15.03.1955
Efri deild: 58. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

94. mál, iðnskólar

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti: Frv. á þskj. 460 til laga um iðnskóla var lagt fyrir hv. Nd. snemma á þessu þingi. Hefur það nú hlotið afgreiðslu í Nd. með litlum breytingum. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að iðaskólarnir komist inn í skólakerfið og undir fræðslulögin, en eins og kunnugt er, þá hafa iðnskólar verið utan við skólalöggjöfina. Þykir slíkt ekki sæmandi lengur, þar sem nú er frekari nauðsyn á aukinni iðnfræðslu en verið hefur með vaxandi iðnaði og þar af leiðandi þörf á aukinni iðnmennt.

Það er eðlilegt, að iðnskólar séu kostaðir af ríkinu í ríkari mæli en verið hefur. Þannig hefur það verið lengi með aðra sérskóla, t.d. sjómannaskólann, bændaskóla og fleiri sérskóla, að þeir hafa verið kostaðir og reknir af ríkinu, en iðnskólarnir hafa hins vegar orðið að sætta sig, við það, sem að þeim hefur verið rétt og þá oft og tíðum af mjög skornum skammti.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að inntökuskilyrði sé, að nemandi hafi lokið miðskólaprófi og sé þannig betur undir skólanámið búinn en áður hefur verið og því hæfari til skólagöngu og frekara náms og að hann hafi náð tilskildum árangri í handverksprófi, hafi því verið komið við. Þó er heimilt að gera undanþágur, ef sérstakar ástæður þykja til, til þess að menn verði ekki útilokaðir frá hinu verklega námi. Þá er gert ráð fyrir, að sýslunefndir og sveitarfélög hafi forgöngu um stofnun iðnskóla svo og iðnaðarmannafélög eða sambönd iðnaðarmanna.

Það er nýmæli í þessu frv. samkv. 6. gr., að gert er ráð fyrir, að skólarnir séu dagskólar, að svo miklu leyti sem við verður komið. En það er heimilt að hafa kennslu á kvöldin, þar sem ekki er hægt vegna húsnæðis eða af öðrum ástæðum að koma dagkennslunni við. En eins og kunnugt er, þá hefur kennsla í iðnskólum að mestu leyti farið fram á kvöldin, og þótt það þyki æskilegra að láta kennsluna fara fram að deginum til, þá er það vitað mál, að sú breyting getur ekki komið til framkvæmda allt í einu, heldur hlýtur að taka töluverðan tíma. Til þess þarf aukinn húsakost. Til þess þarf vitanlega miklu meiri áhöld, ef kennslan á að fara fram í skólanum á verkstæði, og slíkt hefði svo mikinn kostnað í för með sér, ef breytingin ætti að eiga sér stað á stuttum tíma, að það væri með öllu óframkvæmanlegt. Það er því gert ráð fyrir, að skólarnir séu dagskólar, þar sem því verður við komið, en að kennslan geti farið fram að kvöldinu, þar sem ekki eru ástæður til annars.

Þá er hér nýmæli í frv., að það er heimilt að taka upp iðnaðarkennslu í gagnfræðaskólum og hafa sérstaka deild innan gagnfræðaskólanna til iðnnáms. Er víst, að það getur haft mikinn sparnað í för með sér að sameina þetta, þar sem það á við, heldur en að reka í sama sveitarfélaginu iðnskóla og gagnfræðaskóla sitt í hvoru lagi, enda þótt báðir þessir skólar séu það litlir, að þeir til samans væru ekki nema meðalskóli að stærð. Á þennan hátt er hægt að spara bæði kennslukrafta og húsnæði, og er enginn vafi á því, að þetta fyrirkomulag mun reynast mjög vel og verða tekið upp smátt og smátt. Það er gert ráð fyrir, að sjálfstæðir iðnskólar hafi allt að 60 nemendur, en séu þeir fámennari, þá verði þessi háttur upp tekinn, sem ég sagði áðan, að setja iðnskólana inn á gagnfræðaskólana. Þó er samkv. 7. gr. heimilt fyrir ráðh. að viðurkenna sem sjálfstæða iðnskóla þá skóla, sem hafa færri nemendur en 60, ef það þykir henta.

Þá er gert ráð fyrir, að skólar, sem nú eru starfandi eftir gamla skipulaginu, fái að starfa áfram fyrst um sinn, þar til tími gefst til að gera breytinguna án aukins kostnaðar eða sérstakra erfiðleika fyrir þá, sem að skólastofnuninni standa.

Gert er ráð fyrir með frv. þessu, að í iðnskólanum í Reykjavík verði framhaldskennsla fyrir iðnaðarmenn, jafnskjótt sem tök eru á, og er þessi framhaldsdeild sérstaklega ætluð undir meistarapróf og miðar að því að gera iðnaðarmenn menntaðri og hæfari í faginu en þeir hafa áður verið. Má gera ráð fyrir, að þessi framhaldskennsla, framhaldsdeild, geti orðið þannig þýðingarmikil fyrir iðnaðarmenntunina í landinu og leitt til þess, að iðnaðarmenn og meistarar verði færari í sínu fagi en þeir hafa áður verið. Er þetta þó ekki sagt vegna þess, að íslenzkir iðnaðarmenn þoli ekki fyllilega samanburð við iðnaðarmenn annarra þjóða, en það er aldrei svo gott, að það megi ekki betra vera, og sjálfsagt er að stefna að því, að þannig verði þróunin í þessum málum, að það standi til bóta.

Þá er gert ráð fyrir, að sett verði allýtarleg reglugerð um framkvæmd þessara laga, eins og venja er með slík lög.

Tel ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál að svo komnu, þar sem frv. skýrir sig að mestu leyti sjálft, auk þess sem tekið er fram í grg. fyrir frv., hvaða breytingar þetta frv. hefur í för með sér frá því, sem gilt hefur um framkvæmd iðnskóla í landinu.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. óska þess, að frv. verði vísað til hv. iðnn. og 2. umr.