25.03.1955
Efri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

25. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef fylgzt með þessum umræðum af athygli, og ég hef sannfærzt um það, að það frv., sem hér liggur fyrir, er byggt á algerlega röngum meginskoðunum. Mig grunaði það raunar frá fyrstu, en hef fengið alveg skýrar sannanir fyrir því nú, að það er verið að skipta landinn eftir því, sem hagkvæmast er að telja saman á einhverjum „stórum vélum“, sem talað hefur verið um, niðri á hagstofu, en ekki eftir því, sem hagkvæmast er fyrir fólkið að sækja lækna. Ég álít, að það síðara sé það eina sjónarmið, sem hér komi til greina, og að hitt sé hrein fásinna.

Það er að vísu sagt, að menn eigi rétt til þess að sækja lækni í fleirum en einu læknishéraði og þetta komi þá einungis til greina varðandi læknisbústaði, sjúkraskýlí og annað slíkt. En ef þessar hagfræðiskýrslur eiga að hafa þýðingu, þá hlýtur það fyrst og fremst að vera sem undirstaða undir ákvörðun um það, hvort eigi að byggja læknisbústaði, sjúkraskýli og gera aðrar slíkar ráðstafanir, og ég get ekki séð annað en að það hljóti að verða alveg vitlansar niðurstöður, sem út úr þessum útreikningum komi, þar sem forsendurnar eru svo gersamlega brjálaðar sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Ég held, að það þurfi að endurskoða þetta mál allt frá upphafi og eigi alls ekki að koma til greina að samþykkja að skipta landinu upp í læknishéruð einungis eftir því, sem bezt kemur sér að telja menn saman á reikningsvélum, heldur sé farið eftir því eingöngu, hvernig fólkið geti bezt náð sér í lækni og á sem hagkvæmastan hátt.

Ég vildi því leggja til, að frv. yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.