08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

1. mál, fjárlög 1955

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að þreyta þá fáu hv. alþm., sem enn þá haldast við hér í d., á því að flytja langt mál, enda er orðið áliðið. Það eru fyrst og fremst fáeinar litlar brtt. á þskj. 253, sem ég flyt og vil fara um fáeinum orðum. Áður ætla ég þó aðeins að víkja að ræðu hv. frsm. fjvn., þeirri sem hann flutti hér í kvöld. Ræður hans gefa rannar ekki tilefni til mikilla deilna; þær einkennast af hógværum málflutningi, svo sem hans var von og vísa, og áreitnislausum. Hins vegar væri full ástæða til þess að rökræða við hann ýmis atriði, sem komu fram í ræðum hans, ýmsar þær bollaleggingar, sem hann var með í sambandi við tekjuáætlanir fjárlaga, og ætla ég þó ekki að fara langt út í þá sálma.

Hv. frsm. taldi óvarlegt að reikna með vaxandi tekjum ríkissjóðs á næsta ári. Hann lét í það skína, að við þjóðvarnarmenn reiknuðum með þessu og byggðum till. okkar á þeim grundvelli, en þessu er ekki þannig varið. Það er að vísu álit mitt, að vel geti svo farið, að tekjur ríkissjóðs á næsta ári geti hæglega orðið nokkru meiri en þær verða á þessu ári. En í áætlun okkar er ekki við það miðað, að þær fari fram úr því, sem allar líkur benda til að þær verði nú í ár, heldur höfum við áætlað þær svipaðar, og þó aðeins lægri. Þetta tel ég fremur varlegt heldur en hitt. Helztu líkurnar til þess, að slík áætlun geti ekki staðizt, virðast mér vera þær, að svo illa verði stjórnað atvinnumálum og fjármálum þjóðarinnar, að atvinnulífið bíði verulegan hnekki af þeim sökum. En að öðrum kosti tel ég hitt eins líklegt, að tekjurnar verði jafnmiklar, ef ekki meiri. Hv. 8. landsk., sem talaði hér af hálfu míns flokks í kvöld, sýndi fram á þetta með ljósum rökum, eftir því sem hægt er að sýna fram á slíka óorðna hluti, og skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

Á þskj. 253, þar sem eru brtt. frá mörgum hv. þm., á ég fáeinar till., sem allar eru að vísu í hækkunarátt, en þó flestar um fremur óverulegar hækkanir. Samtals nema þessar hækkunartill. mínar rúmlega hálfri annarri millj. kr.

Fyrst er hér lítil till., merkt Vl. Hún er um það, að við landsbókasafn komi nýr liður, til viðhalds og ljósmyndunar illa farinna handrita, 10 þús. kr.

Þessi litla fjárupphæð mundi að mínum dómi koma að verulegu gagni til þess að bjarga ýmsum merkum skjölum og handritum, sem ég veit að liggja nú undir skemmdum. Ég hef á síðustu mánuðum handleikið töluvert af bréfum merkra Íslendinga, frá 19. öld einkum og 18. öld nokkuð, og ég hef komizt að raun um það, að sum þessara bréfa, þ. á m. frá hinum mætustu mönnum eins og Jóni Sigurðssyni forseta, Konráði Gíslasyni, Benedikt Gröndal o.fl., liggja undir skemmdum. Þessi gömlu bréf hafa verið margbrotin á sínum tíma, og þau eru að detta í sundur í brotunum og verða ólæsileg með pörtum. Einnig veit ég, að mörg gömul handrit eru orðin það illa farin, að eigi að halda áfram að nota þau með sama hætti og gert hefur verið, þá verða þau svo að segja uppurin og óhæf til notkunar eftir nokkurn tíma. Það, sem þarf hér að gera, er það, í fyrsta lagi, að reyna að lagfæra þessi bréf og handrit, eftir því sem föng eru á, og yrði það væntanlega gert af vönum bókbandsmanni, en jafnframt þyrfti að taka eftirmyndir af þeim skjölum, sem verst eru farin, og þá sérstaklega þeim, sem mikilvægust eru. Þessi litla upphæð, sem ég legg til að veitt verði í þessu skyni, mundi geta bætt nokkuð úr brýnustu þörfinni, ef hún yrði tekin upp sem fastur liður á fjárlög eða einhver svipuð upphæð, þó ekki minni.

