17.12.1954
Neðri deild: 36. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

95. mál, almannatryggingar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Frá því hefur verið skýrt hér á hv. Alþingi, að heildarendurskoðun standi nú yfir á almannatryggingalögunum, og hefur hæstv. ríkisstj. skipað sérstaka nefnd, sem hefur þetta mál nú til athugunar. — Þau atriði, sem brtt. þær fjalla um, sem hér liggja fyrir á þskj. 299, 307 og 318, eru vissulega þess eðlis, að þau eiga að koma til athugunar í sambandi við heildarendurskoðun á tryggingalöggjöfinni, sem nú fer fram. Hins vegar er þessum atriðum svo farið, að af þeim hlýtur að leiða nokkurn útgjaldaauka fyrir Tryggingastofnun ríkisins, og heilbr.- og félmn. hefur ekki fengið yfirlit yfir það, hve miklu sá útgjaldaauki muni nema. Það þarf líka að taka til athugunar, um leið og á að ákveða nýja útgjaldaauka á Tryggingastofnun ríkisins, hvort ekki sé hægt að spara á öðrum sviðum, þannig að heildarútgjöld stofnunarinnar vaxi ekki frá því, sem er og lagt er til í þessu frv. Af þessu leiðir það, að eðlilegast er, að um þetta sé fjallað af nefndinni, sem hefur málið til athugunar, og heilbr.- og félmn. virðist því rétt, að frv. sé samþ. nú eins og það liggur fyrir frá hv. Ed., en brtt. þær, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, séu ekki samþ. að þessu sinni, heldur athugaðar nánar, þangað til heildarendurskoðunin hefur faríð fram.

Hv. 3. landsk. (HV) gat um það, að þær fjárhæðir, sem veittar eru á 18. gr. fjárlaga, séu yfirleitt dregnar frá þeim greiðslum, sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi. Þetta er rétt að vissu leyti, en þó munu nú þær greiðslur, sem færðar eru á 18. gr. fjárlaga, stundum vera viðbót við lífeyri úr sérstökum lífeyrissjóðum, og er ég ekki viss um, að í þeim tilfellum gildi sömu reglur.

Um brtt. á þskj. 307, sem hv. 9. landsk. (KGuðj) hefur flutt, er raunar sama að segja og brtt. frá hv. 3. landsk., að af þeim hlýtur að leiða nokkurn útgjaldaauka fyrir Tryggingastofnunina, og er heilbr.- og félmn. ekki kunnugt um, hve miklu það muni nema.

Hv. 9. landsk. lét þau orð falla, að um leið og Tryggingastofnunin hefði tekið að sér að greiða barnalífeyri, þá hefði stofnunin tekizt á hendur ábyrgð, sem hún ætti að standa við, jafnvel þótt ástæður aðila breyttust. Ég hygg, að þessi skoðun orki mjög tvímælis, svo að ekki sé meira sagt. Ég hygg þvert á móti, að það sé regla hjá Tryggingastofnuninni að láta endurskoða örorkumat og taka til nýrrar athugunar þær greiðslur, sem hún innir af hendi, ef ástæður aðila breytast. Og því er ekki að neita, að ástæður heimilis hafa breytzt, ef ekkja hefur gifzt aftur og fengið á þann hátt fyrirvinnu að nýju fyrir sitt heimili og þá fjölskyldu, sem hún hefur fram að færa.