráðherrans gefa til kynna? Um það er ég nú ekki fyllilega dómbær. Ég hef hæstv. fjmrh. grunaðan um það að vera ekki eins fávísan um hagi íslenzku þjóðarinnar og hann telur hv. alþm. trú nm að hann sé. Ég hef grun um það, að hann geri það af ásettu ráði, fremur en af fávísi, að útbúa fjárl. frá ári til árs vísvitandi röng, þannig að þau geri ráð fyrir minni þjóðartekjum, minni tekjum í ríkiskassann en þær raunverulega koma til með að verða. Og hvers vegna? Jú, það er vegna þess, að sú ríkisstj., sem nú situr að völdum, hefur tekið það upp sem sína stefnu eða sem sín vinnubrögð að leitast við að gera ríkiskerfið að eins konar banka, í aðra röndina að eins konar banka, en í hina röndina að eins konar Marshallstofnun, sem úthlutar til vina sinna og vandamanna ýmist lánum eða styrkjum.

Það er ósköp þægilegt fyrir hæstv. fjmrh. að hafa afgangs kannske fram undir 100 millj. kr. í ríkiskassanum á hverju ári til þess að geta ráðstafað eftir vild sinni, — ja, ég segi eftir vild sinni, — líklega fær hann nú ekki að gera það, nema hv. Sjálfstfl., sem hann á nú líf sitt undir sem fjmrh., leyfi honum. Ég geri ráð fyrir því, að Sjálfstfl. leyfi honum ekki að vera einum um þá úthlutun, því að þær reglur, sem gilda í ríkisstj., eru nú alþjóð kunnar, að þar er um að ræða eina stóra klíku undirferlismanna, sem vilja komast með sem stærstan slurk af tekjum ríkisins burt frá öllum lögum, úthluta þeim krónum sjálfir til vina sinna og vandamanna og stilla svo Alþ. eftir á upp fyrir því sem orðnum hlut, að búið sé að afgreiða þessar tekjur, búíð sé að eyða þeim, búið sé að ráðstafa þeim, ekki eftir neinum lögum, heldur einungís eftir geðþótta ríkisstj. og því samkomulagi, sem kann að hafa orðið milli Sjálfstfl. og Framsfl.

Það er þess vegna augljóst mál, að stjórnarandstaðan fer ekki með óábyrgar tölur, þó að hún leggi til, að ríkistekjurnar næsta ár séu áætlaðar 15 millj. kr. hærri en þær þegar hafa reynzt í ár, — hún fer ekki með óábyrgari tölur, þó að hún leggi slíkt til, heldur en hæstv. fjmrh. og heldur en hv. fjvn. gerir með því að áætla tekjurnar þannig, að þær eru ekki einn hundraði milljóna lægri en þær raunverulega reynast, heldur eitthvað töluvert á annað hundrað millj. kr. lægri á fjárlögum en þær reynast. Slíkir menn ættu ekki að brigzla öðrum um að fara með óábyrgum hætti með tölur. Eða vilja þeir hv. málsvarar ríkisstj. halda því fram, að það sé hin ábyrga meðferð gagnvart þjóðinni á því fé, sem af henni er tekið í sköttum og tollum, að falsa fjárl. um meira en 100 millj. vitandi vits, því að ég geri ráð fyrir því, að það komi eitthvað svipað upp á teninginn að ári liðnu elns og nú er komið, að það, sem fjmrh. og fjvn. telja sínar ýtrustu vonir standa til um tekjur þjóðarinnar, sé a.m.k. 100 millj. kr. minna en raunveruleikinn kemur til með að sýna?

Ég læt svo útrætt um þau ræðuhöld, sem fulltrúar ríkisstj. hafa haft hér í frammi í kvöld, og reyndar er þetta ekki í fyrsta sinn, sem þeir kveða þennan söng sinn, en sný mér að þeim till., sem ég hef flutt hér á þskj. 250. Þær till. eru allar, utan ein, staðbundnar við mitt byggðarlag. En því er svo háttað, að í útdeilingu ríkisstj. á fjármunum ríkisins virðast stjórnarvöldin hafa uppi alveg sérstakan fjandskap í garð þess byggðarlags, þar sem ég á búfestu.

Vestmannaeyjar eru, eins og allir kannast við, eitt af þeim héruðum landsins, sem drýgstar tekjur gefa ríkissjóði. Það er þróttmesti framleiðslubær landsins, eins og nú stendur, miðað við það, hve margir menn búa þar, en þetta byggðarlag býr við algera sérstöðu um ýmsa hluti, og fyrir þeirri sérstöðu virðist ríkisstj. og sá hluti fjvn., sem fylgir ríkisstj. að málum, ekki gera sér neina grein.

