16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

1. mál, fjárlög 1955

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ásamt hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) hugsað mér að flytja brtt. við fjárlfrv., og er sú till. í prentun. En þar sem henni hefur ekki verið útbýtt enn þá og ég hafði beðið um orðið, þá vil ég leyfa mér að bera hana fram skriflega fyrir okkar hönd og lýsa henni hér með.

Þessi brtt. er við 22. gr. frv. og er á þá leið, að heimilt sé að verja allt að 2 millj. kr. til að stuðla að aukningu útgerðar, þar sem afla skortir til vinnslu í fiskiðjuverum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í þorpunum við sjávarsíðuna byggist afkoma almennings yfirleitt á útgerðinni svo og á hagnýtingu aflans til sölu. Á mörgum stöðum hefur á undanförnum árum verið komið upp mannvirkjum til þess að annast hagnýtingu aflans, fiskiðjuverum, og þá fyrst og fremst hraðfrystihúsum og fiskimjölsverksmiðjum. Skýrsla sú, sem atvinnumálanefnd ríkisins hefur látið frá sér fara, ber það m.a. með sér, að á mörgum stöðum hefur slíkum fiskiðjuverum verið komið upp víðs vegar um landið. Hins vegar er það svo, að allvíða er nú þannig ástatt með útgerðina á þessum stöðum, að skipakostur sá, sem fyrir hendi er, er ekki fullnægjandi til þess að sjá fyrir því hráefni, sem þessi fiskiðjuver geta unnið úr, og hefur það þá það hvort tveggja í för með sér, að fyrirtækin skortir verkefni og að rekstur þeirra verður þar af leiðandi erfiður, svo og það, að atvinnu skortir á staðnum.

Sums staðar hefur þessum mannvirkjum verið komið upp ýmist í því traustí, að hægt yrði að auka útgerðina heima fyrir, eða þá, að skip frá öðrum stöðum mundu koma til með að leggja þar upp afla sinn. En það hefur nú farið á ýmsa vegu. Og eins og ég sagði, þá er það nú víða svo, að verkefnin skortir vegna þess, að skipastól skortir til fiskveiðanna.

Við flm. þessarar till. teljum nauðsyn bera til þess, að ríkið rétti hönd fram til aðstoðar, þar sem þess er brýnust þörfin, og verji nokkru fé til þess, ef fjárhagur leyfir, og höfum við gert það að till. okkar, að heimilt verði að verja í þessu skyni allt að 2 millj,. kr. á næsta ári.

Það er af mörgum ástæðum mjög mikilsvert, að atvinnulífinu í sjávarbyggðunum víðs vegar um land sé haldið í horfi, og þá m.a. vegna þess, að ef þröngt er um atvinnuna og illa gengur að halda uppi rekstri fyrirtækja, þá er hætt við því, að fólk leiti til annarra staða, þar sem það sér meiri möguleika, eins og reynslan hefur sýnt, en sú þróun er nú almennt ekki talin æskileg.

Ég tel ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu um þetta mál, en vil vænta þess, að till. okkar mæti skilningi hér á hv. Alþ. Vil ég svo leyfa mér að afhenda hana skriflega hæstv. forseta með tilmælum um, að hann leiti um hana afbrigða.