18.11.1954
Neðri deild: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

94. mál, iðnskólar

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ríkisstj. flytur hér frv. til laga um iðnskóla. Eins og kunnugt er, hafa iðnskólarnir fram að þessu verið utan við skólalöggjöfina í landinu og ekki notið þeirra hlunninda sem aðrir skólar. Þar sem iðnaðurinn í landinu er nú orðinn svo þýðingarmikill og stór sem raun ber vitni, virðist ekki ástæða til þess, að menntun iðnaðarmanna sitji við lakari hlut en menntun annarra stétta í þessu landi. En þetta frv. gerir ráð fyrir því, að iðnskólar njóti hér eftir sömu kjara og aðrir skólar í landinu og iðnaðarmenn verði ekki lengur fyrir borð bornir hvað þetta snertir.

1. gr. frv. gerir ráð fyrir því, eins og raunar hefur verið áður, að iðnmeistarar og iðnfyrirtæki taki iðnnema til náms og að unnt sé að halda námskeið til framhaldsnáms og undirbúnings iðnnámi og ýmiss konar iðnaðarstarfsemi.

2. gr. fjallar nm inntökuskilyrði iðnnema. Það er gert ráð fyrir, að iðnnemi sé a.m.k. 15 ára, þegar hann gengur til inntökuprófs. Þá er einnig gert ráð fyrir, að hann hafi lokið miðskólaprófi, sem ekki hefur áður verið skilyrði til inntöku í iðnskóla, og að hann hafi náð tilskildum árangri við hæfnispróf, sem einnig er nýmæli hvað þetta snertir, en fyrirvari hér: þegar því verður við komið, þar sem hæfnisprófi er ekki ef til vill alltaf hægt að koma við.

Þá er II. kafli í frv., sem gerir grein fyrir því, hvernig stofna skuli iðnskóla. Forgöngu um stofnun iðnskóla geta haft bæjarstjórnir, sýslunefndir eða hreppsnefndir, enda semji hlutaðeigandi sveitarfélög, ef fleiri eru en eitt, um greiðslu þess hluta stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar, sem ríkissjóður greiðir ekki, enn fremur iðnaðarmannafélög eða sambönd þeirra, enda komi til meðmæli og samþykki þeirra aðila, sem getur í 1. og 2. tölul. Þá er gert ráð fyrir, að ráðherra ákveði síðan um stofnun skólans að fengnum tillögum iðnráðs og hlutaðeigandi iðnfulltrúa. Þá er einnig gert ráð fyrir, að ráðherra löggildi iðnskóla, sem eru starfandi og fullnægja ákvæðum 7., 8. og 9. gr. frv., að fengnum tillögum iðnfræðsluráðs og hlutaðeigandi iðnfulltrúa.

Í 4. gr. er fram tekið, að skylt sé að taka við öllum iðnnemum úr umdæmi skólans, ef þeir rafa löglega námssamninga og fullnægja að öðru leyti settum skilyrðum. Iðnmeistarar og iðnfyrirtæki tilkynna hlutaðeigandi skóla, þegar samningar eru gerðir við nýja iðnnema, og senda þá til byrjunarnáms, er það hefst næst. Einnig skal tilkynna, ef nemandi hættir iðnnámi eða getur ekki haldið áfram skólanámi af öðrum ástæðum. Þetta út af fyrir sig er ekki nýmæli frá því, sem gilt hefur um þá iðnskóla, sem nú eru starfandi. Þá er gert ráð fyrir í þessu frv., að iðnmrh. hafi á hendi yfirstjórn allra iðnskóla í landinu.