Fyrsta till., sem ég flyt til þess að freista þess að fá í einhverju réttan hlut Vestmannaeyja í þeirri útdeilingu fjármuna, sem fer fram með setningu fjárlaga, er merkt á nefndu þskj, með VII, það er um hafnarframkvæmdir í Vestmannaeyjum. Í till. fjvn. er gert ráð fyrir, að til Vestmannaeyjahafnar verði varið 300 þús. kr. Ég hef lagt til, að þessi upphæð verði hækkuð í 840 þús.

Mér er það kunnugt, að fjvn. hefur hliðsjón af reglu við úthlutun fjár til hafnarframkvæmda og lendingarbóta. Ekki fylgir hún þó þeirri reglu, sem hún annars hefur hliðsjón af, fastar en svo, að ég hygg, að í því tilfelli, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. um framlag til Vestmannaeyjahafnar á árinu 1955, fari ég ef til vill ekki meira upp fyrir regluna heldur en hv. fjvn. fer niður fyrir hana. Hitt er svo annað mál, að ég get ekki viðurkennt, að sú regla eigi að hafast í heiðri, sem fjvn. hefur til hliðsjónar við úthlutun á hafnarbótafé. Ég t.d. sé ekki, að það geti verið nokkurt réttlæti í því, að Vestmannaeyjar séu í hafnarframkvæmdum settar neðar en nokkurt annað kjördæmi á landinu. Við Vestmanneyingar höfum þá sérstöðu, að við njótum einskis í af sumum þeim fjárfrekustu útgjöldum, sem ríkissjóður hefur, eins og t.d. brúagerð. Við fáum hins vegar að borga þetta ekki síður en aðrir þjóðfélagsins þegnar. Við njótum ákaflega lítils af því fé, sem fer í vegagerð af ríkisfé. Þetta eru hlutir, sem alls ekki geta talizt óeðlilegir, en þetta fyndist mér að hæstv. ríkisstj. og sú virðulega fjvn. ættu að geta tekið til greina og látið þar á móti Vestmanneyinga sæta beztu kjörum í því, sem þá vanhagar hvað mest um, en það er eins og nú stendur auknar hafnarframkvæmdir.

Ég vil ekki heldur láta hjá líða að minna á það, að af náttúrunnar hendi er raunverulega engin höfn í Vestmannaeyjum, og allt, sem þar hefur þurft að gera til þess að koma þeim málum í það ástand, sem þó er orðið, en Vestmannaeyjahöfn er nú orðin þannig, að þar geta komið inn öll íslenzk skip, — til þess að slíkir hlutir megi ske, þá þarf auðvitað eitt lítið byggðarlag að leggja hart að sér. Það hafa Vestmanneyingar líka gert, og ég fullyrði: Ekkert byggðarlag á Íslandi hefur lagt elns þungar byrðar á þegna sína til hafnargerðar eins og Vestmannaeyjar hafa gert, bæði í almennum álögum og sömuleiðis í sérstökum vörugjöldum. Ég vil enn fremur taka fram, að gagnið af þeirri höfn, sem byggð hefur verið í Vestmannaeyjum og enn þá þarfnast mjög fjárfrekra framkvæmda til þess að geta talizt viðhlítandi, hafa ekki einasta Vestmanneyingar. Í fyrsta lagi hefur ríkissjóður ómetanlegt gagn af höfninni, með því að þarna eru framleidd geysilega mikil verðmæti, og í öðru lagi sækja atvinnu sína til Vestmannaeyja árlega um 3–4 mánaða skeið ársins þúsundir manna, sem búsettir eru annars staðar á landinu. Þeir, sem þannig koma í atvinnuleit til Vestmannaeyja, þurfa ekki að standa undir hafnarframkvæmdum. Þau útgjöld eru einungis lögð á heimamenn. Þegar allt þetta er tekið til greina, þá vildi ég leyfa mér að spyrja: Er það sanngjarnt? Ef við berum saman framlagið til Vestmannaeyjahafnar og t.d. til hafna í einu kjördæmi landsins, við skulum taka t.d. Snæfellsnessýsluna, þá búa þar snöggt um færri menn en í Vestmannaeyjum og lifa flestir á landbúnaði, en í þá sýslu var samkvæmt síðustu fjárl. veitt álíka há upphæð og ég nú fer fram á að veitt verði til Vestmannaeyjahafnar.

Ég læt þá útrætt um þá till., sem ég hef hér lagt fram um breytingar á framlagi til Vestmannaeyjahafnar.

