08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

1. mál, fjárlög 1955

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. samþingismanni mínum að flytja hér tvær brtt. við fjárlfrv. — Sú fyrri er í á þskj. 250, að veittar séu 50 þús. til að koma af stað útbúnaði til leirbaða í Hveragerði. Það hefur nokkuð verið gert að þessu síðustu sumur, en aðbúnaður þess fólks, sem leitar sér heilsubótar á þennan stað, er svo lélegur og óþægilegur, að ekki er við unandi. Það var farið fram á 100 þús. kr., og það erindi hefur legið fyrir fjvn. Hv. nefnd hefur ekki séð sér fært að taka upp í sínar till. slíka fjárveitingu. Við höfum átt tal við hæstv. heilbrmrh. um þetta mál, og hefur hann tekið vel undir málið, að eitthvað beri að gera í þessu efni. Ég er þeirrar trúar, að þarna sé um verulega heilsulind að ræða og ef góður útbúnaður verði gerður, svo að fólkið geti notið leirbaðanna, þá geti menn sótt þangað margra meina bót. Og það er vissulega ástæða til þess að hjálpa því fólki, sem verður fyrir því tjóni, að heilsan sviptir það möguleikum til þess að bjarga sér og starfa. Það er mikilsvert með hvern einstakling, sem bægt er að hjálpa til að öðlast heilsuna aftur, og þó að það komi máske ekki að öllu leyti, þá að lina þjáningar þeirra, sem fyrir heilsubrestinum verða.

Erlendir sem innlendir fræðimenn, sem þekkja orðið til um þetta efni, búast við, að þarna séu einmitt skilyrði til sérstakrar heilsubótar. En til þess að svo megi verða, þarf að hafa miklu meiri og betri útbúnað en enn er til staðar. Fátækt hreppsfélag getur ekki staðið straum af slíkum byggingum eða aðgerðum til viðbótar við allt annað, sem það hefur á sinni könnu.

Við settum nú ekki í þessa brtt. nema helming þeirrar upphæðar, sem farið var fram á. En vitaskuld veitti ekki af, að upphæðin væri öll. Samkvæmt því viðtali, sem við höfum átt við hæstv. heilbrmrh., munum við taka aftur þessa till. til 3. umr., og ég vil vona, að hv. fjvn. taki málið til enn frekari athugunar og þá í samráði við okkur og hæstv. heilbrmrh.

Þá höfum við leyft okkur að flytja aðra brtt., sem er á sama þskj., IV. Það er um, að komi tveir nýir liðir, til brúargerðar á Andalæk 150 þús. og til brúargerðar á Dalsá 100 þús.

Frá vegamálaskrifstofunni var lagt til, að Andalækur yrði brúaður næsta sumar og til þess skyldi varið 200 þús. kr. og 100 þús. kr. til brúar á Litlu-Laxá, sem hv. fjvn. hefur nú tekið upp í sínar till. og lagt til, að til þeirrar brúarsmíði yrðu veittar 200 þús. kr., og kann ég hv. fjvn. þakkir fyrir þá till. Það er nú ekki vonum fyrr, að till. komi um þetta efni hér fram í þingi. Þeir, sem þarna eiga hlut að máli, eru búnir að búa áratugum saman við brúarleysi. Vegurinn er kominn að ánni, en brúin hefur ekki verið gerð. Þeir búendur, sem hinum megin við Litlu-Laxá eru, hafa orðið að flytja þarna mjólk daglega, sem næst málnytu úr 100 kúm, og oft við mikla erfiðleika. Áin er oft, sérstaklega að haustlagi og að vetrarlagi og fram eftir á vorin, nærri ófær. Og þeir hafa orðið að bera brúsana yfir ána, ekki komið neinu tæki við, ekki einu sinni hesti, til þess að komast með þennan flutning yfir ána, og orðið að brjótast og vaða ána og bera hvern brúsa yfir til þess að koma vörunni frá sér.