Samkv. 6. gr. skal skipa skólanefnd svo sem þar greinir. Þar sem kaupstaður stendur einn að skóla, hreppur eða sýsla, kýs bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sýslunefnd 2 nefndarmenn hlutbundinni kosningu á fyrsta fundi eftir kosningar. Ef 2 sýslur eða fleiri; 2 hreppar eða fleiri standa að sama skóla, kýs hver sýslunefnd eða hver hreppsnefnd 1 nefndarmann. Iðnaðarmannafélag hlutaðeigandi staðar kýs jafnmarga menn til sama tíma. Þá er gert ráð fyrir, að ráðherra skipi formann skólanefndarinnar og að verksvið skólanefndanna sé ákveðið með erindisbréfi, sem ráðherra setur. Þegar iðnskóli er deild innan gagnfræðaskóla, skulu hlutaðeigandi iðnaðarmannafélög eða iðnsamband tilnefna einn fulltrúa í skólanefnd eða fræðsluráð viðkomandi gagnfræðaskóla. Þetta ákvæði virðist vera sanngjarnt, þar sem gert er ráð fyrir, að iðnfræðsla fari fram í gagnfræðaskóla, að iðnaðarmannafélög eða iðnaðarmannasambönd, starfandi í sýslufélaginu eða bæjarfélaginu; hafi þá einhverja hlutdeild í stjórn skólans.

III. kafli frv. fjallar um fjármál, og er gert ráð fyrir samkv. 7. gr., hvernig stofna megi til iðnskóla samkv. lögum þessum. Það er með þrennu móti. Það má stofna sjálfstæða iðnskóla; þegar tala nemenda er 60 eða fleiri, og þetta er allveigamikil breyting frá því, sem gilt hefur, þar sem ekki hefur verið áður tekið neitt fram um það, hvað nemendafjöldi skuli` vera mikill til þess að stofna megi sérstakan skóla.

Á annan hátt má stofna iðnskóla; þegar nemendur eru færri en 60; með því móti, að iðnskólinn verði sérstök deild innan héraðs- eða gagnfræðaskóla. Eins og kunnugt er, þá eru héraðs- eða gagnfræðaskólar í flestum sýslum landsins, og eins og nú er komið, virðist aðsókn að héraðs- og gagnfræðaskólum vera á ýmsan hátt takmörkuð, þannig að allir skólarnir eru ekki fullsetnir. Það virðist því vera mjög hentugt að hafa heimild í lögum til þess að stofna sérstaka iðnfræðsludeild innan héraðs- og gagnfræðaskólanna, og þarf ekki að hafa mörg orð um það til þess að sannfærast um, að þetta mun spara mikið fjármagn fyrir þjóðina í heild, að hafa iðnfræðsluna innan gagnfræðaskólanna; að nota þá kennslukrafta, sem fyrir eru í gagnfræðaskólunum, að nota það húsnæði, sem fyrir hendi er, og aðra þá möguleika, sem héraðs- og gagnfræðaskólarnir hafa að bjóða. En til þess að valda ekki byltingu og allt of fljótvirkri breytingu á þessum málum hefur verið gert ráð fyrir því, að fyrst um sinn megi þeir iðnskólar, sem nú eru starfandi, starfa áfram og njóta þeirra hlunninda, sem þeir hafa áður haft, og geri ég ráð fyrir, að svo verði fyrst um sinn. — Samkv. 7. gr. er gert ráð fyrir, að hlutdeild ríkissjóðs í stofn- og rekstrarkostnaði samkv. 1. og 2. tölul. sé bundin því skilyrði, að fullnægt sé ákvæðum, er gilda hverju sinni um árlegan starfstíma skóla og lágmarkstölu nemenda í deildum gagnfræðaskólanna. Hlutdeild ríkissjóðs í rekstrarkostnaði iðnfræðslu samkvæmt 3. tölul. skal vera styrkur á sama hátt og verið hefur, og er því engin breyting með þessu frv. á þeim iðnskólum, sem nú eru starfandi víðs vegar í kauptúnum og kaupstöðum landsins.

Samkvæmt 8. gr. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði helming stofnkostnaðar þeirra iðnskóla, sem um getur í 1. tölul. 7. gr. Hinn hlutann greiða þeir bæjar-, sýslu- eða sveitarsjóðir; sem að stofnun skólans standa. Til stofnkostnaðar telst skólahús ásamt húsbúnaði og kennsluáhöldum svo og vinnustofur, ef reknar eru, ásamt vélum og áhöldum. Stofnkostnaður iðnskóla greiðist eftir því, sem fé er veitt á fjárlögum, enda sé tryggt fjárframlag á móti.

