16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég skýrði hér frá við 2. umr. fjárlfrv., þá voru allmörg erindi, sem biðu hjá n. og ætlunin var að taka til meðferðar milli 2. og 3. umr. Var þá frá því skýrt, að þar væri m.a. um að ræða till. um hækkun á framlagi til skólabygginga og sjúkrahúsabygginga, hækkun á framlagi til iðnlánasjóðs og íþróttasjóðs, framlag til ferjuhafna, ýmis erindi varðandi tónlistarstarfsemi og enn fremur allar till. varðandi 18. gr., sem biðu eftir venju til 3. umr. Enn fremur var við 2. umr. ekki fram komið nál. samvinnunefndar samgöngumála um styrki til flóabáta, en það liggur nú fyrir, og mun verða sérstaklega gerð grein fyrir því af frsm. þeirrar nefndar.

Til þess að hafa þetta mál ekki lengra en þörf krefur, vil ég leyfa mér að víkja beint að till. n., sem liggja fyrir á tveimur þskj., 269 og 281. N. stendur öll að sínum till. að öðru leyti en því, að þeir hv. nm., sem mynduðu minni hl. n. við 2. umr., skila nú einnig nokkrum brtt. á sérstöku þskj., og er þar einkum um að ræða liði, sem þeir telja ekki hafa verið nógu háar fjárveitingar samkv. þeim till., sem koma fram í aðalbrtt. n., og ber þetta vott um, að þar hafi verið um ágreining að ræða. En að öðru leyti stendur n. sameiginlega að þessum till.

Ég mun svo, eftir að ég hef með fáum orðum vikið að hinum einstöku liðum, gera lítillega grein fyrir niðurstöðunum eins og þær mundu lita út eftir 3. umr., eftir þeim till., sem liggja fyrir.

Lagt er til, að fjárveiting til viðauka símakerfa hækki um 200 þús. kr. Hér er fyrst og fremst um að ræða framkvæmdir í sambandi við símakerfi í kaupstöðum. Það hefur verið útskýrt rækilega fyrir n., að það væri brýn nauðsyn að hækka þennan lið, þar sem ella væri ekki nokkur möguleiki til að leggja síma og veita þá þjónustu á ýmsum stöðum, og varð því n. við því að taka upp 200 þús. kr., sem að vísu mun nú ekki vera talið fullnægjandi, en ekki talið fært að ganga lengra.

Þá eru næst tveir liðir, sem ég vil taka saman, en það er annars vegar um ríkislögregluna í Reykjavík og hins vegar um tollgæzlu á Keflavíkurflugvelli. Fyrri liðurinn felur það í sér, að lagt er til, að heimilað verði að ráða 5 nýja lögregluþjóna við ríkislögregluna í Reykjavík. Ástæðan til þess, að n. hefur fallizt á þessa till., er ekki hvað sízt sú, að tekið var fram af lögreglustjóranum í Reykjavík, að sérstök nauðsyn væri til þess að auka eftirlit víðs vegar utanbæjar á vegum og við samkomur. Og þar sem öllum er ljóst, að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, þá taldi n. rétt að verða við þeim tilmælum og leggja til, að fjölgað yrði um 5 lögregluþjóna í ríkislögreglunni.

Þá eru laun við tollgæzlu á Keflavíkurflugvelli hækkuð um 250 þús. kr. Þetta stafar af því, að varnarmáladeildin telur óumflýjanlegt að fjölga um 6 tollverði, sem jafnframt gegni löggæzlustörfum að nokkru leyti, vegna hinna ýmsu varnarstöðva, þar sem nauðsynlegt sé að hafa menn til eftirlits á þessum stöðvum. Hefur varnarmáladeildin eða utanríkisráðuneytið talið, að ekki yrði hjá því komizt að fjölga þarna um 6 menn. Og hefur nefndin því ettir atvikum fallizt á, að hér væri um nauðsyn að ræða, eftir því sem útskýringar hafa legið fyrir n. um það efni, því að ljóst er vitanlega, að það verður að vera auðið að halda uppi nauðsynlegri tollgæzlu í sambandi við þessar stöðvar.

Nefndin leggur til, að fjárveiting til læknabústaða, sjúkraskýla og sjúkrahúsa verði hækkuð um 500 þús. kr. Meiri hl. n. hefur ekki talið sér fært að leggja til hærri fjárveitingu til þessara mála. Vitanlega væri það æskilegt, að auðið væri að hafa þessa fjárveitingu stærri, og hv. minni hl. n. leggur ti1, að þessi upphæð verði allmiklu hærri, eða verði hækkuð um 11/2 millj., en vitanlega er það hér sem á öðrum sviðum, að það verður að laga sig eftir því, hvað getan leyfir, og miðað við þær aðrar þarfir, sem nauðsyn var að fullnægja, og þann afgang, sem fjvn. hafði

til þess að ávísa á, var ekki talið auðið að fara hærra í þetta sinn.

Þá er lagt til, að hreppsnefnd Hveragerðishrepps verði veittur styrkur til stofnkostnaðar vegna leirbaða, 50 þús. kr. Hreppsnefndin hafði óskað eftir nokkru hærri styrk í þessu skyni, en n. þótti rétt að ganga til móts við óskir hennar um það að taka upp þessa upphæð. Þarna er fyrst og fremst um að ræða að gera sómasamlegan aðbúnað að því fólki, sem sækir þessi böð. Það mun vera orðin töluverð aðsókn þarna að þessum stað, og telja ýmsir læknar, að það hafi gefið góða raun, en hins vegar er vitanlegt, að þarna er mjög hörmulega að þessu búið og nauðsynlegt að bæta þar mjög úr, ef þessi starfsemi á að geta haldið áfram. því þykir sanngjarnt að leggja fram þessa upphæð í þessu skyni.

Þá er lagt til, að hækkaður sé styrkur til ýmissa sjúklinga, sem úthlutað er af landlækni, úr 60 þús. í 100 þús. kr., eða um 40 þús. Fyrir n. hafa legið ýmsar óskir um styrk í þessu skyni. Nefndin telur ekki gerlegt að fara sjálf að úthluta fé í sambandi við utanfarir sjúklinga, heldur sé eðlilegast, að þeim óskum sé mætt með því að hækka þennan lið, sem landlæknir hefur haft til ráðstöfunar í þessu skyni, enda mun sannleikurinn sá, að sú fjárhæð sé orðin allt of lág, miðað við þær þarfir, sem þar eru.

