10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

25. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég var ekki við hér, þegar umr. hófst hér fyrir nokkrum dögum, og veit ekki, hvað það hefur verið rætt þá hér, en ég býst við því, að hv. formaður n. hafi lýst frv., sem hér liggur fyrir, ýtarlega, svo að ég þurfi ekki neitt að fara út í það, a.m.k. ekki nákvæmlega.

Í þessu frv. til læknaskipunarlaga, sem hér er til umr., eru ekki margar nýjungar. Það er aðallega til þess að samræma lög eða breytingar, sem gerðar hafa verið á læknaskipun s.l. 8 eða 10 ár, að þeim er steypt í eina heildarlöggjöf í þessu frv.

Ýmsir hefðu búizt við því, eins og nú standa sakir, að komið hefði fram frv. um þetta efni dálítið öðruvísi en þetta frv. er, því að það er vitað mál, að á undanförnum árum hefur raunverulega verið unníð að því að breyta læknaskipuninni þannig að gera héruðin fleiri, fjölga þeim, og þannig fækka þeim íbúum, sem í þeim eru. Alþ. virðist hafa haft þá skoðun, að aðalráðið til þess að bæta læknisþjónustuna væri að hafa héruðin mörg og fámenn. Um þetta er mikið deilt, og ég held, að það megi fullyrða það, að allir þeir, sem um þessi mál hugsa og hafa þekkingu á þeim, telja, að það sé ekki allt fengið með því að hafa héruðin fá og smá. Reynslan hefur orðið sú víða, að það hefur ekki gefizt vel, og því lengi verið erfitt að fá lækna í þessi fámennu og litlu héruð. Þau hafa staðið auð, óskipuð, svo að segja alltaf, nema þegar læknar hafa fengizt þangað á hlaupum öðru hverju, sérstaklega að sumarlagi, enda er það eðlilegt, því að það er vitað mál, að menn eins og læknar, sem eru búnir að eyða 10–12 árum í sérmenntun, geta ekki unað við það að vera settir niður í héruð, þar sem eru kannske 200–300 manns eða svo í hverju héraði.

En vitanlega er það svo hjá okkur hér, að landfræðilega séð er sums staðar svo háttað, að héruðin verða að vera smá og fámenn, eins og t.d. í Flatey á Breiðafirði og í Borgarfirði eystra og e.t.v. víðar. En þar sem þess er ekki þörf, af því að nú er mikið bætt um samgöngur og annað, þá held ég, að það sé mikil fásinna að vera að skipta héruðunum niður í fleiri og fleiri héruð og fámennari. Landlæknir, sem leggur þetta frv. fram eða hefur undirbúið það, minnist líka á það í sinni grg. fyrir frv., að hann telur það ekki heppilegt, að héruðin séu svona fámenn, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp kafla úr hans grg. fyrir frv., sem lá hér fyrir Alþ. á s.l. þingi. Hann segir svo:

„Að vísu má deila um grundvöll íslenzkrar læknishéraðaskipunar, sem mjög einhliða er miðuð við það, að landsmenn eigi sem jafngreiðast til læknis að sækja, án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir, en það hefur aftur leitt til þess, að hér er ætlazt til, að læknar séu unnvörpum kúldaðir í svo fámennum læknishéruðum og við svo takmarkað verksvið, að þess eru engin dæmi í nálægum löndum og víst ekki annars staðar í veröldinni. Út af fyrir sig er slíkur jöfnuður góðra gjalda verður og sízt ástæða til þess að telja hann eftir, úr því að þjóðin telur sig hafa ráð á að standa undir kostnaði af honum. En honum fylgja óneitanlega annmarkar, svo að hætt er við, að í reynd verði hann öllu meiri í orði en á borði. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hverjum erfiðleikum er bundið að skipa hin fámennustu læknishéruð, og því kann svo að fara, þegar læknishéraði, sem þykir fullviðáttumikið, er í þessum lofsverða tilgangi skipt í tvö héruð eða fleiri, að það eitt vinnst, .að misst sé af einum dugandi lækni, sem annars mætti hemja í þeim byggðum til nokkurrar frambúðar, og í staðinn komi tvö eða fleiri læknislaus héruð eða í bezta lagi skrykkjótt og ófullkomin hlaupaþjónusta þeirra, sem þá er vísust til að bregðast, er sízt skyldi. Í þessu sambandi er og aðgætandi, að þó að læknir staðfestist í afskekktri byggð, gegnir allt öðru máli um hann en rammbyggða brú yfir vatnsfall í þeirri sömu byggð. Brúin heldur fullu gildi og svarar tilgangi sínum, á meðan hún hangir ein uppi og einn maður er eftir til að staulast eftir henni. Lækninum er miklu fremur hægt að líkja við viðkvæma vél, sem hætt er við að ryðgi sundur og grotni niður, ef hún er löngum og löngum ekki hreyfð, unz undir hælinn er lagt, að hún fáist í gang, þegar endrum og eins, en þá e.t.v. í miklum vanda, þarf til hennar að taka.“

