14.03.1955
Neðri deild: 59. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

94. mál, iðnskólar

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að eyða neinum tíma í að svara skætingi um það frá hv. 7. landsk. þm., hvort ég hafi gengið á háskóla eða ekki. En það var aðeins eitt atriði í ræðu hans, sem ég vildi gera athugasemd við og spyrja hann um, hvaðan honum komi vitneskja í því máli. Hann segir, að þegar ekki sé hægt að koma málinu áfram til fulls, þá geri hann sig ánægðan með að þoka því áfram eitthvað í áttina. Í þessu felst viðurkenning um það, að okkar till., sem hann var upphaflega flm. að, hafi verið að koma málinu áfram til fulls, ef hún hefði verið samþykkt. Hvaðan kemur honum þá vitneskja um það, að það hafi ekki verið hægt? Hvaða spádómsgáfu hefur hann öðlazt til að segja fyrir um það, hvort sú till. hefði náð samþykki í deildinni eða ekki, ef hann og hv. þm. V-Húnv. hefðu viljað standa að henni áfram? Og hvers vegna brugðust þeir? Hvers vegna hopuðu þeir, áður en reynt var, hvort hægt væri að koma till. áfram? Og ég vil endurtaka það, að till. iðnn. er frá mínu sjónarmiði ekkert spor í rétta átt. Hún er nákvæmlega óbreytt ástand. — Svo segir hann, að ég hafi svo litla þekkingu á þessum málum, að ég viti það ekki, að hér sé ekki verið að ræða kaup iðnnemanna. Mér er það fullljóst. Ég kann að lesa þetta frv. En hins vegar veit ég það, að iðnmeistararnir gætu ekki haft þessa iðnnema til þess að senda þá út um hvippinn og hvappinn allan daginn meðan unnið er og látið þá vinna fyrir Í kr. og hirt 25–26 kr. fyrir þá sjálfir, ef iðnskólunum væri breytt í dagskóla.