Ég hygg, að hv. Alþ. hafi ekki gert sér grein fyrir, hve miklir erfiðleikar eru hjá mönnum, sem verða að annast slíka flutninga. Og því trúi ég ekki, að hv. fjvn. eða Alþ. yfirleitt grípi til þess ráðs að segja, að það skipti ekki svo miklu fyrir þjóðarbúið, hvort þessi framleiðsla er þetta mikil eða ekki. Hvað sem liði þörfinni fyrir vöruna til neyzlu á þeim tíma, sem hún er framleidd, þá er það svo mikil skerðing á þjóðartekjum og rýrnun á þjóðarhag við hvað eina, sem minnkar af slíku verðmæti í þjóðarbúinu, að slík svör þykist ég vita að enginn hv. alþm. vildi hafa í frammi. En hv. fjvn. hefur ekki séð sér fært að ganga lengra og taka till, vegamálastjórnarinnar, eða það, sem kom frá skrifstofu vegamálastjóra, að veita til annarrar brúarsmíði, og enn siður, að hv. n. hafi tekið tillit til okkar till., þingmannanna, sem var um að bæta 50 þús. við till. vegamálastjórnarinnar um brú á Litlu-Laxá. Við lögðum til, að það væru 150 þús., vegamálaskrifstofan 100 þús. til þeirrar brúar, og vegamálaskrifstofan, eins og ég sagði áður, 200 þús. til brúar á Andalæk, og við óskuðum svo til viðbótar eftir, að hv. n. tæki upp í till. sínar 100 þús. til þess að brúa Dalsá.

Hvað áhrærir brú á Andalæk, sem hv. n. hefur nú ekki tekið upp, þá er um það að segja, að vegur er kominn báðum megin við lækinn. Þeir bæir, sem eru vestan við lækinn, eru 5. Þeir hafa engin not af veginum, vegna þess að lækurinn er ekki fær, þar sem vegurinn kemur að. Bændurnir fá að horfa á veginn, að hann er kominn, og það er gott og blessað, en hann hefur enga þýðingu, fyrr en þessi brú er komin.

Þetta vissi vegamálaskrifstofan ofur vel og gerði þess vegna tillögu um, að úr þessu yrði bætt. Þó að þeir séu færri en hinir bændurnir og ekki eins miklir flutningar hjá þeim og bændunum við Litlu-Laxá, þá eru þeir búnir að búa við hin sömu ókjör um þessa flutninga. Og þó að þetta vatnsfall beri nú lækjarheiti og hann sé um hásumarið ekki mikill fyrirferðar og ósköp prúður á að lita, þá fara fínheitin af í leysingum bæði haust og vor og oft að vetrinum, eins og þeir menn vita, sem þekkja til, hvernig háttað er um fjallaár og verður á þeim stöðum, þar sem aðrennsli er mikið og vatnið safnast að langar leiðir, eins og þarna hagar til.

Hið sama sem ég hef nú tekið fram um Andalæk á og við Dalsá, nema sú á er miklu stærri. Þar eru nokkrir bæir, sem hlut eiga að máli, og það er nú enn verr ástatt hjá þeim nm það efni heldur en flestum, sem búa vestan Andalæksins, að þeir eru langt frá Dalsá og geta ekki séð að heiman, hvað ánni líður, fyrr en þeir koma að henni. En þá kemur þráfaldlega fyrir hjá þeim að vetrarlagi, að þeir verða að fara við svo búið heim aftur. Þeir komast ekki yfir ána á nokkurn veg, — fara með flutninginn að heiman, komast að ánni, reyna vitaskuld, og oft getur slíkt ferðalag eða slík tilraun til þess að komast yfir ána verið hættuleg. Þeir reyna til hins ýtrasta, en verða oft og einatt að gefast upp við það og fara með flutninginn heim. Slíkar ferðir eru hrakningssamar, kosta talsvert mikla fyrirhöfn og talsverða fjármuni, og það sem svo enn lakara er, að úr þeirri vöru, sem mennirnir þurfa að koma frá sér, verður þeim ekki nærri eins mikið með því að sitja með hana heima.