Þá munu hv. þm. sjá, að 8. og 9. till. n. eru varðandi vegi og brúargerðir. Ég vil taka það fram, að hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða, heldur er aðeins nánari skýring sett, þannig að ekki sé hægt að villast á því, við hvaða brýr eða vegi sé átt.

Við 2. umr. var ekki tekin afstaða til þeirra óska, sem fyrir lágu um svokallaðar ferjuhafnir. Nefndin leggur nú til, að teknir séu upp nokkrir staðir, og hefur haft um það samráð við vitamálastjóra. Nemur sú fjárhæð samtals 95 þús. En af þessu eru 2 staðir, þar sem er aðeins um endurveitingu að ræða, þar sem fjárveitingin var ekki notuð á s.l. ári. — Tel ég ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um það efni.

Í fjárlfrv. nú er tekinn sérstakur liður: álag vegna afhendingar kirkna. Var sá liður 150 þús. kr. Nú er lagt til í samráði við kirkjumálaráðherra, að þessi liður verði hækkaður um 50 þús. kr., þar sem komið hefur í ljós, að þessi fjárhæð muni ekki fullnægja brýnni þörf í þessu efni, og óskir hafa komið fram um það síðan og upplýsingar, að nauðsynlegt sé, að álag verði heimilað vegna afhendingar fleiri kirkna en gert var upphaflega ráð fyrir, og eru meðal þeirra kirkna t.d. Reykhólakirkja á Barðaströnd, en gert mun þá vera ráð fyrir, að önnur kirkja verði samtímis lögð niður. Og fleiri þarfir munu þarna vera fyrir hendi, þannig að n. hefur talið eftir öllum upplýsingum sanngjarnt að leggja til, að þessi liður hækkaði um 50 þús.

Þá kemur að barnaskóla- og skólabyggingunum yfirleitt. N. leggur til, að framlag til byggingar barnaskóla hækki um 950 þús., framlag til byggingar gagnfræða- og héraðsskóla um 500 þús. og auk þess verði tekinn upp nýr líður, sem er greiðsla upp í vangoldin framlög vegna barna- og gagnfræðaskólabygginga, 1 millj. og 200 þús. kr. Er hér samtals um að ræða hækkun sem nemur 2 millj. 650 þús. Svo sem upplýst var við 2. umr. fjárlfrv., þá vantar mjög mikið á, að auðið hafi verið að greiða þann hluta af byggingarkostnaði skóla, sem gert er ráð fyrir að ríkið greiði, og munu skuldir til skólabygginga vera samtals komnar yfir 16 millj. kr. Það sýnist því mjög brýn nauðsyn til þess, bæði að koma í veg fyrir, að þessar upphæðir safnist fyrir, og enn fremur að reyna að höggva eitthvað í þær skuldir, sem þegar eru fyrir hendi. Er því lagt til, að þarna verði gert allmyndarlegt átak í þessu skyni, bæði á þann hátt, að reynt verði nú að hafa fjárveitingarnar það rúmar, að það samsvari nokkurn veginn þeim framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru á næsta ári, og einnig að tekin verði upp sérstök fjárveiting til greiðslu á þeim kostnaði, sem þegar er á fallinn, og munu vafalaust allir fagna því, ef hægt væri að koma þessu í það horf, að þessi vangoldnu framlög gætu farið lækkandi, því að hér stendur mjög erfiðlega fyrir mörgum sveitarfélögum, sem ráðizt hafa í að koma upp skólum, en eru þess alls ekki umkomin að standa undir öllum kostnaðinum, sem þau hingað til hafa orðið að verulegu leyti að gera um langt bil, þangað til framlög ríkisins hafa komið til.

Við 2. umr. var skýrt frá því, að n. hefði til athugunar tillögur, sem fram hafa komið og lágu fyrir frá stjórn íþróttasjóðs, um hækkun á framlagi til sjóðsins. Óskaði stjórn sjóðsins eftir því, að framlögin yrðu hækkuð í 1 millj. 250 þús., og taldi n. sanngjarnt að koma til móts við þær óskir með hliðsjón af þeim miklu þörfum, sem þarna eru fyrir hendi, og hækka þetta framlag upp í 1 millj., eða um 250 þús. kr.

Þá eru aðeins smáhækkanir á framlögum til málleysingjaskólans, 45 þús. kr. samtals. Þarna er um að ræða mjög mikilvæga kennslu, eins og allir hv. þm. munu viðurkenna, og því nauðsynlegt að búa sem bezt að þessum skóla, og talið var óumflýjanlegt að hækka þessar fjárveitingar til skólans nokkuð.

Enn fremur lágu fyrir fjvn. nú upplýsingar um það frá skólanefnd matsveina- og veitingaþjónaskólans, að ógerlegt yrði að starfrækja þann skóla með þeirri fjárveitingu, sem lagt var til að veita skólanum, þ.e. 100 þús. kr., og yrði skólinn að fá nokkru rýmri fjárráð. Var farið fram á allt að 160 þús. kr. í þessu skyni. Fjvn. leggur til, eftir athugun á þessu máli, að framlag til skólans verði hækkað um 45 þús. kr., eða úr 100 þús. upp í 145 þús.

Þá hefur þjóðminjavörður mjög óskað eftir því að fá nokkra hækkun í sambandi við vörzlu og viðhald gamalla bygginga, þar sem sú fjárveiting, sem lagt væri til að veita í því skyni, mundi naumast nægja, og leggur n. til, að sá liður verði hækkaður smávægilega, eða úr 80 í 85 þús. kr.

Þá hefur verið upplýst fyrir fjvn. af forstöðumanni náttúrugripasafnsins, að þar sem það safn er nú í miklum vexti og verið að koma því fyrir í nýjum húsakynnum, þá sé mjög brýn nauðsyn að fá nokkru rýmri fjárveitingu en ætluð hefur verið til þess að koma upp hirzlum fyrir muni safnsins og sömuleiðis til rannsókna og ferðakostnaðar í þágu safnsins. Hefur n. lagt til, að þessir liðir hækkuðu samtals um 15 þús. kr.

Þá er lagt til, að framlag til sjómannalesstofu K.F.U.M. í Vestmannaeyjum hækki um 2000 kr.

