28.04.1955
Neðri deild: 80. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

143. mál, almenningsbókasöfn

Pétur Ottesen:

Ég á hér á þskj. 652 litla brtt. við þetta frv., og lýtur hún að því að rétta nokkuð hlut sveitarbókasafna að því er snertir framlag ríkisins til þeirra. Ég fékk um það bréf heiman úr héraði hjá mér frá mjög skilgóðum manni, sem mjög hefur fengizt við menningarmál í héraðinu og þar á meðal staðið að sveitarbókasafni í þeim hreppi, sem hann nú á heima í. Þessi maður er Ingimundur Ásgeirsson, núverandi bóndi á Hæli í Flókadal. Þegar honum barst frásögn í blöðunum um þetta frv. og hann fór að athuga ákvæði frv. og þá alveg sérstaklega að því leyti, sem þau taka til sveitarbókasafnanna, þá sá hann, að borið saman við aðstæður þess bókasafns, sem hann stendur fyrir, mundi framlag ríkisins samkv. þessu frv. til bókasafna, sem eins stendur á um, verða allmikið skert frá því, sem nú er.

Hann hefur í þessu bréfi skýrt mér frá, að tekjur þessa bókasafns urðu á árinu 1954 3776.00 kr. Bókasafninu koma heima í héraði fjárframlög frá þremur aðilum: frá þeim einstaklingum, sem nota safnið, auk þess frá ungmennafélaginu, sem að safninu stendur, og loks frá hreppsfélaginu, þar sem safnið er. Ríkisstyrkur til þessa safns var á því sama ári 1326.00 kr. Nú hefur hann til samanburðar gert sér grein fyrir, hvernig mundi verða um tekjur þessa safns eða framlag til þess úr ríkissjóði eftir hinum nýju ákvæðum þessa frv. Kemur þá í ljós, að framlag ríkisins til þess mundi lækka um rúmar 700.00 kr. frá því sem nú er.

Hefur bréfritari lagt á það áherzlu við mig, að ég reyndi að beita áhrifum mínum til þess á Alþ., að hlutur sveitarbókasafnanna yrði ekki skertur frá því, sem nú er um fjárframlag frá því opinbera. Í bréfi þessu gerir hann einnig mjög glögga grein fyrir því, hvað þýðingarmikið það er fyrir menningarlíf sveitanna að geta haft ráð á góðum bókakosti og fylgzt með öllum menningarlegum hreyfingum, sem fram koma í rituðu máli, bæði hér á landi og annars staðar, eftir þeirri aðstöðu, sem nú er fyrir hendi fyrir bókafélögin til þess að tileinka sér það.

Ég hef þess vegna leyft mér í þessari litlu brtt. minni að leggja til, að rýmkað yrði nokkuð um fjárframlög til bókasafna, þ.e.a.s. hjá þeim, sem vilja leggja mest af mörkum í þessu efni.

Það er, eins og kunnugt er, í kaflanum um sveitarbókasöfn og lestrarfélög svo ákveðið um sveitarbókasafn, sem rekið er af sveitarstjórn, og það er yfirleitt gert ráð fyrir því, að sveitarstjórnir reki þessi söfn, þó að aðrir aðilar geti lagt þeim lið, að úr sveitarsjóði séu greiddar 5 kr. á hvern íbúa sveitarinnar og ríkissjóður leggi fram jafnháa fjárhæð á móti. Njóti hins vegar sveitarbókasafn hærri styrks úr sveitarsjóði eða félagssjóðum en nemur 5 kr. á hvern íbúa, þá er ríkinu skylt að leggja fram 50% á móti þeirri upphæð, en þó aldrei á móti hærra heildarframlagi en sem nemur 10 kr. á hvern íbúa sveitarinnar.

Hv. þm. A-Sk., sem er frsm. þessa máls og hefur kynnt sér mjög rækilega öll atriði og ákvæði þessa frv. og gert sér grein fyrir því, hvernig þetta mundi verða í framkvæmdinni, hefur við athugun á umgetnu bréfi komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé algerlega rétt með faríð, sem þar stendur um skerðingu á framlagi ríkisins til sveitarbókasafna, er nokkuð ríflegar tekjur hafa.

Ég hef þess vegna lagt til að hækka þetta mark, sem hér er 10 kr. á hvern íbúa sveitarinnar, upp í 20 kr., og við hv. þm. A-Sk. höfum reiknað það út, að þessarar hækkunar þyrfti við, til þess að þetta ákveðna sveitarbókasafn og þau önnur, sem eins stendur á um, gætu orðið aðnjótandi svipaðs styrks úr ríkissjóði og þau njóta nú. Tel ég réttmætt og sjálfsagt að mæta þannig áhuga þeirra, sem vilja sameina krafta sína heima í héruðunum til þess að búa vel í haginn fyrir þessa menningarstarfsemi.

Ég vildi þess vegna mega vænta þess, að hv. deild gæti litið svo á, að eðlilegt væri og sanngjarnt, að sú rýmkun verði gerð í þessu efni, sem í brtt. minni felst.