Ríkissjóður greiðir laun skólastjóra, eins og gert er ráð fyrir í 9. gr., og annarra fastra kennara. Annar rekstrarkostnaður greiðist af sömu aðilum og stofnkostnaður og í sömu hlutföllum: Iðnmeistarar og iðnfyrirtæki, sem láta nemendur ganga í skólana, greiði gjöld vegna þeirra, eftir því sem ráðh. ákveður eftir till. skólanefndar. Gjöld þessi svo og hreinar tekjur af skólavinnustofum koma til frádráttar rekstrarkostnaði áður en honum er skipt.

Þá er gert ráð fyrir samkv. 10. gr., að skólanefndir annist fjárreiður og reikningshald skólanna.

Gert er ráð fyrir, að mögulegt sé að hafa framhaldsnám fyrir iðnaðarmenn, og er það út af fyrir sig mjög nauðsynlegt. En það er gert ráð fyrir, að það verði við iðnskólann í Reykjavík, sem mun hafa bezta aðstöðu til þess að hafa framhaldskennslu á hendi fyrir iðnaðarmenn. Kennsluna má miða við einstaka iðngrein eða flokk skyldra iðna; og kennslan fari þá fram í skóla eða á námskeiðum. Framhaldsskólinn er ætlaður þeim, sem búa sig undir meistarapróf eða verkstjórn í iðn sinni. Hann er eins árs skóli hið minnsta með 44 stunda vikukennslu 7–8 mánuði eða 3 ára skóli með 15 stunda kennslu á viku 7–8 mánuði á ári. Gert er ráð fyrir, að kennslan sé bæði bókleg og verkleg.

Samkv. V. kafla er gert ráð fyrir, að iðnmrh. skipi skólastjóra að fengnum till. skólanefndar: Gert er ráð fyrir, að iðnmrh. semji reglugerð, sem kveður nánara á um það, hvernig framkvæmd þessara laga verði.

Ég er í engum vafa um, að ef þetta frv. verður að lögum, þá getur það orðið til mikilla bóta og mikils hagræðis fyrir alla iðnmenntun í landinu. Iðnaður á Íslandi má teljast ung atvinnugrein, og er þess vegna eðlilegt, að ýmislegt, sem iðnaðinn varðar í dag, sé á frumstigl. Það, sem getur bætt úr því, og það, sem getur komið iðnaðinum á svipað stig og hinum eldri atvinnugreinum þjóðarinnar, er það, að iðnaðarmenn njóti þeirrar menntunar, sem nauðsynleg er.

Áður hefur ríkið tekið að sér að kosta sjómannaskóla, búnaðarskóla og aðra sérskóla í þjóðfélaginn, en iðnskólarnir hafa verið utan við þetta. En þegar iðnaðurinn er orðinn þriðji stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og þjóðin verður að byggja á iðnaði að meira og minna leyti, þá er ekki hægt að verja það, að iðnmenntunin sé sett til hliðar og njóti ekki sömu kjara og sömu hlunninda og menntun annarra stétta þjóðfélagsins gerir.

Með því að hafa þá heimild, sem hér er farið fram á, að hafa iðnmenntunina innan héraðs- og gagnfræðaskóla, skapast möguleiki fyrir því, að menn úti um land, sem áður hafa haft slæma aðstöðu til að mennta sig vel í iðnaðinum, geti það nú með léttu móti. Það er enginn vafi á því, að það er minni kostnaður fyrir bæjar- og sveitarfélög að hafa iðnfræðsluna innan héraðsog gagnfræðaskóla heldur en að stofna sérstakan skóla, sem hefur iðnfræðsluna með höndum.

Ég veit, að þessu frv: verður vel tekið hér í hv. Alþ., og ég er sannfærður um, að eins og það er byggt upp, þá mun það geta gert ákaflega mikið gagn fyrir okkar iðnmenntun og iðnað í landinu. Ég vænti því, að það mæti þeim skilningi; sem vert er, og legg til, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og iðnn.