Að öðru leyti vil ég geta þess í sambandi við margar tillögur og óskir, sem fram hafa komið um hækkanir á fjárframlögum til bókasafna, að fjvn. hefur á þessu stigi ekki talið rétt að taka upp breytingar á þeim liðum fjárl., heldur leggur til, að þeir standi óbreyttir, og er þessi afstaða n. byggð á því, að hún hefur vitneskju um, að undirbúið muni hafa verið frv. um þessi mál og skipan þeirra, og þykir rétt að gera ekki breytingar á þessum liðum í þetta sinn, heldur sjá, hversu því máli reiðir af og hvort þar verði ekki lagður grundvöllur að heppilegri skipan á þessum styrkjamálum, því að sannleikurinn er sá, að þessir styrkir, sem komnir eru inn í fjárl. til bókasafna, eru, eins og hv. þm. sjá, æði mjög af handahófi og mjög misjafnir og erfitt að mynda sér fastar reglur um það, hvernig ætti þá helzt að breyta þessu, þannig að sanngjarnt yrði talið, miðað við allar aðstæður. Væri því í sannleika sagt mikil þörf á því, að þessu gæti orðið komið í fastara form. Og í trausti þess, að það verði gert, hefur n. ekki að þessu sinni viljað taka upp neinar breytingar á þessum liðum. Hins vegar leggur n. til, að bókasafni Hafnarfjarðar verði veittur nokkur byggingarstyrkur, eða 20 þús. kr. Þar er bókhlaða í byggingu, og það hafa áður verið veittar smáupphæðir í slíku skyni, og þykir sanngjarnt að leggja til, að þessi fjárhæð verði nú veitt til bókasafns Hafnarfjarðar sem byggingarstyrkur.

Þá kemur nýr liður, sem n. leggur til að tekinn verði upp í fjárl., en það er 100 þús. kr. framlag til útgáfunefndar handrita. Það hefur verið unnið töluvert að athugun á því, hvernig bezt yrði unnið að því, að Íslendingar hæfust handa um útgáfu á handritum, bæði þeim handritum, sem hafa ekki áður komið út, og einnig að endurútgáfu eldri handrita. Hafa sérfróðir menn að þessu unnið og gert ráð fyrir, að reynt verði á næsta ári að hefjast handa um þessa starfsemi, og þykir n. mjög sanngjarnt, — og býst ég við, að hv. þm. séu þar allir á sama máli, — að nokkurt fé verði veitt í þessu skyni. Þykir eðlilegt eftir atvikum, að sú fjárveiting verði nú 100 þús. kr.

Þá er 25. till. n., sem einungis er orðalagsbreyting á fjárveitingu til Hins íslenzka fræðafélags. En upplýsingar liggja fyrir um það, að þetta virðulega félag muni ekki hafa haft með höndum neina útgáfustarfsemi um nokkurt skeið, og þess vegna telur n. rétt, að fjárveitingin verði nú bundin því skilyrði, að félagið haldi áfram þeirri útgáfustarfsemi, sem mikilvægust hefur verið í sambandi við þessa útgáfu, en það er útgáfa jarðabókarinnar, og verði því fjárveitingin við það miðuð, að sú útgáfa hefjist á ný eða útgáfa á þeim hluta bókarinnar, sem eftir er.

Þá eru teknir upp styrkir til tveggja manna. Annar er Rit Björns Th. Björnssonar listfræðings til þess að semja myndlistarsögu Íslands fyrir siðaskipti, en að því hefur hann unnið um nokkurt skeið, og standa yfir samningar um það við bókaútgáfu menningarsjóðs. Hér er um ókannað verkefni að ræða að verulegu leyti og mjög merkilegt viðfangsefni, og þykir sanngjarnt að stuðla að því, að úr þessu geti orðið sem fyrst og hann geti lokið þeim athugunum, sem nauðsynlegar eru, til þess að hægt verði að gefa út þessar niðurstöður. Enn fremur er lagt til að veita Jónasi Þorbergssyni fyrrverandi útvarpsstjóra til ritstarfa 15 þús. kr.

Þá er lagt til að fella niður styrk til Sigurðar Skagfields, sem honum hefur verið veittur til söngkennslu, sem hann mun ekki stunda nú, og enn fremur styrk til Ingibjargar Steinsdóttur til leiðbeiningar í leiklist, sem hún mun ekki heldur stunda nú, og þykir því ekki eðlilegt, að þessir styrkir standi áfram.

Lagt er til að hækka styrk til Leikfélags Akureyrar um 10 þús. kr., og er sú styrkhækkun miðuð við mikla starfsemi, sem félagið nú heldur uppi og er sérstaklega kostnaðarsöm og mikið þrekvirki af leikfélagi úti á landi að ráðast í. Þykir sanngjarnt að veita fyrir það nokkra viðurkenningu og hækka styrkinn í þetta sinn sem þessu nemur.

Þá er enn fremur lagt til að hækka styrk til Leikfélags Vestmannaeyja smávægilega, eða um 1000 kr., og er það gert til samræmingar við önnur leikfélög.

Annars er það svo um þessa leikstarfsemi, að það er einnig nokkuð erfitt að setja fastar og sanngjarnar reglur um það, hvernig þeim styrkjum eigi að haga. Það eru mörg leikfélög, sem hafa styrki, og það hafa einnig komið hér fram tillögur um hækkun á styrkjum til sumra þessara félaga. En nefndin telur illgerlegt að gera þar breytingu á, nema hækka þá miklu fleiri félög til þess að raska ekki því samræmi, sem þó er innbyrðis á milli styrkveitinga til hinna einstöku félaga.

Þá leggur n. til, að tónlistarskólanum í Reykjavík verði veittur sérstakur styrkur. Það skal skýrt tekið fram, að það er ekki um að ræða hækkun á hinum almenna rekstrarstyrk til skólans, sem nú er í fjárlögum, heldur er hér um að ræða sérstakan styrk, vegna þess að skólinn hefur til reynslu fengið hingað erlendan söngkennara til þess að gera tilraun með það, hvort hér sé ekki heima hægt að koma á fullkominni söngkennslu og þar með spara það, að jafnmargir söngvarar þurfi að fara til útlanda til söngnáms og verið hefur. Þessi starfsemi er á byrjunarstigi og ekki ljóst, hvað um framtíð hennar verður. En n. hefur talið sanngjarnt, vegna þess að hér er um mikinn aukakostnað að ræða, að koma nokkuð til móts við óskir félagsins í því efni og leggur til, að í þessu sérstaka skyni fái félagið 40 þús. kr.

