02.05.1955
Neðri deild: 82. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

143. mál, almenningsbókasöfn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Síðan 2. umr. um þetta mál fór fram, hafa verið fluttar við það allmargar brtt. Menntmn. hefur komið saman á fund á milli umr. og athugað þessar brtt., og vil ég með fáum orðum gera grein fyrir því, hvernig n. litur á efni þessara till.

Brtt. á þskj. 649, sem flutt var af þm. V-Húnv. (SkG) og þm. A-Húnv. (JPálm), verður tekin aftur samkvæmt því, sem frá hefur verið skýrt.

Á þskj. 651 eru brtt. frá þm. N-Þ. (GíslG). 1. till. er við 3. gr. frv. og er um það, að stjórn bókasafns geti með samþykki bókafulltrúa ákveðið bókasafni annað aðsetur innan bókasafnshverfis en mælt er fyrir í þessari gr. Í 3. gr. frv. eru nefndir ákveðnir staðir, þar sem aðsetur héraðs- og bæjarbókasafna á að vera, en n. hefur fengið vitneskju um það, að það muni vera dæmi þess, að sýslubókasafn er nú staðsett annars staðar í hreppi en gert er ráð fyrir í 3. gr. frv. Ef ekkert frávik væri leyft frá ákvæðum 3. gr. frv. eins og þau eru nú, þá mundi leiða af því, að það þyrfti að færa bókasafn til innan hreppsins á þann stað, sem frvgr. ákveður. Þessi till. frá þm. N-Þ. miðar að því að veita nokkurt frjálsræði í þessu efni um stað innan sama hrepps, og er það eðlilegt að dómi nefndarinnar.

2. brtt. á þessu sama þskj. er við 7. gr. frv., um greiðslu kostnaðar til héraðsbókasafna. Gert er ráð fyrir því, að greiddar séu 3 kr. af hverjum íbúa í bókasafnshverfi, sem búsettur er utan þess hrepps, þar sem bókasafnið er staðsett. Þetta 3 kr. gjald á að greiðast úr sýslusjóði. Till. miðar að því, að þetta 3 kr. gjald, sem greitt er úr sýslusjóði, sé miðað við alla íbúa bókasafnshverfisins, eins þá, sem búsettir eru í hreppnum, þar sem bókasafnið er staðsett, eins og hina, og að gjaldið, sem þeir íbúar þess hrepps greiða sérstaklega, lækki að sama skapi. Þetta virðist vera eðlilegt með tilliti til þess, að inn í sýslusjóðinn greiða allir hreppar sýslunnar, einnig sá hreppurinn, þar sem bókasafnið er staðsett. Þetta hefur ekki nein áhrif á heildarútgjöld til safnsins, hvorki framlög úr héraði í heild né framlög frá ríkissjóði, en breytir aðeins skiptingu útgjaldanna, og má telja það eðlilegt.

Við 2. umr. frv. kom fram sú skoðun, að það væri alls ekki skýrt samkvæmt orðalagi 7. gr. frv., hvaða aðili í bókasafnshverfi ætti að greiða þetta 3 kr. gjald. Það má til sanns vegar færa, að orðalag frvgr. eins og hún er nú sé ekki ótvírætt í þessu efni. En grg. sú, sem fylgdi frv., tekur af öll tvímæli um þetta. Á bls. 13 í þskj. segir berum orðum, hvernig gert er ráð fyrir, að heildarframlög samkvæmt I. og II. kafla frv. muni verða, og þar er talað um framlög frá bæjum og kauptúnum og framlög úr sýslusjóðum, og til frekari skýringar þessu segir, þar sem borinn er saman kostnaður sá, sem sýslusjóðirnir hafa áður innt af hendi í þessu skyni, og sá kostnaður, sem falla mundi á þá samkv. þessu frv., svo í grg.:

„Sýslufélögunum eru í frv. lagðar á herðar allmiklar byrðar, en sum þeirra hafa þegar séð sér fært að leggja ríflegan skerf til þessara mála.“

Þetta verður ekki skilið öðruvísi, þar sem talað er um, að sýslufélögin eigi að standa straum af þessu gjaldi, en að átt sé við sýslusjóðina, enda er það þá borið saman við samsvarandi gjöld, sem nú eru innt af hendi úr sýslusjóðunum í svipuðu skyni.

B-liður brtt. á þskj. 651 miðar að því að gera orðalagið í þessu efni skýrara, taka af öll tvímæli um, að þetta gjald eigi að greiðast úr sýslusjóðum, og er það eðlilegt.

Niðurstaðan er því sú, að menntmn. vill mæla með því, að brtt. á þskj. 651 verði samþ.

Á þskj. 652 er brtt. frá þm. Borgf. (PO) um það, að í staðinn fyrir 10 kr. komi 20 kr. Þegar hv. þm. gerði grein fyrir þessari till., þá skýrði hann frá ákveðnu dæmi um það, að eins og ákvæði frv. væru nú, mundi geta átt sér stað, að framlag til lestrarfélags eða sveitarbókasafns lækkaði að nokkrum mun frá því, sem verið hefur. Ég hef átt þess kost að athuga það bréf, sem hv. þm. vitnaði til, og er þar farið rétt með af hans hálfu í öllum greinum. Í einstöku tilfelli gæti það átt sér stað, að framlag til sveitarbókasafns lækkaði. Eins og styrk til lestrarfélaga hefur verið háttað, er hann greiddur í tvennu lagi, annars vegar fastur styrkur, miðaður við fjölda þeirra heimíla, sem bókasafnið nota, og hins vegar aukastyrkur, sem er miðaður við fjárhæð þeirra framlaga, sem fást til bókasafnsins heima í hreppnum. En með þessu frv. er gert ráð fyrir því að binda framlögin einhliða við íbúafjölda í hverjum hreppi um sig. Þau sveitarfélög, sem hafa sýnt sérstakan áhuga á því að leggja fram aukaframlag og fá svonefndan aukastyrk á móti því, gætu því lækkað dálitið samkv. ákvæðum frv.

