28.04.1955
Efri deild: 75. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

94. mál, iðnskólar

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það getur nú ekki talizt neitt undarlegt, þó að ég taki til máls í þessu máli, því að það liggur við, að það hafi verið skorað á mig að gera það og það hvað eftir annað. Það hefur a.m.k. verið látin í ljós næstum því undrun yfir því, að ég og hv. 1. þm. N-M. (PZ) hafi falið hv. þm. Barð. (GíslJ) að tala í þessu máli og falið honum umboð til þess. Þetta er nú ekkert óeðlilegt, að það séu kosnir frsm. í máli, og gegnir furðu, að menn skuli taka sér slíkt í munn, enda virðist mér nú satt að segja, að frsm. hafi haldið þannig á málinu, að andstæðingar þess sjónarmiðs, sem komið hefur fram hjá okkur í meiri hl. n., hafi ekki sótt neitt gull í greipar hans. En sleppum því. Það, sem hefur verið deilt um í þessu máli og er raunverulega deilt um, er hægt að ræða um í tiltölulega stuttu máli.

Það er deilt um það, hvort meistararnir skuli ráða því, hverjir fá að stunda iðnnám á Íslandi, svo sem tíðkazt hefur fram til þessa, gagnstætt því, sem tíðkast nú með öðrum þjóðum mjög víða.

Það hefur verið svo, að íslenzka þjóðin hefur orðið að koma þessari kennslu þannig fyrir, að iðnmeistararnir hafa séð fyrir kennslunni. Um annað fyrirkomulag hefur undanfarinn langan tíma ekki verið að ræða. Ég er einn af þeim, sem fyllilega taka undir það, að þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við iðnaðarstéttina íslenzku, því að iðnaðarstéttin hefur með þessu innt af höndum mjög mikilsvert starf, og raunar hefur iðnaðarstéttin sýnt það löngum á undanförnum árum, að hún hefur staðið ákaflega framarlega, staðið framar en margar aðrar stéttir í þessu þjóðfélagi, án þess að farið sé í meting um það. Sést það greinilega á því, að þó að ríkið telji sig sýna mikinn stórhug og geri það með því að byggja hið myndarlega hús, sem byggt er nú fyrir iðnskóla, þá hefur iðnaðarmannastéttin raunverulega sýnt á þeim tíma, sem hún byggði sín húsakynni hér, iðnskólann og samkomuhúsið, stórhug, sem er engu minni, og þannig hafa yfirleitt verk þessarar stéttar verið á marga lund. Iðnaðarstéttin hefur um margt verið til mikillar fyrirmyndar, og meðan þjóðfélagið hafði ekki efni á að kosta nám fyrir þá, sem vildu búa sig undir þetta starf, hefur iðnaðarstéttin tekið að sér að sjá nemendunum fyrir kennslu.

Ég efast ekkert um það, að það verður áframhald á því, að kennslunni verður fyrir komið á þann hátt, sem verið hefur til þessa. Það verður áframhald á því, að menn kjósa að nema hjá meisturum, sem eru framúrskarandi, eins og margir þeirra eru, og það er alveg tvímælalaust, að nám hjá góðum meisturum fer þannig úr hendi, að nemandinn nýtur þess á marga lund, ekki aðeins að því er snertir kennslu í hans grein, heldur nýtur hann þess á marga lund að hafa haft handleiðslu slíkra manna. Við sjáum mörg dæmi þess, og þau dæmi eru til viða enn í dag.

En þessi stétt, sem hefur verið svo víðsýn, verður að gæta þess, að nýju tímarnir krefjast nýrra vinnuaðferða og þar af leiðandi nýrra kennsluaðferða í iðngreinum. Það er alveg tvímælalaust, að um leið og þetta kennslufyrirkomulag helzt sem sá aðalháttur, sem hafður verður á kennslu á næstunni, þá þróast þetta samt sem áður smátt og smátt yfir í það, að við tökum upp hér á þessu landi skóla, sem kenna ekki aðeins það bóklega, eins og núna er í aðalatriðum gert, ásamt teikningu, heldur verður jafnframt það verklega kennt á verkstæðum, eins og annars staðar er gert. Eftir því sem nemendafjöldinn verður meiri, margfalt meiri en hann var áður, þá er alveg gefið mál, að það er útilokað, að einstakir meistarar geti séð öllum þeim fjölda fyrir nægilegri kennslu, og þess gætir nú þegar á sumum stöðum, að á því er mikill misbrestur, ekki vegna þess, að þeir vilji ekki rækja þetta starf, heldur vegna þess, að það er sums staðar lítt hugsanlegt, að yfir það verði komizt.

