25.04.1955
Neðri deild: 77. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

143. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Hv. 11. landsk. (LJós) lét falla nokkrar aths. út frá þessu frv. og bar fram í því sambandi fyrirspurnir til menntmn. um einstök atriði málsins.

Það virðist vera alveg skýrt samkv. frv., að ætlazt er til þess, að þau bæjarbókasöfn, sem nú starfa, verði hér eftir sjálfseignarstofnanir og að þau bókasöfn, sem bæjarfélögin eiga nú og reka, verði stofninn eða fyrsta framlagið til þessara sérstöku bókasafnsstofnana. En jafnframt er reynt með ýmsum ákvæðum frv. og að mínum dómi allvel fyrir því séð að búa svo um hnúta, að bókasöfnin verði til afnota íbúum kaupstaðanna, sem að þeim standa, og þess vegna má segja, að í þessu efni sé ekki mikil hætta á ferðum. Þetta er tryggt með ákvæðum frv. um yfirstjórn safnanna, en stjórn hvers bókasafns á að vera skipuð 3 eða 5 mönnum, og er hún kosin af bæjarstjórn eða hreppsnefnd, þar sem safnið er staðsett, og sýslunefnd.

Þar sem kaupstaður og sýsla standa saman að bókasafni, eins og hv. 11. landsk. gat um að stefnt væri að í hans byggðarlagi, á Norðfirði, þá virðist skipun málsins eiga að vera sú alveg ótvírætt samkvæmt frv., að bæjarstjórnin í Neskaupstað og sýslunefndin í Suður-Múlasýslu kjósi í sameiningu yfirstjórn safnsins. En þar sem svo hagar til, að að héraðsbókasafni stendur bæði kaupstaður og eitt eða fleiri sýslufélög eða hluti sýslufélags, skal fara um fjölda stjórnarnefndarmanna frá hverjum aðila um sig eftir reglum, sem settar verða af menntmrn.

Það er rétt, að í þessu frv. eru engin ákvæði um styrk vegna byggingar bókasafnshúsa. Slík ákvæði hafa ekki heldur verið í lögum um lestrarfélög. En það hefur komið undir úrskurð Alþ. hverju sinni í sambandi við afgreiðslu fjárl., hvort slíkur styrkur er veittur eða ekki, og yrði það vitanlega á sama hátt eftirleiðis, en ekki lögbundið eða ákveðið með þessum l., hvort slíkur styrkur skyldi veittur eða hve hátt hlutfall af byggingarkostnaði.

Mér virtist það koma fram í ræðu hv. 11. landsk., að hann teldi vafasamt, að rétt væri að stefna að því, að allir hreppar þyrftu að leggja fram skerf til héraðsbókasafna, t.d. mundu syðstu hreppar Suður-Múlasýslu hafa lítil not af safni, sem staðsett væri á Eskifirði. Út af þessu vil ég benda á það, að eðlilegast er að skilja ákvæði frv. um þetta efni svo, að þær 3 kr., sem leggja á fram til héraðsbókasafna af íbúum sýslnanna, séu lagðar fram úr sýslusjóðunum, og í annan stað vil ég benda á það, að ætlazt er til, að nokkur verkaskipting geti verið á milli héraðsbókasafna og sveitarbókasafna, þannig að héraðsbókasöfnin verði stærri og hafi ýmis rit til útlána, sem ekki er hægt að ætlast til að hvert hreppsbókasafn geti aflað sér. Það gæti verið mikilvægt fyrir þá menn, sem vilja leggja stund á einhver fræðistörf, að eiga aðgang að héraðsbókasafni til þess að fá þar bókakost, sem ekki væri völ á heima í þeirra hreppum.

Enn fremur er gert ráð fyrir því, að héraðsbókasafni sé heimilt að setja á stofn bókasafnsútibú, og kemur það vitanlega einkum til framkvæmda þar, sem langt er milli hreppa, og gæti það leyst að nokkru þau vandkvæði, sem væru á því, að allir, sem að héraðsbókasafni stæðu, ættu auðvelt með að nota það, þar sem það er staðsett. En með því að hafa bókasafnsútibú og jafnvel að skipta eitthvað um hækur milli aðalbókasafnsins og útibúsins er fengin nokkur trygging fyrir því, að auðveldara sé en ella að veita mönnum aðgang að bókasafninu í heild.

Ég gat þess í framsöguræðu minni, að það sjónarmið hefði komið fram í menntmn., að ýmis ákvæði frv. væru þess eðlis, að eðlilegt hefði verið að leita um þau umsagnar sýslunefnda og bæjarstjórna, en n. hefur verið skýrt frá því, að ríkisstj. og einkum sá hæstv. ráðh., sem að þessu máli stendur, leggi nokkra áherzlu á, að málið verði afgr. nú á þessu þingi, og m.a. með tilliti til þess varð sú niðurstaða í n. að leggja til, að frv. yrði afgr. með þeim smávægilegu breytingum, sem ég lýsti. Ég geri því ekki ráð fyrir, að n. sem slík muni breyta afstöðu sinni til málsins í þessu efni.