10.03.1955
Neðri deild: 57. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

25. mál, læknaskipunarlög

Gunnar M. Magnúss:

Herra forseti. Það hefur verið rætt hér í sambandi við þetta læknaskipunarfrv. um það, að ekki sé heppilegt að auka við smálæknishéruðin, og hafa verið færð fyrir því nokkur rök. Ég vil nú samt leyfa mér að leggja til, að stofnað verði læknishérað, og fylgja þar með brtt. frá hv. þm. V-Ísf. (EirÞ) um stofnun læknishéraðs í Súgandafirði. Þessi till. hefur að vísu fengið góðar undirtektir, að segja má. Þó heyrist í umræðunum, að héraðið skuli vera á biðlista. Það er nú gott að vera á biðlista, en það er þó betra að vera öruggur og vera samþykktur að fullu. Og þrátt fyrir það, að ýmis rök hafi verið færð hér fram fyrir stofnun þessa héraðs og hv. flm. brtt. hafi borið þau rök fram, þá vil ég leyfa mér vegna kunnugleika míns á þessu héraði, sem um er að ræða, að láta hv. þdm. fá ýmsar upplýsingar, sem ég get gefið persónulega.

Ég er að mestu alinn upp í þessu byggðarlagi og þekki af eigin raun, hvernig það er, bæði að nálgast lækni og bíða eftir lækni. Þetta hérað er þannig sett, að segja má, að þó að samgöngur batni yfirleitt, þá geta ekki batnað samgöngur til þess að vetrarlagi. Þetta hljómar undarlega, en það er veðráttan, sem ræður. Þar þarf að sækja lækni nú á vélbáti út fyrir annes ellegar þá yfir heiðar, sem oft eru ófærar. Ég hef verið með í að sækja lækni frá Súgandafirði til Flateyrar í lífsnauðsyn í slíku veðri, að engir bátar fóru á sjó. Við fórum til Flateyrar, og læknirinn kom um borð til okkar, en þegar við vorum komnir út á fjörðinn, þá segir læknirinn við okkur: Er nokkurt vit í því að halda áfram, er þetta ekki lífshættulegt veður? Nei, sögðum við, það er ekki lífshættulegt fjarða á milli. — Hann vildi snúa til baka þarna, vegna þess að honum stóð ógn af þessu ferðalagi. Það er því stundum ekki einungis það, að sjúklingurinn og aðstandendur hans bíða í ógn og ofvæni, heldur er það einnig læknirinn sjálfur, sem er settur í lífshættu. Og annað dæmi skal ég nefna, að í læknisferð frá Súgandafirði til Flateyrar fórst bátur á mínum uppvaxtarárum. Hann var að fara til Flateyrar. Læknirinn var sem sagt ekki kominn um borð, en þar fórust tveir skipsmenn og farþegi. Þetta sýnir, hvernig ferðirnar á sjó eru til þess að sækja þarna lækni. Þá er að geta þess, hvernig ferðirnar eru á landi til þess að ná í lækni að vetrartíma. Þær eru útilokaðar. Það er yfir illa fjallvegi að fara, sem fönn sezt snemma á og læknir fer yfirleitt ekki orðið nú á dögum, þó að komið hafi fyrir, að þeir hafi brotizt yfir einstöku sinnum áður. Ég held, að það gerist síður nú.

Þá er ekki um annað að ræða, þegar ekki er hægt að ná í lækninn, en að fá ráðleggingar símleiðis ellegar að bíða og sjá hvað setur. Það er þess vegna oft dregið í lengstu lög að ná í lækni á þessum stöðum. Það hefur að vísu verið hjúkrunarkona þarna í héraðinu, en það er alls ekki fullnægjandi.

Og þá vil ég geta þess, að það var prestslaust í þessu héraði nokkra áratugi á nítjándu öldinni og fram undir 1900. Þá þurfti prestur að koma til sinna prestsverka öðru hverju eða þá að fólk fór til hans í víssum erindum. En af því að héraðið var fámennt þá, sennilega ekki meira en 150–200 manns um aldamótin, þá var talið ólíklegt, að prestur yndi þar eða fengist þangað. Samt varð það að ráði, að prestur kom þangað um aldamótin 1900. Upp úr aldamótunum fjölgaði mjög fólki þarna. Það varð ein af beztu og fengsælustu verstöðvum, og fólkið þyrptist til Suðureyrar á áratugunum frá 1900 til 1920, svo að þar myndaðist um 350 manna þorp og hefur haldizt síðan og stundum þar yfir. Þar er ein öruggasta fiskveiðistöð á Vestfjörðum, yfirleitt með smábátum, en ekki á stærri bátum.

Nú hefur verið sagt hér, að það sé vafasamt, að læknir fáist í þetta hérað. Um það er ekki hægt að segja neitt, en svo fór, að presturinn undi þarna, og hafa verið þarna tveir eða þrír prestar, svo sem mönnum er kunnugt um. Og það hefur orðið til mikilla þæginda að hafa prestinn í héraðinu og menningarauki. Að hafa lækninn í héraðinu væri hvort tveggja í senn, það væri bæði menningarauki og öryggi. Enn mætti benda á, að allur sá kostnaður, sem fer til þess að sækja lækni, sækja meðul, í símkostnað o.fl., o.fl., gæti miðlazt og lagzt yfir á kostnaðinn við það að hafa lækni í héraðinu. Læknirinn gæti ef til vill haft einhver hlunnindi frá héraðsbúum fyrir að sitja þarna, þó að hann þyrfti e.t.v. ekki að sinna eins mikið læknisverkum og ýmsir í öðrum stærri héruðum.

Það eru nú þarna í Súgandafirði sennilega um 400 manns. Og segjum, að það yrði nú læknir þarna á 400 íbúa. Ég leit að gamni mínu yfir símaskrána hérna í Reykjavík, þar sem læknarnir eru taldir upp. Það eru um 90 læknar skráðir hérna. Það fara að vísu ekki allir í læknisvitjanir, en töluvert mikill hluti af þeim. Það lætur þess vegna nærri, að hér sé auglýstur læknir á hverja 750 íbúa í höfuðborginni; eitthvað nálægt því. Það virðist nú ekki vera mjög erfitt að ná í lækni hér í Reykjavík og allvel um það búið, þar sem er læknir á 750 íbúa. En krafan um það eða óskin um það, að læknir verði settur í afskekktu héraði, þar sem stórhættulegt er oft að ná til læknis og líf manna liggur við, auk þess í mikilli verstöð, þar sem sérstaklega á vertíðinni koma upp ýmsir sjúkdómar, sem nauðsynlegt er að geta veitt hjálp við mjög skjótlega, virðist vera töluvert í samræmi við þá stefnu, að öryggi landsmanna á sem flestum sviðum sé svipað, hvar sem þeir eiga heima á landinu.

Ég ætla ekki að segja hér um fleiri orð, en treysti því, að hv. þm. taki til greina þau rök, sem hér hafa verið fram borin, og héraðið verði ekki eingöngu á biðlista, heldur verði það samþykkt sem læknishérað.