03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

143. mál, almenningsbókasöfn

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil taka undir þau orð ýmissa hér, að mér þykir þetta mál merkilegt, og þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa borið það fram.

Ég vildi benda á ákvæði 8. gr., þar sem ákveðið er, að stjórn bókasafna skuli skipuð 5 mönnum. Ég tel, að þetta sé óheppilegt í sveitunum, að það séu hafðir 5 menn. Ég hefði talið nægja að hafa 3 menn. Það getur vel verið, að það sé heppilegt að hafa 5 menn í kaupstöðunum og þar sem kaupstaðir og sveitir eiga saman safn, en þar sem sveit er eingöngu, mundi ég telja heppilegra, að stjórn safnsins væri skipuð þrem mönnum í staðinn fyrir fimm. Þetta vildi ég biðja n. að athuga fyrir 3. umr.

Það þarf náttúrlega ekki að spyrjast fyrir um það, hvernig beri að skilja ákvæði 7. gr. varðandi gjaldið, 15 kr. á íbúa; það hlýtur að eiga þar við hreppinn í heild, enda þótt safnið sé staðsett í kauptúni innan hrepps. Ég get bent á ákveðið dæmi, Vík í Mýrdal. Þar er þorp með ákveðna tölu íbúa í þorpinu sjálfu. Það fylgir Hvammshreppi, sem er fjölmennari, en sveitin fylgir þessu kauptúni. Ég skil þetta þannig, að það sé allur hreppurinn, sem á þá að greiða þetta gjald; hygg, að það sé rétt skilið.