Þá er hér liður XII. Það er til samningar íslenzkrar orðabókar. Eins og fram kemur á þessu þskj., hafa fleiri munað eftir því, að hér er verið að vinna merkilegt starf, sem mikil þörf er á að hægt sé að hraða, svo að það geti unnizt örar en nú er hægt. Það eru einir 3 aðilar, sem flytja hækkunartill. við þennan lið. Ég legg til, að í stað 75 þús. kr., sem til þessa eru ætlaðar á fjárlfrv., komi 250 þús. kr., en til vara 150 þús. kr. Ég sé, að hv. fjvn. hefur haft skilning á því, að þarna sé verið að vinna merkilegt starf, því að hún hækkar þennan lið örlitið, en mér finnst hún ganga allt of skammt, það kemur því miður ekki að nægilegum notum. Ég vil fullyrða, að það eru fá verk, sem nú er verið að vinna, sem merkilegri mega teljast fyrir íslenzka menningu heldur en samning hinnar miklu vísindalegu orðabókar yfir íslenzka tungu, sem nú er verið að starfa að, en gengur allt of hægt vegna fjárskorts. Ég held, að það væri því mikið nytjaverk að hækka þessa fjárveitingu nokkuð verulega.

Þá hef ég undir liðnum XXIII flutt till. um nýjan lið: Til Félags íslenzkra myndlistarmanna vegna þátttöku í norrænni listsýningu í Róm, 125 þús. kr. Hv. fjvn. hefur tekið upp í sínar till. styrk til þessa, 100 þús. kr., og er það mjög virðingarvert. En samkvæmt þeim heimildum, sem ég hef aflað mér, telja þeir menn, sem hafa af miklum áhuga unnið að undirbúningi þessarar sýningar, að þeir komist ekki af með minna en 125 þús. kr. Ég hygg, að verði hægt að koma þessari sýningu á í Róm, þá sé þar um að ræða mjög merkilegt tækifæri til þess að kynna á alþjóðavettvangi íslenzka myndlist, og legg því til, að nauðsynlegur styrkur verði veittur í þessu skyni.

Þá er undir XXV. lið till. um aukinn styrk til slysavarna: að styrkur til almennra slysavarna hækki úr 150 þús. kr. í 300 þús. kr. og styrkur til umferðarslysavarna hækki úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr. Um þessa till. þarf ekki að fara mörgum orðum. Allir skilja nauðsyn slysavarna, bæði á sjó og landi. Slysavarnafélag Íslands hefur unnið í þessum efnum mjög merkilegt starf, að verulegu leyti með fjármagni, sem hað hefur aflað meðal áhugamanna um land allt. Ég tel, að ríkisvaldinu beri skylda til að rétta þessum félagsskap nokkru meiri hjálparhönd en það hefur gert til þessa. Um slysavarnir á landi er það að segja, að þar er nauðsynin ekki öllu minni orðin, því að það er alkunna, að slys í sambandi við umferð, sérstaklega í bæjunum, og þá fyrst og fremst hér í Reykjavík, eru orðin óhugnanlega mikil og tíð, og ber brýna nauðsyn til að gera allt, sem kostur er á, til þess að koma í veg fyrir þau eða draga úr þeim.

