18.11.1954
Efri deild: 19. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

95. mál, almannatryggingar

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að segja aðeins örfá orð hér við 1. umr. þessa frv. á þskj. 157, en það er, eins og hæstv. forseti lýsti, frv. til l. um breyt. á l. nr. 50 frá 1946, um almannatryggingar, og viðauka við þau.

Forsaga þessa máls er sú, að ég mun hafa lýst því yfir um þetta leyti í fyrra eða einhvern tíma fyrir áramótin hér á Alþ., að á þessu ári mundi verða skipuð n. til að endurskoða lögin um almannatryggingar í heild. Þessi .ráðstöfun var sjálfsögð af ýmsum ástæðum og þó ekki sízt vegna þess, að í lögunum sjálfum er í raun og veru reiknað með, að ýmis ákvæði falli niður við lok ársins 1954, og lögin virtust vera þannig gerð í upphafi, að þá væri gert ráð fyrir nokkurs konar allsherjarendurskoðun á þeim, þó að það væri ekki tekið skýrt fram. ríkisstj. varð svo ásátt um að skipa slíka n., og var það gert í maí í vor. Í þeirri n. eiga sæti Hjálmar Vilhjálmsson skrifstofustjóri í félmrn., og er hann form. nefndarinnar, og með honum eru þeir Gísli Guðmundsson alþm., Gunnar Möller form. Sjúkrasamlags Reykjavíkur, Kjartan J. Jóhannsson alþm. og Haraldur Guðmundsson alþm. og forstjóri almannatrygginganna.

Þessi n. hefur nú starfað í sumar og hefur m.a. samið það frv., sem hér liggur fyrir, og hefur orðið ásátt um frv. í þeirri mynd, sem það er nú. Hins vegar á mjög langt í land, eftir því sem nm. hafa tjáð mér, að störfum n. sé lokið um allsherjarendurskoðun á allri almannatryggingalöggjöfinni. Þess vegna var að sjálfsögðu nauðsynlegt að framlengja þau ákvæði laganna, sem niður mundu annars falla nú um þessi næstu áramót, og auk þess að gera vissar aðrar bráðabirgðabreytingar. Þetta frv. er því fram borið af þeim ástæðum.

Ég vænti þess, að fyrir næsta Alþ., aðalþingi 1955, geti legið frv. frá þessari n. um allsherjarendurskoðun á tryggingalöggjöfinni. En fyrr getur það alls ekki orðið en næsta haust. Það er alveg auðséð.

Ég sé í raun og veru ekki ástæðu til þess að fara að rekja hér þær framlengingar og breytingar, sem felast í þessu frv. Það eru glöggar athugasemdir, sem fylgja því, og geta hv. alþm. að sjálfsögðu þess vegna kynnt sér það og hafa sennilega þegar gert það. Hins skal ég aðeins geta í þessu sambandi, að það hefur sýnt sig árlega að undanförnu, að almannatryggingarnar berjast í bökkum hvað fjárráð snertir, með þeim tekjum, sem þeim hafa verið markaðar í löggjöfinni, og svo með þeirri framvindu málanna að öðru leyti, sem orðið hefur hér.

Nú bendir n. á það hér í athugasemdum sínum við frv., að eftirstöðvar tryggingasjóðs hafi í árslok 1952 að vísu numið í kringum 12 millj. kr., en á árinu 1953 hafi hallinn orðið nálægt 2 milljónum og á yfirstandandi ári telur n. að samkv. upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins megi gera ráð fyrir nálægt því 5 millj. kr. halla, og gæti þá svo farið, að samkv. þessu yrðu eftirstöðvar tryggingasjóðs nú um næstu áramót aðeins í kringum 5 millj. kr. Nú hefur að vísu verið tekin inn í fjárlfrv. 5 millj. kr. aukagreiðsla til trygginganna. N. leggur hins vegar til, að auk þessara fimm milljóna verði framlag á fjárlögum hækkað um 11/2 millj., og eru þær till. n. hér í grg. frv. Í sjálfu frv. er ekkert komið inn á þetta atriði.

Ég taldi rétt að minna á þetta nú um leið og frv. er lagt fram, að þetta verður að sjálfsögðu að gerast upp hér á Alþingi eins og annað, er snertir fjárlög, hvort það verða látnar nægja þær 5 millj., sem nú eru komnar inn á fjárlagafrv., eða framlag ríkissjóðs verður aukið. Það hefur verið talið við endurskoðun á greiðslum þeirra aðila, sem bera uppi gjöldin til almannatrygginganna, að ríkissjóður hafi raunverulega ekki greitt fyllilega það, sem honum bar samkv. því, sem í upphafi var ákveðið í þessum efnum, og væri því hér raunverulega um nokkurs konar endurgreiðslu að ræða af hálfu ríkissjóðs, a.m.k. að einhverju leyti, hvað þessa upphæð snertir, fyrir það, sem vangreitt hefði verið. Ég skal ekki að þessu sinni fara inn á það atriði, en taka aðeins fram frá mínu sjónarmiði, að það, sem gert verður til þess að tryggja rekstur almannatrygginganna fjárhagslega næsta ár, meðan endurskoðunin stendur yfir, skapar ekki neinn nýjan grundvöll um greiðslu þeirra aðila, sem greiða gjöld til almannatrygginganna. Þetta er aðeins bráðabirgðaráðstöfun, gerð nú meðan á endurskoðun almannatryggingalaganna stendur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að öðru leyti inn á þær breytingar og framlengingar, sem frv. ber með sér. Ég vænti þess, að hið háa Alþingi geti í meginatriðum orðið sammála um þetta frv., sem er aðeins bráðabirgðaráðstafanir, meðan hin mikla endurskoðun stendur yfir.

Ég sé ástæðu til þess að geta þess að lokum, að eftir að n. var skipuð í maí í vor, komu á fund minn konur frá félögum kvenna og voru óánægðar með það, að ekki hefðu konur verið skipaðar í þessa nefnd, sem þær færðu mörg rök fyrir að eðlilegt væri að fjölluðu einmitt um endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar. ríkisstj. hefur nú fjallað um þetta atriði og orðið ásátt um að bæta 2 konum í þá nefnd, sem skipuð var í vor. Þetta hefur ekki verið gert enn, m.a. af því að starf n. liggur að nokkru leyti niðri nú. Það hefur verið unnið að því að safna upplýsingum, og þetta frv. liggur hér fyrir Alþingi. En ríkisstj. mun skipa tvær konur í þessa n. einhvern tíma fyrir næstu áramót, og mun n. þá, eins og hún þá verður orðin, 7 manna nefnd, starfa að endurskoðuninni áfram.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði visað til 2. umr. að lokinni þessari 1. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.