22.11.1955
Neðri deild: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

107. mál, kirkjuítök

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. flytur þetta frv. um kirkjuítök og sölu þeirra eftir beiðni biskupsins og kirkjumrn.

Þegar sett voru lög um lausn ítaka af jörðum, var mörkuð sú stefna að veita heimild til þess og ýta undir það, að ítök yrðu seld, og nær það jafnt til kirkjuítaka og þeirra ítaka, sem fylgja jörðum einstaklinga. Þetta frv. er því aðeins viðauki við lögin um lausn ítaka af jörðum. Með því er kveðið nánara á um, hvernig fara skuli að í framkvæmdinni, þegar um sölu kirkjuítaka er að ræða. Í frv. segir, að um lausn kirkjuítaka og sölu semur sóknarnefnd þeirrar kirkju, sem ítakíð á, að því er snertir safnaðarkirkjur og lénskirkjur. Og í 3. gr. frv. er svo kveðið á, að andvirði kirkjuítaks og landssvæða, sem kirkjur eiga, skuli renna til kirkna þess prestakalls, þar sem presti ber afnotaréttur ítaksins, og skiptist fjárhæðin jafnt á milli kirknanna.

Þegar lögin um lausn ítaka af jörðum voru sett, þótti nokkrum vandkvæðum bundið að skilgreina hugtakið ítak. Það var því mjög vandað til þess frv., sem endanlega var gert að lögum um þessi efni. Í 1. gr. þessa frv. er skilgreint orðið eða hugtakið kirkjuítak, og mun n. athuga á milli umræðna, hvort fullkomið samræmi er á milli orðalags þessa frv. og laganna um lausn ítaka af jörðum, og ef henni virðist ástæða til að athuguðu máli, mun hún bera fram brtt. við þetta frv., svo að tryggt sé, að fullt samræmi verði þarna á milli.