Þetta er hans álit á þessum fámennu héruðum. Þó leggur hann ekki til hér í þessu frv., að þessu verði breytt. Hann ber það fyrir sig, að vilji Alþ. í þessu máli og vilji fólksins sé slíkur, að það sé ekki fært að fara fram á slíkt að svo komnu máli. Þetta held ég að sé nú ekki rétt. Ég býst við því, að flestir, sem um þessi mál hugsa, telji það alveg höfuðnauðsyn, að hér verði að farið eins og annars staðar í öðrum menningarlöndum, að það verði komið á stórum og nokkuð fjölmennum héruðum, það ætti að koma upp svokölluðum læknismiðstöðvum í hverju héraði og það verði byggð þjónustan á því frekar en eins og nú er orðið hér hjá okkur, enda er nú svo fyrir að þakka, — við vitum það, — að hér eru komnar svo góðar samgöngur á viðast hvar á landinu, að þessu mætti mikið breyta í þetta horf, ef það yrði undirbúið vel og gaumgæfilega. Með því mundi fást miklu betri læknisþjónusta en hún er nú hjá læknunum, enda segir landlæknir það líka í sinni grg., að hann sé á þeirri skoðun, að það muni vera heppilegra að hafa héruðin stór og nokkuð fjölmenn, og telur, að með því mundi fást betri læknisþjónusta.

Alþ. hefur á undanförnum árum nær eingöngu unnið að því að kljúfa niður héruðin, hafa þau mörg og smá, og þannig er það nú komið t.d., að hér hafa verið í lögum læknishéruð núna s.l. 12 ár eða a.m.k. 10 ár, sem aldrei hefur verið skipaður læknir i, og á ég þar við Staðarhérað á Snæfellsnesi og Borðeyrarhérað í Hrútafirði. Það voru sett l. um það 1945, að þau skyldu gerð að sérstökum læknishéruðum. Í þau hefur aldrei verið skipaður læknir, og annað er ekki nefnt hér meira, en Staðarhérað er komið á eins konar biðiista, sem á að veita, ef svo sýnist og fólkið óskar eftir því. Og þetta er alveg að vonum, því að það er sú reynsla hér hjá okkur, að í þessum fámennu læknishéruðum er þjónustan léleg og fæst ekki nema með höppum og glöppum.

Ég get sagt hér sögu, sem gengur hér um bæinn meðal lækna og læknanema, að nú fyrir skömmu var skipaður t.d. læknir í Flatey á Breiðafirði. Hann dvaldist þar í 6 vikur, og hann var í próflestri, svo að það kom sér vel, að það var ekki leitað til hans nema í tvö skipti. Það komu tveir menn að leita til hans á 6 vikum. Og hvernig haldið þið nú, góðir alþm., að unnt sé að kviksetja unga lækna í svona héruðum? Það er ekki hægt. Þeir missa alveg allan áhuga fyrir sínu starfi og lenda oft og einatt sjálfir í að verða sjúkir fyrir aldur fram, það er sú sorglega reynsla, því að þeir menn, sem lesa læknisfræðina núna á þessum tímum, verða að leggja á sig mikla vinnu og mikið erfiði og þeir verða að halda því áfram, ef þeir eiga ekki að ryðga og grotna niður.

