15.11.1954
Neðri deild: 18. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

90. mál, skógrækt

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að mæla nema örfá orð fyrir þessu frv., vegna þess að grg. þess er svo skýr, að hún segir í raun og veru allt, sem ástæða er til að segja hér við 1. umr. málsins.

Ég vil þó geta þess, þó að það í raun og veru sé fram tekið hér í grg. frv., að þetta frv. hefur verið 2–3 ár til meðferðar, að nokkru leyti fyrir Alþingi og að nokkru leyti til endurskoðunar í nefndum. Skógræktarlögin eru að stofni til frá 1940, en á þeim hafa svo verið gerðar nokkrar breytingar, þó ekki verulegar, tvisvar síðan. En frv. það að nýjum skógræktarlögum, sem lá fyrir Alþingi 1952, varð ekki útrætt þá, en því var vísað til næsta búnaðarþings, sem þá var starfandi, og niðurstaðan varð sú, að það varð samkomulag um það milli búnaðarþings annars vegar og hins vegar milli skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands, að það yrði skipuð nefnd sameiginlega frá þessum aðilum til þess að athuga það frv., sem þá lá fyrir. Það hafði verið dálítill ágreiningur um nokkur atriði á milli þeirra, sem einkum starfa að búskap og sérstaklega sauðfjárbúskap, annars vegar og hinna, sem höfðu sérstakan áhuga fyrir skógrækt og skóggræðslu. Þessi nefnd var síðan skipuð, og eins og hér er frá skýrt, þá voru af hálfu Búnaðarfélagsins eða búnaðarþingsins þeir Guðmundur Jónsson bóndi á Hvítárbakka og Sigurður Snorrason bóndi á Gilsbakka, en hinum megin frá voru það þeir Sveinbjörn Jónsson hrl. og Hákon Guðmundsson hæstaréttarritari, frá Skógræktarfélagi Íslands og Skógrækt ríkisins. Það hefur náðst samkomulag í þessari n. um öll meginatriði frv. Það lá svo að lokum fyrir síðasta búnaðarþingi, sem gerði nokkrar breytingar á því, þó ekki veigamiklar, og áreiðanlega breytingar, sem samkomulag hefur náðst um, að væru til bóta, millí þessara aðila. Liggur því frv. nú fyrir hinu háa Alþingi eftir þessa margföldu endurskoðun, sem á því hefur farið fram.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að rekja þær breytingar, sem þessi endurskoðun gerir á l. frá 1940, vegna þess að nákvæmlega er það skýrt hér í grg., sem er þó ekki löng. En eins og hún ber með sér, þá er ekki um neinar stórfelldar breytingar hér að ræða á skógræktarlöggjöfinni, en mörgu hefur verið breytt með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur. Ekki er um nein stórfelld fjárútlát úr ríkissjóði að ræða vegna þessara breytinga. Að vísu má geta þess, að það er ætlazt til, að þeir, sem taki til skóggræðslu reiti við bæi sína, fái styrk til girðinga um þá á svipaðan hátt og menn fá styrk til girðingar um ræktað land samkv. jarðræktarlögunum. En ég hygg, að allir aðilar séu sammála um það, að þessar breytingar, sem hér er farið fram á, séu til bóta, sumar þeirra til mikilla bóta frá því, sem verið hefur. Og ég hef mikla von um, að þessi endurskoðun hafi það í för með sér, sem er mikils virði, að nú hverfi sá ágreiningur, sem verið hefur um framkvæmd vissra atriða í skógræktarlöggjöfinni milli þeirra, er aðallega lifa á búfjárrækt og þó einkum sauðfjárrækt, og skógræktarmannanna og þeirra, sem sérstaklega hafa áhuga fyrir henni. Að því hefur verið stefnt með þessari endurskoðun skógræktarlaganna, og þess vegna er það mjög ánægjulegt, að það skyldi nást samkomulag innan þeirrar nefndar, sem sérstaklega hefur um þetta mál fjallað, og það eru einmitt sömu aðilar, sem að þessu eiga að standa á eftir.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og landbn.