16.12.1954
Sameinað þing: 29. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

1. mál, fjárlög 1955

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég á hér á þskj. 297 fáeinar brtt., sem ég mun fara um örfáum orðum.

Þessar till. flyt ég ýmist einn eða með öðrum hv. þm.

Fyrst er lítil till. undir IV. lið á þskj., sem tekin var aftur við 2. umr. til 3. Sú till. er um lítils háttar fjárveitingu til landsbókasafns; það er nýr liður: til viðhalds og ljósmyndunar illa farinna handrita. Ég gerði mér nokkrar vonir um það, að hv. fjvn. mundi líta með velvilja á þessa till. Þar var mjög hóflega í sakirnar farið um fjárútlát, aðeins lagt til, að 10 þús. kr. yrði á næsta árí varið í þessu skyni. Því miður hefur hv. fjvn. ekki séð ástæðu til að sinna þessu. Sé því þannig varið, að n. hafi aflað sér upplýsinga um það, að hægt sé að koma fram þeim hlutum, sem þarna er lagt til, án þess að sérstök ný fjárveiting sé til þess veitt, þá er það að sjálfsögðu gott og þarf ekkí frekar um þetta að ræða. En standi hv. fjvn. hins vegar í þeirri meiningu, að hér sé um þarfiausan hlut að ræða, þá er það misskilningur. Ég gat þess við 2. umr., að ég væri þessu nokkuð kunnugur og í landsbókasafni væru því miður mörg handrit, sem þannig væri ástatt um, að ef þau væru ekki sérstaklega tekin til bæna, ef svo mætti segja, og reynt að bjarga því, sem bjargað yrði, þá mundu þau grotna niður á tiltölulega skömmum tíma og verða jafnvel ónothæf. Ég vil því mjög vænta þess, að svo framarlega sem ekki koma fram sérstakar upplýsingar um það, að hægt verði að vinna þetta verk, án þess að um sérstaka fjárveitingu sé að ræða, þá líti hv. alþm. með skilningi á þetta mál og samþykki þessa mjög svo hóflegu till.

Undir IX. lið á sama þskj. flyt ég ásamt tveim þm. öðrum, hv. 1. landsk. og hv. 2. þm. Reykv., till. um lítils háttar hækkaða fjárveitingu til samningar hinnar miklu vísindalegu íslenzku orðabókar, sem nú er unnið að. Ég flutti við 2. umr. till. um allmiklu hærri fjárveitingu til þessa nytjastarfs, en sú fjárveiting var felld. Nú höfum við lækkað upphæðina nokkuð, og ég sé mér til ánægju, að tveir hæstv. ráðh. flytja till. um samhljóða hækkun, og er þess þá að vænta, að þær till. nái fram að ganga. Er það vel, þó að þess sé hins vegar ekki að dyljast, að þetta er allt of litil hækkun. Ef þessar till. verða samþykktar, svo sem ég tel mjög líklegt að verði, þá er það þó undirstrikun og viðurkenning á því, að þarna sé verið að vinna hið merkasta nytjastarf, sem þurfi að geta gengið greiðlegar en það hefur getað gengið fram að þessu vegna fjárskorts.

Á sama þskj., undir XVIII. lið, flyt ég ásamt sömu hv. þm. og ég nefndi nú síðast, hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk., till. um lítils háttar hækkun á framlagi til slysavarna, bæði til almennra slysavarna og til umferðarslysavarna. Ég sé ekki ástæðu til að fara um þá till. mörgum orðum. Ég veit, að allir hv. alþm. hafa fullan skilning á því, að þarna er um mikið nauðsynjamál að ræða og þó að mjög verulegt sé gert nú þegar af hálfu Slysavarnafélags Íslands til þess að stemma stigu við slysum bæði á sjó og landi, þá er full þörf á að auka það starf enn að miklum mun.

Nokkrar aðrar till., einar þrjár, flyt ég með öðrum hv. alþm., en þar sem þeir hafa, að ég hygg, þegar mælt með þeim till., sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða þar um.