Að öðru leyti hefur n. ekki talið sér fært að gera till. um breytingar á þeim styrkjum til tónlistarskóla, sem nú eru í frv., þar eð hreyting á einum slíkum lið hlyti óhjákvæmilega að leiða til breytinga á fleiri liðum, hjá aðilum, sem eru jafnsettir.

Á fjárlfrv. hefur staðið að undanförnu framlag til hljómsveitar Reykjavíkur, sem er að vísu mjög smávægileg upphæð, 2000 kr. En hljómsveit þessi mun alls ekki vera starfandi og því ástæðulaust að láta þann styrk standa þarna. Leggur því n. til, að hann sé felldur niður.

Það gerist nú æ tíðara, að lúðrasveitir ýmiss konar leiti á náðir fjvn. um fjárstyrki, og er nokkur vandi á höndum um það, hvernig eigi að mæta slíkum óskum. Nd leggur n. til, að 5 lúðrasveitir fái styrki, þar af 3 nýjar, en 2 sem áður hafa fengið styrk, og að þessir styrkir verði hjá hverri um sig 8 þús. kr. Það þýðir 3 þús. kr. hækkun hjá tveimur lúðrasveitunum, en 8 þús. kr. fjárveitingu til hinna 3, sem við bætast.

Þá hefur einnig verið talið sanngjarnt að hækka nokkuð styrk til Landssambands blandaðra kóra, og er lagt til, að sá styrkur verði hækkaður um 6 þús. kr.

Þá kem ég að lið, sem er orðið hálfgert vandræðamál og fjvn. átti mjög erfitt við að fást, en það eru hinar mörgu beiðnir um styrki til söngnáms erlendis, sem nefndinni berast og aldrei hafa borizt fleiri en nú. Enda þótt þessi erlendi söngkennari sé hingað kominn, virðast samt óskirnar um að komast erlendis til náms vera litlu minni, og hafa þar fleiri aðilar raunar bætzt við. Þessi ásókn í þessa styrki er orðin það mikil, að n. telur með engu móti fært fyrir sig að fara að skera úr um það, hverja aðila sé ástæða til þess að styrkja eða ekki, og leggur hún því til að veita eina heildarfjárveitingu í því skyni að styrkja söngvara til náms erlendis, 70 þús. kr., og er sú fjárhæð nokkuð ákveðin með hliðsjón af þeim umsóknum, sem borizt hafa og ætla má að talið verði nauðsynlegt að sinna. En ætlazt er til, að menntamálaráð úthluti þessum styrk eins og öðrum styrkjum. Verður ekki talið óeðlilegt, að sú skipan verði upp tekin, því að það er, eins og ég áðan sagði, ákaflega erfitt fyrir fjvn. sem slíka að fara að meta aðstöðu þessara námsmanna fremur en annarra. Almennt eru aðrir námsmenn ekki teknir upp á fjárl. með einstaka styrki, heldur er þeim úthlutað af menntamálaráði. Með hliðsjón af því, að n. hefur tekið þarna upp eina fjárveitingu, hefur hún talið eðlilegast, að niður féllu þá þeir sérstakir styrkir til þessara námsmanna, sem á fjárlfrv. eru, og er því lagt til, að styrkur Guðmundar Jónssonar verði felldur niður. Hann mundi þá væntanlega eiga rétt á að fá styrk af þessari fjárveitingu, ef til þess kæmi að hann hugsaði til frekara náms. Hins vegar leggur n. ekki til, að niður falli styrkur til Elsu Sigfúss söngkonu, þar sem þar mun ekki vera um námsstyrk að ræða, heldur um sérstaka fjárveitingu til hennar, sem sanngjarnt þykir að halda við.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að vera að rekja þessar einstöku styrkveitingar, sem n. hefur gert að till. sinni, til nokkurra manna, sem ekki geta fallið undir þennan söngnámslið. Flestir þessara manna eru hv. þm. kunnir og hafa áður fengið styrki á fjárl., og geri ég ekki ráð fyrir, að athugasemdir verði við það gerðar, að þeim verði veittir þeir styrkir, sem hér er lagt til.

En þá kem ég að lið, sem fjvn. tók aftur við 2. umr., en það er styrkur vegna þátttöku íslenzkra myndlistarmanna í samnorrænni listsýningu í Rómaborg. Ástæðan til þess, að n. tók þessa till. sína aftur við 2. umr., var sú, að þá var lagt til, að styrkurinn yrði veittur einu ákveðnu félagi, Félagi íslenzkra myndlistarmanna, en mótmæli gegn því höfðu borizt frá ýmsum öðrum myndlistarmönnum, og upplýst er, að 3 félög myndlistarmanna eru til, þannig að það virðast ekki allir vera á eitt sáttir. Þessi tvö félög hin, sem var ekki gert ráð fyrir að fjárveitingin næði til, hafa mjög eindregið mælt gegn þessari tilhögun, og hefur því n. talið eðlilegast að breyta till. á þann hátt, að í stað þess, að fjárveiting verði veitt einu þessara félaga, þá verði féð veitt til þátttöku íslenzkra myndlistarmanna almennt í þessari sýningu, en hins vegar til þess frekar að tryggja það, að samkomulag geti eftir atvikum um þetta orðið, er talið nauðsynlegt, að undirbúningur og tilhögun í sýningunni verði háð samþykki menntamálaráðuneytisins, sem hafi þá eftirlit með því, hvernig þessu verði fyrir komið. Vænti ég, að hv. þm. geti eftir atvikum fallizt á, að þetta sé eðlileg leið út af þeim ágreiningi, sem ég hef frá skýrt að risið hafi milli myndlistarmannanna um þetta efni.

Þá er lagt til, að tveim listamönnum verði veittir byggingarstyrkir, sem er í sambandi við byggingu á málara- og myndhöggvaravinnustofum. Það er í samræmi við það, sem stundum hefur verið áður gert, og tel ég ekki þörf að fara um það fleiri orðum,

Þá er lagt til að heimila iðnaðardeild háskólans nokkra hækkun, en sú hækkun er eingöngu í því fólgin, að það er um að ræða laun starfsstúlku, sem þar hefur verið um langt skeið, en ekki verið tekin í launaáætlun, og er því ekki um neina raunverulega hækkun að ræða.