Nú er það meginstefna þessa frv. að skerða í engu þau hlunnindi, sem áður hafa verið veitt, heldur miða að því að bæta við og efla bókasöfnin og gera þessa starfsemi að því leyti aðgengilegri eftirleiðis en verið hefur.

Þegar á það er litið, er eðlilegt, að till. hv. þm. Borgf. verði samþ. Þess ber einnig að gæta, að þar sem ákvæði frv. miða framlögin einhliða við íbúafjölda í hverjum hreppi, þá verða fjárframlögin til fámennustu hreppanna mjög lág, og er því eðlilegt, að á það sé litið, ef íbúar þeirra sýna sérstakan áhuga um aukin framlög.

Ég vil benda á það, að þó að till. hv. þm. Borgf. verði samþ., þá getur framlag ríkissjóðs samkv. henni til sveitarbókasafns ekki numið meiru en 1250 krónum í 100 manna hrepp, og það er ekki gífurleg fjárhæð, þegar miðað er við það verðlag, sem nú er á bókum. Menntmn. vill því fyrir sitt leyti mæla með því, að till. á þskj. 652 verði samþ.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 653, sem fluttar eru af hv. 11. landsk. (LJós). Fyrri brtt. á því þskj., sem er í tveim liðum, er um það, að hvert bæjarfélag megi ráða því sjálft, hvort það verður eitt sér um bókasafn eða í félagi með fleiri hreppum eða fleiri sveitarfélögum, og að hvert sveitarfélag skuli hafa rétt til þess að velja sjálft um það, hvort það vilji vera þátttakandi í héraðsbókasafni eða aðeins byggja upp sitt sveitarbókasafn. Þessar till., ef samþ. yrðu, mundu raska stefnu frv. og byggingu þess allverulega, því að það er eitt meginatriði frv. að ákveða bókasafnshverfi og mæla fyrir um það, að enginn hreppur á landinu standi utan við bæjareða héraðsbókasafn. Menntmn. getur því ekki fyrir sitt leyti mælt með því, að þessar till. verði samþ., en einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að hafa óbundnar hendur við atkvgr. um málið.

Um 2. brtt. á þskj. 653 er hið sama að segja. Hún hnígur að því að lögfesta, að 40% skuli lagt fram af ríkissjóðs hálfu til bókasafnsbygginga. Menntmn. telur sér ekki fært að mæla með því, að þetta verði fellt inn í frv.

Á þskj. 655 er brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. (EOI) við 30. gr. frv. um það, að bókafulltrúinn skuli hafa sérmenntun hvað snertir rekstur bókasafna. Það má vitanlega um það ræða fram og aftur, hvort ástæða er til að setja inn í l. einhver ákveðin skilyrði að þessu leyti, en menntmn. hefur ekki talið ástæðu til þess og treystir sér því ekki til að mæla með samþykkt þessarar till., en einstakir nm. hafa þó áskilið sér rétt til þess að hafa óbundnar hendur við atkvgr.

Á þskj. 680 eru enn fremur till. við 2. gr. og 3. gr. frv. frá hv. 2. þm. Reykv. og hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) um, að sérstakt bókasafnshverfi verði myndað í Kópavogi.

2. gr. frv. er algert nýmæli um skiptingu landsins í heild í bókasafnshverfi, og eins og ég gat um við 2. umr. málsins, þá er því svo háttað, að á nokkrum stöðum orkar það tvímælis, hvort sú skipting, sem ákveðin er í frvgr., er nákvæmlega sú eina rétta. En yrði farið inn á þá braut nú að breyta frvgr. frá því, sem hún er, þá er ekki ólíklegt, að fram kæmu í kjölfar þess fleiri brtt., og gæti það orðið til þess að raska þessu máli allverulega. Menntmn. vill því ekki fyrir sitt leyti mæla með því, að till. á þskj. 680 verði samþ.

Þá er brtt. á þskj. 681 frá hv. 2. þm. Reykv. Hún er um breytingu á orðalagi við 4. gr. frv.

Í sjálfu sér skiptir það ekki höfuðmáli, hvort orðalagið stendur í l., það, sem í frv. er, eða það, sem í brtt. er. Menntmn. lítur þó svo á, að orðalag brtt. sé mun skýrara, og telur fyrir sitt leyti eðlilegt, að sú till. verði samþ.

Þá kem ég loks að brtt. á þskj. 682 frá þm. V-Húnv. (SkG) og þm. A-Húnv. (JPálm). Hún er um það, að við 31. gr. bætist það ákvæði, að framlaga, sem tilskilið er í frv. að greidd verði úr bæjar- og sýslusjóðum, verði ekki krafizt, fyrr en sýslunefnd eða bæjarstjórn hefur samþ., að svo skuli vera. Mjög líklegt er, að sýslunefndir taki þessu máli vel og vilji veita þá fjárupphæð til bókasafna, sem gert er ráð fyrir, enda hafa margar sýslur lagt töluvert af mörkum í þessu skyni að undanförnu. En menntmn. telur ekki óeðlilegt, að sýslunefndir fái um þetta að fjalla, áður en slík framlög eru innheimt, og er þess vegna meðmælt því, að brtt. á 682 verði samþ.