Ég hef minnzt á það áður og skal ekki fara um það mörgum orðum hér, að ég álit, að það hefði verið eðlilegast að taka upp kennslu í sérstökum skóla um þessi mál, og hef flutt frv. um það hér á Alþ. oftar en einu sinni. Ég finn, að það er ekki jarðvegur fyrir það mál fullkomlega nú í dag. Ég er jafnviss um það, að allir telja það sjálfsagt eftir stuttan tíma. Ég er alveg viss um það, því að við getum ekki staðið á móti þeirri þróun, sem alls staðar hefur orðið í þessum málum annars staðar með aukinni véltækni. Við verðum að opna allar dyr fyrir kennslu í þessum málum. Við verðum að skilja það, að vélaöldin er komin til Íslands, en vélamenningin er ekki komin til Íslands. Það er alveg óreiknað dæmi, en við vitum samt sem áður, að niðurstaðan er milljónir, sem þjóðin tapar á því að hafa tileinkað sér vélaöld án þess að hafa jafnframt náð því að hafa tileinkað sér vélamenninguna.

Við þurfum þess vegna á öllum sviðum af þessum ástæðum og svo mörgum öðrum, sem mætti rekja, að hafa augun opin fyrir því, á hvern hátt ungir menn og konur geta bezt tileinkað sér vinnutækni, á hvern hátt hún verður bezt kennd, þannig að við getum eignazt sem flest af fólki, sem hefur sem fullkomnasta þekkingu á því sviði. Á því byggist raunverulega framtið íslenzku þjóðarinnar að mjög miklu leyti. Það er alveg útilokað, að iðnaðarstéttin, að meistararnir geti innt af höndum alla þá kennslu, sem þjóðin þarf á að halda handa ungum mönnum og konum, sem vilja nema ýmsar iðnir. Þess vegna verður ríkið að koma til hér með verklega kennslu.

Nú er það svo, að í hv. Nd. hefur þessu verið breytt í þetta horf. Því er breytt í það horf, að gert er ráð fyrir því, eins og stendur í 1. gr., að fleiri geti komizt að sem nemendur í iðnskóla en þeir, sem iðnmeistarar eða iðnfyrirtæki hafa tekið til náms samkv. lögum um iðnfræðslu.

Ég verð að láta í ljós nokkra undrun yfir því, að deilt er um það, hvort þetta sé efni frv. eins og það kemur frá hv. Nd. Ég held, að enginn maður, hvort sem hann er löglærður eða ólöglærður, geti komizt hjá því að skilja 1. gr. á þennan hátt, því að þar stendur skýrum stöfum, eftir að taldir hafa verið þeir, sem hafa samning við meistara, að nemendur geti komizt inn í skólann, sem nema vilja iðn til sveinsprófs í vinnustöðvum, er skólarnir hafa ráð á. Ég vek athygli á því, að þarna stendur: til sveinsprófs, og þess vegna á þetta ekkert skylt að þessu leyti við ákvæði 13. gr. þessa frv. um framhaldsnám á verkstæðum, því að þar er talað um framhaldsnám fyrir þá, sem þegar hafa lokið sveinsprófi, til þess að læra að verða meistarar eða verkstjórar. Fyrirsögn þessa kafla, „hlutverk og inntökuskilyrði“, sýnir greinilega ásamt efni kaflans, að hér er að ræða um nám til sveinsprófs, elns og stendur þar með skýrum stöfum; það verður ekki þurrkað þarna út. Þess vegna er reglan alveg, tvímælalaust viðurkennd, sú sem við ýmsir höfum barizt fyrir, að skólinn á að taka sem nemendur ekki aðeins þá, sem iðnmeistarar eða iðnfyrirtæki hafa tekið til náms samkv. lögum um iðnfræðslu, heldur og þá, sem vilja nema á verkstæðum skólans og fá bæði verklega og bóklega fræðslu í skólanum.