Við 2. umr. lagði fjvn. til, að framlög til Fiskifélags Íslands og Búnaðarfélags Íslands yrðu hækkuð allverulega með hliðsjón af eindregnum óskum þessara mikilvægu stofnana. Nefndin taldi sig þá hafa gengið svo langt sem hún teldi að hægt væri á því stigi. Hins vegar hafa n. nú borizt óskir um það frá ríkisstj., að nokkur hækkun væri enn gerð á fjárveitingu til þessara stofnána, og hefur n. eftir atvikum ekki séð ástæðu til þess að hafa á móti því að flytja till. um þær hækkanir.

Þá er lagt til að hækka lítið eitt liðinn, sem lagt er til að veita vegna skemmda, sem urðu af skriðuföllum í Skagafirði. Þessari hækkun á liðnum er fyrst og fremst ætlað að renna til bílstjóra, sem varð fyrir því óhappi, að bifreið hans varð undir skriðufallinu og ónýttist. Þykir ekki ósanngjarnt að bæta einnig að nokkru hans tjón.

Þá er nýr liður, töluvert hár, en það er till. um að verja til leitar nýrra fiskimiða 250 þús. kr. Hér er um mjög mikilvæga starfsemi að ræða og starfsemi, sem er á byrjunarstigi. Eins og hv. þm. mun kunnugt af fréttum, þá fann togari, sem var í slíkri miðaleit, mjög auðug fiskimið við Austur-Grænland á s.l. hausti, en það var árangur af upphafi þessara skipulögðu fiskileita, og ætlunin er nú að halda þessari starfsemi áfram og gera tilraunir til þess að finna fleiri fiskimið fyrir togaraflotann. Eru þá fyrst og fremst höfð í huga ný karfamið, en talið er mjög nauðsynlegt, að þau mið geti fundizt á fleiri stöðum, ekki hvað sízt vegna þess, að það er mjög slæmt, ef togararnir þurfa að sækja allir á sömu miðin. Þyrftu þeir að geta dreift sér, til þess að sem beztur árangur gæti orðið af veiðunum. Þykir því með hliðsjón af fenginni reynslu á þeirri nauðsyn, sem hér er um aukna starfsemi á þessu sviði, nauðsynlegt að veita þessa fjárupphæð til áframhaldandi starfsemi að leit nýrra fiskimiða, sem vitanlega verður þá undir yfirstjórn Fiskifélags Íslands.

Fyrir fjvn. lá beiðni um það frá stjórn iðnlánasjóðs, að fjárveiting til sjóðsins yrði hækkuð úr 300 þús. kr. í 600 þús., og jafnframt hefur um sama efni verið lagt fram frv. hér á hinu háa Alþingi. Fjárveitingin til fiskveiðasjóðs hefur lengi staðið óbreytt, 300 þús. kr., og er bundin í lögum. Hér er vitanlega um mjög mikilvægt verkefni að ræða, því að þessi sjóður er raunverulega eina stofnlánadeild, sem til er fyrir iðnaðinn í landinu, og því augljóst, að hér er um allt of lítið fé að ræða til þessa mikla og vaxandi atvinnuvegar. Þótt Iðnaðarbankinn sé á fót kominn, hefur hann bæði ekki mikil fjárráð og auk þess er hann fyrst og fremst rekstrarlánabanki. N. hefur þó ekki talið sér fært að sinna að öllu þessum óskum, ekki sízt vegna þess, að hér er um fjárveitingu að ræða, sem bundin er í lögum og eðlilegast þá að gera lagabreytingu um, en leggur hins vegar til vegna hinnar miklu nauðsynjar, sem er á auknu fé fyrir sjóðinn, að veittar verði á fjárlögum 150 þús. kr. til viðbótar því framlagi, sem nú er.

Þá er smávægileg fjárveiting til uppfinningamanns nokkurs, sem fundið hefur upp dúnhreinsunarvél, sem reynzt hefur mjög vei. Hér er um efnalítinn mann að ræða, sem hefur í byggju að reyna að fá einkaleyfi á þessari vél erlendis í von um það, að það geti tryggt þar sölu á vélinni. Þykir sjálfsagt að styðja hann, með hliðsjón af, að reynsla er fengin fyrir því, að hér er um gott tæki að ræða, og að styrkja hann nokkuð til þess að geta fengið þetta einkaleyfi. Er því lagt til að veita honum 10 þús. kr. í því skyni.

Í fjárl. ársins í ár eru flugbjörgunarsveitinni veittar 50 þús. kr. til tækjakaupa. Þessi fjárveiting er ekki tekin upp af eðlilegum ástæðum í fjárlfrv. nú, en sýnt þykir með hlíðsjón af mikilli og vaxandi starfsemi þessarar sveitar, sem hefur þegar gert mjög mikið gagn og er til mjög aukins öryggis fyrir slysavarnir, að sveitinni verði að veita áfram sama styrk sem rekstrarstyrk, og er því lagt til, að sveitin fái nú 50 þús. kr. til starfsemi sinnar.

Náttúrulækningafélag Íslands hefur haldíð uppi mikilli starfsemi og hefur m.a. hafið byggingu á heilsuhæli hér austanfjalls. Verður það mjög dýr bygging, og hefur félagið unnið af miklum dugnaði og fórnfýsi að því að koma upp þessari stofnun, sem vitanlega er til bóta fyrir heilsuverndarstarfsemi í landinu. Samkvæmt bréfi, sem fjvn. hefur borizt frá Náttúrulækningafélaginu, er gert ráð fyrir, að sú bygging, sem nú er unnið að, muni kosta um 1.4 millj. kr., og hefur félagið lagt þegar í þetta af eigin fé 1/2 millj. kr. Félagið fer fram á að fá styrk til þess að koma þessu hæli upp, og hefur fjvn. talið sanngjarnt að mæta að nokkru þessum óskum og leggur til, að félaginu verði veittar til byggingarinnar 100 þús. kr.

