03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

143. mál, almenningsbókasöfn

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tel, að hér sé merkilegt mál á ferð og í aðalatriðum mörkuð rétt stefna. Samt sem áður hafði ég búizt víð því, af því aðmálið er á frumstigi, að því mundi verða vísað til umsagnar sýslunefnda og bæjarstjórna, áður en endanleg ákvörðun yrði tekin, ekki vegna þess endilega, að gert sé ráð fyrir svo miklum útgjöldum af hendi þessara aðila, heldur miklu frekar vegna þess, að skipun í bókasafnshverfi getur mjög orkað tvímælis á sumum stöðum og það væri æskilegt, að heima fyrir gæfist ráðrúm til að ákveða hverfin. Þannig stendur á í mínu kjördæmi, Suður-Þingeyjarsýslu. Þar eru 12 sveitarfélög. Þrjú þeirra eru þannig sett, að viðskipti þeirra öll hníga frá Húsavík til Eyjafjarðar. Í frv. er gert ráð fyrir því, að héraðsbókasafn sé í Húsavík, og er það að öllu leyti eðlilegt, að þeir, sem frv. hafa samið, geri þá till., vegna þess t.d., að í Húsavík er allmikið safn, gamalt og merkilegt, og því góður stofn að héraðsbókasafni. En ég geri ráð fyrir því, að svo geti farið, að innhrepparnir, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur og Hálshreppur, vilji hafa sérstakt héraðsbókasafn heldur en greiða tillag til Húsavíkur, vegna þess að í Húsavík geta þeir ekki eins vel notið slíks miðstöðvarsafns og heima fyrir hjá sér. Þá kæmi til athugunar, hvort það safn ætti að vera á Svalbarðseyri eða í Grenivík, en á báðum stöðum eru þorpsmyndanir og á báðum stöðum kanptún.

Ég fyrir mitt leyti vil ekki á þessu stigi taka þá ákvörðun að leggja fram brtt. um það, að héraðsbókasafn skuli vera sérstakt fyrir þessa þrjá hreppa, því að með þeirri kvöð, sem lögð er á þann hrepp, sem héraðsbókasafnið á að vera í, eru töluverð útgjöld ákveðin. Ég vil ekki að óræddumáli við hlutaðeigendur leggja það til, t.d., að Grýtubakkahreppur þurfi að leggja fram til héraðsbókasafns, sem þar yrði staðsett, 6–8 þús. kr. En ég get búizt við því og vil taka það fram hér, að fljótlega komi fram, ef þetta frv. verður nú að l., till. frá fulltrúa héraðsins á Alþ. um breytingu í þessa átt, en jafnframt þeirri yfirlýsingu vil ég þó segja það, að ég tel málið svo merkilegt og stefnuna svo rétta, að ég mun styðja frv. eins og það er með atkv. mínu.