18.03.1955
Neðri deild: 61. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

25. mál, læknaskipunarlög

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leyfa mér að bera fram elna örstutta fsp. til hæstv. fjmrh., fim. brtt. Mér hefur skilizt, að sú skipulagsbreyting, sem gerð var á skipun læknishéraðanna að þessu leyti, sem hér er um að ræða, hafi verið gerð fyrst og fremst samkv. ósk hagstofustjóra, sem hafi talið sér og sinni stofnun mikil þægindi að því, að læknishéraðaskipunin væri í fullu samræmi við hreppaskiptinguna, vegna skýrslugerðar allrar í því sambandi. Mér var kunnugt um það, að hagstofustjóri var mjög óánægður með brtt. hæstv. fjmrh. eins og hún var og taldi hana sér til óþæginda og sérstaklega, að hún gæti verið hættulegt fordæmi fyrir aðra síðar, sem kynnu þá að óska einhvers svipaðs, þannig að það kerfi, sem hagstofan með mikilli vinnu og mikilli fyrirhöfn er að byggja upp, kynni að einhverju leyti að biða tjón af.

Nú vildi ég leyfa mér að spyrjast fyrir um það, því að það kom ekki fram í ræðu hæstv. fjmrh., hvort hagstofustjóri telur þessa breytingu, sem hann hefur gert á till., viðunandi eða ekki, en það kom ekki fram í ræðu hans. Það mun fyrir mitt leyti hafa áhrif á afstöðu mína til málsins. Ég hef tilhneigingu til þess að taka fyllsta tillit til þess, sem embættismaður eins og hagstofustjóri segir um atriði eins og þetta, sem hér er um að ræða.