Upplýst hefur verið fyrir n. af félmrn. og hæstv. félmrh., að til þess að jöfnunarsjóður bæjar- og sveitarfélaga geti sinnt sínu hlutverki, sé óumflýjanlegt, að hann fái meira fé til umráða, og til þess að hann geti sinnt sínum brýnustu verkefnum, sem honum lögum samkvæmt beri að sinna, sé óumflýjanlegt að hækka fjárveitingu til sjóðsins um 350 þús. kr. Hefur n. fallizt á þessar röksemdir og leggur til, að þessi fjárveiting sé upp tekin.

Þá hefur utanrrn. óskað eftir því, að fjvn. hlutaðist til um að taka upp fjárveitingu til hjálpar flóttafólki í Evrópu. Samvinna er nú um það milli Evrópuþjóða að veita aðstoð þeim aragrúa fólks, sem hrakizt hefur frá heimilum sínum víðs vegar í Evrópu, og þykir eðlilegt, að Ísland verði þar að einhverju smávægilegu leyti þátttakandi, og hefur fjvn. fyrir sitt leyti fallizt á rökstuðning utanrrn. fyrir málinu og leggur til, að 50 þús. kr. séu teknar upp í þessu skyni. En áætlað er samtals, að þátttökuríkin verji um 5 millj. dollara til þessarar aðstoðar.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur Ísland varið miklu fé, og það mjög miklu fé hlutfallslega, til barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og má óhikað fullyrða, að það hafi verið í samræmi við óskir allrar þjóðarinnar, að tekinn yrði sem myndarlegastur þáttur í þeirri merkilegu mannúðarstarfsemi. Hlutur Íslands hefur þó farið þarna hlutfallslega minnkandi með árunum. Framlögin fyrstu árin voru miklum mun meiri, í samskotum og á annan hátt, en á síðustu árum hefur aðeins verið um að ræða hið ákveðna framlag í fjárl. Telur fjvn. rétt að leggja til, að þessi fjárveiting verði nokkuð hækkuð, eða úr 50 þús. og upp í 100 þús. kr.

Varðandi till. fjvn. um eftirlaun á 18. gr. fjárl. tel ég þarflaust að vera að rekja einstaka liði. Þar hafa verið felldir niður þeir aðilar, sem fallið hafa frá á árinu eða af öðrum ástæðum er eðlilegt að niður falli. En eins og hv. þm. sjá, er hér um mikinn og stöðugan vöxt að ræða í þessari styrktarstarfsemi, og er ástæða til að ítreka það enn, sem áður hefur verið gert af hálfu fjvn., að mikil nauðsyn er, að þessum málum verði komið í annað horf og hætt verði að taka upp þessa styrki á 18. gr., því að bæði er þetta af ýmsum ástæðum óeðlilegt, að hafa styrkveitingar í þessu formi, og hinu enn fremur ekki að neita, að allmikils ósamræmis hefur gætt í þessum styrkveitingum, sem vakið hafa leiðindi sem eðlilegt er. En ég vil aðeins til leiðbeiningar fyrir hv. þm. geta þess, þar sem sumum kann að sýnast, að ekki sé mikið samræmi í till. nú heldur, þar sem er um mjög mismunandi upphæðir að ræða, að samræmið er þó miklum mun meira en till. sýna, vegna þess að að sjálfsögðu er höfð hliðsjón af þeim eftírlaunum, sem viðkomandi aðilar fá úr lífeyrissjóðum, þannig að ég hygg, að hér hafi verið svo sem auðið var reynt að þræða þann sanngjarna meðalveg, ef segja má, og að mismuna mönnum ekki, heldur hafa hliðsjón af öðrum, sem álíka voru settir og áður hafa fengið eftirlaun.

Þá er lagt til að veita 120 þús. kr. til byggingar radíomiðunarstöðvar á Garðskaga. Þar er nauðsynlegt að byggja nýja radíomiðunarstöð, og er vitanlega ekki um annað að ræða en veita fé í því skyni, þar sem vegna öryggis á sjó má þessi stöð ekki niður falla, og er gert ráð fyrir, að fjárveiting skiptist á þrjú ár.

Áður en ég vík að heimildaliðunum, ætla ég rétt aðeins að minnast á till. n. á þskj. 281. Þar er í fyrsta lagi lagt til að veita William Craigie 20 þús. kr. fjárveitingu í viðurkenningarskyni fyrir störf hans í þágu íslenzkra bókmennta. Þessi maður er öllum hv. þm. kunnur fyrir hans mikla starf í þágu íslenzkra bókmennta og vináttu fyrr og síðar í garð Íslendinga. Hann vinnur nú að því sérstaka verkefni að endurskoða orðabók, að vísu ekki fyrir íslenzku stjórnina beint, en hún kemur íslendingum mjög að gagni, og hefur ekki fyrir það neina þóknun frá sinni ríkisstjórn, og þykir því sanngjarnt eftir atvikum að leggja til, að hann fái 20 þús. kr. í viðurkenningarskyni fyrir sitt starf.

Þá er lagt til að veita Guðrúnu Á. Símonar söngkonu nokkurn styrk vegna söngfarar hennar um Norðurlönd. Það mundi ekki geta fallið undir heildarfjárveitinguna til söngnáms.

Vegna fráfalls Einars Jónssonar myndhöggvara er vitanlega eðlileg sú breyting á þeim lið fjárl., sem hér er lögð til, að launin verði ekki lengur miðuð við hans nafn, heldur verði þetta laun gæzlumanns, en gert er ráð fyrir, að ekkja hans sinni gæzlustörfum við safnið samkvæmt erfðaskrá, sem um það gildir.

Þá er lagt til að veita Sigurþóri Ólafssyni í Kollabæ 10 þús. kr. í eitt skipti til viðurkenningar fyrir mjög ötula forgöngu í félagsmálum bændastéttarinnar þar eystra. Hann er nú 85 ára gamall og mun mikinn hluta ævi sinnar hafa helgað sig sveitarmálum þar og lagt á sig mikið starf í því efni, þannig að sérstakt þykir, og hefur því n. eftir atvikum talið rétt að verða við ósk um það, að hann fengi 10 þús. kr. í viðurkenningarskyni.

Þá er lagt til að veita tveimur aðilum nokkurn styrk til kaupa á sjúkrabifreiðum. Það er á sama hátt og veitt hefur verið undanfarin ár, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það nánar.