Alls staðar hjá okkar nágrannalöndum hefur verið komið á fót stórum læknismiðstöðvum í hverju héraði, fjölmennum og stórum, og ég held líka, að hér hjá okkur sé það vilji hjá almenningi, þar sem hann skilji þetta. Fólkið vill hafa nokkuð stór svæði og eina læknismiðstöð í hverju héraði, þar sem eru samtímis eða á sama stað tveir eða fleiri læknar. Það telur, að með því hafi það betri aðstöðu til að ná til læknisins, þar sem tveir eða fleiri eru á sama stað, og annað líka: Almenningur heldur því fram, að betur sjái augu en auga og það sé meiri trygging fyrir því, að þjónustan verði betri og eins að hægt sé að gera fleiri aðgerðir, ef læknarnir eru tveir, sem vinna saman á sama stað, heldur en ef um einn mann er að ræða. Þetta er alveg eðlilegt og skiljanlegur hlutur, og ég veit það, að þess verður ekki langt að bíða, að hér verði gerð heilbrigðari skipun á læknaskipuninni og hún færð í þetta horf, þar sem það er hægt. Það mun að vísu alltaf verða eitt og eitt lítið hérað, sem er afskekkt og landfræðilega séð ekki hægt að miða samgöngur við. En núna, eins og komið er viðast á landinu, er enginn vafi á því, að á næstu árum verður unnið að því að koma læknaskipuninni í þetta horf, sem hún á að vera í. Og m.a. er núna, eins og við vitum, mikið talað hér um heilsuverndarstöðvar. Þær eru komnar á í mörgum kaupstöðum landsins, og væntanlega koma þær bráðlega einnig í sveitahéruðin. Og þá skilja allir menn, að ekki er hægt að reka slíkar stöðvar í mjög miklu fámenni; það er ekki unnt að standa undir þeim kostnaði, sem af því leiðir, það verður að vera nokkuð margt fólk, sem stendur um hverja heilsuverndarstöð, og það verður vitanlega að vera læknir, sem getur alltaf verið til staðar við hverja stöð, a.m.k. vissan tíma á dag, og það sjá allir, hvað það er erfitt, ef um einn lækni er að ræða í einu héraði; hann getur aldrei verið viss um að geta mætt á vissum tíma, þó að hann hafi ásett sér eða vilji gera það. Það er miklu frekar, ef þeir eru tveir eða fleiri. Þá geta þeir alltaf haft vissa tíma á hverjum degi, sem þeir geta helgað sig þessum störfum, sem á að vinna á heilsuverndarstöðvunum, og er þetta miklu auðveldara í framkvæmd en ella yrði, ef einn lækni væri um að ræða.

Það hafa því orðið vonbrigði fyrir mig, að landlæknir skyldi ekki undirbúa frv. á þann veg, sem hlýtur að leiða að núna á næstu árum. N. sá sér ekki fært að gera slíkt, því að það þarf langan og nákvæman undirbúning að slíku frv. Ef á að gerbreyta læknaskipun landsins, þá tekur það náttúrlega langan tíma að undirbúa það, og það þarf að gera með mikilli nákvæmni og miklum undirbúningi.

Enn þá virðist Alþ. vera á sömu skoðun og áður að fjölga héruðunum, því að nú á þessu þingi hefur verið fjölgað hér í þessu frv., frá því að það var lagt fyrir þingið, um a.m.k. eitt hérað eða jafnvel tvö fram yfir það, sem gert var ráð fyrir í frv. Og hér er brtt. um fleiri slík héruð, og verður það náttúrlega svo að vera, meðan ekki er gerð gagnger breyting á þessum málum, sem ég hygg að hljóti að koma nú alveg á næstu árum, því að annað er ekki fært, ef við eigum að halda uppi þeirri þjónustu, sem nútíminn krefur og fólkið krefst að fá.

Ég skal svo ekki hafa orð mín fleiri um frv. almennt, en snúa mér að þeim brtt., sem liggja hér fyrir við frv. við 2. umr. og n. tók til athugunar á fundi, sem hún hélt núna á þriðjudaginn var, og segja álit n. á þessum brtt.

