16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

1. mál, fjárlög 1955

Hermann Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt, að ég geri nokkra grein fyrir þeirri brtt., sem við þjóðvarnarmenn gerum nú við 3. umr. fjárl. Hún er á þskj. 297, í XXVI. lið, þ.e. síðasti liðurinn á því skjali, en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 23. gr. Á eftir gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Fari ríkistekjurnar 1955 fram úr 560 millj. kr., skal 3/4 hlutum þeirrar upphæðar, sem umfram er, varið til byggingar sementsverksmiðjunnar, nema Alþ. ráðstafi fé þessu á annan hátt til uppbyggingar atvinnulífsins með sérstökum lögum.“

Í sambandi við þessa till. okkar núna tel ég rétt að minna á það, að við 2. umr. fjárl. fluttum við allmargar brtt., og var aðaltillagan þá um það, að veittar væru 30 millj. kr. til uppbyggingar atvinnulífsins í samræmi við löggjöf, sem Alþ. setti þar um.

Það var ekkert rætt um þessar till. okkar hér af öðrum aðilum en okkur sjálfum að neinu öðru leyti en því, að hv. frsm. fjvn. minntist á þær sem heild, tók þeim vinsamlega og taldi þær ekki óraunhæfar, og kann ég honum þakkir fyrir þær móttökur. En hvorki hann né heldur hæstv. fjmrh., hvað þá heldur aðrir hv. alþm., sem styðja núverandi ríkisstj., minntust á þessa till. okkar, sem er þó veruleg nýjung, og gerði ég nokkra grein fyrir því við framsögu þá. Enginn minntist á hana einu einasta orði. Það hefði verið hægt áð álykta, að hún ætti lítillar andstöðu að vænta meðal hv. alþm. En það sýndi sig, að hér gilti ekki gamla reglan, að þögn sé sama og samþykki, því að þegar til atkvgr. kom var till. felld, og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að enginn hv. alþm. úr stjórnarflokkunum hafi greitt atkvæði öðruvísi en gegn henni. Ef það er rangt hjá mér, þá vona ég, að það verði leiðrétt á eftir.

Hvers vegna hv. þm. greiddu atkv. gegn þessari till., kom þess vegna alls ekki fram í þeim umr. Ég hef hins vegar verið að reyna að geta hér í eyðurnar og reyna að gera mér grein fyrir, hverjar ástæðurnar fyrir andstöðunni við till. muni hafa verið í raun og veru.

Í fyrsta lagi geri ég ráð fyrir því, að margir hafi greitt atkv. gegn henni af þeim ástæðum, að þeir hafi talið, að ekki væri nægjanlegt fé fyrir hendi til þess að leggja fram í þessu skyni.

Í öðru lagi hefur mér dottið í hug, að einhverjir kynnu kannske að hafa greitt atkv. gegn henni af því, að þeim hafi ekki fundizt nógu ákveðið í till., til hverra hluta þetta fé ætti í raun og veru að ganga.

Í þriðja lagi hefur mér dottið í hug, að e.t.v. hefðu einhverjir greitt atkv. gegn henni vegna þess, að þeir hefðu talið hana óþarfa eða að fénu væri betur varið til einhverra annarra hluta.

Í fjórða lagi — afsakið, það er í rauninni ekkert hér í fjórða lagi, því að ég vil ekki gera ráð fyrir því, að nokkur hv. þm. hafi greitt atkv. gegn till. vegna þess, að hún var borin fram af Þjóðvfl. eða þingmönnum hans.

Þessi till., sem við flytjum nú við 3. umr., fer mjög í sömu átt, þó að hún sé ólík að formi til, eins og till. okkar, sem við vorum með við 2. umr. Ef ríkistekjurnar fara upp í 600 millj. á næsta ári, sem ég tel ekki með neinum verulegum ólíkindum, — það væri vel hugsanlegt, að þær gerðu það, — þá mundu 3/4 hlutar af 40 millj., eða 30 millj. kr., vera til ráðstöfunar í þessu skyni. Ef svo Alþ. setti löggjöf um ráðstöfun fjárins, þá mundi niðurstaðan af samþykkt þessarar till. verða sú sama og ef hin hefði verið samþ.

Munurinn á till. er engu að síður verulega mikill. T.d. ef menn hafa greitt atkv. gegn till. af fyrstu ástæðunni, sem ég gat um áðan, ef þeir hafa talið, að ekki mundi vera fé fyrir hendi, þá hafa þeir menn ekkí ástæðu til þess að greiða atkvæði gegn till. nú. Hér er ekki um að ræða nein útgjöld fyrir ríkissjóð, nema tekjur ríkisins verði yfir 560 millj., nema þær fari m.ö.o. 65 millj. fram úr þeirri áætlun, sem hæstv. fjmrh. lagði hér fyrir þingið fyrst, og 46 millj. fram úr áætluninni eins og hún liggur fyrir við þessa umr. Það ætti því að vera nokkuð mikið fé, sem væri til ráðstöfunar, áður en til þess kæmi, að nokkuð væri veitt í þessu skyni. Meira að segja gerum við ekki ráð fyrir, þó að tekjurnar fari nú fram úr þessu, að það séu þó nema 3/4 af afganginum, sem til þessa ganga.

