10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

25. mál, læknaskipunarlög

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég sé nú ekki eftir því, þótt frestur hafi verið gefinn ríflegur til þess, að hv. 2. þm. Rang., héraðslæknir okkar Rangæinga, fengi tækifæri til þess að flytja þessa ræðu, sem hann var nú að ljúka við, og koma þannig fram sínum skoðunum. Hitt þykir mér öllu leiðara, að hann fór ekki alls kostar með rétt mál. Það hef ég nú fyrirgefið honum stundum á þingmálafundum, en við þetta tækifæri fannst mér óþarfi að vera að halla réttu máli. En í sambandi við sýslunefnd Rangárvallasýslu vil ég taka það fram, að hún var alls ekki á einu máli. Ég skal viðurkenna það, að sýslumaðurinn í Rangárvallasýslu sýndi virðingarverðan dugnað, áður en hann var beðinn um að halda aukasýslufund, heimsótti sýslunefndarmennina og varaði þá við þeirri fjarstæðu að fara að staðsetja lækni á Keilu. Þegar ég frétti þetta, þá minntist ég sögu frá 1947. Þá var einn áberandi framsóknarmaður í Rangárvallasýslu, sem ætlaði að koma í veg fyrir, að það væri byggt frystihús á Hellu. Sláturfélag Suðurlands hafði ákveðið þátttöku í frystihúsbyggingu með kaupfélaginu, en einn áberandi framsóknarmaður taldi það fjarstæðu að vera að byggja frystihús á Hellu og Sláturfélagið skyldi alls ekki vera þátttakandi í frystihúsinu, ef það væri byggt þar. En væri það byggt 5 km austar, austur við Varmadal, þar sem er bara einn bær, eða vestar, þá mátti Sláturfélagið vera með. Oft hef ég í huga mér verið þakklátur þessum framsóknarmanni, vegna þess að það varð til þess, að kaupfélagið byggði frystihúsið af eigin rammleik og á það nú eitt, og það er vitanlega góð eign, af því að það var byggt fyrir gengisfellinguna. Ég hélt, að þessi hugsunarháttur væri algerlega horfinn frá framsóknarmönnum í Rangárvallasýslu. En það var ekki, þegar sýslumaðurinn gerði yfirreiðina í vetur. Það virðist ekki heldur vera — mér til mikillar raunar — hjá okkar ágæta héraðslækni, sem ég met mikils að mörgu.

Hv. ræðumaður talaði nú mest um læknaskipunarlögin eins og þau eru, en mínna um frv. sjálft, því að hann var að vara við litlu læknishéruðunum, sem væri verið að stofna. Frv., elns og það kom frá landlækni, gerði ekki ráð fyrir að stofna smá læknishéruð. Það gerði ráð fyrir að stofna tvö ný læknishéruð, sem skyldu vera með þeim stærstu í landinu. Það var að stofna nýtt læknishérað í Kópavogi. Það var að skipta Rangárhéraði, og eftir skiptinguna skyldi hvort hérað hafa um 1400 manns, m.ö.o.: það skyldi vera stórt læknishérað hvort um sig. Og ástæðan til þess, að ég hef ekki áður flutt frv. um skiptingu Rangárhéraðs, þótt fólkið þar eystra hafi viljað það miklu fyrr, er það tillit, sem ég hef tekið til núverandi héraðslæknis, því þótt við höfum verið andstæðingar og deilt um pólitíkina, þá hefur það verið innan vissra takmarka. Ég hef alltaf viðurkennt Helga Jónasson sem lækni, og hann hefur slitið kröftum sínum þarna eystra með því að gegna læknisþjónustu í stóru héraði og erfiðu héraði, áður en samgöngurnar voru eins góðar og nú. Ég taldi þess vegna sjálfsagt, að hann hefði forustuna um þetta, og ég vildi láta hans skoðun ráða nokkru í þessu. Meðan hann treysti sér til að gegna læknisþjónustunni fyrir austan og hann bar ábyrgð á því, þá taldi ég ekki ástæðu til þess að vera að sletta mér fram í það. Hitt er svo rétt, sem hann sagði núna, að hann mun fara að láta af störfum, og þá kemur nýr maður og nýir menn, og það er engin ástæða til þess, að 1 Rangárvallasýslu, þar sem búa 3 þús. manns, sé aðeins einn héraðslæknir, þegar kröfurnar eru á allt annan veg.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að það séu 5 hreppar í hvoru héraði. Í öðru héraðinu, Helluhéraði verður útsýslan; í hinu héraðinu, Hvolshéraði, verður austursýslan. Á s.l. vori fékk ég skriflega áskorun frá útsýslubúum, sem verða í hinu nýja héraði, um það, að héraðinu yrði skipt og að læknirinn yrði búsettur í hinu nýja héraði á svæðinu milli Eystri-Rangár og Þjórsár. Ég skal viðurkenna það, að það er gleymska af mér að hafa ekki sýnt hv. þm. þessar undirskriftir, þær eru í töskunni minni, en hann veit nú af þeim samt. Hann veit af því, að það eru vist um 400 manns, sem skrifuðu undir. Það var ekki ég, sem stofnaði til undirskriftanna. Það voru áhugamenn um skiptingu héraðsins, sem gerðu það, og það var gert á einum degi, þegar hreppsnefndarkosningar fóru fram á s.l. vori. Það er þess vegna vilji fólksins í sýslunni, að héraðinu sé skipt og læknirinn sé búsettur á svæðinu milli Eystri-Rangár og Þjórsár. Og þá er hann bezt settur á Hellu, þar sem eru núna búsettir um 200 manns.