Þá er fyrst brtt. á þskj. 239 frá hv. þm. V-Ísf. (EirÞ), þar sem hann leggur til, að það verði stofnað nýtt hérað, Suðureyrarhérað, — Suðureyri er þorp með ekki meira en eitthvað rúmlega 300 manns, að mér skilst, — og taka það úr Flateyrarhéraði, sem er nú ekki með nema eitthvað um þúsund manns í héraðinu öllu, svo að þarna koma tvö héruð með 600 og 300 manns, eða rúmlega það. En það á að fara á þennan biðiista, svo að það er ekki víst, að það verði skipað í það strax. Ég býst við, að það sé tilgangurinn með því. N. eða meiri hl. hennar féllst á það eða var ekki á móti því, að þetta yrði tekið inn og sett á eins konar biðiista eins og Staðarhérað og Raufarhafnarhérað.

Þá er hér líka brtt. á þskj. 409 frá hv. 1. þm. S-M. (EystJ), sem er um það að hafa óbreytt eins og það var áður með Eskifjarðarhérað og Búðahérað. En í frv. er gert ráð fyrir því, að einn hreppur, suðurbyggð Reyðarfjarðar, fari yfir í Eskifjarðarhérað, sem er hluti úr Fáskrúðsfjarðarhreppi. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, hefur verið unnið að því að samræma það þannig, að hrepparnir yrðu ekki klofnir, að það yrði enginn einn hreppur í tveimur héruðum, að það yrði alltaf heill hreppur, sem fylgdi héruðunum, en ekki hálfur, eins og áður tíðkaðist, og er það gert vegna hagstofunnar, hún telur það mikil þægindi fyrir sig að geta fengið hreppana í heilu lagi, en ekki klofna, eins og áður var, út af spjaldskrá og manntali og öðru slíku.

Hv. flm. ætlar nú að athuga þessa till. sína nánar. Ég veit ekki, hvað líður þeirri athugun hjá honum, en n. var heldur á móti því, að hún yrði samþ. eins og hún liggur fyrir, og er það vegna tilmæla hagstofunnar.

Þá er hér till. á þskj. 414 frá hv. 7. þm. Reykv. (GTh), — ég veit að vísu ekki, hvort það er búið að tala fyrir henni enn þá, mér er það ekki ljóst, - þar sem hann fer fram á það, að ríkissjóður greiði helming kostnaðar við borgarlæknisembættið í Reykjavík. Það er nú ekki langt siðan þessar breytingar voru gerðar með þetta embætti. Áður var hér héraðslæknir Reykjavíkur, skipaður á sama hátt og aðrir héraðslæknar landsins, en ég held, að það hafi verið árið 1949, að þessu var breytt. Þá fór bæjarstjórn Reykjavíkur fram á það, að hún fengi sérstakan borgarlækni, sem bæjarstjórnin réði sjálf og kostaði að öllu leyti. En nú er farið fram á það, að Ríkissjóður greiði helming af kostnaðinum við alla þá starfsemi, sem undir borgarlækni heyrir og er náttúrlega margþætt. Nefndin sá sér ekki fært að mæla með því, að slíkt yrði nema þá a.m.k. að einhverju litlu leyti. Ég hefði talið ekki ósanngjarnt, að ríkið borgaði a.m.k. eins og ein héraðslæknislaun til Reykjavíkur — það er ekki nema alveg sjálfsögð skylda — og kannske eitthvað meira, en að það borgi hálfan kostnað af öllu því starfi, sem þar er unnið, það held ég að sé ekki rétt fyrir ríkíð að gangast undir að gera. N. var mótfallin því, að þessi till. yrði samþ.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 426, sem ég leyfi mér að flytja hér. Það er um skiptingu Stórólfshvolshéraðs í Rangárvallasýslu í tvö héruð. Það hefur verið rætt um það nokkrum sinnum áður að skipta þessu héraði, þó að aldrei hafi orðið úr því. Hins vegar mun vera almennur áhugi fyrir því að hafa þar a.m.k. tvo lækna; það er það vissa. Og ég held, að það sé ekki nema sanngjörn krafa, að þeir verði tveir, því að þótt héraðsbúum hafi fækkað frá því, sem áður var, og samgöngur hafi líka batnað mjög frá því, sem áður var, þá er það nú svo, að læknisþjónustan er orðin svo miklu meiri en hún áður var og störfin orðin svo margvísleg, að það er full ástæða til þess að hafa þarna tvo lækna. Það skal ég fúslega gangast undir, þó að það hafi nú flotazt af með einum lækni fram til þessa. En það er dálítill ágreiningur um það, hvernig þetta fyrirkomulag á að vera. Ég skal taka það fram alveg hreinskilnislega, að fyrir mig persónulega skiptir það engu máli. Ég er að fara úr héraðinu á þessu ári eða næsta ári, annaðhvort, — það er samið um það milli mín og landlæknis, — svo að persónulega fyrir mig skiptir það engu máli. Það snertir mig ekkert þannig. En ég vildi bara óska eftir því, að héraðið fengi þá, þegar núna á að fara að breyta þessu, þá þjónustu, sem bezt mundi henta því.