Þeir, sem trúa í raun og veru á réttmæti þeirra áætlana, sem hæstv. fjmrh. og fjvn. hafa gert um tekjur ríkissjóðs á næsta ári, hafa því enga ástæðu til þess að greiða atkvæði gegn þessari till., því að frá þeirra sjónarmiði kemur ekki til neinna útgjalda fyrir ríkissjóð, a.m.k. ekki nema um einstakt góðæri verði að ræða, eins og hæstv. fjmrh. mundi vafalaust orða það eftir á. Og er þá ekki full ástæða til þess að nota þetta einstaka góðæri til uppbyggingar atvinnulífsins?

Annað atriðið, sem ég gerði ráð fyrir að hefði valdið því, að menn greiddu atkvæði gegn þessari till., var það, að það væri of óákveðið, til hvers féð skyldi ganga. Þeir, sem hafa greitt atkvæði gegn henni af þessum ástæðum, hafa ekki ástæðu til þess að greiða atkvæði gegn till. okkar nú. Hér er ákveðið, að þetta skuli renna til sementsverksmiðjunnar, og munu flestir sammála um, að það liggi á að koma því þjóðþrifafyrirtæki betur áleiðis en orðið er. Þó er þetta ekki bundið svo miklum fastmælum, að Alþ. geti ekki hvenær sem er á næsta ári, ef það óskar, sett löggjöf um uppbyggingu atvinnulífsins á þann hátt, að þetta fé renni til annarra hluta í því skyni, sem hv. Alþ. teldi þá að væri nauðsynlegt.

Þriðja ástæðan, sem ég taldi hér áðan að kæmi til greina fyrir andstöðu við till., var sú, að menn teldu málið óþarft eða fénu betur varið til annarra hluta. Ég geri nú sannast að segja ekki ráð fyrir því, að það hafi verið margir, sem hafi haft það sjónarmið á málinu. Það hefur verið mikið rætt hér um slæmt atvinnuástand í þremur landsfjórðungum, þó að það sé talið nokkuð gott í þeim fjórða, og ætti það eitt að vera nóg til þess, að menn teldu fulla þörf á því að verja fé í því skyni að byggja atvinnulifið upp. — Ég skal skjóta því inn í, ef það gæti komið til greina, að það væri nokkur misskilningur í því efni, að við erum ekki hér að tala um atvinnubótafé; það er ekki eyðslueyrir, sem við erum að tala um. heldur til uppbyggingar.

Ég býst við líka, þrátt fyrir miklar deilur í sambandi við herlið á Íslandi, að allir hv. alþm. muni telja síg sammála um, að það væri æskilegt, að herinn færi burt af landinu eins fljótt og auðið væri. Menn miða það kannske við friðarhorfur í heiminum eða því um líkt, en það er ekki útilokað, að þær yrðu svo góðar, að við losnuðum við herinn af þeim ástæðum, en ekki ætla ég að fara að ræða um það deilumál núna. En við þurfum að gera okkur ljóst, að á vegum þessa setuliðs, sem hér er í landinu, vinna — ég veit ekki nákvæmlega hve margir menn; það getur kannske einhver upplýst það nánar. Eru það ekki 2 þús. menn eða þar um bil, eða fleiri? En ef herinn fer, þá þarf þó ástandið í atvinnumálum okkar að vera þannig, að við getum tekið við þessum mönnum og veitt þeim eitthvert lífvænlegt viðfangsefni við að fást. Þó að þetta sé kannske dálítið fram í framtíðina frá sjónarmiði fylgismanna ríkisstj., þá er það alls ekki út í hött að byrja nú þegar á einhverjum raunhæfum ráðstöfunum í þessu og gera um það einhverja áætlun. hvernig því skuli háttað.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira, en vil að lokum aðeins segja, að et svo á að fara um þessa till. okkar núna, sem er sú eina, sem við gerum sameiginlega um breytingu á fjárl. við 3. umr., að hún verði felld á sama hátt og hefur yfirleitt verið um allar till. frá andstæðingum ríkisstj. hér á Alþ., þá vil ég óska þess, að einhver, — ég fer ekki fram á það við hæstv. fjmrh., — en að einhver af stuðningsmönnum ríkisstj. sýni okkur þá kurteisi að skýra okkur frá því hér við umr., á hverju andstaðan við þessa till. byggist, svo að við þurfum ekki eins og áður að spreyta okkur á því að geta okkur til um ástæður fyrir andstöðunni, á svipaðan hátt og við værum að glíma við krossgátu.