Þá sný ég mér að annarri till., sem einnig er á þskj. 250, merkt þar með X. Þar hef ég lagt til, að framlag til bókasafns í Vestmannaeyjum verði hækkað úr 6250 kr. upp í 13 þús. kr. Mér virðist það ekki vera nein goðgá að fara fram á það, að jafnmikið sé lagt til bókasafns í Vestmannaeyjum eins og gert er til bókasafns í Hafnarfirði, til bókasafns á Ísafirði, til bókasafns á Akureyri. Í fyrsta lagi er hér um staði að ræða, sem í ýmsu eru nokkuð sambærilegir. Að vísu eru Vestmannaeyjar ekki fullkomlega sambærilegar við Hafnarfjörð, því að Hafnfirðingar búa nú þeim mun betur, að þeir geta sér að kostnaðarlitlu skotizt á hin stóru bókasöfn, sem fyrir hendi eru hér inni í Reykjavík, ef þá vanhagar um bókakost eða ef þeir þurfa að vinna verk upp úr bókakosti, sem dýrt mundi að hafa heima í héraði. Við Vestmanneyingar búum þarna enn þá verr, því að það er ógerningur fyrir Vestmanneyinga að skjótast í önnur byggðarlög til þess að líta þar stuttlega í bækur, og væri þeim mun meiri nauðsyn að efla bókasafnið í Eyjum. Ég vænti þess því, að hv. alþm. geti fallizt á það, að hér sé einungis farið fram á sanngjarna hækkun.

Þá ber ég einnig fram á sama þskj. till., sem merkt er með XIII. Hún er varðandi flugvallargerð. Till. er um það, að ríkisstj. heimilist að veita 5 millj. kr. til flugvallargerðar til viðbótar framlagi á 20. gr., enda verði hafin gerð nýrrar flugbrautar í Vestmannaeyjum. Ég skal taka fram, að þetta mun vera hækkun um 11/2 millj. frá till. þeirri, sem hv. fjvn. gerir. Í Vestmannaeyjum er ein flugbraut, sem byggð var á árunum 1946 og 1947, og hefur raunar aldrei verið að fullu lokið við hana. Þessi flugbraut hefur að verulegu leyti breytt lífsmöguleikum Vestmanneyinga, þannig að hún er ákaflega mikið notuð og gerir Vestmanneyingum miklu færara en áður var að komast á milli sinnar heimabyggðar og annarra héraða landsins. En því miður skortir mikið á, að flugsamgöngur við Vestmannaeyjar geti talizt í því horfi, sem viðunandi sé, og hefur það raunar frá upphafi verið ljóst öllum, sem um þetta mál hafa fjallað, að með þessari einu flugbraut væri alls ekki komið í það horf samgöngumálum Vestmanneyinga sem þyrfti og að önnur flugbraut, sem hefði aðrar stefnur, þyrfti að koma til, til þess að hægt væri að fljúga til Vestmannaeyja flesta daga. Sú flugbraut, sem fyrir er í Vestmannaeyjum, er nothæf í austan- og vestanáttum, en ef vindstaða er norðan eða sunnan, þá má vindur ekki fara yfir 3 stig til þess, að ólendandi verði á Vestmannaeyjaflugvelli, og hafa flugsamgöngur af þeim ástæðum raunverulega í bezta veðri teppzt stundum vikum saman. Það er einnig í samræmi við áætlanir flugmálastjórnarinnar, að byggð verði ný flugbraut í Vestmannaeyjum, og er ekki nema sanngjarnt að ætlast til þess af ríkisvaldinu, að það greiði fyrir því, að slík flugvallargerð í Vestmannaeyjum geti komizt til framkvæmda hið allra fyrsta.

Þá flyt ég einnig undir liðnum XIII á sama þskj. aðra till., en hún er almenns eðlis og einskorðast ekki við neitt sérstakt byggðarlag. Þar flyt ég brtt. við það, sem ráðgert er í fjárlfrv. að ríkissjóður taki þátt í upphitunarkostnaði í skólum. Það var sett inn í fjárlög á s.l. ári að heimila ríkisstj. að greiða allt að 3/4 hlutum af hitunarkostnaði héraðs- og húsmæðraskóla í sveitum. Ég gerði tilraun til þess þá að fá þetta ákvæði gert almennt, en það fékk ekki nægilegt þingfylgi þá. En ég hef enn ekki heyrt neina réttlætingu á því, að nauðsynlegt sé, að ríkið taki þátt í hitunarkostnaði þeirra skóla, sem þarna ræðir um, fremur en annarra þeirra skóla, sem búa ekki við jarðhita, og hef ég þess vegna flutt brtt. við þennan lið, sem fer í þá átt að heimíla ríkinu að greiða 3/4 hluta hitunarkostnaðar allra þeirra skóla, sem búa ekki við jarðhita.

Ég hef að svo komnu máli ekki gert neinar till. um þá liði, sem hv. fjvn. hefur enn ekki afgreitt, og mun ekki gera það fyrr en ef ástæða væri til, þegar þær till. n. koma fram, væntanlega við 3. umr. málsins.