Mér þótti vænt um það, hversu héraðslæknirinn okkar, hv. 2. þm. Rang., tekur mikið tillit til landlæknis. Landlæknir leggur ekki til, að læknarnir verði búsettir á sama stað í sýslunni. Þvert á móti hefur hann sagt við mig, að hann mundi leggja til, að læknir yrði búsettur á Hellu, og spurði meira að segja í gríni og hló, hvort það væri eitthvað öðruvísi fólk á Hellu en annars staðar. Það væri venjan, að þar sem þorp væru að myndast, kæmi krafa um það, að læknir kæmi þar, og það er vitanlega hægast fyrir lækninn að búa þar, sem flest fólk er í kringum hann.

Ég ætla nú ekki að deila mikið við hv! þm. um þessa till. hans. Mér finnst hún alveg fráleit, till. á þskj. 426, þar sem talað er um Austur-Hvolshérað og Út-Hvolshérað, sem byggist á því, að læknarnir skuli báðir vera á Stórólfshvoli, af því að það má ekki koma læknir á Hellu frekar en t.d. frystihús. Það er alveg fráleitt, og það tek ég ekki til greina.

Hitt er svo annað mál, að þegar talað er um, að það skuli vera heilsuverndarstöð eða sjúkrahús, þá er það atriði,' sem alltaf er hægt að ræða um. Það hefur nú verið rætt um að byggja fjórðungssjúkrahús á Suðurlandsundirlendinu, og hv. 2. þm. Rang. hefur lýst fylgi sínu við það hér á Alþ., eins og menn muna. Því miður er nú ekki þannig hjá okkur Rangæingum, að við getum búizt við, að þetta fjórðungssjúkrahús verði byggt í Rangárvallasýslu, vegna þess að það er meira fjölbýll í Árnessýslunni, og ég geri ráð fyrir því, að ef það á að vera staðsett með tilliti til þess, hvar það er bezt sett, þá verði þetta fjórðungssjúkrahús byggt í Árnessýslu. Þar af leiðir, að það verður a.m.k. ekki byggt stórt sjúkrahús í Rangárvallasýslu, og það hefur verið sjúkrahúslaust þar núna undanfarin nær 20 ár, að ég ætla. Það var sjúkrahús þar áður, en þegar það var orðið gamalt og fúið og lítt nothæft, þá var það rifið, en ekki annað byggt í staðinn, sem var vitanlega bæði vegna þess, að það var dýrt að endurbyggja það og dýrt að reka það, og þá einnig vegna þess, sem hlýtur að vera aðalástæðan, að það hafi ekki verið talin höfuðnauðsyn að endurbyggja það eða halda því við. Vitanlega þarf í hverjum læknisbústað að vera ein eða tvær stofur, sem hægt er að taka fólk inn í, ef mikið liggur við, en með þeim samgöngum, sem við nú höfum, mun fólk, ef það er alvarlega veikt, í flestum tilfeilum leita þangað, sem hin fullkomnustu tæki eru fyrir hendi, og þangað, sem sérfræðingarnir eru, og þá er það landsspítalinn í Reykjavík.