Þá ætla ég örlítið að víkja að nokkrum heimildaliðum til nánari skýringar.

Það er í fyrsta lagi um að ræða heimild til að greiða vissar launauppbætur þjóðkunnum mönnum. Hirði ég ekki um að rekja það nánar, það skýrir sig sjálft.

Þá er næsti liður um að heimila ríkisstj. að ábyrgjast allt að 400 þús. kr. lán vegna hitaveitu Hveragerðishrepps, þó ekki yfir 80% af heildarkostnaði. Þessi heimild hefur áður verið í fjárl., en ekki notuð að fullu.

Þá er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að kaupa jörðina Gröf í Hrunamannahreppi. Þetta er tekið upp samkvæmt ósk ríkisstj., og mun óskin byggjast á því, að hér er um að ræða jörð, þar sem er mjög mikill jarðhiti, og þykir þess vegna rétt að tryggja ríkinu umráðarétt jarðarinnar.

Þá kemur að því, sem hefur verið nokkuð fastur liður að undanförnu, en það er heimild handa ríkisstj. til að greiða áætlaðan rekstrarhalla Þjóðleikhússins, allt að 250 þús. kr. Samkvæmt fjárhagsáætlun Þjóðleikhússins fyrir árið 1955, sem mun hafa verið endurskoðuð rækilega af menntmrn., virðist augljóst, að halli af rekstri Þjóðieikhússins á árinu verði rúmar 250 þús. kr., og er þess þá getið, að rekstrarhalli hafi orðið árið 1952 590 þús. og 1953 210 þús. Það virðist liggja alveg ljóst fyrir, að ekki séu neinar líkur til, að Þjóðleikhúsið verði á næstunni a.m.k. starfrækt án þess, að um töluverðan rekstrarhalla verði að ræða, og mun það ekki vera neitt einstakt með þjóðieikhús. (Gripið fram í.) Já, hann er að vísu meiri; það mun rétt vera hjá hæstv. ráðh., að hann er í rauninni miklu meiri, vegna þess að þá er búið að taka til greina þá styrki, sem Þjóðleikhúsið fær. Þetta er hallinn auk þeirra styrkja, sem leikhúsið fær, t.d. af skemmtanaskatti, þannig að vitanlega er rétt, að hallinn er miklum mun meiri en þetta, ef það er einnig tekið til greina. Tekjur af skemmtanaskattinum, sem Þjóðleikhúsið fær, munu vera um hálf önnur milljón, þannig að hér er vitanlega um nærfellt 2 millj. kr. halla að ræða. En hvað sem því líður, þá virðast ekki horfur á því, að þetta færist mikið í þá átt, að þessi halli fari minnkandi. Enn liggur ekki fyrir, hver hallinn verður á þessu ári, en gert ráð fyrir, að hann verði um 250 þús. kr. líka. — Svo sem hv. þm. er kunnugt, hefur ríkissjóður tekið að sér að greiða byggingarskuldir Þjóðleikhússins, eftirstöðvar þeirra, og er til greiðslu á þeim skuldum varið 15% af skemmtanaskatti. Þjóðleikhúsið óskar eftir því að fá þennan skatthluta einnig og að ríkið afhendi þessar tekjur. Á þessu stigi málsins telur fjvn. ekki rétt að fara að leggja til, að sú breyting verði á þessu gerð, heldur að fyrirkomulaginu verði þá heldur áfram haldið og heimilað að greiða þennan rekstrarhalla, því að vitanlega yrði þá að greiða stofnskuldirnar á einhvern annan hátt, ef þessi tekjustofn væri ekki látinn standa straum af þeim.

Þá er lagt til að heimila að greiða skaðabætur vegna slyss, sem ungur piltur varð fyrir árið 1946 af völdum sprengingar. Svipaðar bætur munu áður hafa verið greiddar í einu tilfelli a.m.k., og eftir öllum atvikum málsins virðist mjög sanngjarnt, að það verði einnig gert nú. Hér mun vera um upphæð að ræða, sem nemur 70–80 þús. kr. væntanlega.

Þá flytur n. einnig, eftir ósk ríkisstj., till. um að heimila ríkisstj. að gefa kaupanda Súðarinnar eftir helming þeirrar skuldar, sem hann stendur í við ríkið vegna þeirra viðskipta. Skuldin mun vera um 670 þús. kr. rúmar, og mundi þá eftirgjöfin verða svo sem hér segir, 336 þús. kr. Fjvn. hefur ekki kannað þetta mál nánar, en telur vist, að ekki verði hjá þessu komizt, eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. ríkisstj. hefur aflað sér um það mál, þó að það sé náttúrlega ekki æskilegt að þurfa að fara þessa braut. En það er þá gert ráð fyrir því jafnframt, að ef af þessari eftirgjöf verði, þá verði tryggilega frá því gengið, að eftirstöðvarnar fáist greiddar.

Þá er loks till. um að heimila ríkisstj, að taka 800 þús. kr. lán til stækkunar sjálfvirku símstöðvarinnar í Reykjavík. Við 2. umr. var hækkun á fjárveitingu til stöðvarinnar samþykkt 1 millj. kr., og með þessari lánsheimild mun vera fengin nægileg fjárupphæð til þess að standa undir þessum byggingarkostnaði. En eins og ég gat um við 2. umr., er hér um að ræða byggingu, sem skilar hagnaði eftir skamman tíma, þannig að hún borgar sig á mjög stuttu árabili.

Þá er lagt til, að smávægileg breyting sé gerð á lið, þar sem ríkisstj. er heimilað að taka lán til að auka húsnæði ríkisspítalanna, og að niður falli, hvar eigi að taka lánið. Þykir það vera eðlilegt, að ekki sé verið að binda það í heimildinni.

Þá er enn fremur till. um að leyfa stjórn landhelgisgæzlunnar að greiða úr landhelgissjóði hluta af byggingarkostnaði björgunar- og varðskips fyrir Norðurlandi. Þetta skip er nú í smíðum og mjög mikil nauðsyn vegna öryggis nyrðra fyrir bátaflota, að smíði skipsins geti orðið lokið sem fyrst, og þykir því sjálfsagt að veita heimild til þess að nota fé landhelgissjóðs til að greiða fyrir framkvæmdum í þessu efni.

