03.03.1955
Efri deild: 54. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

143. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka oftar til máls, því að mér fannst hæstv. menntmrh. taka af mér ómakið að svara þeim fyrirspurnum, sem hv. þm. Barð. beindi til mín, enda skulu það verða aðeins fá orð, sem ég segi.

Ég viðurkenni, að það er galli á frv., úr því að gert er ráð fyrir, að héraðsbókasafn geti verið annars staðar en í kauptúni, að tala þá aðelns um kauptún á öðrum stað í sambandi við kostnað af safninu. En eins og frv. er samið og byggt upp, þá hlýtur það að skiljast þannig, að mér finnst, að sá hreppur, sem Reykhólar eru í, verður að taka á sig sömu gjöld og um kauptún væri að ræða, og lagfæringin, ef ætti að halda hugsun frv., yrði þá aðeins sú að fella úr orðið „kauptún“, því að það er óþarft, en nægir að tala aðeins um bæ eða sveit.

Ég minnist ekki á 22. né 25. gr. frv., því að hæstv. ráðh. skýrði þær alveg nægilega. Viðvíkjandi brtt. n. við 27. gr. vil ég undirstrika það, sem hæstv. ráðh. hér sagði, að brtt. er ekki óþörf hjá n., vegna þess að í þeirri gr. er lögð ríkari skylda á um það að binda þessar bækur, sem hið opinbera sendir, heldur en aðrar bækur. Það er almenn skylda að binda bækur, eftir því sem við verður komið, og brtt. n. er í raun og veru ekki um annað en að hafa hliðstætt ákvæði um bækur, sem sendar eru af opinberri hálfu.

Það kann vel að vera, sem hæstv. ráðh. segir, að ég hafi misskilið það viðvíkjandi kostnaðinum, hvenær hann sé reiknaður. Ég hef nú eiginlega hvorki skilið né misskilið, að því er þetta snertir, en ég þóttist fá upplýsingar um hitt og byggði á því. Ekki hef ég rannsakað það svo ýtarlega, hvort réttara er, en þar sem ekki var dregið mjög mikið úr kostnaði við nýja yfirferð frv., áður en það var lagt fram, þá skiptir þetta ekki mjög miklu máli. Hitt er vitanlegt, að það er miðað við allan kostnaðinn. Kostnaðaráætlunin er miðuð við allan kostnað af þessum framkvæmdum, og þá er auðvitað rétt að draga það frá, sem hingað til hefur verið veitt á fjárl. til einstakra bókasafna og lestrarfélaga. Þá hygg ég, að það láti mjög nærri, sem ég sagði í minni fyrstu ræðu um kostnaðarauka ríkissjóðs af þessum lögum.