Undir XXVIII. lið á þessu þskj. fer ég fram á það, að byggingarstyrkur til dvalarheimilis aldraðra sjómanna verði hækkaður nokkuð. Eins og kunnugt er, þá er verið að reisa hér myndarlegt hús, þar sem til þess er ætlazt að aldraðir sjómenn fái góða vist og aðhlynningu í ellinni. Þessari búsbyggingu hefur þokað nokkuð áfram, en þó skortir enn töluvert fé til þess, að hægt sé að taka í notkun þann hluta þessarar byggingar, sem nú er í smíðum. Það ber að sjálfsögðu að virða, að Alþ. hefur sýnt þessu máli góðan skilning, m.a. með því að leyfa þeirri nefnd, sem stendur fyrir byggingu dvalarheimilisins, að efna til happdrættis, sem gefur nokkurt fé, en þó er það engan veginn nægilegt, kemur ekki nógu fljótt, til þess að hægt sé að taka þessa byggingu í notkun bráðlega, eins og full þörf er á. Það er að sjálfsögðu mikil þjóðhagsleg óhagsýni að hafa þegar fest allmargar milljónir króna í stórri byggingu, sem gæti bætt nokkuð úr þeim mikla húsnæðisskorti, sem ríkir ekki hvað sízt hér í Reykjavík, ef hægt er með nokkru hærra fjárframlagi að flýta verulega fyrir því, að þessi bygging verði tekin í notkun.

Það mun vera ein till. enn, sem ég á á þessu þskj. Hún er einnig undir XXVIII. lið, við 20. gr., hækkun á framlagi til nýrra vita, að fyrir 1 millj. kr. komi 1.5 millj. kr. Um þessa hækkunartill. vil ég aðeins segja það, að ég veit, að hv. alþm. skilja nauðsynina á því, að haldið sé áfram að efla vitakerfi landsmanna. Það hefur að vísu verið gert mikið í því efni á undanförnum árum og áratugum, en í þessu efni verður stöðugt mikil og ör þróun. Þar kemur til greina ný ljósatækni, og því miður eru margír vitarnir okkar orðnir gamlir og úreltir og hafa ekki það ljósmagn, sem nauðsynlegt er. Íslenzk sjómannastétt leggur svo mikið af mörkum í þjóðarbúið, að hún á það vissulega skilið, að reynt sé að búa vel að henni að því er snertir öryggi í siglingum, og vænti ég því, að þessari till. verði tek ið af skilningi.

Ég hefði haft tilhneigingu til þess að mæla hér með nokkrum till., sem aðrir hv. þm. flytja, en skal nú ekki fara um þær mörgum orðum.

Fyrst er till. nr. VIII, frá hv. 1. landsk., um það að koma á fót mannfræðideild til að hefja samningu spjaldskrár yfir Íslendinga með æviatriðum þeirra. Þarna er hreyft merku nýmæli, sem ég er viss um að væri ekki aðelns skemmtílegt, ef framkvæmt yrði, heldur yrði það hin gagnlegasta heimild, sem mundi spara mönnum ekki aðeins mikla fyrirhöfn, heldur jafnvel töluverða fjármuni, þegar fram liðu stundir. Ef slíkri spjaldskrá, með glöggum upplýsingum um æviferil manna, væri komið upp og haldið við, þá mundi hún verða til mikils hagræðis fyrir menn á marga lund.

Einnig ætlaði ég aðeins að víkja að tveim till. frá hv. 2. þm. Reykv. o.fl., það er till. nr. V og nr. VII á þskj. 253. Fyrri till. er um að míkrófilma handrit heima og erlendis, en síðari till. um að míkrófilma frumrit í þjóðskjalasafni og skjöl erlendis. Þarna er vissulega hreyft miklu nytjamáli, og ég er í engum efa um það, að þetta verður gert fyrr eða síðar. Og ég tel, að einmitt nú, þegar hagur ríkissjóðs er mjög sæmilegur og hér veltur allt á háum tölum, þá sé tækifæri til þess að gera þetta, sem er til mikilla hagsbóta fyrir íslenzkar sögurannsóknir og mundi verða okkur til sæmdar að framkvæma heldur fyrr en síðar.

Ýmsar fleiri till. eru það hér, sem ég tel mjög nytsamlegar og vildi gjarnan mæla með, en ég ætla ekki að teygja tímann með því að ræða þær, mun láta nægja, að afstaða mín komi fram við atkvgr., þegar þar að kemur.