Þá er komið að lið, sem er nýr og til kominn af mjög alvarlegu vandamáli, en það er 8. till. n. á þskj. 281 um, að ríkisstj. sé heimilað að ábyrgjast allt að 2 millj. kr. lán til útvegsmanna, sem hafa átt skip, sem hafa orðið fyrir skemmdum vegna þurrafúa, sem hefur orðið vart nú að undanförnu. Það er enn ekki vitað, hversu mikið tjón þetta er, en þó liggja fyrir upplýsingar um það, að einstakir útvegsmenn hafa orðið fyrir tjóni, sem nemur jafnvel hátt á þriðja hundrað þús. kr. Er augljóst, að ekki er, miðað við afkomu útvegsins, þess að vænta, að menn geti staðið undir slíkum viðbótarútgjöldum án þess að fá einhverja aðstoð. Því er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast lán, sem þessir útvegsmenn yrðu neyddir til að taka vegna þessara skemmda. Þetta getur vitanlega orðið mjög alvarlegt vandamál, ef þessar skemmdir verða almennar í skipum; það hefur ekki verið athugað nema í tiltölulega litlum hluta bátaflotans, en þegar mun vera vitað um milli 10 og 20 skip, sem eru skemmd og það sum allmikið. Verður væntanlega að gera víðtækari ráðstafanir í þessu sambandi, en ekki tök á eða eðlilegt, að það sé gert við afgreiðslu fjárlaga nema að þessu leyti, sem hér er lagt til.

Þá er smáliður um það að heimila að endurgreiða toll af maniókamjöli, sem er aðeins vegna þess, að innflutningur er nýlega hafinn á þessu mjöli frá viðskiptalöndum okkar í vöruskiptum, en ekki gert ráð fyrir því í tollskrá. Þess vegna þykir eðlilegt, að það lúti sömu lögmálum og maís. En vitanlega verður eðlilegasta leiðin í þessu, sem væntanlega verður farin, að tollskránni verði breytt í samræmi við þetta, því að vitanlega er ekki hægt að breyta tollskrárlögunum sjálfum með fjárlögum, heldur verður að hafa þetta í því formi, að féð verði endurgreitt.

Þá vil ég geta þess til þess að koma í veg fyrir misskilning, að í fjárlfrv. er gert ráð fyrir 200 þús. kr. fjárveitingu til byggingar húsmæðrakennaraskóla. Um þetta mál hefur verið mikið rætt hér á þingi nú og raunar fyrr. Það liggur fyrir upplýst, og á því byggist þessi till. um fjárveitingu, að þessi skóli muni þurfa að skipta um verustað. Hins vegar sýnist mönnum sitt hvað um það, hvað við hann eigi að gera. N. gerir því engar till. um breytingu á þessum lið, þar sem hún vill sem slík enga afstöðu taka í þessu máli, en telur hins vegar rétt að taka það fram, að þessi afstaða hennar byggist þó ekki á því eða má ekki skiljast svo, að hún telji eðlilegt, að hafizt sé handa um byggingu þessa skóla eða þessa fjárveitingu eigi nauðsynlega að nota í því skyni, heldur þykist hún vita það, að jafnvel þótt önnur leið sé farin og annað hús notað fyrir skólann, þá muni þurfa eitthvert töluvert fé til breytinga á slíku húsnæði og af þeim sökum sé ástæðulaust, jafnvel þótt sú leið yrði farin, að gera ráð fyrir, að það sé hægt að spara þessa fjárveitingu. En að öðru leyti vill n. ekki sem slík taka neina afstöðu til málsins, hvort nýr skóli verði byggður eða annað hús notað fyrir skólann.

Hér hefur verið lögð fram frá hæstv. ríkisstj. till. um 6 millj. kr. framlag vegna áætlaðra uppbóta á laun opinberra starfsmanna og lífeyri, samtals að fjárhæð 6 millj. kr. Ég mun ekkí ræða þá till.; minnist aðeins á þetta hér til þess að gera mönnum lítillega grein fyrir, hvernig viðhorfið er, miðað við þessa till. og þær till., sem nú voru lagðar fram af fjvn., og þá till. frá samvn. samgm. um hækkun á flóabátastyrkjum, sem er að finna á þskj. 271 og nemur samtals 284 þús. kr. Þegar tillit er tekið til till. fjvn. á þskj. 269 og 281, nema þær nettóhækkun að fjárhæð 6 millj. og 760 þús. kr., og hafa þá komið til frádráttar lækkanir á 18. gr., 71 þús. kr. rúmar, og aðrar lækkanir, sem eru smávægilegar, en í allt nema lækkanirnar 96 þús. kr. rúmum. Ef við þetta er bætt fjárhæð þeirri til launauppbóta, sem flutt er af hæstv. ríkisstj., þá verður útgjaldaaukinn samtals um 12 millj. 760 þús. kr.

Ef á að vera hægt að afgreiða fjárl. greiðsluhallalaust, þá er augljóst, með hliðsjón af þessari miklu útgjaldaaukningu, að ekki er önnur leið fyrir hendi en að taka 3 millj. kr., sem fyrirhugað var að eftir stæðu sem framlag til framkvæmdasjóðs ríkisins, og eru þá aðeins eftir 2 millj. kr. á þeim lið, sem lagt er til að verði varið til byggingar nýs stjórnarráðshúss. Eru þá til ráðstöfunar upp í þessi auknu útgjöld 13.9 millj. kr. Niðurstaðan verður því sú, ef allar þessar till. verða samþ., að fjárl. verða með rúmrar 1.1 millj. kr. greiðsluafgangi.

Er augljóst af þessu, eins og ég tók fram við 2. umr. fjárlfrv., að ekki væru tök á því að samþ. miklar aðrar útgjaldatill. en þá voru bornar fram af meiri hl. fjvn., og hefur sú spá mín rætzt, eins og menn sjá, því að ekki er það mikill greiðsluafgangur, þó að gert sé ráð fyrir, að hann verði rúm 1 millj. kr. Virðist naumast mega tæpar með slíka áætlun fara.

Ég mun svo ekki ræða þetta mál nánar að þessu sinni og ekki víkja að till. hv. minni hl. frekar, fyrr en þá fyrir þeim hefur verið talað, né till. þeim, sem útbýtt hefur verið frá einstökum hv. þm., enda ekki gefizt tími til að athuga þær.