Nú hafa bændur í þessu héraði orðið að búa við mjólkurframleiðslu. Fjárpestirnar voru búnar að leika þessa menn svo grátt, að þeir áttu afar fátt fé, og þó að þeir séu að afla sér kinda aftur nú við fjárskiptin, þá er samt sem áður því svo skammt komið, að þeir hafa ekki nema mjög litla framleiðslu af því enn, eins og við er að búast, því að þegar svona er ástatt eins og er nú í Árnesþingi, þá er sauðfé ekki gripið upp úr steinunum á mjög skömmum tíma, allra sízt þegar eins er ástatt um stór nágrannahéruð, að þau hafa orðið að framkvæma fjárskiptin að miklu leyti samtímis og sumt af þeim aðeins ári síðar, og þá gefur að skilja, að á þeim slóðum er ekki hægt að fá fé. Menn hafa orðið að fá það annaðhvort af Vestfjörðum og það mjög takmarkað — það var ekki meira fé þar að fá — eða norðan úr Þingeyjarsýslum, og sá möguleiki var þessi ár, sem féð var flutt á milli, algerlega tæmdur. Menn tóku það, sem fáanlegt var. Ég hefði haldið, þar sem svona stendur á og þegar menn eru búnir að bíða — ekki árum saman, heldur áratugum saman — eftir umbótum í þessum efnum, og enn fremur þegar á það er litið, hvað miklum fjármunum er varið til umbóta í hinum ýmsu héruðum, að þá mundi Alþ., eftir því sem það frekast sæi sér fært, vilja greiða fyrir slíkum umbótum. Við höfum stillt þessum till. okkar svo í hóf, að það er ekki farið fram á nærri eins mikið þarna og þessi brúarsmíði kostar. Það mun vanta upp á brúna yfir Andalækinn um 50 þús. Frá vegamálaskrifstofunni er tillaga um að verja 200 þús. til þeirrar brúarsmíði, og til brúar á Dalsá er þessi upphæð, sem við nefnum, hvergi nærri nóg. En þetta er fyrirgreiðsla, sem ég vildi vona að gæti orðið til þess, að mögulegt væri að hefja framkvæmdir og brúarsmíðinni yrði komið á. Héraðsbúar mundu leggja hart að sér við að útvega fé, svo að hægt væri að koma brúarsmíðinni í kring næsta sumar. Og þó að þeir biðu einhver óþægindi og máske kostnað við það, þá mundu þeir leggja það á síg, ef þeir ættu þess kost að fá þessum verkum komið í framkvæmd.

Ég held nú reyndar, að ég geti skírskotað til þingsögu minnar alla tíð, að ég hafi flutt það eitt, sem sýndi hófsemd og fulla aðgæzlu, og lengstum hefur það verið svo, að maður hefur gengið með báðar hendur blóðugar til axla til þess að reyna að passa upp á, að full aðgæzla væri höfð á afgreiðslu fjárlaga. En ég get ekki neitað því og ég tek það fram, að sérstaklega í seinni tíð hefur mér fundizt, að hv. Alþ. kunni lítið að meta aðstöðu okkar þm. Árnesinga í þessu efni. Það er orðtak í okkar máli, sem segir, að svo má brýna deigt járn, að bíti, og ég verð þá að segja, að að lokum getur farið svo, að maður hirði þá minna um, hvernig fer, ef ekki er hin minnsta sanngirni sýnd í því að mæta að einhverju leyti óskum manna um bráðnauðsynlega hluti.

Við höfum séð okkur knúða, þm. Árn., til þess að flytja þessar till. Við litum þannig á, að það hefði á engan hátt verið forsvaranlegt af okkur — m.a. með tilliti til þess, hvernig að þessu héraði hefur verið búið af hálfu þingsins, — og það er ég tilbúinn til þess að rökstyðja, hvenær sem vera skal — annað en að flytja tillögurnar. Og við tökum það eitt, sem alveg má heita óhjákvæmilegt, nema það eigi að brjóta á þessu fólki öll lög og rétt.

Nú vil ég vona, að hv. fjvn. taki þessar till. okkar til íhugunar og hv. Alþ. ráði þarna bót á þessu máli.