Um þetta virðist vera einhver svolítill ágreiningur, og ég hef frétt um það, að hæstv. heilbrmrh. hafi safnað undirskriftum eitthvað í fyrrasumar um stofnun nýs héraðs á Hellu. Ég hef ekki séð þær undirskriftir og veit ekki, hvað þær eru margar eða hvernig þeim er háttað. Sumir segja mér, að þar hafi ekkert verið ákveðið annað en það að hafa tvo lækna í héraðinu. Svo kemur að því, að sýslunefndin hélt fund um þetta í vetur, 8. des., og samþykkti þá einróma, að héruðin yrðu tvö og skyldu heita Austur-Hvolshérað og Vestur-Hvolshérað. Þessu leyfði ég mér að breyta hérna í till. samkvæmt rangæskri málvenju, og kalla það heldur Út-Hvolshérað í staðinn fyrir Vestur-Hvolshérað. Við Rangæingar segjum út, þegar við meinum vestur. Við segjum út í Holt, út í Asahrepp, út á Rangárveill. Þess vegna leyfi ég mér að breyta því og kalla það Út-Hvolshérað í staðinn fyrir Vestur-Hvolshérað. Sýslunefndarmennirnir voru allir sammála um það, að héruðin skyldu heita þetta, og með því í raun og v eru, samkvæmt þeirri venju, sem nú tíiðkast, eru þeir búnir að lýsa því yfir, að þeir vilja hafa báða á sama stað. En svo kom að vísu ágreiningur um það, hver staðurinn ætti að vera. Níu af tólf vildu hafa það á Stórólfshvoli, einn vildi hafa það á Hellu og tveir á Vegamótum, sem eru í miðjum Holtunum. Ég fyrir mitt leyti er ekki beint hrifinn af því að hafa tvo jafnréttháa lækna á sama stað, — ég vildi heldur hafa annað form á því, — en sýslunefndin vildi hafa læknana báða á sama stað. Hún taldi, eins og vænta mátti, að það yrði betri þjónusta með því, að tveir læknar ynnu margs konar heilsuverndarstörf gegn margs konar smitsömum sjúkdómum, sem alltaf eru að færast í vöxt, og það er í þessu tilfelli mikið starf og verður auðvitað að gerast á ákveðnum tímum og ákveðnum stöðum. Ég fyrir mitt leyti hefði heldur kosið, að héraðið hefði verið bara eitt og óklofið, eins og verið hefur, enda er það lafhægt, því að svo eru orðnar samgöngurnar, að það má komast á bíl heim á hvern einasta bæ, svo að segja allt árið, og fjarlægðirnar ekki mjög miklar. Ég vildi því hafa héraðið eitt með einum héraðslækni og föstum aðstoðarlækni.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri. Ég bara vænti þess og vona, að sýslunefnd

Rangárvallasýslu verði virt svo mikils hér, að hún fái þá að minnsta kosti stuðning við þá till., sem hún hér leggur fyrir.