13.10.1954
Efri deild: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

25. mál, læknaskipunarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég get vel skilið þessa athugasemd hjá hv. 1. þm. N-M. í sambandi við mþn. í heilbrigðismálum, sem skipuð var á s.l. vori. Páll Kolka héraðslæknir var form. þessarar n. Hann kom í n. í stað Kjartans J. Jóhannssonar, og það vill nú svo til, að Páll Kolka kom með nál. mþn. til mín upp á skrifstofu í morgun. Nefndin hélt sinn síðasta fund í gærkvöld, og hann var að skila nál. af sér. Ég hafði nú lítinn tíma í morgun til þess að lesa það yfir, þar sem viðtalstími var, en ræddi dálítið við Kolka um þetta. Hann sagði, að n. hefði lítið farið inn á læknaskipunarmálin, en benti mér á eina grein í álitinu, þar sem hann taldi að væri rökstuðningur fyrir því, að það ætti að skipta Rangárhéraði, vegna þess að það væri of stórt, og það væri heppilegra, að læknarnir byggju ekki saman, heldur sitt í hvoru lagi. Ég get lofað hv. 1. þm. N-M. og hv. heilbr.- og félmn. og reyndar þingdeildinni allri, að þessu nál. verður útbýtt hér í d., og ef talið er heppilegt að hafa það til hliðsjónar við afgreiðslu þessa frv., þá er ekkert því til fyrirstöðu. En það er alveg rétt, sem hv. þm. tók fram: Það er eðlilegt, að álitið sé haft í huga, um leið og samþykkt er breyting á læknaskipunarlögunum.

Það eru til lög um fjórðungssjúkrahús á Suðurlandi. Það hefur verið rætt um að setja fjórðungssjúkrahúsið niður á Selfossi, og reyndar núna síðustu mánuðina helzt í Hveragerði með tilliti til hverahitans. Þar af leiðir, að það verður tæplega byggt sjúkrahús austur í Rangárhéraði, ef þetta á að heita fjórðungssjúkrahús fyrir Suðurland. Þess vegna yrði sízt ástæða til þess að ætla, að það væri heppilegra fyrirkomulag, að læknarnir væru t.d. tveir á sama stað, enda segja reyndir læknar, t.d. landlæknir, að sú skipan hafi og muni gefast illa, að tveir jafnréttháir læknar búi á sama stað. Það sé hætt við átökum og afbrýðisemi og keppni milli þessara lækna, sem sé ekki æskilegt til þess að skapa góða sambúð þeirra í milli.

Hv. 1. þm. N-M. sagði hér áðan, að hans stefna væri og hefði verið sú að fækka læknishéruðunum. En það hlýtur að vera raunalegt fyrir hann að játa þá staðreynd, að sú skoðun hefur ekki verið ráðandi í landinu. Sú skoðun hefur verið ráðandi undanfarið að fjölga læknishéruðunum til þess að létta undir með fólkinu og gera því ódýrara að ná í lækni, með því að þeir séu dreifðari. Og þar sem ekki eru sjúkrahús, fer vitanlega bezt á því, að læknunum sé dreift niður, til þess að ódýrara sé að ná til þeirra heldur en ef læknishéruðin væru stór og tveir eða fleiri læknar saman. En það er eðlilegt með þetta mál eins og önnur, þegar bornar eru fram breytingar, að menn vilji hugleiða málin frá ýmsum hliðum, og það gaf vitanlega sérstakt tilefni hv. 1. þm. N-M. að tala í þessu máli vegna mþn. í heilbrigðismálum, sem nú hefur starfað og skilað af sér, svo að hv. þingmönnum gefst tækifæri til þess að sjá það álit og kynnast því, um leið og afgreiðsla á þessu frv. fer fram.