Þau rök hafa stundum verið borin á borð gegn því að taka upp þá reglu að kenna verklegt nám á verkstæðum og vinnustofum, að kennslan yrði ekki jafnfullkomin með því móti eins og ef nemandinn lærði hjá meistara og ynni með honum. Þetta hafa oftast verið meginrökin, sem hafa verið færð fram gegn því að breyta til í þá átt, sem við í meiri hl. þeirrar n., sem fjallað hefur um þetta mál, leggjum til. Þetta hafa verið þau rök, sem hafa verið borin á borð hvað eftir annað, þegar þetta mál hefur verið rætt. En þessi rök eru orðin dálitið brosleg, svo sem við líka vitum að er í alla staði eðlilegt, þegar þess er gætt, að fullkomin kennsla fer fram á verkstæðum í ýmsum löndum, og þegar þess er gætt, að hér eru reglur um framhaldsnám, eins og stendur í 12. gr.: „Framhaldsskólinn er ætlaður þeim, sem búa sig undir meistarapróf eða verkstjórn í iðn sinni.“ Það er sú alfullkomnasta menntun, sem hægt er að ná hér á landi í hverri grein. Svo er tekið fram, hvað eigi að kenna af bóklegu, og siðan sagt, með leyfi hæstv. forseta:

„Verklega kennsla fer fram í vinnustofum og tilraunastofum, og skal einkum kenna sérstakar vinnuaðferðir og meðferð véla, verkfæra, áhalda og efnis.“

Þá alfullkomnustu kennslu, sem hægt er að veita hér á landi og á að veita þeim einum, sem ætla sér verkstjórn eða að ná meistaraprófi, á að veita á þann hátt, sem fram til þessa hefur verið borið á borð fyrir almenning að væri kennsluaðferð, sem væri ekki nothæf fyrir þá, sem ætluðu að taka sveinsprófið eitt.

Ég veit, að með þessu frv., eins og það liggur fyrir, er ekki öllu náð. Þó er þarna í 1. gr. viðurkennd þessi regla, sem við ýmsir höfum barizt fyrir og tryggir betur en áður hefur verið gert, að ýmsir þeir, sem e. t. v. mundu ekki ella eiga kost á því að stunda þetta nám, fá að stunda það. Þó verður að viðurkenna, að ýmislegt skortir á, að sú viðurkenning sé nægilega fullkomin. Það þarf vitanlega fjármuni til þess að framkvæma þetta og fleira. Og ég er sérstaklega ánægður yfir þeirri viðurkenningu, sem kemur fram á verklegu námi í vinnustofum og á verkstæðum í 13. gr. Þar með er ísinn algerlega brotinn í þessu máli, og þýðir ekkert að vera að bera þau rök á borð, sem borin hafa verið á borð hingað til gegn þeim, sem barizt hafa fyrir þessari breytingu. Ég álít, að það sé ekki þörf á því að gera þessa breytingu skyndilega, og þess vegna er það, að ég er meðmæltur öllu því, sem gæti orðið til samkomulags um, að þessi breyting, sem ætlazt er til að gerð verði á iðnaðarmálunum eins og frv. er og þó enn þá greinilegar eins og meiri hl. n. hefur lagt til, gerist með eðlilegum hraða. Það er nú einu sinni þannig, að oftast verða breytingarnar farsælastar, ef þær eru gerðar með þeim hætti, og það af mörgum ástæðum. Menn hafa átt erfitt með að átta sig á þeirri breytingu, sem hér er í aðsigi og er raunverulega fulltryggð með þessu frv., ef það verður að lögum, en ég er ekki í neinum vafa um það, að iðnaðarmennirnir margir, þeir víðsýnustu þeirra, og það er mikill hluti stéttarinnar, munu fagna því sem miklu umbótamáli, áður en langt um líður.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en vona, að það geti í því formi eða eitthvað svipað því, sem það liggur núna fyrir frá meiri hl. n., orðið að lögum.