Læknisbústað verður að byggja, hvort sem læknarnir eru á sama stað eða ekki, því að læknisbústaðurinn á Stórólfshvoli er ekki nema fyrir einn lækni. Þótt húsið sé allstórt, þá er það ekki nema fyrir einn lækni, og verður þess vegna að byggja læknisbústað, hvort sem læknarnir verða saman eða ekki.

Það, sem skiptir máli, er þá þetta, að það verða aukin þægindi og veldur minni kostnaði hjá fólki í Rangárvallasýslu, sem býr vestur undir Þjórsá, að þurfa ekki að fara austur að Stórólfshvoli, heldur aðeins austur að Rangá. Það getur sparað kannske um 100 krónur eða á annað hundrað krónur í hverja læknisferð, og það er nokkuð, sem fólk lætur sig muna um. Og hv. 2. þm. Rang. getur leyft sér að tala í umboði meiri hluta sýslunefndar Rangárvallasýslu, en hann talar ekki í umboði fólksins í Rangárvallasýslu, þess fólks, sem hefur kosið hann á þing. Þótt ég beri virðingu fyrir sýslunefndinni að vissu marki, þá verð ég að segja það, að ég tek meira tillit til alls fjöldans í þessu efni og öðrum en til sýslunefndarinnar.

Hv. þm. var að tala hér um litlu héruðin. Brtt. t.d. frá hv. þm. V-Ísf. um Suðureyrarhérað er aðeins í heimildarformi, og þess vegna hef ég mælt með henni. Það eru hér tvö héruð einnig í frv. í heimildarformi, það er Raufarhafnarhérað og það er Staðarhérað á Snæfellsnesi, og við höfum rætt um þetta, landlæknir og ég, þessi heimildarhéruð, að stofna ekki læknishéruð eða embætti þarna, nema umsækjandi fáist, sem lýsi því yfir, að hann vilji vera þar einhvern ákveðinn, tiltekinn tíma. Og í Staðarhérað á Snæfellsnesi, sem hefur verið til síðustu 10 árin, hefur aldrei verið skipaður héraðslæknir, vegna þess að aðstæður hafa ekki verið til þess. En það er nú þannig með okkar læknishéruð, að þau eru út af fyrir sig ekki lítil, en þau eru fámenn. Það er strjálbýlið, og það eru samgönguerfiðleikarnir, sem hafa gert það nauðsynlegt að hafa héruðin mörg, til þess að fólk gæti náð til læknis í lífsnauðsyn, og það er þess vegna réttara að segja: Héruðin eru fámenn, enda þótt þau séu stór. Og sem betur fer hefur þjóðin getað veitt sér það að hafa marga héraðslækna og skapað meira öryggi hjá landsfólkinu, jafnvel í strjálbýlinu, heldur en áður var. Ég veit ekki, hvort það væri heppileg þróun að fara að draga úr því öryggi með því að færa læknana saman og gera héruðin enn þá stærri. Slíkt hlyti að leiða til aukins kostnaðar hjá fólkinu, þegar það þarf að vitja læknis, og slíkt hlyti að draga úr örygginu, þegar þarf að ná í lækni í ófærð, hríðarveðrum og öðru slíku um hávetur. Þá munu flestir óska eftir því, að leiðin sé sem stytzt til læknisins. Og það er þessi skilningur, sem Alþ. hefur haft á læknaskipuninni hér á landi, það er þessi nauðsyn, sem hefur ráðið því, að læknaskipunin hér er svona, og það er þessi skilningur landlæknis á málunum, sem veldur því, að hann hefur ekki treyst sér til þess að breyta þessum málum.

Till. hæstv. fjmrh. er til athugunar hjá hagstofustjóra, og hann sagði mér hér áðan, að hann vildi taka hana aftur til 3. umr., þangað til hann hefur gert sér grein fyrir því, hvort hann á að halda þeirri till. til streitu.

Hv. 7. þm. Reykv. hefur hér flutt till. á þskj. 414, sem hann er nú held ég ekki farinn að mæla fyrir, og ég teldi þá eðlilegt, að hún væri tekin aftur til 3. umr. til nánari athugunar. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta. Og ég get sagt það, það má hver leggja það út eins og honum sýnist, að mér leiðist að vera í orðaskaki út af þessu máli við okkar ágæta héraðslækni, Helga Jónasson.