03.03.1955
Neðri deild: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

25. mál, læknaskipunarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til leiðbeininga fyrir hv. heilbr.- og félmn., þegar hún tekur málið að nýju til athugunar, og um þær brtt., sem þegar eru komnar fram.

Ég er samþykkur hv. frsm. (PÞ), að ég tel eðlilegt, að n. taki þetta mál til athugunar á ný vegna þeirra nýju brtt., sem fram eru komnar, en ég vil nú bera þá ósk fram til form. n., að það dragist ekki í marga daga eða vikur, að málið komi aftur til umræðu.

Hér hefur n. skilað áliti um frv. sameiginlega, og er ég ánægður með það. Þær litlu breyt., sem hér eru, eru ekki til þess að ræða um, og ég tel eðlilegt, að gildistaka þessara laga sé miðuð við áramót, þar sem ráðgert er að stofna tvö læknishéruð og ekki er á fjárl. 5 þetta sinn neitt til þess að standa undir þeim kostnaði. Ég er því efnislega samþykkur þessum tveimur till., sem koma fram hjá heilbr.- og félmn. á þskj. 391.

Hitt er kannske aukaatriði, það sem segir hér í nál., þótt það sé ekki alls kostar rétt, að sýslunefndin í Rangárvallasýslu hafi verið á einu máli um það, að læknarnir búi báðir á Stórólfshvoli, enda þótt annað héraðið sé vestan Eystri-Rangár. Þetta er náttúrlega ekki rétt, og ef hv. 2. þm. Rang. (HelgJ) væri hér í d., þá mundi ég segja fleira um það, en vonandi verður hann nú það frískur, að hann getí verið við umræðuna, þegar málið kemur aftur til umr. Sýslunefnd Rangárvallasýslu var klofin í þessu máli, — það er bezt að segja það alveg eins og það er, — og fólkið í hinu nýja héraði, væntanlegu Helluhéraði, vill hafa lækninn í héraðinu. Það vill ekki þurfa að sækja lækni áfram austur að Stórólfshvoli, eftir að búið er að stofna nýtt læknishérað, og það vill spara sér þann kostnað, sem því fylgir að fara 20 km lengri leið en þörf er á.

Hér í nál. er minnzt á Egilsstaðahérað, að fólkið þar hafi óskað eftir að hafa læknana saman. Það er dálitið öðru máli að gegna þar. Þetta er austur á landi. Þaðan er langt til Reykjavíkur, og þar er sameiginlegt sjúkrahús fyrir bæði héruðin á Egilsstöðum. Á Suðurlandi er gert ráð fyrir að byggja sjúkrahús á Selfossi, og ég hef engan heyrt minnast á það, að það yrðu væntanlega byggð tvö sjúkrahús á Suðurlandsundirlendinu nú á næstunni. Sú forsenda og þau rök, sem færð eru fyrir því, að læknarnir séu saman á Egilsstöðum, er ekki fyrir hendi hér. Og ég vil upplýsa það, að ef hv. Alþ. vill verða við vilja fólksins í Rangárvallasýslu, þá er hann sá, að læknarnir séu hvor í sínu héraði.

Ég hef nú dregið það lengi að ræða um þessi læknaskipunarmál í Rangárvallasýslu, og ég ætla ekkert að geta um orsakirnar að því hér, en á s.l. vori kom almenn áskorun til okkar þm. Rang. um það að sjá um, að á yfirstandandi þingi yrði héraðinu skipt og að læknirinn væri búsettur á svæðinu milli Eystri-Rangár og Þjórsár, eða í hinu nýja héraði, og hann getur þá hvergi verið betur settur en á Hellu. Það fóru fram undirskriftir á s.l. vori í sambandi við hreppsnefndarkosningarnar, og þessi blöð eru, held ég, í töskunni minni, og hv. n. getur fengið að sjá þau, ef hún vill. Þetta er aðeins til þess að undirstrika það, að það er vilji fólksins að hafa lækninn sem næst sér, og ætla ég ekki að eyða fleiri orðum að því í bili.

Hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) hefur sett fram tillögu á þskj. 239. Ég sé ekkert athugavert við, þótt hún sé samþykkt, frekar en t.d. tillagan um Raufarhöfn og frekar en Staðarhérað á Snæfellsnesi. Þetta er að vísu í heimildarformi, og það verða ekki skipaðir læknar í þessi héruð, nema því aðeins að þeir lýsi því yfir, að þeir vilji vera þar, og sennilega sækja læknar ekki um það, nema því aðeins að þeir af einhverjum ástæðum vilji vera þar. Staðarhérað á Snæfeilsnesi hefur veri$ í lögum s.l. 10 ár, en það hefur aldrei verið skipaður læknir í það, vegna þess að íbúarnir þar hafa ekki talið sig hafa ástæðu til þess, hvorki að byggja læknisbústað né eiga þátt í því að fá lækni þangað. Og þar sem hér er aðeins um heimild að ræða í sambandi við till. hv. þm. V-Ísf., þá sé ég ekki neina ástæðu til þess að snúast gegn henni.

Till. á þskj. 409 frá hæstv. fjmrh. er ekkert í þá átt að stofna nýtt hérað, heldur til samræmis, sem hæstv. ráðh. mun gefa nánari skýringu á.

Um till. á þskj. 426 ætla ég ekki að ræða frekar að þessu sinni, en vænti þess, að n. hafi fengið nokkrar skýringar í sambandi við hana.

Hér er till. á þskj. 414 frá hv. borgarstjóra, 7. þm. Reykv. (GTh), um það, að borgarlæknirinn í Reykjavík fái laun úr bæjarsjóði, en ríkissjóður endurgreiði helming launanna og annist kostnað við embættið eftir úrskurði rn. Það er sjálfsagt, að n. taki þessa till. einnig til athugunar, hvort samkomulag geti orðið um, að þetta sé tekið inn, og ætla ég þá ekki að segja meira um það að þessu sinni. En ég endurtek ósk mína til hv. form., að hann reyni að láta frv. koma áður en langur tími líður.