17.12.1954
Neðri deild: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

95. mál, almannatryggingar

Karl Guðjónsson:

Á síðasta Alþ. fluttu nokkrir hv. alþm. eitt lítið frv. til laga um breytingar á almannatryggingalögunum. Þetta frv. fékk ekki afgreiðslu þá, en það gengur í þá átt að gera því fólki, sem liggur á sjúkrahúsum, nokkra úrlausn um það, að ekki fari allt það fé, sem almannatryggingarnar greiða með þessu fólki, upp í dvalarkostnað þess á sjúkrahúsunum, verði greitt viðkomandi sjúkrahúsum, heldur skuli viðkomandi sjúklingar eða viðkomandi vistmenn á elliheimilum fá í eigin hendur 10% af því, sem ellilífeyrir þeirra eða örorkulífeyrir nemur. Þeir hv. alþm., sem þetta fluttu í fyrra, voru Kristín Sigurðardóttir, Gylfi Þ. Gíslason, Helgi Jónasson og Kjartan J. Jóhannsson.

Ég átti nú sannast að segja von á því, að þegar þetta mál, þ.e.a.s. breytingar á lögum um almannatryggingar, kæmi hér fyrir í deildinni, þá mundu a.m.k. einhverjir af þessum hv. flm. þessa frv. frá í fyrra freista þess að koma þessu litla, en mjög svo nauðsynlega ákvæði inn í lögin.

Frsm. þeirrar hv. n., sem fjallað hefur um þetta frv., hv. þm. A-Sk., hefur hér gert grein fyrir því, að heilbr: og félmn. geri ekki ráð fyrir breytingum á þessu frv., vegna þess að lögin um almannatryggingar séu í endurskoðun og einnig sökum þess, að ekki sé reiknað með því að svo stöddu, að hækka megi útgjöld trygginganna. Þetta eru að vísu rök, sem mega sín nokkurs innan sinna takmarka. Hér er hins vegar um að ræða breytingu, sem er þess eðlis, að hún ætti ekki að þurfa að trufla í einu eða neinu störf þeirrar n., sem vinnur að endurskoðun laganna um almannatryggingar. Ekki heldur leggur þessi litla till., þótt samþ. yrði, nokkrar byrðar á hendur Tryggingastofnun ríkisins. Hennar útgjöld mundu ekki raskast um einn eyri til eða frá, þótt till. yrði samþ.

En fyrst enginn af hv. fim. þessa frv. frá í fyrra hefur séð ástæðu til þess að freista þess að koma þessari breytingu nú inn í lögin, þá leyfi ég mér að taka þeirra tillögugrein upp sem mína skrifi. brtt. við frv. hér við 3. umr. þess. Brtt. sú, sem ég legg þá hér fram, er á þessa leið:

„Inn í frv. komi ný grein, er verði 22. gr., svo hljóðandi:

Ef bótaþegi dvelst í sjúkrahúsi, elliheimili eða annarri hliðstæðri stofnun, þar sem Tryggingastofnunin eða hið opinbera greiðir fyrir hann að nokkru eða öllu leyti, skal bótaþegi njóta hið minnsta 10% af bótum, sem ætlaðar hafa verið til framfærslu hans sjálfs. Heimilt er að hækka þennan bótahluta, ef sérstaklega stendur á.“

Ég vil einnig, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér yfir greinargerð þá, sem þeir flm., er ég hef til nefnt að frv. frá í fyrra, hafa gert fyrir þessari tillgr. sinni, en greinargerðin er á þessa leið:

„Þegar svo stendur á, að bótaþegi dvelst í sjúkrahúsi eða elliheimili, þar sem Tryggingastofnunin eða aðrir opinberir aðilar greiða fyrir hann, hafa bætur til hans sjálfs verið með öllu felldar niður samkvæmt heimild í 63. gr. laga um almannatryggingar. Þessir bótaþegar hafa því ekki haft neitt af bótafénu til eigin umráða, og hefur það valdið þeim miklum örðugleikum. Erfitt er að vera algerlega peningalaus, jafnvel þótt um rúmfasta sjúklinga sé að ræða. Margt af þessu fólki er líka rólfært, en hefur ekki einu sinni möguleika til að eignast nauðsynlegustu flík eða skó á fót. — Til þess að ráða einhverja bót á þessu, er frv. þetta flutt, en með því er lagt til, að aldrei megi taka meira en 90% af bótunum upp í sjúkrakostnaðinn, en hótaþegar hafi sjálfir 10% til eigin umráða.“

Þetta var greinargerð þeirra hv. alþm., sem þetta fluttu á s.l. ári, og vil ég í einu og öllu taka undir það, sem þar er sagt, og vænti þess, að hv. alþm. sjái fullkomna ástæðu til þess að láta ekki lengur dragast að tryggja rúmliggjandi gamalmennum og öðrum öryrkjum það, að þeir fái í sínar hendur til umráða 10% af því gjaldi, sem almannatryggingarnar annars greiða út þeirra vegna. Þetta mun í flestum tilfellum nema eitthvað milli 50 og 60 kr. á mánuði, og má þá segja, að þeir gætu e.t.v. sent kunningjum sínum jólakort og keypt á það frímerki eða eitthvað því um líkt. Hér er ekki um að ræða neinar verulegar fjárhæðir, en hins vegar er hér um að ræða réttindamál, sem ég vil ekki ætla að hv. alþm. vilji láta hjá líða að samþykkja á högum þeirra, sem svo illa eru settir í lífinu sem þeir menn, er um ræðir í þessari till.

Ég vil svo biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir þessari till. minni, sem er skrifleg og of seint fram komin.